Þolendur fiskabúrsins

Þolendur fiskabúrsins

Gráu fiskarnir í fiskabúrinu mínu gætu örugglega kallað sig þolendur. Þeir eru þolendur þess að þurfa að lifa í búri með öðrum, sem þeir þó drepa. Kannski gráta þeir óskaplega þegar þeir éta hvern fisk og harma hve vont það sé fyrir þá að éta hann. Hann var vinur þeirra þrátt fyrir allt. Þannig eru sumir þolendurnir sem hæst hafa í dag. Allt sem að þeim snýr eykur á þjáningu þeirra, líka það að meiða aðra. Hér er ekki rými fyrir kærleika og ekki fyrirgefning, aðeins hatur og grimmilegt át.
fullname - andlitsmynd Arnaldur Arnold Bárðarson
22. október 2022

Fiskabúr er um margt eins og lífið sjálft. Stórir og litlir fiskar, góðir fiskar og slæmir. Þar eru gerendur og þolendur. Fiskar sem vaxa og dafna og aðrir sem deyja. Ég átti marga fiska í búrinu mínu um tíma. Þar voru litríkir smáfiskar af ýmsum gerðum, gúbbífiskar og sverðdragar ásamt með sjálflýsandi skrautfiskum. Mér finnst einhver slökun í því fólgin að sitja við búrið og horfa á fiskana  sem hljóðlaust líða þar um. 


Eitt sinn keypti ég þrjá fiska vegna þess að þeir minntu mig á þorska. Þetta voru grámyglulegir fiskar og sannarlega ekki augnayndi. Andlit þeirra voru svo döpur. Það stafaði af þeim þunglyndi og vansæld. Kannski einmitt þess vegna var eitthvað svo heillandi við þá.

Iðulega sat ég við búrið og fylgdist með ferðum fiskanna. Ég talaði mikið við þessa þrjá nýju fiska. Oft sagði ég: "Hvað segið þið í dag döpru þorskarnir mínir" Þeir hafa aldrei svarað neinu og né lagt neitt gott til nokkurs. Kannski segja fiskar ekki neitt og allra síst daprir fiskar. Með tíð og tíma hafa "döpru þorskarnir" orðið stærri an allir aðrir fiskar í búrinu. Það er stundum eitthvert vaxtarhormón í depurðinni og vansældinni.

 

En nú ber svo við að allir litlu fallegu og fjölbreytilegu fiskarnir eru horfnir. Stóru döpru þorskarnir þrír hafa étið þá alla. Þessir þolendur þunglyndisins og vansældarinnar hafa étið upp allt nema einn bláan fisk. Sá mætir senn örlögum sínum. Skyldi mega kalla bláa fiskinn þolanda? Nei líklega ekki. Gráu þunglyndislegu fiskarnir eru líka ábyggilega ekki gerendur. Þetta er víst bara lífríkið í einu fiskabúri.

Páll postuli talar hann um hinn gamla mann sem í okkur býr og er sá vondur. Spilltur af ýmsum girndum. Öfund og hatri, baktali og græðgi. Við eigum að losa okkur við þann mann. En taka við hinum nýja sem er maður kærleikans. Kannski eru stóru fiskarnir sem ég á í búrinu og þessi gamli maður sem Páll er að vara okkur við sami hlutur. Græðgin sem étur upp allt. Vansældin sem smitar út frá sér. Ólundin sem öllu eyðir í kringum sig. Kannski eru þessir stóru fiskar holdgerving þeirrar  bylgju þolendatals sem öllu er að ríða á slig í fjölmiðlum dagsins. Gráu fiskarnir  í fiskabúrinu mínu gætu örugglega kallað sig þolendur. Þeir eru þolendur þess að þurfa að lifa í búri með öðrum, - sem þeir þó drepa. Kannski gráta þeir óskaplega þegar þeir éta hvern fisk og harma hve vont það sé fyrir þá að éta hann. Hann var vinur þeirra þrátt fyrir allt. Þannig eru sumir þolendurnir sem hæst hafa í dag.  Sumir gerendur eru farnir að kalla sig þolendur og hrópa um það. Allt sem að þeim snýr eykur á þjáningu þeirra, - líka það að meiða aðra. Þar er ekki rými fyrir kærleika ekki fyrirgefningu -  aðeins hatur og grimmilegt át.  

Af hverju eru allir orðnir að þolendum einhvers?  Gerist ekkert skemmtilegt og gott í mannlífinu í kringum okkur?  Hvað með það að lifa lífinu og sjá gleðina allt í kringum okkur? Hvað um það að reyna að bæta úr hverju böli? Hvað með að leysa hvern vanda og byggja upp eitthvað til góðs?  Afklæðumst  hinum gamla manni og tökum  á okkur  mynd hins nýja!