Vörn Jesú

Vörn Jesú

Jesús varði stelpuna sem sættir sig ekki við að vera kölluð ”hóra” í gríni því það er ekkert fyndið við það. Hann varði stelpuna sem tekur ekki í mál að fá lægri laun en strákarnir og ætlar að ná eins langt og hún sjálf vill án þess að vera stoppuð af strákunum sem voru betri en hún í að semja um laun.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
03. október 2011
Flokkar

Sagan um Mörtu og Maríu sem ég las hér áðan er nokkuð laus við alla frásagnagleði. Hún er fremur litlaust þar sem aðeins helstu staðreyndir koma fram.

Jesús kemur í þorpið. Marta býður honum í heimsókn. Marta átti systur sem hér María. María sest við fætur Jesú og hlustar. Marta sinnir skyldum gestgjafans. Marta kvartar við Jesú yfir því að María sé að svíkjast undan. Jesús stendur með Maríu.

Sagan er ekki mikið litríkari en þetta. Hún fjallar um hversdagslega hluti, og segir frá hversdagslegum aðstæðum.

Tvær ósammála systur. Einn karl sem allt snýst um.

Hvað ef við sagan er sögð svona:

Jesús kom í þorp nokkurt þar sem hann átti tvær vinkonur. Þær voru systur og hétu Marta og María. Marta, sú eldri, hafði venjulega orð fyrir þeim systrum. Hún var framtakssöm og alltaf hægt að treysta því að hún kæmi hlutunum í verk. Hún var fyrirmyndar húsmóðir. Heimili hennar var alltaf snyrtilegt og nýbakað á borðum er gesti bar að garði. Hún var gestrisin og vinsæl að sækja heim. Marta átti yngri systur er hét María. María var ólík Mörtu. Hún var kannski ekki eins ábyrgðarfull því hún var vön því að Marta tæki af skarið. Hún vissi að Marta sæi um hlutina og því þurfti hún ekki að taka svo mikla ábyrgð. Ef hún vildi hafa frumkvæði að einhverju þá var Marta yfirleitt búin að því áður en hún náði að snúa sér við. Þetta var ósköp þægilegt en stundum svolítið þreytandi.

Nú var vinur þeirra kominn í heimsókn. Þessi vinur var nú ekki hver sem er. Þetta var sjálfur Jesús Jósefsson, meistarinn sem sagði svo margt gáfulegt. Það var svo gott að vera nálægt honum. Það var eins og hann vissi alltaf hvað hún væri að hugsa og hvernig henni liði. Sumir sögðu hann vera Messías, Guðs son en María var ekki viss. En hver sem hann var þá var hann eitthvað meira en bara venjuleg manneskja.

Með Jesú voru fullt af mönnum sem settust hjá honum og fóru að spjalla við hann. Brátt hættu þeir þó að tala og fóru að hlusta á hann. María vissi að hún ætti að fara og hjálpa systur sinni með veitingarnar. Þær urðu að bjóða Jesú upp á eitthvað gott. Hún vissi að Marta væri á fullu að undirbúa mikla veislu handa meistaranum og þeim sem með honum voru. Það væri kannski allt í lagi að setjast hjá honum í augnablik og hlusta á hann. Bara örstutta stund. Það var ekki einu sinni víst að Marta myndi taka eftir því. Hún var á fullu og fleiri konur með henni.

Það var eins og María réði ekki við sig. Hún fór inn í salinn þar sem karlmennirnir voru og settist við fætur Jesú. Enginn mótmælti og brátt gleymdi hún sér. Hún drakk í sig hvert orð sem hann sagði. Þetta var allt svo rétt. Hann talaði um að hún ætti að elska náungann. Hann sagði að allt fólk væri jafn mikils virði. Hann talaði um Guð sem elskaði allar manneskjur. Henni leið vel. Henni fannst eins og hún væri að taka þátt í einhverju mikilvægu.

María tekur ekki eftir því þegar Marta kemur inn í stofuna. Hún hrekkur í kút þegar hún heyrir rödd hennar fyrir aftan sig. Hún er augljóslega reið þó hún reyni að sýna það ekki. Hún skammar hana þó ekki. Hún kann líklega ekki við það en beinir orðum sínum til Jesú. Hann er jú karlmaðurinn. Valdið er hans. Marta titrar í röddinni þegar hún ávarpar meistarann og spyr hann hvort honum standi alveg á sama um að hún þurfi að gera allt sjálf og hvort hann geti ekki sagt Maríu að koma að hjálpa sér.

María skammast sín og er fljót að standa upp. Hún á ekkert með að vera hér með körlunum. Hún er tilbúin að hlaupa fram og hjálpa Mörtu. En þá gerist eitthvað undarlegt. Jesús skipar henni ekki að fara fram og undirbúa matinn. Hann skammar hana ekki fyrir að slæpast og hanga með karlmönnunum. Nei, hún trúir varla eigin eyrum þegar hún heyrir hann segja að hún megi alveg vera hérna áfram. Hann segir að hún hafi valið það góða þegar hún ákvað að svíkjast um og hlusta á hann. Hvað er eiginlega að gerast? Hann segir reyndar að Marta sé að vinna mikilvæg verk og að hann skilji að hún sé pirruð og áhyggjufull en hann vill samt ekki að María hætti að hlusta og fari að hjálpa Mörtu. Hann segir að hún hafi valið það góða.

Einhvern veginn svona gæti sagan verið.

Ég verð að viðurkenna að ég verð oft svolítið ómöguleg fyrir hönd Mörtu þegar ég les þessa sögu og vil gera veg hennar meiri en oft hefur verið gert.

En í dag vil ég þó beina sjónum okkar að Maríu því að það sem mig langar til að við tökum með okkur heim hér úr Borgarholtsskóla í dag er að við heyrðum að Jesús stóð með stelpunni sem þorði að fara gegn ríkjandi hefðum og viðhorfum.

Hann varði stelpuna sem vildi vera eitthvað annað og meira en sæt stelpa með stór brjóst, stelpa sem hefur áhuga á fleiru en bleikt.is, megrunarkúrum, snyrtivörum og fötum.

Jesús varði stelpuna sem sættir sig ekki við að vera kölluð ”hóra” í gríni því það er ekkert fyndið við það. Hann varði stelpuna sem tekur ekki í mál að fá lægri laun en strákarnir og ætlar að ná eins langt og hún sjálf vill án þess að vera stoppuð af strákunum sem voru betri en hún í að semja um laun.

Jesús ver stelpuna sem vill velja sjálf hvað hún ætlar verða og vill ekki láta ósýnilegt glerþak stoppa sig í að komast þangað. Stelpuna sem þarf ekki að ganga í augun á strákunum til þess að vera einhvers virði.

Allar stelpur og allar konur eru þessi stelpa.

María er þessi stelpa.

Jesús varði ekki aðeins hennar val heldur sagði hann að það væri gott.

Á sama hátt ver hann þig og mig þegar við viljum brjóta gegn ríkjandi hefðum í von um réttlátari heim. Hann veri þig og mig þegar við veljum að fylgja honum hvaða álit sem annað fólk hefur á því.

Hann ver þig og mig því hann elskar okkur eins og við erum, stelpur og stráka. Amen.