María

María

Allt frá barnæsku vissi ég að þessi kona var ljósmóðir mín og ég bar virðingu fyrir henni. Nú á dögum er það sennilega ekki algengt að börn og unglingar viti hver það var sem tók á móti þeim í þennan heim.
fullname - andlitsmynd Gísli Gunnarsson
15. desember 2009

María

Lífið er kraftaverk. Sérhvert barn sem fæðist er kraftaverk. Við komum allslaus inn í þennan heim. Samt er eins og barnið skynji að það er einhver sem tekur á móti því þegar það fæðist. Einhver sem bíður komu þess. Hendurnar fálma eftir hönd og gráturinn beinist að eyra sem hlustar. Og eftir að barnið er lagt í arma móður fer það að leita sér næringar, til að viðhalda og efla það líf sem því var gefið.

Eftir þessum fyrstu andartökum getum við ekki munað. En það er gott að hugsa til þess að kærleiksríkar hendur tóku á móti okkur í þennan heim.

Hvað mig varðar finnst mér notalegt að hugsa til þess að María ljósmóðir tók á móti mér í gamla sjúkrahúsinu norðan við kirkjuna á Sauðárkróki. Og mér finnst gott að hugsa til þess, að hún heilsaði mér eins og öðrum börnum sem hún tók á móti, með því að signa mig og fela mig þannig Guði með krossmarki, í nafni Guðs, föður og sonar og heilags anda.

Hún hafði einnig beðið fyrir móður minni, eins og hún bað fyrir öllum konum sem henni var treyst fyrir. Hún bað Guð að rétta sér hjálparhönd. Það var henni eðlilegt og trúin mótaði líf hennar og störf.

María ljósmóðir var fædd að Njálsstöðum í Vindhælishreppi snemma á síðustu öld og hóf ljósmóðurstörf í Engihlíðarhreppi, en lengst starfaði hún á Sauðárkróki eða í rúma fjóra áratugi.

Allt frá barnæsku vissi ég að þessi kona var ljósmóðir mín og ég bar virðingu fyrir henni. Nú á dögum er það sennilega ekki algengt að börn og unglingar viti hver það var sem tók á móti þeim í þennan heim. Hvaða hendur snertu þau fyrst og færðu þau í faðm móðurinnar. Hver ljósmóðir þeirra er.

Nú nálgast hátíð ljóssins, jólahátíðin. Og móðir ljóssins er María. Hún fæddi son sinn við frumstæðar aðstæður, eins og fram kemur í jólaguðspjallinu, vafði hann reifum og lagði hann í jötu. Umgjörð jólaguðspjallsins segir meira en mörg orð. Jesús fæddist inn í aðstæður hins fátæka og smáa. Hann vitjar mannsins og tekur sér stöðu með honum. Þannig vitjar hann okkar enn í dag.

Hverjar sem aðstæður okkar eru um þessi jól, þá berast þau boð til okkar á helgri hátíð. Þú ert aldrei einn, eða ein á ferð, því að Guð er hjá þér og með þér.

Þess er getið í upphafi jólaguðspjalls Lúkasar að boð hafi komið frá keisaranum, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Hins vegar er þess hvergi getið hver niðurstaðan varð af þeirri skrásetningu eða manntali. Það skiptir ekki máli í þessari frásögu.

Barninu sem lagt var í jötuna er ekki lýst á nokkurn hátt. Það er heldur ekki mikilvægt atriði í sögunni. Aðalatriðið er að þetta barn uppfyllti þau fyrirheit sem gefin höfðu verið. Frelsari heimsins fæddur er.

Hvar tekur á móti honum? Hvar er rúm fyrir hann? Það er eðlilegt að boðskapur jólanna kalli fram slíkar spurningar. Spurningar sem við þurfum hvert og eitt að velta fyrir okkur og hugleiða.

Kæri lesandi. Ég óska þér gleðilegrar jólahátíðar og bið þess að þú finnir hinn sanna frið jólanna. Megi boðskapur englanna gleðja þig og uppörva í dagsins önn.

Gísli Gunnarsson.