Aðventu- og jólahugleiðing

Aðventu- og jólahugleiðing

Efst á blaði í boðskap hinnar kristnu kirkju í heiminum, sem nú á aðventu og jólum fagnar komu Friðarhöfðingjans, er að kærleikurinn komist að í lífi einstaklinga og þjóða. Við viljum að friður hans fái að móta allt okkar líf og að kveðja hans: „Friður sé með yður“ verði að raunveruleika í lífi okkar allra.
fullname - andlitsmynd Vigfús Þór Árnason
26. nóvember 2015

Friður sé með yður! Þessi ávarpsorð Krists komu upp í huga minn þegar ég settist niður í þetta sinn til að skrifa hugleiðingu á aðventu og jólum. Ekki þarf að greina frá því af hverju þessi orð koma upp í hugann nú, stuttu eftir voðaatburðina í París við upphaf aðventunnar og komu jólanna.

Ávarpið notaði Kristur Jesús fyrst er hann hitti lærisveina sína eftir sjálfa upprisuna. Í boðskap sínum lagði Kristur ávallt mikla áherslu á að friður væri til staðar í lífinu. Páll postuli ávarpaði einn af söfnuðum sínum með eftirfarandi orðum: „Verið fullkomnir, áminnið hver annan, verið samhuga, verið  friðsamir. Þá mun Guð kærleikans og friðarins vera með yður.“ Mörgum öldum áður sagði Jesaja spámaður: „Hann mun skera úr málum margra þjóða og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal reiða sverð að annarri þjóð og ekki skulu þær temja sér hernað framar.“ Síðar barst okkur fyrsta jólakveðjan, á stundum nefnd fyrsta jólakortið. Kveðjan er segir: Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu með mönnunum.“

Allt frá því að kirkjan varð til á hinum fyrsta hvítasunnudegi, er heilagur andi kom yfir lærisveinana, hefur kirkjan lagt áherslu á að boða frið á jörðu. Sá sem við bjóðum velkominn á aðventu er einmitt nefndur Friðarhöfðingi. Friður sem hann boðar og sem kirkjan vill flytja áfram nær til einstaklinga og þjóða. Til þess að friðurinn verði virkur í lífi og tilveru þarf sáttargjörðin að koma til sem og fyrirgefningin. „Fyrirgefið og yður mun fyrirgefið verða.“ Í hinni helgu bók er fjallað um sáttargjörðina. Þar segir: „Ef þú ert að bera gáfu þína fram á altarið og þú minnist þess þar að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér, þá skil gáfu þína þar eftir fyrir framan altarið og far burt, sæstu við bróður þinn og kom síðan og ber fram gáfu þína.

Vertu skjótur til sátta við mótstöðumann þinn meðan þú ert enn á veginum með honum.“ Kristur setti síðan fram aðalkröfu sína sem mönnum á hans tíma leist reyndar ekkert á. Hann sagði: „Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim er ofsækja yður.“ Þetta er mikil krafa og ströng. Hún er mjög svo mikilvæg. Ef til vill aldrei eins mikilvæg eins og nú í friðlausum heimi. Alþingi okkar Íslendinga orðaði það svo er það fjallaði um hryðjuverkin í París: „Við verðum að reka illt út með góðu.

Kærleikurinn er ávallt mikilvægasta vopnið.“ Það er góð niðurstaða í landi þar sem yfir 90% þjóðarinnar tilheyrir kristnum trúfélögum en kristin trú kennir fyrst og síðast að kærleikurinn sé mikilvægasta afl heimsins. Góð niðurstaða hjá þjóð sem virðir trúfrelsi og á að bera virðingu fyrir öllum trúarbrögðum sem virða heill og hamingju fólksins.

Efst á blaði í boðskap hinnar kristnu kirkju í heiminum, sem nú á aðventu og jólum fagnar komu Friðarhöfðingjans, er að kærleikurinn komist að í lífi einstaklinga og þjóða. Við viljum að friður hans fái að móta allt okkar líf og að kveðja hans: „Friður sé með yður“ verði að raunveruleika í lífi okkar allra. Friðarhöfðinginn bauð okkur að elska hver annan: „ Þér skuluð elska hver annan á sama hátt og ég hefi elskað yður.“ „Guð er kærleikur“ (1. Jn. 4,8). Okkar er að breiða út þennan kærleika og segja fram og meina það: „ Friður sé með yður.“ Megi friður aðventuhátíðar og jóla vera með okkur öllum.