Trúfesti við Guð

Trúfesti við Guð

Hinn guðlegi þarf líka að standast álag, styrkja sig til sálar og líkama svo hann eflist og geti verið staðfastur í trúnni… þess vegna hvatti Páll postuli fólk til sjálfsskoðunar…hvatti fólk til að íhuga hvort lífstíll þeirra samræmist trúnni svo þeir standist fyrir dómaranum á efsta degi… því það er takmark okkar allra að hafa nafn okkar skráð í lífsins bók á himnum…

1. Davíðssálmur, 2Kor 13:5-8 og Lúk 10.17-20

Náð sé með yður og friður frá Guði vorum og Drottni Jesú Kristi.

Fyrsti Davíðssálmur byrjar á orðinu ,,sæll”… og það er ósk allra að vera sæll, vera hamingjusamur, sáttur við sjálfan sig og lífið… sæll er sá sem eigi fer að ráðum óguðlegra… segir sálmurinn… en bein þýðing úr frummálinu ætti að vera: Sæll er sá sem stendur ekki eða tekur sér stöðu með óguðlegum...
Það er sama hvar við grípum niður í Biblíunni, textarnir benda sífellt á að við þurfum að taka afstöðu… með hverju stöndum við?  Hvaða veg göngum við? Með hverjum sitjum við? Hverjum fylgjum við? Lýsingin á þeim sem fylgja Guði, er falleg… …

Hann er sem tré gróðursett hjá lindum,
það ber ávöxt sinn á réttum tíma
og blöð þess visna ekki.
Allt, sem hann gerir, lánast honum.


Fallegt, ekki satt… en ekki alveg það sem flest okkar upplifum, lífið er upp og niður hjá meiri hlutanum, á okkar löngu ævi, fá flestir sinn skammt af ,,sæld og þraut” eins og segir í sálminum, Dag í senn…
Sumar af okkar reynslum hafa okkur fundist vera ósanngjarnar, eitthvað sem við höfðum viljað sleppa við… þó við komumst í gegnum þær... sumar flokkum við sem slæma reynslu og lærðum af því… en spurningin er: hvar staðsetur þessi sálmur okkur gagnvart Guði?
Við erum jú hérna, af því að við trúum á Jesú og viljum fylgja Guði.

Sálmurinn segir að sá sem hefur yndi af því að fylgja Guði… er sem tré gróðursett hjá lindum… rétt þýðing væri.. að til hans rennur vatn… eftir áveituskurði. Þetta tré er ekki vökvað fyrir tilviljun… nei, það er Guð sem gerði áveituskurðinn og sér til þess að það skrælni ekki… þetta er hans tré og hann vill að, á réttum tíma beri það ávöxt.

En sálmurinn segir líka að: Óguðlegum farnist á annan veg, þeir hrekjast sem hismi í stormi… Ég segi öllum fermingarbörnum, að í þessum heimi séu bæði góð og ill öfl… og að þessi öfl berjist um ,,völdin” í heiminum…  Ég hef notað líkingu sem er oft notuð í teiknimyndum, engill á annarri öxlinni og púki á hinni…  og það er auðvelt að láta freistast… Þess vegna er það svo, að enginn í þessum heimi gerir allt rétt, við gerum mistök, þ.e.a.s. við tökum rangar ákvarðanir eða bregðumst ekki rétt við í öllum aðstæðum… en það er ekki það sem Guð horfir á ?… mannleg mistök eða einstaka óviturleg ákvörðun gerir okkur ekki ,,ó-guðleg”… Nei sem betur fer er það ekki það sem er um að ræða… sálmurinn segir:

Því hvorki standast óguðlegir fyrir dómi né syndarar í söfnuði réttlátra
… Já, - fyrir dómi - allur sálmurinn er að segja hvað gerist á efsta degi fyrir framan dómarann… þá skiptast menn í tvo hópa… annað hvort eru menn guðlegir og óguðlegir… annað hvort trúa menn á Guð eða ekki… á þessum degi kemur fram hvort tréð hefur borið ávöxt… hvort fræ trúarinnar vaxi í hjörtum okkar …  Sálmurinn segir að ,,allt lánast fyrir þann sem trúir” en hinir óguðlegu standast ekki skoðun… Trúin skiptir öllu máli…

Páll postuli sagði:  Rannsakið hvort trú ykkar kemur fram í breytni ykkar, prófið ykkur sjálf.
Páll var ekki í nokkrum vafa um að kristnir menn þyrftu að vera á tánum, það væri auðvelt að falla í freistni…

Í guðspjallinu komu lærisveinar Jesú svo glaðir til hans, Jesús hafði sent þá út í trúboð… þeir sögðu: „Drottinn, jafnvel illir andar hlýða okkur þegar við tölum í þínu nafni.“… og við fáum fullvissu um  að það séu ill öfl í heiminum því Jesús segir: Ég sá Satan hrapa af himni sem eldingu”… en Jesús varar lærisveinana við að ofmetnast yfir valdinu sem hann gaf þeim… Hann segir þeim að gleðjast ekki yfir því að illu andarnir hlýði þeim… þeir skuli frekar gleðjast yfir því að nöfn þeirra séu skráð á himnum…

Athugið að nöfn lærisveinanna voru þegar skráð í lífsins bók… Jesús var ekki að gefa loforð um að nöfn þeirra yrðu skráð eftir dauða þeirra… eða einhvern tíma seinna… þau voru þegar skráð… Þetta er lýsandi dæmi um kærleika Jesú. Hann veit að við erum breisk, hann hvetur okkur til að vera vakandi yfir góðri breytni og gleðjast yfir því sem færir okkur nær Guði. Gleðjast yfir litlum áföngum til góðra verka, yfir því sem okkur tekst að gera rétt og blessar aðra um leið…

Góð verk frelsa okkur ekki en þau hjálpa okkur að viðhalda trúfesti okkar við Guð og þannig lifir Kristur innra með okkur…  Í sálminum var hinum guðlegu líkt við tré… en tré er táknmynd þess sem er staðfastur en hinum óguðlegu er líkt við hismi… sem er andstæðan… það er ofþornað og niðurmolnað tré sem fýkur burt í vindi… 

Tré sem stendur á góðum stað og hefur vökvun og næringu í umhverfinu… þarf samt sem áður að hafa fyrir því að dafna… Það þarf að styrkja stofninn, auka greinarnar, þétta laufkrónuna og lengja ræturnar… til að þola álag veðurs og vinda. 

Hinn guðlegi þarf líka að standast álag, styrkja sig til sálar og líkama svo hann eflist og geti verið staðfastur í trúnni… þess vegna hvatti Páll postuli fólk til sjálfsskoðunar…hvatti fólk til að íhuga hvort lífstíll þeirra samræmist trúnni svo þeir standist fyrir dómaranum á efsta degi… því það er takmark okkar allra að hafa nafn okkar skráð í lífsins bók á himnum…

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen