Fjarlægð

Fjarlægð

Við skulum gera það sem birtist sem hið besta fyrir augum okkar. Þá munum við a.m.k. ekki sjá eftir því sem við höfum ekki gert. Við verðum að velja með dómgreind.
fullname - andlitsmynd Toshiki Toma
14. mars 2013

Vegna þróunar samskipta gegnum netkerfi virðist merking „fjarlægðar“ í hversdagslífi okkar hafa breyst mikið, og mjög hratt.

Þegar ég flutti til Íslands, fyrir um 20 árum, var fjarlægð t.d. á milli Íslands og heimalands míns Japan var meiri ,,fjarlægð" í alvöru. Bein samskipti voru aðeins möguleg með því að hringja símtal, en það kostaði mikið og því var símtalið aðeins í tilefni af stórhátíð eða fyrir neyðartilfelli.

Foreldrar mínir sendu mér oft nokkur dagblöð og myndbönd úr sjónvarpsþáttum, en þau komu til mín eftir tvær vikur. Og þannig þótti mér gaman að því að lesa gömul blöð og að horfa á fréttir fyrir tveimur vikum.

Annað barn mitt, sem er fyrsta dóttirin, fæddist á öðru ári mínu á Íslandi þegar við fjölskyldan bjuggum í Miklaholtshreppi. Rétt eftir fæðingu hennar reyndi ég að hringja í foreldra mína frá spítalanum í Stykkishólmi. Mig langaði (eða ég varð) að nota ,,collect call", en því var hafnað: ,,þú verður að borga hér á Íslandi". Ég skildi ekki alveg hvers vegna, en ég ákvað að bíða með að hringja til Japans þangað til ég kom heima.

Í staðinn fyrir að hringja, tók ég vídeómynd af barninu og bað mágkonu mína, sem var komin til að hitta nýfædda frænku sína, um að senda myndbandið sem allra fyrst þegar mágkonan kæmi til baka til Reykjavíkur. Foreldrar mínir gátu séð nýja barnið á myndbandinu eftir 5 daga og mér fannst það mjög hratt!

20 ár eru liðin, og samskiptin eru orðin bara eins og í draumalandi núna. Ég þarf ekki að lýsa því hér. Engu að síður birtist fjarlægð sem raunveruleg fjarlægð ennþá í nokkrum aðstæðum. Hún er ýktari fyrir okkur, þar sem okkur sýnist að fjarlægðin hafi minnkað, en fjarlægðin liggur þar enn.

Tilefni sem lætur okkur viðurkenna það mun vera fyrst og fremst þegar fjölskyldumeðlimur, ættingi eða æskuvinur er orðinn veikur eða hefur látist.

Ég þekki nokkra innflytjendur í kringum mig, sem eru með reynslu af því að tapa fjölskyldumeðlimi eða æskuvini í heimalandi sínu skyndilega. Slíkt er jú erfið uppákoma jafnvel þó við búum í sama landi. En fjarlægðin eykur sorg ásamt eins konar ,,sektakennd" eins og ,,ég gat ekki verið með...".

Ég hef svipaða reynslu sjálfur. Pabbi minn hefur verið rúmliggjandi síðastliðin fimm ár. Hann varð mjög veikur nokkrum sinnum og ég flaug til Japans oft. Raunar getur pabbi minn verið fluttur til himnaríkis hvenær sem er og ég verð að vera tilbúinn fyrir það.

Það kostar tíma og peninga að reyna að komast yfir fjarlægðina. Ég hef ekki notað frítíma minn undanfarin ár í annað en að heimsækja foreldra mína. Engin strönd á Spáni eða Parísarferð. En ég hef enga kvörtun, þvert á móti þykir mér ég heppinn að ég hef frelsi til að nota frítíma minn eins og ég vil.

Við getum ekki stjórnað öllu í lífinu okkar eða í heiminum. Við þurfum að finna út hið besta fyrir okkur á hverjum tíma og stöðu. Við skulum gera það sem birtist sem hið besta fyrir augum okkar. Þá munum við a.m.k. ekki sjá eftir því sem við höfum ekki gert. Við verðum að velja með dómgreind.

Ef til vill er fjarlægðin ekki búin að hverfa. Hún breytist einungis í birtingarformi sínu.