Forréttindi

Forréttindi

Nýskriðinn úr guðfræðinámi og beint í prestskap. Nú líður að jólum og ég kominn í nýtt hlutverk, ólíkt því hlutverki sem ég var fyrir ári síðan þegar ég var enn námsmaður.
fullname - andlitsmynd Gunnar Stígur Reynisson
14. desember 2012

Nýskriðinn úr guðfræðinámi og beint í prestskap. Nú líður að jólum og ég kominn í nýtt hlutverk, ólíkt því hlutverki sem ég var fyrir ári síðan þegar ég var enn námsmaður.

Ég hef verið spurður hvort það sé ekki rómantík í vera stúdera guðfræði þegar líður að jólum. Ég get viðurkennt að ég hélt að svo yrði. En svo var ekki, á meðan náminu stóð þá einkenndist jólundirbúningur minn á stundum af stressi, pirringi, svefnleysi og jafnvel ógleði. Það er víst fátt hátíðlegt eða jólalegt að sitja einn á aðventunni með kaldan svita á enninu yfir einhverju riti Nýja testamentisinsi á grísku og reyna að skilja hvað þar stendur. En streðið tók enda og ávinningurinn var góður.

Nú er ég kominn með hempuna á herðarnar, kragann um hálsinn og snúinn aftur heim. Hættur að fá kaldan svita yfir próflærdómi og nýr kafli tekinn við í mínu lífi. Það að njóta aðventunnar í sínum heimabæ eru forréttindi. Það að geta flutt aftur heim eftir nám eru forréttindi. Vera nálægt fjölskyldu sinni og vinum allt árið um kring eru forréttindi. Það er ekki fyrr en núna sem maður kann virkilega að meta þessa nálægt eftir að hafa verið í burtu í áratug.

Ég fæ að njóta þeirra forréttinda að koma í minn heimabæ sem prestur, njóta aðventunnar með Hornfirðingum í messum, aðventustundum, klúbbastarfi eða bara úti á götu. Það eru forréttindi að geta eytt aðventunni og jólunum með þeim sem maður þykir vænst um. Við skulum hafa það í huga núna á aðventunni og þegar við sitjum með upptekna pakka í kringum okkur á aðfangadagskvöld með útkýldan maga eftir jólamatinn. Gjafirnar verða miklu fallegri og maturinn miklu betri þegar við höfum fjölskylduna og vini í kringum okkur.