Ég mun gefa ykkur nýtt hjarta og leggja ykkur nýjan anda í brjóst.

Ég mun gefa ykkur nýtt hjarta og leggja ykkur nýjan anda í brjóst.

Það má líkja því við að fá nýtt hjarta þegar við endurmetum allt í lífi okkar og sjáum líf annarra í nýju ljósi

Krútt-messa á Bíldudal 10.maí 2020                    Esk 36.26-28,   Jak 1.17-21,  Jóh 16.5-15     

Við skulum biðja… Þakka þér Drottinn að blessanir þínar drjúpa yfir okkur eins og létt regn og þú vakir stöðugt yfir okkur. Við lofum þig og þökkum þér og biðjum að þú varðveitir okkur um ókomna tíð. Amen

Náð sé með yður og friður frá Guði vorum og Drottni Jesú Kristi.

Ég mun gefa ykkur nýtt hjarta og leggja ykkur nýjan anda í brjóst. Ég mun taka steinhjartað úr líkama ykkar og gefa ykkur hjarta af holdi… sagði Drottinn Guð…

Hvað skyldu margir telja sig hafa fengið nýtt hjarta síðan þetta veiruástand gekk yfir heiminn… Það má líkja því við að fá nýtt hjarta þegar við endurmetum allt í lífi okkar og sjáum líf annarra í nýju ljósi… þegar við sjáum eða skynjum og skiljum þá betur, allan tilfinningaskalann hjá fólki sem við þekkjum kannski ekki neitt, eða þegar við finnum eða verðum vör við ótta þeirra eða einmanaleika... Nýtt hjarta… ef allir fengju ný hjörtu þá myndi heimurinn breytast… 

Texta ritningarinnar má lesa inn í allar aðstæður hjá okkur… þó þessi texti hafi haft aðra og dýpri merkingu þegar Guð gaf spámanninum þessi skilaboð til þjóðarinnar… þá getum við lesið hann inn í ástandið í dag… Biblían er jú safn af skilaboðum til okkar… krakkarnir mynda kalla þetta “sms”… sms sem passa inn í allar aðstæður.  Hvert vers biblíunnar er eins og sms til okkar…

Þessi skilaboð, textar dagsins… segja okkur að Guð vill að við höfðum skilningsrík og kærleiksrík hjörtu. Jakobsbréfið lagði áherslu á góð samskipti… vera fljót að heyra, sein til tals, sein til reiði… og leggja af alla vonsku… Það er auðvelt að segja þetta, en erfiðara að fara eftir því… Við erum öll breisk, gerum mistök, þurfum bæði að fá fyrirgefningu og fyrirgefa öðrum. Þetta er það sem við köllum “lífið”… svona er lífið… hér á jörðinni. 
En Guð hafði ætlað okkur annan og betri stað í upphafi. Við áttum að vera varin gegn öllu illu í garði allsnægta, áhyggjulaus og umvafin kærleika Guðs… en allt breyttist er syndin kom í heiminn... sem varð til þess að Guð sendi son sinn, til að við frelsuðumst fyrir hann og kæmust að lokum á þennan draumastað, sem okkur var ætlaður í upphafi… en eins og ástand mannsins er í dag, þá þarf maðurinn að breytast… hann þarf að verða aftur hæfur fyrir nærveru Guðs.

Jesús gaf okkur nýtt boðorð… að elska náungann eins og okkur sjálf… ef við tileinkum okkur þetta nýja boðorð erum við á góðri leið, að fá nýtt hjarta, kærleiksríkt hjarta… en það eitt nægir ekki. Í upphafi gekk Guð um í aldingarðinum en sagan segir að þegar Adam og Eva syndguðu hafi þau misst dýrðina sem umvafði þau og þau urðu nakin… kannski breyttust hjörtu þeirra líka við afbrotið… amk misstu þau traustið sem hafði ríkt á milli Guðs og þeirra… Hinn fullkomni dvalarstaður þeirra varð að okkar framtíðarsýn, draumsýn… ímynd hins fagra og fullkomna…

Um síðustu aldamót skrifaði ég þrjár greinar í morgunblaðið… Sú fyrsta bar yfirskriftina “Frí ferð” (yfirskrift greinar var breytt í Áttu draum?)) og var sú blaðagrein um þennan draumastað okkar allra, himnaríki á jörðu með öllum þægindum sem eru til í okkar hugmyndaflugi. Ferðin er öllum að kostnaðarlausu, allt innifalið og engar áhyggjur… en til þess að eiga kost á þessari ferð þarf viðkomandi að trúa á Jesú Krist… Það er trúin á Jesú Krist sem gerir okkur hæf til að vera í nærveru Guðs.

Lífsbaráttan, áföll og erfiðleikar draga kjark úr sumum en styrkir trú hjá öðrum. Við höfum ólík þolmörk, en öll erum við viðkvæmar sálir undir niðri og þráum það eitt að lifa áhyggjulaus og í friði við aðra… Allir þrá að finna hamingjuna og eiga gott líf… ekkert slítur okkur meira út en áhyggjur af okkar nánustu, og enginn er algerlega laus við áhyggjur…  þess vegna er gott að eiga vin sem aldrei bregst… vin sem ég trúi að sé almáttugur í öllum aðstæðum… honum er ekkert um megn…

Jesús er vinur sem styrkir mig í mótlæti, gefur mér kærleiksríkt hjarta og mótar mig á lífsleiðinni… hann er vinur sem sendir mér skilaboð sem ég þarf á að halda, skilaboð sem passa inn í hverjar þær aðstæður sem ég kann að lenda í… skilaboð eins og: Hjarta yðar skelfist ekki, trúðu á Guð, trúðu á mig…eða  Óttast eigi, ég bjarga þér.

Fil 4:13 segir: Allt megna ég fyrir hann sem mig styrkan gjörir… Guð gefur okkur þann styrk sem við þörfnumst hverju sinni… Við þurfum að leyfa honum að móta okkur á trúargöngunni og gera okkur þannig hæf til að vera í nærveru hans…
Guð veri með okkur alla okkar daga.

 Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen 

Krútt-messa tekin upp á samsung galaxy síma á Bíldudal, klippt og sett á netið 10.maí 2020
https://www.youtube.com/watch?v=rQdHarNSHPk&t=215s