Er fjölmenning siðlaus þjóð?

Er fjölmenning siðlaus þjóð?

Er það fjölmenning að örfáir í skjóli ólíkra trúarbragða eða trúleysis geti ráðskast með þjóðina að eigin geðþótta og þess vegna verði að afnema úrskurð Þorgeirs, Ljósvetninga, um að hafa ein lög og einn sið í landinu og þó allt að 90% þjóðarinnar tilheyri kristnum trúfélögum?

Hér ómar söngurinn eins og óður af himninum, Guðs englar syngja dýrðarlag. Englar eru sendiboðar Guðs og það erum við öll þegar við tökum undir í lofsöngnum. Syngjum um ást og frið af því að barn er oss fætt og sonur er oss gefinn. Heilög og gleðileg jól. Það er kveðjan sem við berum hvert öðru, gróandi menningin sem af jólunum nærist og rís ekki hærra í annan tíma ársins. Við leggjum okkur fram um að blómga lífið af fegurð og gæsku.

Þess njótum við hér í kirkjunni okkar. Fallegur kórsöngurinn sem auðgar samfélagið á meðal okkar og sóknarnefndarfólkið sér um að allt sé í traustum skorðum. Þar er reisn í fyrirrúmi. Mikill gæði eru að njóta hátíðar saman í fallegri kirkjunni og er þá þakklæti efst í huga, þar sem sjálfboðið fólkið leggur sig fram í þjónustunni. Um það vitnar söngurinn og allt umhverfið í helgidóminum þar sem vandað er til verka.

Jólaguðspjalli Jóhannesar er frábrugðið frásögninni sem okkur þykir svo vænt um í Lúkasarguðspjalli. Það er líkara predikun, enda ritað áratugum síðar en Lúkasarguðspjall.

Þar er ritað: „Í upphafi var Orðið, Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð“. Guðspjallamaðurinn segir síðan, að þetta Orð varð hold í manni á jörð sem bjó hjá oss fullur náðar og sannleika, og við sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum. Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn.

Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum. En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til þess að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans.

Hér er mikið sagt í fáum orðum og þegar við hugleiðum það í ljósi atburðalýsingar í Lúkasarguðspjalli, þá upplýkst svo innilega: Barnið í jötunni er Guð á jörð, Kristur Drottinn, Orðið varð hold, Guð varð maður. Sá hinn sami Guð og skapar himin og jörð með Orði sínu. Þetta Orð varð Guð á jörðu í barni sem var reifað og lagt í jötu.

En leiðin frá jötunni í Betlehem til Golgata er stutt, þar sem Jesú var hafnað og dæmdur til að deyja saklaus á krossi í blóma lifsins. Þau reyndu að kæfa hið sanna ljós sem kom í heiminn til að upplýsa hvern mann um mennsku sína, kærleikans gildi um að elska Guð og náungann. Skáldið okkar frá Heydölum, sr. Einar Sigurðsson, tjáir það í sálminum sínum ástkæra: „Nóttin var sú ágæt ein, í allri veröld ljósið skein, það er nú heimsins þrautarmein, að þekkja hann ei sem bæri. Með vísnasöng ég vögguna þína hræri“. Þú þekkir sögu ljóssins. Það lýsir enn þrátt fyrir allt og hefur valdið meiru í sögu mannsins en nokkuð annað.

Enn óma orð Jesú og hafa reynst mörgum dýrmætt veganesti í ólgusjó lífsins: „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins“. Það er einmitt þetta ljós lífsins sem breiðir birtu sína yfir heilög jól og safnar okkur saman til að halda hátíð. Þetta ljós sem upplýsa vill sérhvern mann var tendrað með fæðingu Jesú í Betlehem, en varð að eilífum bjarma í uppsrisu hans frá dauðum.

Það upplýkst í orðum Jesú sem nefnd hafa verið Litla Biblían: „Því að svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf sinn einkason svo hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf“.

Orðið og ljósið er Jesús Kristur, barnið sem var reifað og lagt í jötu. Hvergi hefur listin risið hærra í verkum sínum en um hann. Hvort sem litið er til bókmennta, tónlistar eða myndarinnar.

Enginn hefur meira verið rannsakaður af vísindum en þessi sem kenndur er við Orðið og ljósið. Enginn hefur oftar verið ákallaður til bjargar í neyð. Og enginn maður hefur haft meiri áhrif á menningu og líf fleiri þjóða um aldirnar. Af því að þessi maður var Guð á jörð.

Nú biðja frómir menn að nafni hans verði haldið sem mest í skefjum við fræðslu barna í skólanum, a.m.k. að börnin fari ekki inn í kirkjur á skólatíma af ótta við að skaði andlega heilsu þeirra eða til þess að nafnið hans ögri ekki fjölmenningu nútímans.

Það er vandlifð í hörðum heimi nú eins og á tímum Jesú, að þau þoldu ekki við í ljósinu, þoldu heldur ekki boðskapinn hans um kærleika og frið og enn síður að ljósið hans myndi myndi upplýsa manninn um mennsku sína.

En er ólíku saman að jafna við hugsjón kristnna íbúa í Aeleppo sem var efst í huga, þegar skothríðin þagnaði, að safna saman timbri og brotajarni úr rústunum til þess að geta reist upp helgimyndina af fæðingu Jesú Krists á grunni sundurtættrar kirkjunnar til tákns um sigur lífsinis yfir dauðanum og messa þar á jólum í fyrsta skipti í 5 ár.

Mikil gæði eru að njóta lífsins í verlalegum friði, hafa rúmlega til hnífs og skeiðar, búa við þægindi tækninnar og mannréttindi sem ekki eru sjálfgefin, heldur nærast af hugsjón og lífsbaráttu fólksins um aldirnar. Þar hefur kærleikur kristinnar trúar verið leiðarljós. En það reynir líka á að njóta alsnægta og leggur á herðar okkar ábyrgð um að varðveita það sem best hefur reynst og hvernig við högum samskiptum í veröld hraða og fjölbreytni.

Er fjölmenning þá fólgin í að vera siðlaus þjóð? Hafa enga andlega hornsteina til að miða siðferðið og lögin við? Hafa enga kjölfestu sem sameinar þjóð um heilög gildi. Ekkert lím sem heldur okkur saman í takt. Þorgeir Ljósvetingagoði kom undan feldi sínum og kvað upp á Alþingi fyrir rúmum 1000 árum: „En nú þykir mér ráð, að vér höfum allir ein lög og einn sið. Það mun verða satt ef vér slítum í sundur lögin að vér munum slíta og í sundur friðinn“. Þessi niðurstaða varð til heilla fyrir þjóðina og hefur verið grundvöllur menningar og velferðar í landinu síðan. En nú fer hátt umræða þar sem kveður við nýjan tón og spurningar vakna.

Er það fjölmenning aö örfáir í skjóli ólíkra trúarbragða eða trúleysis geti ráðskast með þjóðina að eigin geðþótta og þess vegna verði að afnema úrskurð Þorgeirs, Ljósvetningagoða, um að hafa ein lög og einn sið í landinu, þó allt að 90% þjóðarinnar tilheyri kristnum söfnuðum?

Við viljum vera gestrisin þjóð og búa í friði í landinu með fólki af öllum menningarheimum og mega auðgast af víðsýni og skilningi í vináttu með fólki af ólíkum trúarbrögðum. Við virðum trú þeirra, en ekki til þess að afnema það sem best hefur reynst um velferð okkar að hafa ein lög á kristnum grundvelli. Að hafa kross í þjóðfánanum til marks um það, dagatalið sem hvílir á sögu Jesú Krists, þjóðsöng með bænamáli trúarinnar, skóla fyrir börnin sem fræðir þau faglega um þær staðreyndir og gleðileg jól sem fagna fæðingu frelsarans Jesú Krists.

Sameinast um jól þar sem ljósið frá Betlehem lýsir af barni í jötu sem er Guð á jörð. Það eru gleðileg jól. Hátíð sem er svo rótgróin og ljóma af heilögu ljósinu. Engin trúarbrögð blómgast eins af umburðarlyndi, frelsi, samúð og list eins og kristin trú, einmitt allt það sem auðgar mannlífið okkar og fyllir af fegurð og grósku.

Við bjóðum öllum að samfagna og dæmum engann fyrir trú eða kyn, þjóðerni eða litarhátt. Kjarninn í boðskap kristinnar trúar er að umvefja lífið allt og gera engan mannamun. Það er fjölmenning, en hefur helgan sið að hornsteini sem nærist af ljósi lífsins sem sem varð hold í Jesú Kristi, Drottni vorum. Það er fagnaðarefni jólanna. Megum við njóta þess í Guðs friði. Amen.