Höndin sem hlífir og hirtir

Höndin sem hlífir og hirtir

Hvaða hugsanir sækja að þeim sem skynja það að senn verður tilveran ekki lengur fortíð, nútíð og framtíð – eins og er hjá okkur – heldur bara fortíð. Engin nútíð og engin framtíð? Þá sækir fortíðin á hugann.

Dauðans stríð af þín heilög hönd hjálpi mér vel að þreyja, meðtak þá, faðir, mína önd, mun ég svo glaður deyja. (HP)

Hér áðan sungum við þennan fallega sálm Hallgríms Péturssonar [Vertu Guð faðir faðir minn]. Mörg förum við með fyrsta erindi hans að kvöldlagi þegar við þökkum fyrir liðinn dag og búum okkur undir nætursvefn. Um langt skeið hafði ég það að venju að fara með þessar línur í upphafi hverrar predikunar. Þegar hann er svo sunginn heyrum við fleiri vers og ekki er laust við að um nútímamanninn fari sú hugsun að sálmurinn hafi þrátt fyrir allt, ekki staðist breytingar á tíðaranda og hugsun.

Þannig syngjum um það þegar hönd drottins tyftar okkur en skáldið kveðst glaður kyssa hana þegar svo ber undir.

Hönd Guðs

Jú, sálmurinn sem fjallar um hönd Drottins er ortur út frá þeim atburðum sem við minnumst nú á föstudeginum langa. Skáldið hugleiðir dánarorð Krists: „Faðir í þinar hendur fel ég anda minn.“ Það eru þessar hendur sem verða honum Hallgrími yrkisefni í þessum sálmi sem telur heil 22 erindi. Hann færir sjónarhornið fjótt frá hæðinni Golgata þar sem blóðið vall úr benjum Krists að þeim sem línurnar les eða heyrir. Frásögnin um kvöl og pínu Jesú Krists á erindi til okkar dauðlegra manna. Dauðinn og sársaukinn eru hluti af lífinu og þar sem við hugleiðum það hvernig hinn almáttugi lægði sig niður í hina algeru auðmýkt þá beinist kastljósið að hverju og einu okkar. Ef hinn æðsti er ekki undanþeginn þrautum, hví skyldum við þá gera slíkar kröfur til lífsins?

Og þá vakna aðrar spurningar.

Hvernig lifum við lífi okkar? Hvernig stöndum við frammi fyrir örlögum okkar sjálfra og óhjákvæmilegu hlutskipti. Passíusálmarnir eru helgaðir þessari stöðu okkar í lífinu. Gleðin er þar sannarlega ekki einráð. Birtan skín þar ekki hverja stund og jafnvel við sem erum uppi á tímum þar sem öryggið er svo miklu meira en forfeður okkar máttu kynnast, finnum það ekki síður hversu sárt lífið getur einnig verið. Á okkar dögum er velsældin, tækifærin og auðlegðin slík að horfa verður til þjóðhöfðingja fyrri alda til þess að komast nálægt því sem við fáum notið – en það dugir ekki til.

Því hvernig sem á málið er litið, þá erum við undir sömu sökina seld og allt það sem lifir og hefur lifað – hvort sem það er auðugur keisari sem ríkir yfir þjóðum eða vesæl jurt sem læðist upp úr moldinni að vori og hendur okkar rífa upp án umhugsunar í tiltektinni í garðinum. Dauðinn mætir hvoru tveggju. Hið sama á við um okkur sem fæðumst inn í þennan heim og kynnumst svo ólíkum hliðum hans. Já, lífinu og fegurðinni, gleðinni og því sem byggir upp. En við fáum líka kynni af hinum dökku hliðum lífsins og stundum ná þær að yfirgnæfa það sem gott er. „Veistu hvað gleðin tefur tæpa stund/en treginn lengi“ yrkir Hannes Pétursson.

Það eru þessar aðstæður sem eru skáldinu á Saurbæ svo hugleiknar og víst hefur hann ort sína sálma út frá þeirri reynslu sem mótaði líf hans svo mjög. Treginn hefur vísast lætt sér í gegnum andardráttinn. Andvörpin úr brjósti hans hafa verið mörg. Frá eiginmanninum sem þoldi háðung sveitunganna fyrir kvonfangið. Frá sjúklingnum sem fann hold sitt visna. Frá föðurnum sem hafði þurft að jarða börnin sín og sorg hans var stærri en hafið – eins og Snorri Hjartarson orti. Já, sannarlega varir treginn lengi og við getum ekki lesið sálma Hallgríms án þess að skynja tregann sem varir svo lengi og mótar líf þess sem hann hefur mátt þola til allrar framtíðar.

Þegar heimurinn bregst

„Faðir í þínar heldur fel ég anda minn“ hrópar Jesús af krossinum.

„Höndin þín, drottinn, hlífi mér, þá heims ég aðstoð missi. En nær sem þú mig hirtir hér, hönd þína eg glaður kyssi.“

Svo yrkir hið þjáða skáld. Það biður Drottin um að láta höndina sína hlífa sér þegar heimurinn snýr við honum bakinu. En er að sama skapi tilbúinn að mæta mótlæti lífsins með þeim hætti sem kristnum manni hæfir. Það er einmitt sú afstaða sem mörgu okkar kann að þykja sem leiftur frá liðinni tíð. Það, að kyssa þá hönd sem okkur hirtir er svo andstætt því sem einkennir nútímann. Við sjáum fyrir okkur lausnir við hverjum vanda – hvort sem þær eru í pilluformi eða felast í því að sökkva sér niður í gegndarlausan kliðinn frá fjölmiðlunum sem eru allt í kringum okkur.

En hvað er það að kyssa vöndinn? Felst það ekki í því að mæta mótlæti lífsins með því æðruleysi sem gerir okkur kleift að hlúa að því sem við getum hlúð að – en sætta okkur við hitt?

Lífið felur í sér mótlæti og þjáningar. Um það fjallar kristin trú og krossinn – aðalsmerki hennar horfir einmitt til þessara þátta. Sumir gera þær væntingar til lífins að það sé eins og samfelld gleði. Þar verður dauðinn eins og hver önnur boðflenna sem enginn vill kannast við. Sú er ekki afstaða kristinnar trúar til tilverunnar. Það minnir föstudagurinn langi okkur á. Dauðinn er óhjákvæmilegur. Og dauðinn, jafn sár og hann er – verður einn af mikilvægustu vegvísunum sem hjálpar okkur og bendir okkur á það hvert við eigum að halda.

Já, dauðinn er ekki aðeins óhjákvæmilegur hann á að vera okkur hugstæður. Því lífið er svo fjarri því að vera sjálfsagt og gæði þess eiga að vera okkur tilefni þakklætis. Í hvert sinn er við opnum augun að morgni ættum við að þakka fyrir þann dag sem okkur er gefinn og fyrir þá nótt sem var okkur endurnæring í hvíld. Hvert sinn sem hlýir vorvindarnir leika um vangann eftir strangan vetur ættum við að hugleiða það hversu fá þau eru vorin sem fáum notið á ævi okkar. Aðeins nokkrir tugir, þegar best lætur.

Hugsanir deyjandi fólks

Hjúkrunarfræðingurinn Bronnie Ware hefur um áratugaskeið unnið á líknandi deild á sjúkrahúsinu þar sem hún starfar. Daga og nætur hefur hún hlúð að fólki sem veit að lífdagarnir eru senn á enda. Nálægð dauðans er nánast áþreifanleg í starfsumhverfi hennar. Og þessi kona hefur um árabil rætt við sjúklingana um það sem þeim býr á hjarta. Hvaða hugsanir sækja að þeim sem skynja það að senn verður tilveran ekki lengur fortíð, nútíð og framtíð – eins og er hjá okkur – heldur bara fortíð. Engin nútíð og engin framtíð? Þá sækir fortíðin á hugann. Hvað myndum við gera ef við stæðum miðja vegu milli fortíðar og framtíðar og gætum lifað því lífi sem við sjáum núna að er eftirsóknarvert?

Hún ritaði nýverið bók um þau svör sem hún hefur fengið við spurningum sínum. Það þarf ekki að undra að bók hennar hefur vakið mikla athygli enda er viðfangsefnið þrúgandi. Hvers iðrast hinir deyjandi einstaklingar? Hverju myndu þeir breyta ef þeir gætu enn breytt?

Svörin ættu að vera okkur hugleikin: Að vera sannur köllun sinni, trúr tilfinningum sínum, að leyfa hamingjunni að móta lífs sitt – fremur en að kaupa stundarfrið með tvöfeldni og undirlægjuhætti. Að verja meiri tíma með vinum og fjölskyldu fremu en að vinna baki brotnu fyrir verðmætum sem standa svo illa undir nafni þegar ævin er senn á enda.

Já, þetta er ekki flókið og við getum speglað okkur í þessum orðum. Hversu hart leggjum við að okkur til þess að uppfylla þessar sönnu þarfir?

Hallgrímur Pétursson horfir fram til endalokanna í sálmi sínum um hönd Guðs sem bæði hlífir og hirtir:

meðtak þá, faðir, mína önd, mun ég svo glaður deyja.

Þessi vitneskja um endalokin er einkenni á hinu innihaldsríka lífi. Föstudagurinn langi á að vera okkur áminning um það hversu dýrmætt lífið okkar er. Það er dýrmætt eins og allt annað sem er takmörkum háð. Og í ljósi þessara takmarka ættum við að fagna því og hampa því svo að við mætum örlögum okkar í þeirri sömu sátt og skáldið frá Saurbæ.

Við felum anda okkar í hendur Guðs, rétt eins og lausnari okkar gerði á krossinum.