Skólakvíði og flottir tússlitir

Skólakvíði og flottir tússlitir

Það er spenna á heimilinu. Fyrsti skóladagurinn er á morgun. Skólataskan er tilbúin og búið að merkja blýanta og tréliti. Kannski er spennan þó fyrst og fremst hjá foreldrunum sem minnast síns fyrsta skóladags. Mamman man eftir að hafa setið á græna borðinu með Fjólu sem átti flottustu tússlitina. Það mátti ekki lita fast með þeim.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
26. ágúst 2013

Það er spenna á heimilinu. Fyrsti skóladagurinn er á morgun. Skólataskan er tilbúin og búið að merkja blýanta og tréliti. Kannski er spennan þó fyrst og fremst hjá foreldrunum sem minnast síns fyrsta skóladags. Mamman man eftir að hafa setið á græna borðinu með Fjólu sem átti flottustu tússlitina. Það mátti ekki lita fast með þeim. Pabbinn man að það var erfitt að vera ári yngri en allir hinir í bekknum þegar hann var látinn hoppa yfir sex ára bekk og byrja í sjö ára bekk. Hann vonaði að hann myndi fljótlega eignast vin þótt hinir krakkarnir hefðu eins árs forskot.

Skóladrengurinn verðandi veltir þessu minnst fyrir sér og skilur kannski ekki alveg hvers vegna þetta er svona mikið mál. Þetta eru jú bara sömu krakkarnir og á leikskólanum.

Skólabyrjun á hausti er tilfinningaþrunginn tími. Mörg börn eru kvíðin á meðan önnur eru full tilhlökkunnar. Þau sem hafa orðið einelti eða líður ekki vel í skólanum eru kvíðin og jafnvel óttaslegin. Þau eiga jafnvel erfitt með að sofna. Þau sem eiga góða vini í bekknum og eiga auðvelt með námsefnið geta varla beðið.

Það er alltaf gaman að eignast nýjan yddara og tréliti. Og kannski gula reglustiku úr plasti sem ekki er hægt að brjóta. Innikaupalistinn er langur. Sumt er til, annað þarf að kaupa. Skólabyrjun á hausti getur verið þung byrði fyrir budduna á barnmörgum heimilum og á heimilum þar sem horfa þarf í hverja krónu. Þau heimili eru mörg.

Það er mikilvægt að vera meðvituð um að það er ekki alltaf gaman að byrja í skólanum. Það er vont að vera barnið sem ekki getur keypt allt sem stóð á innkaupalistanum. Að vera barnið sem ekki gat fengið ný föt þetta haustið og er vaxið upp úr því sem til er. Þá er gott að vita af Hjálparstarfi kirkjunnar, Rauða krossinum og öðrum sem geta útvegað föt á vægu verði eða jafnvel gefins.

En sem betur fer er fjöldi barna sem nýtur þess að hefja skólagöngu að hausti. Barna sem hlakka til að koma í nýja skólastofu eða gamla og vel þekkta. Barna sem hlakka til að fá nýja sessunauta eða að fá að sitja hjá gömlum vinum.

Biðjum fyrir börnum sem eru að byrja í skólanum. Fyrir því að skólastjórnendur og kennarar, foreldrar og börnin sjálf taki á öllu einelti, og komi í veg fyrir að farið sé illa með börn. Fyrir því að fullorðið fólk þori að taka ábyrgð og vera fullorðin þegar kemur að ofbeldi. Guð gefi öllum, börnum og fullornum, góðan vetur í skólum landsins.