Brauð og trú

Brauð og trú

Að vera kristinn er ekki það að kunna skil á leyndardómum tilverunnar heldur treysta því að öllu sé borgið, vegna þess að Guð er eins og Kristur birtir hann og boðar.

Til hamingju með 25 ára afmæli kirkjunnar ykkar kæri söfnuður hér í Mjóddinni. Þetta guðshús setur svo sannarlega svip á hverfið ykkar. Það er sérstakt að utan sem innan en mestu skiptir þó að starfið hér sé unnið í Jesú nafni, Drottni til dýrðar og mannfólkinu til blessunar.

Breiðholtssöfnuður var stofnaður í janúar árið 1972 svo starfið hafði verið unnið í 16 ár áður en kirkjan var vígð. Þegar ég var æskulýðsfulltrúi Þjóðkirkjunnar fyrir margt löngu man ég að ég prédikaði á æskuýðsdaginn í guðsþjónustu sem haldin var í þáverandi aðstöðu safnaðarins í Breiðholtsskóla. Í minningunni finnst mér altarið og prédikunarstóllinn hafi verið upp á sviði og viðstaddir setið í sætum í salnum. Hvort sem ég man þetta rétt eða ekki þá er umhugsunarvert hvernig kirkjubyggingar og fyrirkomulag kirkjuskipsins hefur breyst í aldanna rás. Eldri kirkjur eru flestar með prédikunarstólinn þannig að prédikarinn horfir niður til safnaðarins og söfnuðurinn þá upp til prédikarans. Oftar en ekki eru nokkrar tröppur upp að altarinu. Í yngri kirkjunum, eins og hér er ekki mikill hæðarmunur á sætum og altari og prédikunarstól. Þetta er í samræmi við hugmyndir okkar um Guð og samband okkar við Guð. Í nútímanum er Guð ekki hátt yfir okkur heldur hér á meðal okkar. „Eigi stjörnum ofar á ég þig að finna, meðal bræðra minna, mín þú leitar Guð“, orti sr. Sigurbjörn Einarsson. Og í öðrum sálmi segir hann: „Þú mikli Guð ert með oss á jörðu, miskunn þín nær en geisli á kinn“. Já, sá Guð er gekk um foldu fyrrum, Jesús Kristur er með okkur og hjá okkur þar sem við erum stödd í lífsins leið.

Lífið er gjöf og við ráðum hvernig við lifum því þó margt geti gerst á lífsins leið sem við ráðum ekki við og breytir lífi okkar, fyrirætlunum og lífssýn.

Biblíutextarnir sem lesnir voru áðan fá okkur til að hugsa um aðstæður okkar og líf okkar.

Fyrri ritningarlesturinn segir frá því þegar Guð gaf fólkinu sem Móse leiddi til fyrirheitna landsins brauð til að borða, en matur er nauðsynlegur hverjum manni til hann fái lifað. Guð yfirgaf fólkið sitt ekki, gleymdi því ekki og sá þeim fyrir lífgefandi fæðu.

Í síðari ritningarlestrinum var lesið úr bréfi gleðinnar, en svo hefur bréf Páls postula til Filippímanna verið nefnt. Þar erum við líka minnt á það að við erum ekki gleymd af Guði og við erum hvött til að vera með sama hugarfari og Kristur Jesús var. Við eigum að muna eftir náunga okkar, muna eftir Guði okkar, fara vel með líf okkar.

Í guðspjallinu er talað um eilífa lífið. Og Jesús vitnar í brauðið sem Guð gaf fólkinu á eyðimerkurgönginni. Hann segir að fólkið hafi dáið þrátt fyrir fæðuna sem því var send, en annað brauð muni láta þau lifa að eilífu. Hann segist sjálfur vera brauð lífsins.

Hann sagði reyndar fleira um sjálfan sig. Hann sagði:

Ég er brauð lífsins Ég er ljós heimsins Ég er dyr sauðanna Ég er góði hirðirinn Ég er upprisan og lífið Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið Ég er hinn sanni vínviður

Jesús segir í guðspjallinu sem við heyrðum lesið áðan að hann sé hið lifandi brauð sem steig niður af himni. Og bætir svo við: „ Hver sem etur af þessu brauði mun lifa að eilífu“.

Brauð er oft nefnt á nafn í Biblíunni. Það er tákn fæðunnar sem við þurfum öll til að geta lifað. Í faðir vorinu biðjum við Drottinn um að gefa okkur daglegt brauð. Margir jarðarbúar fá ekki sitt daglega brauð og eru margar ástæður fyrir því. Uppskerubrestur, fátækt, veikindi. Í velferðarsamfélagi nútímans ber á því að fólk hafi ekki nóga fæðu og er það að sjálfsögðu óviðunandi ástand. En það er líka slæmt til þess að vita að samkvæmt könnun sem gerð var hér á landi í fyrra eða hitteðfyrra kom í ljós að helmingur heimila í landinu hendir mat einu sinni eða oftar í viku hverri. Í krónum talið nemur það um 4 milljörðum á ári. Það eru miklar mótsagnir í lífi okkar og samfélagi sem vert er að gefa gaum. Hver einstaklingur er dýrmætur í augum Guðs og Jesús minnir okkur á að allt gott sem við gerum öðrum gerum við honum.

Jesús segir í Matteusarguðspjalli að maðurinn lifi ekki á einu saman brauði heldur á hverju því orði sem fram gengur af Guðs munni. Við þurfum svo sannarlega á líkamlegri næringu að halda allt frá fyrstu andartökum lífsins. Móðirin nærir barnið sitt sem dafnar og vex af brjóstagjöfinni. En eins og barnið þarnast umhyggju og ástar þarfnast fullorðið fólk þess sama. Við köllum það oft andlega næringu, en sú næring fæst með því að komast í snertingu við fegurð og kærleika. Í þessu húsi er andlega næringu að fá, bæði af lesnu Orði, söng, bæna iðju og þeirri blessun sem Guð einn veitir. Andlega næringu er líka að fá í góðra vina hópi, á listviðburðum og annars staðar þar sem mannshugurinn og höndin hafa gengið kærleikanum og fegurðinni á hönd.

Í kvöld er okkur boðið til veislu hér í Breiðholtskirkju. Í 25 ára afmælisveislu kirkjunnar. Gestgjafinn er Drottinn sjálfur, Jesús Kristur, sem bað okkur minnast sín á sérstakan hátt. Ekki með því að gera styttu eða minnismerki heldur með því að koma saman, neyta brauðsins og vínsins. Krjúpa við altarið hans og eiga þar samfélag með honum og fá fyrirgefningu hans. Þannig fáum við nýtt tækifæri til að takast á við lífið því fyrirgefning þýðir að hið gamla er farið og við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því meir og hið nýja er ókomið, blessunarríkt, í trausti þess að Jesús gengur okkur við hlið. Við erum ekki óhult fyrir því sem gerir okkur lífið leitt, en við megum vera þess fullviss að við þurfum ekki að takast á við það ein, heldur í samfélagi við Jesú, sem sagði: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir hefur eilíft líf. Ég er brauð lífsins”. “Ég er hið lifandi brauð sem steig niður af himni. Hver sem etur af þessu brauði mun lifa að eilífu. Og brauðið er líkami minn sem ég gef heiminum til lífs.“

Þessi orð sagði Jesús áður en hann tókst á við illskuna og allt það versta er mannlegur máttur sýnir.

Föstudagurinn langi nálgast, en það gera líka páskarnir sem láta okkur muna það að lífið er sterkara en dauðinn, kærleikurinn sterkari en illskan, blessunin ofar bölinu.

Þegar Jesús talar um eilífa lífið er hann að tala um líf sem er mettað návist Guðs, þar sem kærleikur hans er allt í öllu, umvefur, gagntekur og umskapar allt. Sá sem þiggur þann kærleika hér og nú á þegar lífið eilífa, er stiginn yfir frá dauðanum til lífsins. Upprisan er merki þess að Guð þekkir okkur, hefur skrifað nafn okkar í lífsins bók í skírninni. "Ég kalla þig með nafni, þú ert minn," segir hann. Hvort sem dagar okkar eru bjartir eða dimmir sér hann okkur, við veljum hvort við viljum koma auga á hann.

Við eigum að lifa lífinu lifandi, því dauðinn er líka hér hjá okkur. Dauðinn er ekki bara til þegar hjartað hættir að slá, heldur hvar sem bölið býr. Það er þar sem styrjaldir geisa, fíknin stjórnar, eigingirni ræður för, öfundin ríkir, heiftir lifir.

Við eigum að lifa lífinu í trú. Það þýðir að við eigum að treysta því að hvað sem okkur mætir í þessu lífi þá erum við þekkt af þeim Guði er okkur lífið gaf. Að vera kristinn er ekki það að kunna skil á leyndardómum tilverunnar heldur treysta því að öllu sé borgið, vegna þess að Guð er eins og Kristur birtir hann og boðar. Og í dag megum við hvíla í þeirri vissu að við erum þekkt, en ekki gleymd. Dýrmæt í augum Guðs og mikils virði. Borgarar í ríki Guðs þar sem lífinu er lifað hér og nú og að eilífu fyrir trúnna á Jesú Krist, brauð lífsins. Gleðjumst yfir því, þökkum fyrir það og nýtum okkur það í þágu hins góða og blessaða.

Gleðilega afmælishátíð. Þakkir eru færðar öllum þeim er lagt hafa hönd á plóg í þessum söfnuði, fyrr og síðar. Guð blessi það og launi. Prédikun flutt í Breiðholtskirkju á 25 ára afmæli kirkjunnar, 13. mars 2013. Textar 4. sd. í föstu, 2. Mós. 16:11-18; Fil. 2:1-5; Jóh. 6:47-51.