Streym þú líknarlind

Streym þú líknarlind

„Hvítasunnan er afmælishátíð kirkju Krists á þessari jörð, við fögnum yfir því að kirkjan hefur haldið velli gegnum allar aldir, við gleðjumst yfir því á hvítasunnu, að kirkjan er sannarlega fjöldahreyfing, sem hefur bætt heiminn, hefur orðið til þess að margir hafa tekið til hendinni í nafni kærleikans, að margir hafa séð ástæðu til þess jafnvel að fórna sér fyrir kærleikann, fyrir réttlætið, fyrir sannleikann.“ sagði Jón Dalbú í messu í Hallgrímskirkju á hvítasunnudegi.
fullname - andlitsmynd Jón D Hróbjartsson
15. maí 2005
Flokkar

Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín. Ég mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu, anda sannleikans, sem heimurinn getur ekki tekið á móti, því hann sér hann ekki né þekkir. Þér þekkið hann, því hann er hjá yður og verður í yður.

Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlausa. Ég kem til yðar. Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar. Þér munuð sjá mig, því ég lifi og þér munuð lifa. Á þeim degi munuð þér skilja, að ég er í föður mínum og þér í mér og ég í yður. Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau, hann er sá sem elskar mig. En sá sem elskar mig, mun elskaður verða af föður mínum, og ég mun elska hann og birta honum sjálfan mig. (Jóh. 14.15-21)

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Gleðilega hátíð í Jesú nafni!

Jörðin er full af því sem þú hefur skapað, Guð!

Þú sendir út anda þinn, Drottinn!

Þannig stendur í lexíu dagsins.

Hvítasunnan er hátíð gleði, nýsköpunar. Hátíð birtu, fegurðar og kraftar heilags anda.

Streym þú líknarlind, - þannig sungum við í upphafi messunnar.

Hvítasunnan er afmælishátíð kirkju Krists á þessari jörð, við fögnum yfir því að kirkjan hefur haldið velli gegnum allar aldir, við gleðjumst yfir því á hvítasunnu, að kirkjan er sannarlega fjöldahreyfing, sem hefur bætt heiminn, hefur orðið til þess að margir hafa tekið til hendinni í nafni kærleikans, að margir hafa séð ástæðu til þess jafnvel að fórna sér fyrir kærleikann, fyrir réttlætið, fyrir sannleikann. Hinn rauði litur messuklæðanna á hvítasunnu eiga að minna okkur á blóð píslarvottanna, á baráttu trúarinnar.

3ooo manns voru skírðir á fyrsta hvítasunnudeginum, kirkja Krists var orðin að veruleika. - Allir þeir sem skírast í nafni Guðs, - föður, sonar og heilags anda, eru gróðursettir á Kristi, þeir eru orðnir meðlimir kirkjunnar, þeir hafa öðlast gjöf heilags anda.

Litla barnið sem hér var skírt í dag hefur bæst í hópinn, til hamingju með það. Það er svo tilhlýðilegt að hafa um hönd skírn í hvítasunnumessunni, því hvítasunnan var lengi þessi stóra skírnarhátíð. Talið er að nafnið hvíta-sunna hafi orðið til vegna hvítu skírnarkyrtlanna sem skírnþegar voru klæddir í. Þetta er hvíti sunnudagurinn.

Í gær var opnuð myndlistasýning hér í forkirkjunni og hér fyrir innan altari kirkjunnar, stórfengleg myndverk, sem svo sannarlega eru hvítasunnuverk, hlaðin trúarlegum táknum. Engilfoss heita verkin hér, sem nú eru eins og altaristafla í Hallgrímskirkju og verður það í nokkrar vikur. Myndlistamaðurinn Guðbjörg Lind Jónsdóttir hefur tjáð mér hvernig hún hugsar þessa fossa, - þeir koma að ofan, þeir eiga að minna okkur á miskunn Guðs, náð Guðs sem kemur að ofan. Náð Guðs er ný á hverjum degi, náðin, blessunin streymir fram. Hvað sungum við ekki hér rétt áðan: Streym þú líknarlind. Lindin, vatnið er mjög sterkt kristið trúarlegt tákn. Jesús sagði um sjálfan sig: “ Ég er hið lifandi vatn, og hvern þann sem drekkur af þessu vatni mun aldrei þyrsta að eilífu. Því vatnið sem ég gef honum verður í honum að lind, sem streymir fram til eilífs lífs.” - Og Jesaja spámaður segir fylltur heilögum anda: “Og þér munuð með fögnuði vatn ausa úr lindum hjálpræðisins.”

Myndirnar sem prýða anddyri kirkjunnar eru einnig myndir af vatni og dásamlegri sköpun Guðs í náttúrunni. Það má með sanni segja að þessar myndir allar séu sterk prédikun um sköpun Guðs, um miskunn Guðs sem er nálæg, einmitt hér og nú, þar sem orð Guðs er lesið og boðað, þar sem bænir eru beðnar, þar sem sakramentin eru höfð um hönd. - Himinn Guðs stendur opinn yfir okkur, blessunardaggir guðsríkisins drjúpa yfir okkur.

Einhverju sinni las ég frásögn af aröbum, sem voru á ferðalagi í fjallahéruðum í Frakklandi. Þeir höfðu alist upp á söndugum sléttum Arabíu, þess vegna voru þeir dolfallnir yfir fjöllunum og ekki síst fossunum. Langferðabíllinn stoppaði við háan foss, allir fóru út til að líta fegurðina og hún var að sönnu tignarleg, - nú voru allir komnir inn í rútuna, en arabarnir voru enn við fossinn. Fararstjórinn fór til að ná í þá, en þeir sögðust vera að bíða eftir því að fossinn hætti að streyma, það gat ekki verið endalaust, þessu hlaut að ljúka brátt, - en þá fengu þeir að heyra að fossinn hætti ekki, vatnið héldi áfram að streyma niður, - endalaust. Þetta var eitt af undrum sköpunaraverksins.

Myndverkin hennar Guðbjargar Lindar eiga að minna okkur á þetta, Engilfossinn hættir ekki að streyma, hann er eilífur, hann er tákn um nálægð Guðs hér og nú.

Kirkjulist er okkur gefin til íhugunar og aðstoðar í trúarlífinu. Hér höfum við notið hreinleikans og einfaldleikans þessi 19 ár sem kirkjan hefur staðið hér vígð og tilbúin til guðsþjónustuhalds. Margir hafa lofað þennan einfaldleika, þessa birtu, - og vissulega er það rétt, - þess vegna eru þessi verk kærkomin tilbreyting og nýtt tækifæri til íhugunar og hjálpar til að láta myndverkin minna okkur á einmitt það sem þau tjá, - kærar þakkir.

Jörðin er full af því sem þú hefur skapað, Guð! Þú sendir út anda þinn.

Myndlistin, tónlistin, listsköpunin er gjöf Guðs. Við erum svo heppin hér í kirkjunni að fá að njóta svo óendanlega mikils í þessu sambandi. Myndlistasýningarnar flæða hér út og inn og tónlistin, söngurinn, já jafnvel dansinn, eins og við fengum að njóta hér um daginn, fyllir húsið. Allar þessar listgreinar geta verið farvegur anda Guðs. Guð sendir út anda sinn, hann gerir það m.a. í listinni, svo mikið vitum við, sem hér höfum notið svo ríkulega.

Í vikunni sem leið kom grein í dagblöðunum um rannsókn á bæn, vísindaleg rannsókn á gildi bænarinnar. Þetta hefur síðan mikið verið í umræðunni í borginni hef ég heyrt, fólk hefur rætt þetta og undrast þessi undur og stórmerki, að bænin sé svona kröftug. Þetta er ekki ný frétt fyrir þá sem hafa lært bænarinnar mál, hafa iðkað bænina í lífi sínu. Við þurfum ekki neina könnun á því, þetta er hluti af lífi okkar, þetta er reynsla aldanna, þetta er engilfossinn, sem streymir fram og hefur gefið kirkjunni líf í allar aldir. Jón Gnarr notaði þessa frétt í skrifum sínum í Fréttablaðið fyrir helgina til þess að vitna um mátt bænarinnar í sínu líf, en hann vitnar um að hann hafi farið að iðka bæn fyrir tveimur árum og það hafi bókstaflega breytt öllu hans lífi, falleg játning.

Streym þú líknarlind -

Samfélagið við Guð er líknandi, það er heilsusamlegt, það gefur lífinu gildi, það gefur lífinu tilgang, það gefur lífinu gæði.

Eina setningu úr guðspjalli dagsins vil ég draga fram, en ég hvet okkur öll að taka hana með okkur í huganum, en það eru orðin sem Jesús segir: Ég lifi og þér munuð lifa! - Við megum trúa þessu, við megum treysta þessu. Við þurfum ekki að vera öll steypt í sama mót, við höfum mikið frelsi sem sköpun Guðs, - það er svo gott að vita að hinn upprisni er nálægur, að blessun Guðs er nálæg, að engilfossinn hættir ekki að streyma.

Dýrð sé Guði föður syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.