Línan sem syndarar draga sín á milli

Línan sem syndarar draga sín á milli

Stundum er eins og allir æpi og hrópi dómsorð á samfélagtorginu og sú hætta er alltaf til staðar að við verðum kærleikslausir dómarar. Því skulum við halda fast í orð Jesú og geyma í brjósti okkar: ,,Dæmið ekki“, ,,Sakfellið eigi“.
fullname - andlitsmynd Toshiki Toma
27. júní 2010
Flokkar

Verið miskunnsöm eins og faðir yðar er miskunnsamur. Dæmið ekki og þér munuð eigi verða dæmd. Sakfellið eigi og þér munuð eigi verða sakfelld. Fyrirgefið öðrum og Guð mun fyrirgefa yður. Gefið og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða.“ Þá sagði Jesús þeim og líkingu: „Hvort fær blindur leitt blindan? Munu ekki báðir falla í gryfju? Ekki er lærisveinn meistaranum fremri en hver sem er fullnuma verður eins og meistari hans. Hví sérð þú flísina í auga bróður þíns en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu? Hvernig færð þú sagt við bróður þinn: Bróðir, lát mig draga flísina úr auga þér, en sérð ekki bjálkann í þínu auga? Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns. (Lúk 6.36-42)

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

1. Gleðilega hátíð. Flestir hafa ekki farið varhluta af umræðunni um ,,ein hjúskaparlög“ en þau taka gildi frá og með deginum í dag. Þar með geta samkynhneigð pör gengið í hjónaband rétt eins og gagnkynhneigð pör. Það er fagnaðarefni að flestir í samfélaginu skuli skilja að það eru mannréttindi meðbræðra okkar og systra og eðlileg þróun að fá að ganga í hjónaband. Samfélag okkar er sem betur fer lifandi og tekur breytingum.

En samtímis vitum við að ekki eru allir ánægðir með þessa þróun mála og hafa efasemdir og áhyggjur af þessum degi. Mikil umræða hefur átt sér stað, jafnvel þótt hún hafi verið innan þjóðkirkjunnar, en þar mun umræðan þó verða meiri á næstunni. Kirkjan er samfélag fólks sem á það sameiginlegt að trúa á Jesú Krist en getur engu að síður verið ólíkt innbyrðis. Það getur t.d. haft mismunandi áherslur og mat á málefnum innan kirkjunnar. Þess vegna er stöðug umræða er bæði nauðsynleg og mikilvæg. Í umræðunni, skulum við því halda fast í orð Jesú í guðspjalli dagsins: ,,Dæmið ekki“ og,,Sakfellið eigi“.(Lk. 6:36)

Nú víkjum frá umræðunni um ein hjúkskaparlög og hugsum um hvernig við eigum það til að dæma fólk. Mér virðist oft eins og dómaharka sé mikil í samfélagi okkar. Fólk er fljótt til að dæma aðra, jafnvel opinberlega, án þess að hafa til þess forsendur. Slíka dómhörku má oft upplifa í fjölmiðlum eins og í sjónvarpi og á netinu. Þegar ég segi fólk er ég ekki að undanskilja okkur sjálf. Við dæmum líka aðra, stundum ómeðvitað, þótt það sé ekki opinberlega. Ég myndi flokka þetta undir hið óopinbera dómskerfið þjóðarinnar, ekki dómstólana sem dæma eftir lögum landsins. Svona ,,dómur götunnar“ birtist í daglegu lífi okkar og hegðun. Slíkir dómar tengjast réttlætiskennd einstaklings, siðferði eða trúarlegri sannfæringu.

En í Japan er til málsháttur sem segir: ,,Dæmið glæpræði, en dæmið ekki mann sem framdi glæpinn“. Þetta þýðir að við eigum ekki að dæma persónuleika manneskju út frá einum glæp sem hún framdi. Við eigum að vera víðsýn og leita að mannkostum hennar. Stundum sjáum við fólk, sem hagar sér illa, sýnir af sér vítavert kæruleysi eða er sekt um minniháttar glæp. Þá er réttlætanlegt að dæma atferli fólksins en ekki endilega fólkið sjálft.

Það sama á við þegar skoðanaskipti er að ræða, en ekki glæp, t.d. þegar skipst er á skoðunum við annað fólk eða þegar andmælum er haldið uppi í umræðum eða gagnrýni er tjáð. Þá er mikilvægt að kunna og vita að ekki er verið að leggja dóm á fólkið heldur er verið að takast á um skoðanir, ræða þær málefnalega, þangað til báðir aðilar skilja hinn eins og hægt er og geta komist að niðurstöðu. Málfrelsi er eitt af mikilvægustu réttindunum í lýðræðissamfélagi. Umræður geta oft orðið heitar, en jafnvel þá, eiga þær ekki að eiga snúast um persónuleika þeirra sem tjá skoðun sína.

Hins vegar er raunveruleikinn ekki allt svo einfaldur. Persónuleiki mælanda getur legið að baki ákveðnu viðhorfi. Ef t.d. persónan lýsir yfir miklum kynþáttafordómum, þá getur verið erfitt að aðgreina skoðunina frá persónuleika viðkomandi og ræða innflytjendamál á málefnalegum nótum.

Það má segja hið sama þegar við dæmum gjörning einhvers manns og hegðun. Oftast dæmum við ekki aðeins gjörninginn eða hegðunina, heldur ,,manneskjuna sem heild“. Þegar við komumst að því að manneskja hafi logið að okkur, þá dæmum við líklegast ekki aðeins um þá lygi, heldur líka persónuleika manneskjunnar. Þá er einnig erfitt að hugsa um ofbeldi manns án þess að dæma persónuleika viðkomandi. Ef málið varðar persónuleika manneskjunnar, nefnilega manneskjuna sjálfa, breytist sá dómur sem við gefum henni ekki svo auðveldlega. Hann varir lengi. Afleiðingar þess að dæma einhvern eru tvenns konar. Í fyrsta lagi varða þær persónuleika manneskjunnar, og í öðru lagi dómurinn breytist næstum aldrei og er lokaálit ,,viðkomandi dómara“ á manneskjunni.

2. En hvort sem okkur líkar það betur eða verr – þá er nánast óhjákvæmilegt að við dæmum manneskju sem við verðum vitni að sýni af sér slæma hegðun eða glæp. Það er jafnvel nauðsynlegt ef við viljum skapa réttlátt og ábyrgt samfélag. Hvað er þá svona slæmt að dæma annað fólk? Er nokkur hætta til staðar? Hvers vegna segir Jesús: ,,Dæmið ekki og þér munuð eigi verða dæmd. Sakfellið eigi og þér munuð eigi verða sakfelld“? Á þá ekki hver sem hagar sér ósæmilega, brýtur á annarri manneskju eða samfélaginu, skilið að fá dóm, dóm götunnar? Er það ekki ákveðið félagslegt taumhald? Eins og ég sagði áðan, þegar við dæmum einhvern, dæmum við hann í samræmi við réttlætiskennd okkar, siðferði eða trúarlega sannfæringu. Sérhver dæmir eftir sínu gildismati. Sérhvert okkar er manneskja sem sakar, er verndari jafnframt því að vera dómari. Við getum sakað einhvern eins mikið og við viljum, verndað eins lítið og við viljum og dæmt eins og við viljum.

Við vitum öll af þessum dómstóli sem býr innra með okkur og við vitum líka að ef við segjum frá dómum okkar gætu viðbrögðin orðið margvísileg. Dómur gæti verið samþykktur af samferðarmönum okkar eða gagnrýndur. Það er val hvort við segjum frá dómum okkar eða ekki. Ef við geymum dóm aðeins innra með okkur, verður hann okkar einkamál og enginn annar þarf að vita hann það sem eftir er ævinnar. Ef ég er t.d. búinn að dæma vin minn sem svikara, gæti hann orðið það alla ævi í mínum huga. Ef ég segi vini mínum frá dómi mínum, þá gæti hann komið til mín og beðið afsökunar. En ef ég segi ekki neitt þá mun vinur minn ef til vill aldrei vita að ég hef dæmt hann. Í því tilfelli, dreg ég línu milli mín og vinar míns og gef honum ekki einu sinni tækifæri til að biðjast afsökunar, og það sem meira er, þá gef ég sjálfum mér ekki tækifæri til þess að leita sátta við hann.

Þegar ég var að hugleiða fyrir þessa prédikun fékk ég óvæntan tölvupóst. Það var skemmtileg tilviljun en pósturinn var frá samtökum kennara í Bandaríkjunum sem dreifa út lesefni til barna. Í sendingunni sem ég fékk stóð smásaga með yfirskrift ,,Justice“ eða Réttlæti.

Sagan var svona: Í skólabekk nokkrum voru tveir strákar sem ollu sífelldum vandræðum og voru kennaranum erfiðir. Daginn áður hafði kennarinn séð að strákarnir tóku unga úr hreiðri og drápu hann. Í kennslutíma daginn eftir spurði kennarinn bekkinn hvað réttlæti væri. Nemendurnir tóku sér góða umhugsun en strákarnir tveir vildu svara: ,,Réttlæti er það sem kemur til manns. Ef einhver drepur lítinn unga, þá verður hann að taka afleiðingum gjörða sinna“. En strákarnir sáu ekki eftir neinu, þeir voru bara að þykjast til þess að pirra kennarann. Kennarinn gafst upp og sagði að tíminn væri búinn. Strákanum fannst það leiðinlegt og reyndu að endurtaka prakkarastrikið og veiða annan unga. Þegar strákarnir komu að hreiðrinu, birtust skyndilega stórir fuglar og hefndu sín á strákunum vegna ungans. Kennarinn sá atvikið og varð ánægður þegar hann sá þá ganga í burtu. ,,Já, þessu var ég að bíða eftir, réttlætinu,“

Skilaboðin sögunnar er þau að slæm hegðun kemur alltaf í bakið í gerandanum. Það er mikilvægt að hafa það í huga. En ég var alls ekki sáttur við hvernig sagan þróaðist þegar ég las hana. Mér fannst skelfilegt að kennarinn skyldi gefast upp og dæmt strákana eins og þeir væru ekki mannlegir og gætu ekki lært að sýna umhyggju. Þar að auki varð kennarinn ánægður þegar hann taldi hina stóru fugla hafa hefnt sín á þeim og taldi það væri ,,réttlætið“. Að mínu mati stóð kennarinn frá upphafi hérna-megin, á meðan vandræðastrákanir voru þarna-megin, og þannig dró hann línu á milli sín og strákanna. En megum við draga línu meðal okkar manna svo auðveldlega?

3. ,,Dæmið ekki og þér munuð eigi verða dæmd. Sakfellið eigi og þér munuð eigi verða sakfelld“. Það sem Jesús segir hér er ekki að við skulum fara fram hjá því þegar einhver gerir eitthvað vont svo að við getum gert eitthvað vont líka. Í guðspjalli dagsins, sem heild, leggur Jesús áherslu á að við erum öll bræður og systur og því við stöndum jafnfætis þegar við fæðumst. Í því samhengi, kennir hann okkur að við megum ekki dæma systkini okkar eins og þau væru aðrar tegundir af manneskjum. Við erum öll jöfn sem syndarar. Við erum öll jöfn sem þiggjendur náðar Guðs vegna kross Jesú Krists. Við megum ekki gleyma því. Þótt við verðum að dæma einhvern mann, þá þýðir það aldrei að við erum annars konar manneskjur en sú sem er dæmd, a.m.k. erum við þau sömu fyrir augum Guðs.

Þegar við dæmum annað fólk er hættan sú að við teljum okkur smám saman geta nálgast sæti Guðs, jafnvel ómeðvitað og misskilið, líkt og að taka yfir hlutverk Guðs og gefa manneskju endanlegan dóm. Þegar við reynum að taka hlutverk Guðs sem dómara að okkur, viljum við gjarnan draga línu milli okkar sjálfra og viðkomandi sem eiga að fá dóm. Þetta er alveg eins og kennarinn í smásögunni sem ég sagði frá. Það er oft undarlegt hversu oft og mikið manneskjur vilja draga línu á milli sín og annarra: „Ég er ekki í sömu stétt og þú“, ,,Ég er sannarlega með Guð, en ekki þú“. Slíkt er, með öðrum orðum, að útiloka manneskju úr lífi sínu, nokkuð sem Jesús gerði aldrei í jarðneskju lífi sínu og gerir aldrei eftir að hann fór til himna.

Stundum þurfum við að dæma einhvern í kringum okkur. En þegar við dæmum, dæmum sem sömu syndarar og sá sem er dæmdur. Við neitum ekki persónuleika annarar manneskju algerlega vegna þess hve hún er ófullkominn. Munum einnig að dómur sem við fellum er aldrei endanlegur. Við eigum alltaf að vera opinn fyrir því að endurskoða dóminn, vera opinn fyrir fyrirgefningu og sátt við viðkomandi manneskju. Við eigum ekki að draga línu. Áðan orðaði ég tvö einkenni dóms: annað er að dómur varðar persónuleika mannseskju og hitt er að dómur breytist ekki auðveldlega. Því ef við dæmum manneskju en berum samt ákveðna virðingu fyrir persónuleika hennar og erum opin fyrir möguleika á fyrirgefningu og sátt, þá gæti runnið upp sú stund að okkar mati ekki er lengur ástæða til að dæma.

,,Dæmið ekki og þér munuð eigi verða dæmd“. Orð Jesú er viðvörun um að ef við byrjum að dæma fólk eins og við værum Guð og gleymum því að við erum syndarar sjálf. Við búum í samfélagi í sérstökum aðstæðum núna, sem oft er dómhart og manneskjurnar dæma hver aðra. Stundum er eins og allir æpi og hrópi dómsorð á samfélagtorginu og sú hætta er alltaf til staðar að við verðum kærleikslausir dómarar. Því skulum við halda fast í orð Jesú og geyma í brjósti okkar: ,,Dæmið ekki“, ,,Sakfellið eigi“. Friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, varðveiti hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú. Amen.