As-salamu alaykum

As-salamu alaykum

Okkar er að elska og það gerum við með því að stöðva ofbeldið, styðja þau sem hafa orðið fyrir barðinu á því og með því að leyfa hatrinu ekki að komast að. Neskirkja hefur tekið höndum saman við múslima við að gleðjast yfir því sem gerir okkur ólík og biðja um þann frið sem trú okkar beggja boðar.

Það eru að verða vatnaskil. Sú ögurstund þegar straumurinn fer að renna í aðra átt en komið hefur okkur í þann farveg sem við nú sitjum föst í. Á vatnaskilum virðist straumnum ekkert miða áfram, vatnið safnast saman í pollum á jafnsléttu og safnar óhreinindum. En vatnaskil eru engu að síður sá vendipunktur sem breytir því í hvaða átt straumurinn berst og sá tímapunktur, sá staður þar sem hægt er að hafa áhrif og breyta straumi sögunnar.

Ég er að tala um nýliðna atburði í París, þau voðaverk sem framin hafa verið í nafni alræðisstefnu Íslamista og það tilgangslausa ofbeldi sem þar birtist. Tilgangslausu ef við leyfum ekki þeim sem þar voru að verki að ná ætlunarverki sínu.

Með nokkurri einföldun má segja að fram undir síðustu aldarmót hafi umræða um stjórnmál verið blind á þann þátt sem að trúarbrögðin spila í framgangi sögunnar, sem verður að teljast merkilegt í ljósi þeirra átaka um trúarhugmyndir sem 20. öldin leiddi af sér. Alræðisstefnur kommúnismans einsettu sér að útrýma trúarlegri iðkun í samfélagstilraunum sínum, átökin á Norður-Írlandi og í miðausturlöndum hverfðust um trúarlegar línur og harmleikurinn í fyrrum Júgóslavíu ætti að vera víti til varnaðar um hvert andúð í garð múslima getur leitt okkur.

Þann 11. september 2001 vöknuðu Vesturlönd upp við vondan draum og fræðimenn á sviði stjórnmálafræði og fréttaskýrendur hættu loks að líta á trúarhefðir sem afgangsstærð í umfjöllun sinni. Þvert á móti fá trúarbrögð mikið rými í umfjöllun fjölmiðla og erlendis er nú orðið venja að skilgreina fólk út frá trúarhefð þeirra frekar en þjóðernisuppruna, líkt og venja var á liðinni öld.

Aukin umfjöllun hefur hinvegar ekki einungis verið til góðs því þeirrar tilhneigingar gætir, bæði í erlendum sem innlendum fjölmiðlum, að gefa viljandi skakka mynd af trúarhefðum. Alhæfingar út frá einstökum atburðum eru algengar, sem og sú tilhneiging að setja öll trúarbrögð undir sama hatt. Slíkar fullyrðingar um hugmyndafræði og stefnur stjórnmálaflokka yrðu aldrei taldar gjaldgengar í opinberri umræðu.

Múslimar um allan heim sitja undir þeirri ásökun að fremja sjálf eða styðja með átrúnaði sínum hryðjuverk og andúð í þeirra garð fer vaxandi. Það óttast Íslamistar ekki, þvert á móti er það eitt af markmiðum hryðjuverka á borð við þau sem áttu sér stað um liðna helgi, að reka fleig á milli múslima og annarra í Vestrænum samfélögum.

Með því er samfélaginu stillt upp við vegg og heimsmynd Íslamista um að múslimar geti ekki lifað í friði í lýðræðissamfélögum er þröngvað inn í umræðuna með blóði saklausra fórnarlamba.

Það er, nema að við tökum höndum saman um að leyfa því ekki að gerast. Fyrir örfáum árum þótti það sjálfsögð sannindi að karlmenn væru upp til hópa hættulegir sökum kynhvatar sinnar og konur ættu því að klæða sig siðsamlega til að æra ekki óstöðuga. Mikill meirihluta karlmanna kannast ekki við þörfina til að fremja kynferðisofbeldi og konur hafa loks fengið nóg af því að þurfa að fela sig af ótta við að verða fórnarlömb ofbeldis. Skömminni hefur verið skilað til þeirra hlutfallslega fáu karla sem beita kynferðisofbeldi og karlar jafnt sem konur sameinast um að standa vörð um frelsið til að klæða sig og tjá kyngervi sitt blygðunarlaust.

Í samhengi trúarhefða hefur sambærileg þróun ekki átt sér stað, múslimum er eignað ofbeldistilhneiging sem fæstir kannast við í trúarhefð sem kennir sig við frið og í stað þess að umfaðma fjölbreytileika trúarhefða, hafa Vesturlönd með ólíkum hætti lagst gegn tjáningu þeirra. Engin lýðræðisþjóð hefur gengið lengra við að skerða tjáningafrelsi trúarhefða en Frakkar, sem með lagasetningu banna múslimum að bera slæðu og gyðingum kollhúfu í skólum og öllum að bera klæði sem hylja ásjónu.

Jaðarsetning trúarhefða er ekki lausnin og samfélag sem elur á óþoli í garð trúarskoðana mun lenda í átökum, eins og sagan hefur ítrekað kennt okkur með skelfilegum afleiðingum.

Hermdarverkin í París snúast um að stilla samfélaginu upp við vegg. Að hræða og að hæða, þau lífsgildi og það frelsi sem Vesturlönd vilja kenna sig við, og ef við leyfum því að leiða til haturs – þá vinna þeir.

Á samfélagsmiðlum ganga nú ótrúleg skilaboð frá einum af fórnarlömbum árásanna. Antoine Leiris missti konu sína Muyal á tónleikum sveitarinnar Angels of Death Metal og hún skilur eftir sig 17 mánaða son, Melvil.

Antione segir:

Á föstudagskvöld tókuð þið einstakt mannslíf – ástina í lífi mínu, móður sonar míns – en þið fáið ekki hatur mitt. Ég veit ekki hver þið eruð og ég vil ekki vita það, þið eruð dauðar sálir. Ef þessi Guð, sem þið drepið fyrir í blindni, skapaði okkur í sinni mynd, þá væri hver byssukúla í líkama konu minnar sár í hjarta hans.

Svo, nei, ég mun ekki láta ykkur eftir hatur mitt. Þið biðjið um það, en það að svara hatri með reiði er að falla í gryfju sömu fáfræði og þeirri sem gerði ykkur að því sem þið eruð. Þið viljið mig hræddann, að ég líti samborgara mína með ótta, að ég fórni frelsi mínu fyrir öryggi. Þið hafið tapað.

Ég fékk að sjá hana í morgun. Loksins, eftir daga og nætur af bið. Hún var jafn falleg og þegar hún kvaddi mig á föstudagskvöld, jafn falleg og þegar ég varð yfir mig ástfangin af henni fyrir 12 árum síðan. Að sjálfsögðu er sársauki minn óbærilegur, ég gef ykkur þann sigur, en sá sársauki mun vara skammt. Ég veit að hún verður með okkur alla dag og að við munum hittast á ný í þeirri paradís frelsis og ástar, sem þið hafið engan aðgang að.

Nú erum við bara tveir, sonur minn og ég, en við erum sterkari en allar hersveitir heimsins. Ég hef ekki meiri tíma til að sóa á ykkur, ég þarf að vera með Melvil, sem er að vakna af blundi sínum. Hann er tæplega 17 mánaða. Hann mun borða máltíðir sínar að venju, og síðan munum við leika að venju, og lífið á enda mun þessi litli drengur vera ykkur ógn með hamingju sinni og frelsi. Vegna þess að – nei - þið munuð ekki eignast hatur hans heldur.

Það eru að verða vatnaskil. Skilaboð þessa merkilega manns eru til vitnis um það. Heimurinn er nú minni en nokkru sinni í mannkynssögunni. Ég get í símanum mínum spjallað við vinkonu mína í Úganda á Facebook, hún í sveitaþorpi hinum megin á hnettinum og ég í Vesturbæ Reykjavíkur.

Andstæðingar fjölmenningar gera sér ekki grein fyrir því að landamæri heimsins hafa þegar verið rofin og heimurinn er nú minni en nokkru sinni fyrr í mannkynssögunni.

Nýjir farvegir hafa verið ræstir fram og það skiptir höfuðmáli í hvaða átt við beinum straumnum. Í dag er síðasti sunnudagur kirkjuársins og komandi sunnudag hefst nýtt kirkjuár, með biðinni eftir komu Jesúbarnsins inn í þennan heim. Að því tilefni eru lesnir textar sem með hreinskiptin boðskap

Dagur reiðinnar er viðfangsefni Annars Pétursbréfs, sá dagur þegar reiði Drottins er leyst úr læðingi og dómur hans nær fram að ganga.

Eitt af merkilegustu siðaboðunum í kennslu Jesú er sú hugmynd að undir engum kringumstæðum sé það réttlætanlegt að hefna fyrir það ofbeldi sem framið er, heldur eigum við að elska óvini okkar og biðja fyrir þeim sem ofsækja okkur.

Andspænis slíkum siðaboðskap má spyrja hvað ber að gera við reiðina og hvernig eigi að greiða fyrir það ofbeldi sem við erum beitt. Reiðina orðum við og vinnum úr en eftirlátum Guði að jafna um þær sakir sem ódæðismennirnir hafa unnið til.

,,Sannlega, sannlega segi ég yður: Sú stund kemur og er þegar komin að hinir dauðu munu heyra raust Guðs sonarins og þeir sem heyra munu lifa. Eins og faðirinn hefur líf í sjálfum sér þannig hefur hann og veitt syninum að hafa líf í sjálfum sér. Og hann hefur veitt honum vald til að halda dóm því að hann er Mannssonur.”

Okkar er að elska og það gerum við með því að stöðva ofbeldið, styðja þau sem hafa orðið fyrir barðinu á því og með því að leyfa hatrinu ekki að komast að.

Komandi laugardag verður haldin í Neskirkju hátíð, þar sem ást og virðing mun leysa hatrið af hólmi, en Neskirkja hefur tekið höndum saman við múslima í Félagskapnum Horizon um að halda Ashura hátíð að tyrkneskum sið.

Á hátíðinni verður borið fram það besta sem þessar ólíku trúararfleifðir hafa upp á bjóða. Horizon leggur til íslamska matargerð, bænadans að sið Súfista og tyrkneska Ebru málun og frá Neskirkju syngur kórinn valda sálma og lög, æskulýðsfélagið NeDó stígur á stokk og biskup Íslands mun bera fram friðarorð.

Ástin eini farvegurinn sem er fær. Árvegir andúðar, fordóma og útskúfunar hafa ávallt skilað meiri átökum. Nægu blóði hefur verið spillt og nógu margir þjáðst vegna þeirra fordóma í garð trúarhefða og menningararfleifðar sem gerist æ háværarri í umræðunni. Tökum höndum saman við múslima í samfélagi okkar við að gleðjast yfir því sem gerir okkur ólík og biðja um þann frið sem trú okkar beggja boðar.

As-salamu alaykum – Friður sé með yður