Guð blessi Ísland

Guð blessi Ísland

Þegar horft er í skugga hrunsins á ,,gróðaærið,“ sem leiddi til þess, kemur fram að leiðsögn hans og lífsgildi voru sjaldan stefnumarkandi enda jókst misskipting, kaldlyndi og hirðuleysi um farnað smælingjanna í samfélaginu og víðar í veröldinni.

Guðspjall: Mark 10.17-27 Þegar Jesús var að leggja af stað kom maður hlaupandi, féll á kné fyrir honum og spurði hann: „Góði meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“ Jesús sagði við hann: „Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn. Þú kannt boðorðin: Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður.“ Hinn svaraði honum: „Meistari, alls þessa hef ég gætt frá æsku.“ Jesús horfði á hann með ástúð og sagði við hann: „Eins er þér vant. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“ En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur enda átti hann miklar eignir. Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: „Hve torvelt verður þeim sem auðinn hafa að ganga inn í Guðs ríki.“ Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú en hann sagði aftur við þá: „Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“ En þeir urðu steini lostnir og sögðu sín á milli: „Hver getur þá orðið hólpinn?“ Jesús horfði á þá og sagði: „Menn hafa engin ráð til þessa en Guði er ekkert um megn.“

,,Guð blessi Ísland,“ Svona og með áþekkum hætti hefur verið beðið hér í lágreistri Krýsuvíkurkirkju á fyrri tíð, þegar fólk bjó hér í sveit og sótti sér ljós og leiðsögn í heilagt hús í umskiptum daga og árstíða. Þannig hefur verið beðið fyrr og síðar í íslenskum kirkjum fyrir landshag og heillum, beðið um blessun Guðs óvissa veginn fram, þegar vetur var í nánd og einnig þegar birti aftur af nýju vori í þeirri trú, von og vitund að blessun Guðs nærði lífið og án hennar fengi það ekki framgang.

,, Guð blessi Ísland.“ Þessi sjálfsagða og innhaldsríka bæn tengist þó nú um stundir hruni banka og fjármálastofnana sem varð fyrir réttu ári. Fyrrum forsætisráðherra þjóðarinnar endaði ávarp sitt til hennar, þegar hann tilkynnti hvernig komið væri og að hætta væri jafnvel á þjóðargjaldþroti, ef illa færi, með því að sega og biðja: ,,Guð blessi Ísland.“ Mörgum varð hvert við og þótti sem þjóðarskútan væri að sökkva og vart björgunar von. Hann hafði þó hvatt til þess að gæta að þeim lífsgildum, sem helst stæðust gjörningaveður, sýna æðruleysi og samstöðu og glata ekki von og bjartsýni.

Ný íslensk kvikmynd var frumsýnd fyrir skömmu, sem lýsir þjóðfélagsástandinu eftir hrun og ber einmitt heitið ,,Guð blessi Ísland.“ Hún birtir samfélagsólgu og átök, sem urðu eftir áfallið, þegar hlutabréf gufuðu upp og fé í ávöxtunarsjóðum, fasteignir hríðféllu í verði og fyrirtæki, fjölskyldur og einstaklingar komust í þrot vegna aukinna skulda og atvinnuleysis.

Kaupahéðnar og útrásarvíkingar vöktu fyrir hrunið aðdáun og öfund fyrir framsækni sína og árangur. En þeir urðu þjóðníðingar í augum okkar, sem fylgt höfðum lífstakti, auglýsingum og forskriftum þeirra um ávöxtun fjár og þóttumst illa blekkt, þegar sjónarspilið féll um koll í sviptibyljum alþjóðlegrar fjármálakreppu og hermdarverka breskra stjórnvalda.

Víkingarnir koma mis vel fyrir í kvikmyndinni og af þeim er augljóslega dregið. Röskur flutningabílstjóri er í mun stærra hlutverki. Hann missir vinnuna, tekur þátt í andmælunum við Austurvöll og eigir von um þingsæti í alþingiskosningum, þegar ráðþrota ríkisstjórn hrekst frá, en hann fer sjálfur úr landi eftir að flokkur hans fært lítið kjörfylgi. Sérkennileg kona, sem rekur nornabúð, lætur líka að sér kveða og beitir gjörningum og göldrum til að hrekja seðlabankastóra og ríkistjórnina frá. Hávaxnir feðgar í lögreglunni eru ekki síður áberandi í myndinni. Þeir hafa mikla samúð með mótmælendunum, þrátt fyrir hávaðann og skemmdarverkin, sem þeir valda, og halda rósemi sinni og lífsgleði hvað sem á dynur enda þekkja þeir og tilbiða þann lifanda Guð er endurnýjar ásjónu jarðar í Jesú nafni. Þegar horft er í skugga hrunsins á ,,gróðaærið,“ sem leiddi til þess, kemur fram að leiðsögn hans og lífsgildi voru sjaldan stefnumarkandi enda jókst misskipting, kaldlyndi og hirðuleysi um farnað smælingjanna í samfélaginu og víðar í veröldinni. Sérhyggja, græðgi og siðleysi tóku völdin enda virtist nær allt vera falt fyrir fé og mestu skipta að kunna að vinda upp gróða og hagnaðartölur.

Kreppan sem skekur stoðir líkt og beljandi stormur, sem rýfur upp feyskin tré, knýr á um víðtækar breytingar og mikilvægt er að nýta tækifærin, sem gefast til að bæta viðskipta -og samfélagshætti. Þrengingarnar hafa dregið fram nauðsyn og gildi samfélagslegrar ábyrgðar, umhyggju og samkenndar í endurreistu og betrumbættu samfélagi.

Ritningarorð og Guðspjall dagsins tala með eindregnum hætti inn í þessar aðstæður. Þjónustan við Guð og sköpun hans er öllu þýðingarmeiri, vitundin um hann og vilja hans, því að,, honum heyrir himininn og himnanna himinn og jörðin og allt sem á henni er “, svo sem fram kemur í lexíunni. „ Myrkrið er að hverfa og hið sanna ljós er þegar farið að skína“, segir í pistlinum. En ekki er hægt að segjast vera í ljósinu og ala hatur í hjarta, því að það myrkvar sýn og blindar í stað þess að lýsa réttan veg.

Guðspjallið dregur fram andstæður ríkidæmis og fátæktar og afstaða frelsarans er tvímælalaus. Hann bendir á, að himneskra farsjóða sé aflað með því að miðla fátækum af jarðneskum gæðum, og telur það augljóslega góða fjárfestingu að breyta jarðneskum efnum í himnesk verðmæti enda varanlegri en sá auður er mölur og ryð granda.

Maðurinn, sem kemur hlaupandi til Jesú, fer af fundi hans dapur í bragði. Aðrir komu til hans niðurbeygðir og daprir, sjúkir og vanmegna og þáðu af honum lækningu, uppörvun og styrk. Hann kemur fullur áhuga og atorku en fer hryggur frá meistaranum af því að hann treystir sér ekki til að uppfylla það skilyrði, er Jesús setur honum að feta veginn í fórnfúsum kærleika til þess lífs, sem Guði er bundið og eilífð hans. Ég sé þessi samskipti fyrir mér út frá áleitnu miðalda málverki, sem ég eignaðist í eftirprentun, innrammað, fyrir fáeinum árum. Svipur Jesú er hlýr og einbeittur. Viðmælandi hans er ungur maður, skartklæddur. Í fjarska, handan við horn, gefur að líta nauðstatt og vanmegna fólk. Sá auðugi hafði gætt að lífsreglum og boðum Guðs sem segja, þú skalt ekki gera þetta eða hitt, ekki stela, ekki bera ljúgvitni. En það er ekki nægilegt til að rata réttan veg að eilífu lífi, ef mið er tekið af gullnu reglu Jesú, sem segir: ,, Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ Viðmælandi Jesú var ekki við því búinn að setja sjálfan sig í spor fátækra og snauðra og sjá frá stöðu þeirra og kjörum hvað gera bar. Hvað vildi hann að gert væri við sig, væri hann sjálfur þurfandi? Rétt breytni snýst ekki um það helst að láta eitthvað ógert heldur að hafa frumkvæði og skapandi kraft til góðs og sýna umhyggju og elsku að fyrra bragði.

Innra með sér vissi hinn velstæði ungi maður að honum væri einhvers vant. Hann kom naumast til þess að fá það einfaldlega staðfest að hann ætti þegar eilífa lífið. Viðbrögð Jesú slá á ákafa hans og tilfinningahita. Jesús vill þó ekki beina athyglinni að sér eins og hann réði í eigin mætti yfir gæsku Guðs og eilífð hans. ,,Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn“, segir Jesús, ef til vill til að vekja trú hins ákafa manns á það, að hann, Jesús, sé í raun frelsarinn útvaldi, sem beri mynd Guðs á jörðu og því marktækur að öllu leyti. ,, Eins er þér vant“, segir Jesús ástúðlega til þess að glæða löngun hans og þrá til að stíga skrefið og losa um fjötra auðsins. ,,Far þú og sel allt og gef fátækum.“ Krafan er róttæk um að láta frá sér öryggi og velferð og gefast óvissunni á vald og reyna jafnvel sjálfur hlutskipti hinna fátæku. Og þrátt fyrir fyrirheit um himneska fjársjóði leggur hann ekki í það að fylgja Jesú upp á svo ótrygg býti og kjör. Hann áttar sig ekki á því, að allar eigur hans eru lán frá Guði, sem hann getur afhent til góðs í trúartrausti og vissu um það, að Guð ávaxti þær vel fyrir hann.

Hvers vegna er svo erfitt fyrir auðmenn að ganga inn í Guðs ríki? Vegna þess, að þeir reiða sig oft algjörlega á auðinn og bindast honum á kostnað alls annars, líka Guðs og þurfandi náunga. Lærisveinar Jesú eru furðu lostnir, því að Jesús hefur endaskipti á viðteknum hugmyndum. Samkvæmt trúarhefð þeirra var auður tákn um blessun Guðs. En Jesús bendir á hætturnar af veraldar auði og efnisgæðum. Þau binda hjarta og huga við jarðneskan veruleika svo að hagsmunir verða þessa heims fyrst og fremst. Hætt er við, að allt sé þá metið til fjár og verðmiði settur á hvað eina svo sem tíðkaðist í hrundu græðgisamfélagi okkar. Var ekki samviskan verðlögð þar og lífið líka? Verð, er reyndar ekki hið sama og gildi og verðmæti. Til eru verðmæti sem ekki verða metin eða keypt fyrir fé. Sönn ást og vinátta eru ekki föl eða verða keypt.

Auðugur maður verður að lyktum dæmdur og metinn af því tvennu; hvernig hann eignaðist auðæfin og því hvernig hann ver þeim. Líkingin af úlfaldanum, sem á auðveldara með að fara í gegnum nálarauga en auðmaður að komast inn í Guðs ríki, er sláandi og furðuleg, en hún getur átt sér nærtæka skýringu í því, að eitt af hliðum Jerúsalemborgar nefndist Nálarauga. Það var svo mjótt, að klyfjaður úlfaldi komst ekki í gegnum það. Fyrst þurfti að taka byrðina ofan af honum áður en hann gat smeygt sér í gegn. Samkvæmt þessu þarf hinn auðugi að losa sig við klyfjar auðsins til þess að komast inn í ríki Guðs. Það reynist mörgum þrautin þyngri.

Samt er það hægt, vegna þess að Guð kemur til móts við menn. Hefði ungi maðurinn hætt á að þiggja boð Jesú, hefði hann áttað sig á gildi þess að eiga hann að og fylgja honum. Sú er merking fagnaðarerindis frelsarans krossfesta og upprisna, að við frelsumst ekki fyrir eigin verk þótt þýðingarmikil séu heldur fyrir það að fylgja honum í trú og láta áhrif hans og anda verka á okkur og gegnsýra og móta viðhorf og verk.

Hvernig gerum við það í áföllum og ólgusjóum kreppunnar? Hvernig losum við klyfjar hennar og þyngsli? Með því að bera og axla þær saman og finna leiðir til þess að draga úr þeim. Ekki er réttlætanlegt að greiða Icesave- skuldir með óbærilegum kjörum og þiggja þvingandi lánafyrirgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, lami hún velferðarþjónustuna og leiði til þess, að við sem þjóð glötum forsjá yfir auðlindum og gæðum landsins. Og endurreisnin getur ekki byggst á fjármálakerfi, sem fer í áþekkt far og fyrr og þjónar sérhagsmunum fremur en þjóðarheill.

Krýsuvíkurkirkja minnir á fyrri tíð og oft erfiða lífsbaráttu fyrri kynslóða og jafnframt á þau kristnu viðmið og lífsgildi sem glæddu þeim lífskjark og kærleika. Hér fengu þær næringu og styrk í orði Guðs og blessun hans. Farsæl endurreisn samfélagsins eftir efnahagshrun felst í siðferðilegu afturhvarfi og endurnýjun raunsannra og heilbrigðra lífsgilda sem setji mark sitt á fyrirtæki og stofnanir, samskipti og samfélag.

Endurreisnin tekst og verður til heilla, ef hverfull auður og efnisgæði nýtast til þess að líkna og liðsinna fátækum, særðum og þjáðum, svo að þau umbreytist í himneska fjársjóði í Jesú nafni. Sé einlæglega að því stefnt, getum við sagt í kærleika, von og trú: ,,Guð blessi Ísland“ og munum vissulega reyna það.