Frelsa oss frá illu

Frelsa oss frá illu

Það sem ég geri verð ég að gera í nafni Jesú Krists. Allt sem ekki er unnt að gera í hans nafni ætti ég að láta ógert. En stundum gleymist hinn góði ásetningur. Við gleymsku og vanrækslu hefur kristið fólk alla tíma mátt glíma. Hinn mannlegi þverbrestur er erfiður viðfangs og seintekinn í burtu.

Þá leiddi andinn Jesú út í óbyggðina til þess að djöfullinn gæti freistað hans. Þar fastaði Jesús fjörutíu daga og fjörutíu nætur og var þá orðinn hungraður. Þá kom djöfullinn og sagði við hann: „Ef þú ert sonur Guðs þá bjóð þú að steinar þessir verði að brauðum.“ Jesús svaraði: „Ritað er: Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði heldur á hverju því orði sem fram gengur af Guðs munni.“ Þá tekur djöfullinn Jesú með sér í borgina helgu, setur hann á brún musterisins og segir við hann: „Ef þú ert sonur Guðs þá kasta þér ofan því að ritað er: Hann mun fela þig englum sínum og þeir munu bera þig á höndum sér að þú steytir ekki fót þinn við steini.“ Jesús svaraði honum: „Aftur er ritað: Þú skalt ekki freista Drottins, Guðs þíns.“ Enn tekur djöfullinn hann með sér upp á ofurhátt fjall, sýnir honum öll ríki heims og dýrð þeirra og segir: „Allt þetta mun ég gefa þér ef þú fellur fram og tilbiður mig.“ En Jesús sagði við hann: „Vík brott, Satan! Ritað er: Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.“ Þá fór djöfullinn frá Jesú. Og englar komu og þjónuðu honum. Matt 4.1-11

Í sátt við Guð og menn Stef fyrsta sunnudags í föstu er prófun mennskunnar frammi fyrir Guði – að láta ekki náð Guðs, sem við höfum þegið, verða til einskis heldur láta í öllu sjást að við erum þjónar Guðs, eins og postulinn segir í pistli dagsins (sjá 2Kor 6.1-10). Í öllu eigum við að vera það sem við erum af náð, kristið fólk sem iðkar trú sína í lífi og breytni. Þar eru boðorðin og bæn Drottins (ásamt öðru) viðmiðið, hornsteinar kristinnar siðfræði sem miða að lífi í sátt við Guð og menn – mann sjálfan meðtalinn.

Boðorðin tíu eiga sér samsvörun í bæn Jesú, Faðir vor. Fyrstu þrjú boðorðin fjalla um afstöðu mannsins til Guðs en hin sjö sem á eftir koma eru leiðsögureglur í mannlegum samskiptum. Faðir vor hefst á ávarpi til okkar himneska föður og síðan koma bænir sem varða tengsl Guðs við líf okkar. Bænarefnin sem fylgja eru óskir, bornar fram á grunni guðstrúarinnar, um það sem mestu máli skiptir í daglegu lífi, að eiga í sig og á, lifa í fyrirgefningu og vera varin áreitni hins illa.

Tökum eftir því að grunnur þessara hornsteina trúarinnar er traustið á Guði. Þess vegna fjalla upphafsorð þeirra um hin lóðréttu tengsl, tengslin við föðurinn á himnum sem frelsar úr hverri ánauð. Þar er útgangspunktur trúaðrar manneskju, vissan um að við eigum okkur traustan bakhjarl sem ekkert fær frá okkur tekið. Sumir treysta einvörðungu á sjálfa sig og gera ekki ráð fyrir neinum mætti sér æðri. Ég legg engan dóm á það en tala aðeins út frá sjálfri mér og minni reynslu þegar ég segi að þannig lífsafstaða kæmi mér í þrot. Illskan er bæði úti fyrir og í mér sjálfri. Sá þverbrestur mannlegs lífs sem gengur í gegn um öll samfélög, hverju nafni sem þau nefnast, er mér óyfirstíganlegur í eigin mætti.

Án Guðs gæti ég ekki elskað sem mér bæri. Hvern dag þarf ég að taka meðvitaða ákvörðun um að treysta Guði og ana ekki áfram í sjálfri mér. Og þegar mér verður á, þegar mig skortir þann kærleika sem ég skulda, ekki bara manninum mínum, mínum eigin börnum, bróður og foreldrum, heldur öllum lifandi verum, á ég mér athvarf til uppbyggingar og endurnýjunar. Það athvarf er Jesús Kristur, hinn elskaði sonur Guðs, hann sem sjálfur mátti reyna illskuna á eigin skinni og takast á við hana. Hann var ekki undanþegin neinum þeim mannlegu kjörum sem gera líf okkar bæði svo fagurt og fúlt. Hann tókst á við sjálfan sig og við umheiminn og hinn illa sem lagði fyrir hann próf. Jesús stóðst prófið. Við skulum vona að við gerum það líka, minnug orða bænarinnar: Frelsa oss frá illu.

Skírnin skýrð Á sunnudaginn var heyrðum við um skírn Jesú. Þar var hlutverk hans staðfest, það hlutverk sem hann kom í heiminn til að sinna, staða hans sem Sonar Guðs. Og eftir þá miklu lífsreynslu, sem markaði upphaf lífsstarfs Jesú, leiddi andinn hann út í óbyggðina til þess að djöfullinn gæti freistað hans. Tökum eftir því að það var andi Guðs sem leiddi Soninn eina inn í einveruna, inn í föstuna, svo að hann gæti íhugað tilvist sína og það verk sem hann var kominn til að vinna. Jesús var án efa meðvitaður um hlutverk sitt og stöðu sem Sonur Guðs áður, líkt frumbyrjunni sem veit að hún er verðandi móðir, en gerir sér ekki fulla grein fyrir verksviði sínu fyrr en barnið er komið í fang hennar. En þarna skýrðist að fullu fyrir Jesú merking skírnar hans.

Og þarna í einsemd og hungri fór prófið fram. Hinn illi er oft sýndur í Biblíunni sem prófandi, sá sem vill skemma fyrir og eyðileggja, en oft virðist tilgangurinn vera sá að fólk fái tækifæri til að sýna staðfestu sína. Hér er hugarfar Jesú sett undir smásjána. Getur hann neitað sér um að taka auðveldari kostinn, stytta sér leið til þægindanna, breyta steinum í brauð með ótímabæru kraftaverki? Getur Jesús stillt sig um að fá að baða sig í frægð og aðdáun, svífandi á englavængjum öruggur til jarðar við húrrahróp mannfjöldans? Fær hann hafnað freistingu valdsins – að vera herra heimsins, en þó þræll hins óæðri máttar?

Saga okkar

Þarna er saga okkar sögð. Eins og alltaf erum við spurð spurningarinnar: Hver er guð í þínu lífi? Hver er þinn æðri máttur? Leggjum við traust okkar á þægilegt líf, aðdáun annarra, aukið valdsvið? Erum við okkar eigin herrar? Lútum við kannski einhverju óæðra valdi, hvötum og kenndum sem stýra okkur? Við þurfum að taka 100% ábyrgð á eigin lífi, sagði hún dr. Árelía Eydís Guðmundsdóttir, sem talaði hér svo eftirminnilega á Fræðslumorgni síðastliðinn sunnudag. Ábyrgðin felur meðal annars í sér að skjóta ekki skuldinni á aðra, lifa eins heilbrigðu lífi og kostur er og breyta umkvörtunarefnunum í uppbyggileg viðfangsefni. Við getum ekki kennt óvininum um allt sem afvega fer. Afvegaleiðslan verður ekki hluti af okkar lífi nema við leyfum það sjálf.

Grundvöllur ábyrgðar minnar á eigin lífi er traustið á Guði. Ég treysti handleiðslu heilags anda sem birtist mér í innsæi mínu. Ég treysti því að allt muni samverka mér til góðs, líka mistökin sem ég óhjákvæmilega geri. Ég hef fulla stjórn á eigin lífi – en aðeins þegar ég þigg vernd Guðs. Það sem ég geri verð ég að gera í nafni Jesú Krists. Allt sem ekki er unnt að gera í hans nafni ætti ég að láta ógert. En stundum gleymist hinn góði ásetningur. Við gleymsku og vanrækslu hefur kristið fólk alla tíma mátt glíma. Hinn mannlegi þverbrestur er erfiður viðfangs og seintekinn í burtu. Meira að segja Jesús háði enn baráttu við sjálfan sig í Getsemanegarðinum nóttina fyrir aftökuna – en hafði sigur. Þannig var hann að sönnu maður og að fullu Guð. Ég er ekki guð, aðeins manneskja, og verður ekki viðbjargað – nema fyrir náð, fyrir anda Guðs sem í mér býr.

Að eiga sér samtal

Við áttum gott samtal, ég og sonur minn á fjórtánda ári, fyrir nokkrum kvöldum. Reyndar ræðum við saman hvert kvöld um það sem gekk vel og það sem ekki gekk eins vel þann daginn og felum það allt góðum Guði í bæn Jesú. En þarna spunnust samræður okkar á þá leið hvað mikið hlyti að vanta þegar enginn væri máttur æðri manni sjálfum sem hægt væri að snúa sér til.

Tvennt fannst okkur hljóta að vera erfiðast: Að hafa engan nema sjálfan sig – og kannski annað fólk ef maður er heppinn – til að treysta á þegar eitthvað er erfitt, að geta ekki beðið um hjálp í vanmætti sínum. Og hitt að hafa engan að þakka þegar vel gengur, þegar upp stígur þessi dásamlega tilfinning í brjóstinu, þakklætiskenndin fyrir hitt og þetta, fyrir lífið sjálft. Það hlýtur að vera tómlegt að miða allt við mannlegt líf einvörðungu og eiga ekkert þess fyrir utan í gleði og sorg.

Ég kann reyndar fátt um líf hins vantrúaða að segja. Allt mitt líf hefur mótast af trúnni á Jesú Krist. Mér hefur gengið misjafnlega að lifa þá trú mína. Ég á það til að ryðjast fram fyrir aðra, vera utan við mig í umferðinni, óþolinmóð við börnin mín og svo margt fleira sem fólk er að kljást við frá degi til dags. Ég er ekkert betri en aðrir. Það eina sem ég veit er að ég þarf á frelsara að halda. Þess vegna er ég hér – og sæki uppsprettu lífs míns til höfundar þess. Í þeirri náð hvíli ég og kunni mér að ratast rétta leið brot úr degi er það fyrir elsku Guðs, ekki eigin verðleika. Frelsa oss frá illu.

Fastan Og nú er fastan hafin, fjörtíu dagar frá öskudegi til skírdags, fjörtíu dagar eins og dvöl Móse á fjallinu og dvöl Jesús í eyðimörkinni. Þann tíma hefur hin kristna alheimsfjölskylda tekið frá til íhugunar og afneitunar einhverra heimsins gæða. Sumir borða ekki kjöt á föstunni, aðrir ekki súkkulaði eða aðkeyptan mat.

Mikilvægast er að hver skoði sjálfan sig í einrúmi með anda Guðs og finni hvar hjarta hans liggur, lagi misfellurnar, slétti úr hrukkum daglegs lífs og endurnýi heitin. Boðorðin tíu og bæn Jesú eru viðmið okkar í þeirri vinnu, sá spegill sem við lítum í til að geta horfst í augu við eigin bresti.

Ræktum líka tengslin við fólkið okkar þessar vikur sem framundan eru. Geymum það ekki til páska heldur finnum okkur rétta forgangsröðun í daglega amstrinu miðju. Sinnum hinu góða samtali – hvert við annað og við Guð, samtalinu sem miðlar sátt. Baráttunni er ekki lokið, baráttunni inn á við og út á við, illskan hefur ekki verið beisluð að fullu, en þó er sigurinn unninn, sigur Krists yfir freistaranum. Sá sigur er einnig okkar.

Og englar komu og þjónuðu honum.