Við erum öll frá Draflastöðum

Við erum öll frá Draflastöðum

Sú menning sem ofsækir uppljóstrarann, er hún ekki í ætt við menninguna sem sveltir smalann? Hvað er það varðandi almannahag sem við höfum svona illan bifur á? Hvað er það sem veldur því að frelsi og öryggi almennings á ekki upp á pallborðið hjá almenningi?

„Þú skalt hata það fólk sem sveltir smælingjana” mælir kaupamaðurinn á Draflastöðum þegar hann á orðastað við unga niðursetninginn Tryggva Emilsson sem síðar skráði endurminningar sínar og gaf út í frægri bók árið 1976 og ber heitið Fátækt fólk. - Þú skalt hata það fólk sem sveltir smælingjana. Og þegar Tryggvi ansar á þá leið að hann treysti sér ekki til að hata nokkurn mann svarar kaupamaður: „Það er líkt með okkur, ég hef aldrei getað hatað og er því snauður vinnuþræll.” (Endurpr. 2011, s. 115) Síðan upplýsir hann drenginn um þann sannleika að hatur sé reyndar galdur og þeir sem hann kunni verði ríkir af engu.

„Þið hafið heyrt að sagt var: Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn.” segir Jesús í guðspjalli dagsins. „En ég segi ykkur: Elskið óvini ykkar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja ykkur.” (Matt. 43-48)

Ekki man Tryggvi nafn kaupamanns sem um skamma hríð dvaldi á bænum og þykir það miður því þær gjafir sem þessi persóna gaf honum, einn undurfagur silfurbergsmoli sem glóði í sól og vasahnífur, urðu honum þakkarefni ævilangt. „Þær voru vafðar þeim umbúðum” segir orðrétt „sem gera jafnvel stórgjafir að hversdagslegum hlut. Ég fann það ekki fyrr en löngu seinna að fátækur verkamaður hafði gefið mér gjafir sem voru svo stórar að þær voru þakklætisverðar ævilangt.” (s. 115)

Silfurbergsmolanum fagra og vasahnífnum fylgdi sú herkvöð að hann skyldi aldrei gefast upp fyrir myrkum öflum tilverunnar heldur efla þrek sitt og stæla viljann. Og við lesturinn uppgötvar lesandinn með sögumanni að það er þarna sem gæfan er ráðin og spurning hvort litli niðursetningurinn hefði nokkru sinni orðið að manni hefði þessi ónafngreinda persóna ekki orðið á vegi hans. Móður sína hafði hann misst og fátækur faðir hafði komið börnum sínum í gustukaskjól tvist og bast um sveitir. Draflastaðir í Sölvadal urðu hlutskipti Tryggva og það er snilld höfunar að frásagnir hans af lífsbaráttu fólksins á þessum bæ eru í aðra röndina áhugaverð lýsing á búskaparháttum og menningu í Íslenskri sveit fyrir réttum hundarð árum en í hina er þar á ferð hræðileg lýsing á skjólleysi barns sem ekki á neinn sér til varnar í menningu sem hefur þá trú að skylt sé að svelta smalann. - Þegar Kristján bóndi og Fúsi vinnumaður fengu sinn kjamman hvor og einn sauðarlegg í kvöldskattinn voru smalanum réttir tveir sauðarleggir. Raunar var búrið fullt af mat en fólkið á bænum hafði ekki þann vana að borða nema lítið og helst fyrningar frá liðnu ári en ekki nýmetið. Vinnuharkan sem niðursetningurinn lifði var einnig hlutskipti annara á bænum, að heimasætunni e.t.v. frátalinni sem ein fékk að drekka mjólk á meðan aðrir fengu undanrennu. Hvorki bóndinn né Hólmfríður húsmóðir voru honum beinlínis vond, það tíðkaðist bara ekki að vera eitthvað að rausa við karkkabjálfa heldur skyldi gustukastrákurinn látinn vinna - og þegja. Fúsi vinnumaður sem jafnframt var orðinn heitmaður heimasætunnar Guðrúnar sló hann að vísu annað veifið alveg að óvörum þannig að hann fengi blóðnasir. Og vissi drengurinn að það var nú svona helst til þess gert að skemmta ungu heitmeynni sem „virtist hafa ánægju af að heyra umkomuleysingja kjörkra og bannaði mér að láta til mín heyra.” segir Tryggvi. (s. 140) En þegar þeir voru tveir einir lagði hann aldrei á hann hendur, „Það var hans stórmennska.” segir orðrétt.

Er bóndi á næsta bæ sem orðið hefur vitni að örvæntingarfullri tilraun drengsins til þess að strjúka úr vistinni lætur boð ganga til föður Tryggva kemur Emil að sækja son sinn. “Lengi fram eftir ævi bar ég merki Draflastaðaverunnar á líkama mínum og sál.” segir Tryggvi „þar var engin bók sem lesin var mér í eyru og aldrei var við mig talað eins og frjálsa manneskju og svo var þar kalt að atburðirnir frusu mér í minni. (s. 151)

Svo situr hann dag einn á þúfu og horfir yfir bæjarstæðið, „fjallið fyrir ofan, brekkurnar með fjárgötunum, undirlendið og bæjargilið” og það eru liðin fimmtíu ár. „Ég var gripinn undarlegum tilfinningum til þessa fólks sem helftina af sínum búskaparárum háði sína lífsbaráttu á þessum bæ, og þó ég gæti aldrei samlagast þeirra venjum og legði til stroks í lokin þá fannst mér ég vera í ætt við þetta fólk, vera tengdur því í striti og stríði lífdaganna svo eftir stóðu hlýjar tilfinningar þrátt fyrir allt. Ég átti samleið með þessu fólki í nokkur ár og vissi þess vegna langt aftur í tímann af hvaða kjörum það fólk var mótað, baráttunni fyrir brýnustu nauðsynjum þar sem engin var baktryggingin nema stráin sem uxu við götuna. Hólmfríður húsfreyja lét mig lesa í Helgakveri „Lestu upphátt rýjan mín, þá manstu betur,” sagði hún. Hólmfríður var barn löngu liðins tíma. Kristján kenndi mér að þekkja ærnar og hagann og að vinna mín verk af skyldurækni. Guðrún og Sigfús voru mér harðir húsbændur, en hvers vegna?” (s.152)

Það má vel skilja að er bókin kom út fundu ýmsir sveitungar sig knúna til að mótmæla skrifum Tryggva og lýsingum hans á Draflastaðafólkinu. Við nánari skoðun má þó sjá að hann er ekki að hallmæla þessu fólki eða hatast við það, heldur liggur honum á hjarta þessi spurning: Hvers vegna? Hvað er það sem veldur því að hefðir og venjur sem mótast í sambýli manna geta verið beinlínis lífshættulegar eða ögrað heilsu og hamingju fólks svo að það ber jafn vel merki þess alla tíð? Hvers vegna? Hvers vegna sníðum við hvert öðru svo þröngan stakk? Hvers vegna erum við svona nægjusöm hvert fyrir annars hönd, þótt búrið sé fullt af nýmeti?

Æviminningar Tryggva Emilssonar eru í raun það sem kalla mætti klíníska rannsókn á eðli fátæktar þar sem viðfangsefnið er líf hans sjálfs eins og það hefur snert hann og líf fólksins hans eftir því sem hann hefur fengið af því fréttir. Um leið eru þessi minningaskrif þrungin ástríðu fyrir tilverunni, já, smekk fyrir lífinu með fuglasöng og lækjarniði, veður- og mannlýsingum, frásögnum af aflabrögðum og gömlum kjaftasögum í bland við skemmtilega húsganga og draugasögur – en allan tímann þessi eina spurning: Hvers vegna erum við ekki hvert öðru góð?

Ég verð að fá að segja það við ykkur að einmitt þarna liggur ástæðan fyrir því að Þjóðkirkjan getur ekki verið aðili að heimsókn prédikarans Franklin Graham á hausti komanda. Á sama hátt og Tryggvi Emilsson finnur til skyldleika við bændur og búalið og aðra samferðarmenn á lífsgöngunni og finnur sig vera í ætt við þetta fólk, tengdur því í striti og stríði lífdaganna, þannig erum við öll sem játum Jesú Krist sem leiðtoga okkar hvert öðru skyld. En það tekur ekki frá okkur þá kvöð að spyrja Hvers vegna? Öllu heldur leggur skyldleikinn okkur þá kröfu á herðar að við einmitt setjumst á þúfu endurminninganna og spyrjum krefjandi spurninga líkt og Tryggvi Emilsson. Hvernig má það vera að við höfum mótað með okkur menningu sem ögrar lífi og heilsu fólks? Hvers vegna höfum við svelt smalann, neitað hinum samkynhneigða og ástvinum hans um aðild að mikilvægum gæðum og ekki talað við þau eins og frjálsar manneskjur? Hvers vegna erum við ekki hvert öðru góð?

Tryggvi getur sér til að það sé skorturinn sem búið hafi um sig í samvitund sveitunganna sem valdi tómlætinu. Að það sé óttinn við gæftaleysið og baráttan fyrir brýnustu nauðsynjum „þar sem engin var baktryggingin nema stráin sem uxu við götuna”. En skýringarnar sem hann tínir fram eru ekki til þess fundnar að afsaka framfaraleysi. Um leið og hann samsamar sig fólkinu sem þjáði hann krefur hann samfélagið um breytta háttu. Íslenska Þjóðkirkjan hefur krafið sjálfa sig um breytta háttu í skiptum sínum við samkynhneigða og ástvini þeirra og við megum ekki gefast tómlætinu aftur á vald. Og ef við ætlum að halda ættarmót, sem við ættum einmitt að gera, þetta Draflastaðakyn kristinnar kirkju, þá biðjum við samt ekki Kristján bónda um að stjórna samkomunni og vera aðal ræðumann hátíðarinnar!

Horfum nú ögn í aðra átt.

Hafið þið tekið eftir tómlætinu gagnvart uppljóstrurunum Edward Snowden og Chelsea Manning? Þetta fólk, Snowden og Manning, kom mikilvægum upplýsingum til almennings sem nokkuð óumdeilt varða glæpsamlega ögrun valdhafa við almannahag en við bara ypptum öxlum og erum ekki á þeim buxunum að þakka þeim og hvað þá að vernda þau.

Sú menning sem ofsækir uppljóstrarann, er hún ekki í ætt við menninguna sem sveltir smalann? Hvað er það varðandi almannahag sem við höfum svona illan bifur á? Hvað er það sem veldur því að frelsi og öryggi almennings á ekki upp á pallborðið hjá almenningi?

Þegar presturinn kom í húsvitjun á Draflastaði síðla vetrar 1914 þá uppgötvaði Tryggvi sér til furðu að smákökur voru til á „þessum brauðlausa bæ”. Slíkt hafði hann ekki séð fyrr en góðgætið var borið fyrir prestinn og fylgdarmann hans.

Hvers vegna?

Heyrum að lokum lexíu dagsins sem talar líkt og beint inn á pallskörina á Draflastöðum í þátíð og nútíð, þessar aðstæður misskilinnar sjálfskvalar og nægjusemi fyrir annara hönd:

5Er sú fasta sem mér líkar sá dagur er menn þjaka sig, láta höfuðið hanga eins og sef og leggjast í sekk og ösku? Kallar þú slíkt föstu og dag sem Drottni geðjast? 6Nei, sú fasta sem mér líkar er að leysa fjötra rangsleitninnar, láta rakna bönd oksins, gefa frjálsa hina hrjáðu og sundurbrjóta sérhvert ok, 7það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu, hýsir bágstadda, hælislausa menn og ef þú sérð klæðlausan mann, að þú klæðir hann og firrist ekki þann sem er hold þitt og blóð. 8Þá brýst ljós þitt fram sem morgunroði og sár þín gróa skjótt, réttlæti þitt fer fyrir þér en dýrð Drottins fylgir eftir. 9Þá muntu kalla og Drottinn svara, biðja um hjálp og hann mun segja: „Hér er ég.“ Ef þú hættir allri undirokun þín á meðal, hættir hæðnisbendingum og rógi, 10réttir hungruðum það sem þig langar sjálfan í og seður þann sem bágt á, þá rennur ljós þitt upp í myrkrinu og niðdimman kringum þig verður sem hábjartur dagur. (Jes. 58.5-10)

Amen