Kristin trú er í eðli sínu pólitísk

Kristin trú er í eðli sínu pólitísk

Ég er pólitískur prestur og í mínum huga er óhugsandi að vera ópólitískur prestur, þar sem boðskapur Jesú frá Nasaret er hápólitískur. Jesús krefur okkur um réttlátt samfélag og setur í öndvegi alla þá sem standa höllum fæti í samfélagi manna
fullname - andlitsmynd Sigurvin Lárus Jónsson
31. desember 2013

Viðfangsefni kristinnar trúar eru velferð manneskjunnar, skipting gæða og eðli valds, þau sömu og eru viðfangsefni stjórnmála. Kristin trú boðar hinsvegar ekki ákveðna stjórnskipan eða stjórnmálahugmyndafræði, heldur leggur til grundvallar-viðmið kærleika og mannhelgi, sem eru hafin yfir hugmyndafræði stjórnmála hvers tíma.

Á vettvangi samfélagsumræðu á Íslandi heyrist oft það viðhorf að trúin sé einkamál einstaklinga, sem hver og einn eigi að iðka á einstaklingsgrundvelli og helst í einrúmi. Nýja testamentið leggur vissulega áherslu á það að taka persónulega afstöðu í lífinu með hinum góða málstað, en sú einstaklingshyggja sem birtist í fyrrgreindu viðhorfi er kristindóminum framandi. Kristin kirkja er samfélag þeirra sem láta sig fagnaðarerindið varða og án hinnar samfélagslegu víddar er kirkjan óhugsandi. Kirkja er samfélag, samfélag þeirra sem vilja halda á lofti fagnaðarerindi Jesú Krists og samfélag þeirra sem láta sig velferð annara varða.

Kristin kirkja fer með mikil völd í samfélaginu og það vald er oft vanmetið þegar fjallað er um valdskipulag samfélagsins. Vald kirkjunnar er eðlisólíkt hinu veraldlega valdi. Vald kirkjunnar byggir annarsvegar á þeirri stöðu sem kristin trú hefur í menningu okkar og hugsun og hinsvegar á þeirri stöðu sem þjónusta kirkjunnar hefur í lífi þjóðarinnar. Kristin trú er svo samofin grunnstoðum okkar menningar að við erum í raun blind á hversu mikið hugsun okkar mótast af kristnum áhrifum. Mörg þeirra gilda sem við teljum sjálfsögð á borð við mannhelgi og andstöðu við hefndarþorsta eru sprottin af kristnum meiði og samanburður við aðrar menningar- og trúarhefðir leiðir í ljós að slík hugsun er langt frá því algild í innviðum samfélaga. Þjónusta kirkjunnar byggir á samfélagslegum grunni og þau tímamót í lífi manneskjunnar sem kirkjan fangar, skírn, ferming, myndun fjölskyldu og kveðjustund ástvina, er óhugsandi án hinnar samfélagslegu víddar. Kirkjan mætir þörfum fólks og er falin mikil ábyrgð í þjónustu sinni í viðkvæmum aðstæðum fólks.

Völdum fylgir ábyrgð og það er eðlilegt að hið opinbera svið, sameiginlegt stjórnkerfi samfélagsins, setji kirkjunni lagalegan ramma og að kirkjan setji sér siðareglur til að tryggja að þjónar hennar bregðist ekki skyldum sínum og misbeiti ekki valdi sínu. Sú krafa verður æ háværari að aðskilja skuli að fullu ríki og kirkju og sú krafa er að mörgu leiti eðlileg, þó að umræðan sé í raun á byrjunarreit um hvað felst í slíkum aðskilnaði. Lútersk kirkja er sprottin af þörfinni til að aðgreina hið veraldlega vald frá hinu trúarlega og verður til sem mótmælendahreyfing gegn alræðisvaldi kaþólsku kirkjunnar á miðöldum. Hugmyndir Lúters um sverðin tvö, hið veraldlega vald og hið andlega vald, sem ekki eigi að blanda saman, lögðu grundvöllinn að nútímahugsun um trúfrelsi og ríkið. Sá aðskilnaður hefur ríkt frá siðbót í Norður-Evrópu og þó svið stjórnmála og trúar skarist í okkar menningu, hafa mörkin að mestu verið virt.

Það er líklega ástæða þess að þó prestar og hópar innan þjóðkirkjunnar hafi tekið þátt í flokksbundnu stjórnmálastarfi hefur Þjóðkirkjan aldrei tilheyrt neinum einum stjórnmálaflokki eða hugmyndafræði. Íslenskir kommúnistar voru t.d. margir hverjir hliðhollir kirkjunni til jafns við íslenska hægrimenn og kröfðust ekki afhelgunar og útrýmingu kirkjunnar á sama hátt og flokksbræður þeirra á meginlandinu gerðu.

Kirkjan á Íslandi hefur alla tíð verið pólitísk en hefur að mestu leiti verið haldið utan við flokkspólitísk átök, líkt og víðast hvar í norður-Evrópu. Sú kristna þjóð sem lengst hefur gengið í að aðskilja ríki og kirkju, Bandaríki Norður-Ameríku, hefur í raun séð mesta hagmunabaráttu trúarhópa og afskipti trúarleiðtoga af hinu veraldlega sviði. Sú staðreynd bendir til þess að það fyrirkomulag samskipta sem þjóðir Norður-Evrópu hafa komið sér upp á milli ríkis og kirkju er farsælla en fyrirkomulagið vestanhafs, og er viðvörum þeim sem vilja fara hina bandarísku leið.

Ég er pólitískur prestur og í mínum huga er óhugsandi að vera ópólitískur prestur, þar sem boðskapur Jesú frá Nasaret er hápólitískur. Jesús krefur okkur um réttlátt samfélag og setur í öndvegi alla þá sem standa höllum fæti í samfélagi manna; sjúka, synduga, útlendinga, fátæka, hvern þann sem handhafar hins veraldlega valds telja utangarðs eða beita valdi.

Ég er frjálshyggjumaður, vegna þess að ég trúi því að samfélaginu sé best borgið með því að treysta einstaklingum til að taka ákvarðanir um eigið líf.

Ég er jafnaðarmaður, vegna þess að ég trúi því að við séum öll sköpuð sem jafningjar og að samfélaginu sé best borgið þegar hagur allra er borinn fyrir brjósti.

Ég er kapítalisti, vegna þess að ég tel að einstaklingum eigi að vera frjálst að versla með þau verðmæti sem þeir skapa.

Ég er sósíalisti, vegna þess að trúi því að ríkið eigi að sinna um þau svið velferðar og menningar sem ekki verða mæld með mælistikum markaðarins.

Ég er frjálslyndur, vegna þess að trúi því að víðsýni og umburðarlyndi séu dýrmætustu dyggðir sem hægt er að rækta með sér.

Ég er íhaldsmaður, vegna þess að ég trúi á gildi menningararfleifðar og mikilvægi fjölskyldunnar, sem er grunnstoð samfélagsins í sínum fjölbreyttu myndum.

Ég trúi ég á mátt lýðræðis og hef í krafti þess skráð mig í þrjá stjórnmálaflokka, setið á lista fyrir nýtt framboð og kosið þá sem ég tel hverju sinni hæfasta til að sinna hagsmunum almennings.

Fyrst og fremst er ég kristinn, ófullkominn lærisveinn Jesú krists, sem í sífellu krefur okkur um að setja ávallt fólk ofar hugmyndafræði, hvort sem hún er af trúarlegum eða pólitískum meiði.

Með boðskap Jesú að leiðarljósi, getum við mælt árangur okkar á grundvelli þess hvort að við séum að þjóna hagsmunum fólks. Með slíkan mælikvarða að leiðarljósi getum við greint á milli sanntrúar og villu, réttrar og rangrar hugmyndafræði og góðs og ills. Þær hugmyndir og þær aðgerðar sem framkvæmdar eru á kostnað annarra eru villa og verða aldrei réttlættar á grundvelli þess að tilgangurinn helgi meðalið.

Því valdi sem valdshöfum er treyst fyrir, hvort sem um ræðir veraldlegt vald, áhrifavald eða kennivald, fylgir ábyrgð og ef því er beitt á kostnað fólks gengur það gegn vilja Guðs að áliti Jesú Krists.

Viðfangsefni kirkjunnar er uppbygging samfélags sem lætur sig þarfir annara varða og verkefnin eru æði mörg. Á nýju ári er það sem endra nær hlutverk okkar að mæta þörfum fólks í aðstæðum þeirra og kalla fólk til starfa í þágu lífsins. Því hlutverki er sinnt með því að halda á lofti erindi Jesú krists, í nærsamfélagi okkar í Laugarneshverfi og í opinberri umræðu sem svo oft afmyndar hinn trúarlega boðskap Biblíunnar.

Erindi Jesú krefur okkur um réttlátt samfélag og bendir alltaf á þann sem fer höllum fæti á hverjum tíma. Pólitík kirkjunnar fjallar um aðstæður utangarðsfólks, sjúklinga, fátækra, ofbeldisþolendur, hælisleitendur og venjulegt fólk að glíma við lífið.

Sú pólitík er rekin með kærleika Hans í forgrunni og þann kærleika getur ekkert gert okkur viðskila við, eins og segir í ritningartexta dagsins. Kærleikurinn leitar leiða til að mæta þörfum fólks og rétta hlut þeirra sem fara halloka í aðstæðum sínum, en boðar ekki algilda hugmyndafræði sem svo oft er framfylgt á kostnað annara.

Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur? Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni heldur framseldi hann fyrir okkur öll, hvort mundi hann ekki líka gefa okkur allt með honum? Hver skyldi ásaka Guðs útvöldu? Það er Guð sem sýknar. Hver sakfellir? Kristur Jesús er sá sem dáinn er. Og meira en það: Hann er upprisinn, hann er við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir okkur. Hver mun gera okkur viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð? Það er eins og ritað er: Þín vegna er okkur dauði búinn allan daginn og við metin sem sláturfé. Nei, í öllu þessu vinnum við fyllsta sigur í krafti hans sem elskaði okkur. Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.