Er upprisan tálsýn eða veruleiki?

Er upprisan tálsýn eða veruleiki?

deilum. Á tíunda áratug síðustu aldar var sagt frá því að þýski nýjatestamentisfræðingurinn Gerd Lüdemann héldi því fram að upprisa Jesú hefði aldrei átt sér stað.
fullname - andlitsmynd Sigurjón Árni Eyjólfsson
24. apríl 2011

Steinn í sandi

Með reglulega tímabili valda fréttir tengdar skilningi á upprisunni umtali og deilum. Á tíunda áratug síðustu aldar (1994) var sagt frá því að þýski nýjatestamentisfræðingurinn Gerd Lüdemann1 héldi því fram að upprisa Jesú hefði aldrei átt sér stað. Hana bæri að skilja sem áróðursbragð lærisveinanna við að koma boðskap Jesú til skila. Lüdemann viðurkenndi að lærisveinarnir hafi ef til vill getað séð Jesú í einhvers konar andlegri sýn, sem hann skilgreindi sem afleiðingu þess sektar- og sorgarferlis sem Pétur var fanginn í vegna svika sinna við Jesú.2 Þannig reyndi Lüdemann að útskýra upprisuhugmyndir í Nt með sögulegum og sálfræðilegum hætti.3 Hann taldi varhugavert að byggja heilu kenningarkerfin og trúarlærdómana á þessum upprisufrásagnum. Kirkjan yrði því að horfast í augu við það að upprisan væri ekki „söguleg staðreynd“ og taka afleiðingum þess.

Í kjölfarið var spurt rétt fyrir páska í tímaritinu Der Spiegel: „Getum við enn verið kristin?“

Ætla mætti að menn og þá sérstaklega hinir kristnu hefðu stæðið á öndinni yfir þessu, en svo varð ekki. Ekki þarf að lesa mikið í guðfræði og sögu hennar til að koma auga á að hér er ekkert nýtt á ferðinni. Lüdemann var líka fljótlega bent á það að hann endurtæki yfir 75 ára gamlar hugmyndir landa síns, Emmanuels Hirsch. Hér væru á ferðinni gamlar fullyrðingar sem ættu uppruna sinn hjá David Friedrich Strauß (1808-1874, 1841)4 og í upplýsingarstefnunni.

Að menn hafi átt í erfiðleikum nú sem áður fyrr með að túlka veruleika upprisunnar inn í sinn samtíma er ekkert nýtt. Þegar sagan er skoðuð þá kemur í ljós að þessar hugmyndir hafa fylgt kristindóminum meira eða minna allt frá upphafi. Í Lúkasarguðspjalli er m.a. greint frá viðbrögðum lærisveinanna vegna frétta kvennanna um tómu gröfina og boðskap engilsins um upprisu Jesú með eftirfarandi orðum: „En þeir töldu orð þeirra markleysu eina (gr. lyros og á lat. nonsens) og trúðu þeim ekki“ (Lk 24.11).

Guðfræðingar á borð við Wolfhart Pannenberg og Reinhard Schlenczka hafa sýnt fram á að sögurannsóknir á þeim textum Nt sem varða upprisuna leiða ekki til róttækrar endurskoðunar á páskaboðskapnum.5

Í þessum pistli mun ég ræða rök sem mæla gegn upprisunni sem sögulegri staðreynd og rökum sem styðja hana. Sem fulltrúa gagnrýninnar vel ég nýjatestamentisfræðinginn Willi Marxsen.6

Hin gagnrýna söguhugsun nútímamannsins

Oft er bent á mikinn mun á söguskilningi höfunda Nýja testamentisins og nútímamannsins. Marxen heldur því fram að með upplýsingarstefnunni og hinni gagnrýnu sögurannsókn hafi verið brotið blað í sögu mannsins. Hún kollvarpaði fyrri hugmyndum manna um söguna. Þær forsendur sem ber að beita við sögulegar rannsóknir eru:

1. Forsenda gagnrýninnar, hún mótast af efa gagnvart öllum sögulegum erfikenningum. 2. Forsenda hliðstæðunnar, hafa ber í huga að ekkert er til án hliðstæðu í sögunni. 3. Forsenda gagnvirkni, alla atburði ber að skoða í sögulegu samhengi.

Sagnfræðingar áttuðu sig nú betur á nauðsyn þess að greina á milli atburða og túlkunar á þeim. Í því samhengi kom í ljós að margir atburðir sem höfundar Nýja testamentisins álitu „sögulegar staðreyndir“ voru meira og minna svo hlaðnir túlkun, að hinn sögulegi kjarni var illgreinanlegur, ef hann var þá yfirleitt til staðar.

Nútímamaðurinn neyðist því til að hafna kraftaverkafrásögum og upprisusýnum sem staðreyndum. Vísindaleg gagnrýni nútímans leiðir þannig margt í ljós er virðist ganga beint gegn sannfæringu höfunda Nýja testamentisins. Ef guðfræðin ætlar að fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru til vísindalegra vinnubragða þá verður hún að taka þær niðurstöður alvarlega, sem munu liggja fyrir og vinna úr þeim. Guðfræðingar verða að vera vel á verði og mega ekki halda því fram, að trúin sé tæki í sögulegum rannsóknum og þjóni þar sem einhvers konar „innra auga“.

Slíkt gengur ekki, að mati Marxsen, því trúarinnar er að túlka en ekki að setja fram sögulegar staðreyndir.

Upprisan sem túlkun á sannindum trúarinnar

Út frá þessum forsendum tekur Marxsen fyrir þá texta Nýja testamentisins er fjalla um upprisu Jesú og tómu gröfina. Að mati hans er ekki ráðlegt að að túlka þá sem atburðalýsingu, heldur sem vitnisburð trúar. Þetta kemur skýrt fram í elstu ritum Nýja testamentisins, m.a. bréfum Páls postula. Páll fjallar þar ekki um upprisu Jesú, heldur vitnar hann um reynslu sína af því að hafa „séð Krist“. Þegar við athugum nánar hvað Páll á við með orðinu „að sjá“ notar hann það ekki í bókstafllegri merkingu, heldur til að undirstrika að Guð hefur opinberað honum soninn (Gl 1.15; 1 Kor 9.1). Innri opinberun Guðs og það að sjá Krist falla hér saman. Þar sem Páll fjallar um að hafa séð Jesú Krist er því afleiðing en ekki undirstaða trúar hans.

Ef við höldum nú áfram og athugum þá hefð sem Páll ætti að byggja á, þá beinast augu okkar að tómu gröfinni. Marxsen telur að hún hafi aldrei verið hluti af upprisuboðskap frumsafnaðarins, heldur hafi frásögunni um tómu gröfina seinna verið skeytt við upprisufrásagnirnar til að forða boðskap Jesú frá villu skynhyggjunnar. „Frásögu um hina tómu gröf er hægt að skýra út á marga vegu án þess að söguleg upprisa þurfi endilega að koma til,“ segir Marxsen. Til að gera langa sögu stutta þá heldur Marxsen því einnig fram að hafna beri öllum skýringum á upprisunni sem „hlutlægri“ eða „huglægri“ sýn.

Niðurstaða Marxsens er skýr: Upprisan getur ekki verið grundvöllur guðfræðilegrar umræðu, þar sem ekki er hægt að byggja trú sína á sýn annarra. Slíkt sýn gæti byggst á misskilningi og jafnvel þótt hún væri sönn gæti hún einungis grundvallað trú lærisveinanna en ekki okkar. Spurningin sem Marxsen þarf nú að svara er þessi: Fyrir hvað standa þá frásagnir Nýja testamentisins um upprisuna?

Marxsen fullyrðir að höfundar Nt grípi til upprisuvonar samtíðar sinnar til að tjá trúarsannindi, sem er boðun hins sögulega Jesú, um fyrirgefningu syndanna í nafni Guðs og hvatningu hans til fjöldans um að leggja traust sitt á Guð sem er kærleiksríkur faðir. Þessi kjarni trúarinnar gerir manninum kleift að lifa í sátt við sjálfan sig, náungann og heiminn.7 Reynsla lærisveinanna var sú að boðskapurinn stóðst, þrátt fyrir krossfestingu Jesú. Undur páskanna er því ekki upprisa Jesú, heldur hitt, að lærisveinarnir komust til trúar.

Til að koma þessari sannfæringu til skila gripu lærisveinarnir til hugmyndakerfis samtíðar sinnar. Þar gegndi heimsslitafræði síðgyðingdómsins um hinn nýja tíma og komu Guðs ríkis veigamiklu hlutverki. Í persónu og verki Jesú var hinn nýi tími hafinn og Guðs ríki í nánd. Hið sama gilti nú um boðun lærisveinanna, en þróunin varð sú, segir Marxsen, að boðandi og boðskapur runnu saman. Lærisveinarnir upplifðu Jesú í boðuninni og drógu þá ályktun af því að hann hlyti því að vera upprisinn.

Í hugmyndaheimi Gyðinga var upprisa einungis hugsanleg í holdi, gröfin hlaut því að vera tóm o.s.frv. Þannig varð prédikun Jesú að prédikun um Jesú Krist. Upprisa Jesú varð því að „formi“ utan um þann boðskap að maðurinn getur treyst fyrirgefningu Guðs.8 Það sem er skýrt hér, er að nútímamaðurinn getur vel tileinkað sér þennan boðskap án gyðinglegar heimsslitakenningar og sýnar á manneskjuna. Marxsen vill með öðrum orðum setja boðskap Jesú í „umbúðir“ sem henta nútímanum. Það er ekki sæmandi að þvinga gyðinglegum heimsslitakenningum upp á nútímamenn. Hún er þegar upp er staðið jafn framandi kjarna boðskap Jesú og skynsemi nútímafólks.

Samkvæmt Marxsen hafa krossinn og upprisan ekki miðlægt gildi í fyrir-gefningarboðskap Jesú og á því heldur ekki að hafa það í boðun kirkjunnar.9 Og ef raunin er sú að upprisufrásagnirnar þjóni ekki lengur neinu hlutverki, þá ber að hafna þeim. Reyndin er enda sú, samkvæmt Marxsen, að boðskapur Jesú er lifandi veruleiki sem þarfnast slíks ekki. Hlutverk kirkjunnar í nútímanum er hið sama og Jesú, að kalla menn til trúar á hinn fyrirgefandi og kærleiksríka Guð föður.

Gagnrýni á málflutning Marxsens

Umfjöllun Marxsens kallaði fram mikla umræður innan guðfræðinnar og má skipta gagnrýninni á málflutning hans í tvo þætti, söguleg rök og guðfræðileg.

Söguleg gagnrýni

Marxsen tekur ekki nægilegt tillit til þeirrar þekkingar sem við höfum á samtíð Jesú. Upprisuhugmyndin var ekki eins útbreidd og ætla mætti af framsetningu hans. Stórir, öflugir hópar innan gyðingdómsins eins og t.d saddúkear höfnuði henni alfarið. Farísear börðust mest fyrir réttmæti upprisuvonarinnar, en þá einungis fyrir upprisunni í lok tímanna. Upprisa einstaklings fyrir þann tíma var óhugsandi. Upprisuboðskapur frumsafnaðarins var þannig í hreinni mótsögn við ríkjandi skoðanir og verra „form“ fyrir boðskap sinn gátu lærisveinarnir því vart valið.10

Ef við hugum að tómu gröfinni, þá er ljóst að frásagnir um hana hafa alltaf verið til staðar, þótt þær hafi ekki verið í upphafi hluti af upprisufrásögnunum, enda vakti tóma gröfin enga von í brjóstum lærisveinanna. Hún vakti ótta. Elstu heimildir greina um tilveru tómu grafarinnar og frá upphafi hafa einnig verið deildar meiningar um orsakir þess. Andstæðingar trúarinnar segja að líkinu hafi verið stolið (Mt 28.11-15), en vitnisburður frumsafnaðarins er sá að Jesús sé risinn upp frá dauðum.11 Þannig séð er tóma gröfin tákn, sem hin vantrúuðu og hinir trúuðu geta ráðið í. Svo vitnað sé til Dietrichs Bonhoeffer þá sér heimurinn táknið, en hann trúir ekki undrinu12

Guðfræðileg gagnrýni

Predikunin um Krist er ekki beint framhald af boðun Jesú innan Nt. Páskaboðskapurinn er sá að Guð hafi reist Jesú upp frá dauðum, en ekki boðskapur Jesú um trú. Jesús reis ekki upp í prédikuninni, heldur byggir prédikunin á upprisu hans.13

Bent hefur verið á að elstu hefðir Nt þekkja allar friðþægingarhlutverk dauða Jesú. Þessi áhersla kemur fram í (a) þjáningarboðunum Jesú, (b) þegar hann vísar til Jes 53 og (c) frásögunni af píslarsögunni og krossfestingu Jesú.14 Dauði Messiasar með þessum hætti var óhugsandi fyrir Gyðinga og margir fæðimenn telja því að túlkun frumsafnaðarins á dauða Messíasar eigi uppruna sinn að rekja til Jesú sjálfs.15

Afgerandi er þó grundvallargagnrýni Wolfharts Pannenberg á slíkan framsetningarmáta og túlkunir á upprisufrásögunum, sem byggir á: „trúarsetningu afhelgaðrar heimsmyndar, sem útilokar frá upphafi virkni Guðs í heiminum“ og sögu.16 Slíkur söguskilningur gengur út frá því í upphafi að ekkert slíkt geti átt sér stað og virðir ekki heimildir sem benda til annars. Slík stefna telur að vísu að hún sé hlutlaus í mati sínu, en er það alls ekki. Hin lokaða heimsmynd og baráttan við allar trúardogmur er einmitt þeirra óskeikula dogma. Og í ljósi hennar telja menn sig geta tekið Ritninguna á kné sér og ákveðið hvað sé sögulega rétt og hvað ekki. Hér stendur því baráttan á milli tvenns konar trúarsetninga, þar sem ekkert hlutlaust sjónarhorn er endanlega til.17

Þessi umræða og gagnrýni á fullan rétt á sér og er mjög áhugaverð. En það sem eftir stendur er þó spurningin um túlkun hins nýja veruleika og þeirrar sýnar sem upprisan stendur fyrir inn í okkar samtíð. Það getur reynst efiðara en deilur um hreinan „sögulegan“ veruleika hennar.

Tilvísanir

1 Gerd Lüdemann, Die Auferstehung Jesu. Historie. Erfahrung. Theologie. Göttingen 1994.

2 Gerd Lüdemann, Die Auferstehung Jesu. Historie. Erfahrung. Theologie, 113nn.

3 Reinhard Schlenczka, „Nonsens (Lk 24.11)“, Kerygma und Dogma 40.árg. 1994 2.hefti., 170-181. Woflhart Pannenberg, „Die Auferstehung Jesu - Historie und Theologie“, ZThK 91.árg. 1994 3. hefti., 329-345.

4 Reinhard Schlenczka rekur þessa sögu vel í bók sinni, Gesichtlichkeit und Personsein Jesu Christi. Studien zur Problamatik der historischen Jesusfrage (FSÖTh 18), Göttingen 1967. Þar fjallar Schlenczka m.a um kenningar D. F. Strauß, 46-61.

5 Reinhard Schlenczka, „Nonsens (Lk 24.11)“, Kerygma und Dogma 40.árg. 1994 2.hefti., 170-181. Woflhart Pannenberg, „Die Auferstehung Jesu - Historie und Theologie“, ZThK 91.árg. 1994 3. hefti., 329-345.

6 Willi Marxsen, Die Auferstehung Jesu als historisches und theologisches Problem, Güthersloh 3.útg. 1965. Sjá einnig svar Pannenbergs, „Die Auferstehung Jesu — Historie und Theologie“, 325-328.

7 Willi Marxsen, Die Auferstehung Jesu als historisches und theologisches Problem, 127-128.

8 Willi Marxsen, Die Auferstehung Jesu als historisches und theologisches Problem, 28.

9 Willi Marxsen, Die Auferstehung Jesu als historisches und theologisches Problem, 32.

10 Gerhard Friedrich, „Die Auferstehung Jesu, ein Tat Gottes oder ein Interpretament der Jünger“, Kerygma und Dogma, 1972,153-198.

11 Hans von Campenhausen, Der Ablauf der Osterereignisse und das leere Grab, Heildelberg 1977, 4. óbreytt útg., 52-54.

12 Sjá Joachim Gnilka, Das Matthäus-evangelium 2.Teil, Freiburg 1988, 501.

13 Jürgen Roloff, Neues Testament, Neukirchen - Vluyn 1979 2.útg, 207.

14 Jens Schröter, „Sühne, Stellvertretung und Opfer. Zur Verwendung analytischer Kategorie zur Deutung des Todes Jesu“ í; Deutung des Todes Jesu im Neuen Testament, útgf. Jörg Frey og Jens Schröter, Tübingen 2005, 69–71 [51–71]. Peter Stuhlmacher, Biblische Theologie des Neuen Testaments Band 1, Göttingen 1997, 126–143.

15 Wolfhart Pannenberg, Grundzüge der Christologie, Güthersloh 1965, 251-277.

16 Woflhart Pannenberg, „Die Auferstehung Jesu - Historie und Theologie“, 323.

17 Reinhard Schlenczka, „Nonsens (Lk 24.11)“, 176.