Treystu hjartanu!

Treystu hjartanu!

En allt í einu gerist þetta undur. Engill Drottins stendur hjá þeim og dýrð Drottins ljómar í kringum þá. Og þeir verða hræddir. Ég hef alltaf skilið þessa setningu þannig að þeir væru hræddir við engilinn, kannski hræddir við það að þeirra síðasta stund væri runnin upp, jafnvel að heimsendir væri kominn. En kannski er þessi hræðsla lúmskari en svo.

Biðjum: Drottinn Guð, sem kemur til okkar, hjálpa okkur að taka á móti þér og búa þér stað í hjörtum okkar. Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Það styttist til jóla. Í dag er 3. sd. í aðventu og við kveikjum á þriðja kertinu á aðventukransinum. Kertið sem kennt er við hirðana sem gættu hjarðar sinnar og urðu vitni að stórkostlegum atburðum.

Ímyndum okkur eitt augnablik hvernig það hefur verið þarna hjá þeim í haganum. Þarna sitja þeir saman og verma sig við eldinn, allar kindur á vísum stað og engin verk að vinna, aðeins það verk að þreyja nóttina. Sennilega skiptast þeir á að sofa. Þeir sem vaka spjalla kannski, segja hver öðrum sögur, kannski láta þeir fleyginn ganga til að ylja sér þar sem eldurinn nær ekki til.

En allt í einu gerist þetta undur. Engill Drottins stendur hjá þeim og dýrð Drottins ljómar í kringum þá. Og þeir verða hræddir. Ég hef alltaf skilið þessa setningu þannig að þeir væru hræddir við engilinn, kannski hræddir við það að þeirra síðasta stund væri runnin upp, jafnvel að heimsendir væri kominn. En kannski er þessi hræðsla lúmskari en svo. Hver veit nema þeir hafi aðallega verið hræddir við að þeir væru að verða vitlausir. Farnir að sjá ofsjónir um miðja nótt! Kannski hefur hver og einn þeirra haldið að hann væri sá eini sem sæi þessa sýn. Kannski hafa þeir kennt innihaldi vasapelans um. Og ég sé þá fyrir mér, reyna að halda andlitinu, reyna að láta líta út fyrir að allt sé í stakasta lagi, og um leið að reyna að lesa úr svipbrigðum hinna hvort þeir séu að upplifa eitthvað þessu líkt.

Þeir upplifa það sama og allar manneskjur, að við treystum ekki alltaf upplifun okkar. Við þurfum stundum aðra til að staðfesta að það sem við sjáum eða heyrum eða skynjum sé rétt.

Þegar við segjum upplifum hirðanna í þetta samhengi, kemur mér strax í hug önnur frásögn, sem segir sama sannleika, nema á öfugan hátt. Það er ævintýri H.C. Andersens um Nýju fötin keisarans. Þar er það það sem ekki sést sem veldur fólki hugarangri. En af því að allir aðrir þykjast sjá eitthvað, þá tekur fólk þátt í leiknum til að vera ekki álitið heimskt. Þetta skemmtilega ævintýri H.C. Andersens dregur einmitt upp þennan sannleika um mannskepnuna að við þurfum oft á staðfestningu annarra að halda á því sem við heyrum, sjáum eða skynjum. Og ævintýrið tekur þennan sannleika lengra, einmitt vegna þess hve við erum háð öðrum að þessu leyti, er svo auðvelt að spila með okkur, blekkja okkur til að taka þátt í einhverjum þykjustuleik, jafnvel þótt við vitum betur innst inni.

Jóhannes skírari var síðasti spámaður Gamla testamentisins. Hann var síðastur í aldalangri röð spámanna sem boðuðu komu Krists.

Jóhannes, eins og aðrir spámenn, lét ekki stjórnast af upplifunum annarra. Hann hafði ekki áhyggjur af því hvað aðrir sáu eða skynjuðu. Hann hafði sjálfur sannfæringu, svo sterka að hann var tilbúinn að láta lífið fyrir hana. Jóhannes boðaði iðrun. Hann var ómyrkur í máli, gagnrýndi harkalega tvískinnung og hræsni, sagði fólki að það þyrfti að sýna trú sína í verki og iðrast misgjörða sinna, og þar skipti engu máli hvort hann talaði við almúgann eða aðalinn. Allir fengu sinn skammt af hreinskilni Jóhannesar. Hann tók ekki þátt í því með fólki að láta sem allt væri í stakasta lagi, þegar það var það ekki. Og fyrir þetta lenti hann í fangelsi. Því eins og alltaf þegar einhver kemur við kauninn á samfélaginu, þegar einhver segir óþægilegan sannleika, er reynt að þagga niður í viðkomandi. Stundum með fangelsisvist og stundum með því að reyna að ófrægja eða meiða.

Jóhannes vissi hvert hlutverk hans var. Hann skilgreindi sjálfan sig sem„rödd hrópandans í eyðimörkinni” og vissi sem var að annar honum meiri kæmi á eftir sér. En hann átti lærisveina sem ekki gerðu sér grein fyrir þessu. Og þá sendir hann til Jesú. Hann sendir þá með spurningu, Ert þú sá sem koma skal? Ég held að Jóhannes hafi sjálfur vitað svarið. En hann vissi að verki hans var að ljúka og hann þurfti að tryggja lærisveinum sínum framtíð með Jesú. Tryggja það að þeir skildu hver Jesús var í raun og veru og fylgdu honum. Þannig að hann sendir þá með þessa spurningu.

Og hvað gerir Jesús. Hann reynir ekki að færa rök fyrir því að hann sé Messías. Han reynir ekki að útskýra það guðfræðilega á neinn hátt. Hann segir einfaldlega: Treystið upplifun ykkar! Hvað sjáið þið? Hvað skynjið þið? Hvað er að gerast í kringum mig? Þið hafið orðið vitni að kraftaverkum. Haltir ganga, blindir fá sýn og dauðir rísa upp. Hvað segir hjarta ykkar? Treystið því! Ekki láta aðra segja ykkur hvað ykkur á að finnast!

Treystið hjartanu! Kunnum við það? Þekkjum við ekki öll aðstæðurnar í ævintýrinu um nýju fötin keisarans, þar sem við spiluðum með og létum sem allt væri í lagi. Því miður eru það einmitt svo oft viðbrögð okkar, við látum telja okkur trú um að svart sé hvítt, vont sé gott, ranglæti sé réttlæti. Og einmitt vegna þessa breyskleika okkar hafa menn komist upp með að leiðia heilu samfélögin á villustig, skapa andrúmsloft kúgunar og rangsleitni í nafni réttlætis og friðar. Búa til misskiptingu, skapa tortryggni, etja nágrönnum hverjum gegn öðrum. Allt vegna þess að við treystum ekki hjartanu. Við treystum ekki þeirri innri sjón sem Guð hefur gefið okkur, við hunsum rödd Jesú í hjarta okkar, höldum að engillinn sem birtist okkur sé aðeins okkar eigin hugarburður, afleiðing þess að við höfum fengið okkur aðeins of mikið úr þeim vasapelum sem við notum til að deyfa okkur.

Jóhannes boðaði komu þess sem var honum meiri. Jóhannes sagði: Hann á að vaxa, ég á að minnka. Og við undirbúum komu þessa sama Jesú sem Jóhannes boðaði. Við búum okkur undir að fagna því að Guð sendi hann í heiminn til þess að við mættum vakna upp af þyrnirósarsvefni okkar. Til þess að við mættum öðlast hina innri sjón hjartans. Þá sjón sem hefur ávallt augun á Jesú, hefur ávallt augun á því góða, fagra og fullkomna sem er hluti af himnaríki. Sigurbjörn Einarsson orðar þetta með sínum snilldarhætti þegar hann fjallar um innri sjón hjartans. Hann segir: ,,Þegar innri augun opnast fyrir Jesú Kristi, trúarsjónin, sjón hjartans, þá verður saga hans, persóna hans og ferill annað en skýjamyndir úti við ystu sjónarrönd liðinna alda. Hann verður veruleiki þeirrar sögu sem ég er að lifa. Og allir menn, öll tilvera.

Veruleikinn á bak við allt og í öllu er græðandi, frelsandi máttur hins þjáða, sigrandi Guðs”.

Þetta sagði Sigurbjörn heitinn á lönguföstu í Hallgrímskirkju árið 1999. Og nú, á jólaföstu tíu árum síðar eiga þessi orð einnig við, eins og á öllum árstíðum. Við búum okkur undir komu Krists. Í hönd fer ein af stærstu hátíðum kristinnar trúar. Megi Guð gefa okkur þá innri sýn hjartans sem bendir okkur á Krist í öllum aðstæðum. Og megi trú okkar birtast í verki þannig að fátækum sé boðað fagnaðarerindi, því að ennþá höfum við fátæka á meðal okkar, jafnvel hér í landi allsnægtanna, og ég minni á söfnun vegna innanlandsaðstoðar Hjálparstarfs kirkjunnar. Og megi komandi jólahátíð verða okkur uppspretta gleði, friðar og og byggja upp það traust hjartans sem við þurfum á að halda í heimi sem sífellt reynir að telja okkur af trúnni. Og við tökum undir með sálmaskáldinu Helga Hálfdánarsyni þegar hann segir:

Ó virstu góði Guð þann frið

Sem gleðin heims ei jafnast við

Í allra sálir senda

Og loks á himni lát oss fá

Að lifa jólagleði þá

Sem tekur aldrei enda.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda, Amen.