Biðjum og styðjum – blessun Guðs og samhjálp manna

Biðjum og styðjum – blessun Guðs og samhjálp manna

Hvað er framundan? - spyrja margir um þessar mundir, þegar ár liðið frá því að staðfest var að fjármálakerfið íslenska var hrunið með þeim hörmulegu afleiðingum sem hafa æ betur að verið að koma í ljós.

I

Hvað er framundan? - spyrja margir um þessar mundir, þegar ár liðið frá því að staðfest var að fjármálakerfið íslenska var hrunið með þeim hörmulegu afleiðingum sem hafa æ betur að verið að koma í ljós.

Blessar Guð Ísland og íslenska þjóð?

Ef við horfum í kringum okkur sjáum við að við eigum nú sem fyrr yndislegt land þó harðbýlt sé um margt, land með miklum lífsgæðum og auðlindum sem hefur gert okkur kleift að byggja hér upp samfélag þar sem lífskjör hafa verið með því besta á gjörvallri jörðinni.

Að þessu leyti erum við ennþá rík þjóð. Við njótum sannarlega mikillar blessunar og eigum því að geta byggt hér upp gott samfélag.

Kreppan er því ekki tákn um að Guð blessi ekki land né þjóð, eins og stundum hefur verið ýjað að. Við fórum illa að ráði okkar, gengum ekki á Guðs vegum. Einvher sagði að kreppan væri afar dýr fyrirlestur um það sem við þurfum að læra, a.m.k. rifja upp, hvað skal hafa forgang í lífi okkar.

Þegar við lítum til baka hljótum við flest að vera sammála um að óráðsíu og ranglæti síðustu ára varð að linna. Við vildum ekki búa lengur í þjóðfélagi þar sem ójöfnuður jókst sennilega hraðar en í nokkru öðru landi, eins og kemur fram í skýrslu sem forsætisráðuneytið gaf nýlega út. Ýmis félagsleg vandamál og óáran eru nefnilega fylgikvillar mikils ójöfnuðar til lengri tíma litið, og því er vaxandi ríkidæmi fárra alls ekki einkamál þeirra – enda líka ósatt sem haldið hefur oft fram síðustu ár að allir græði á því að sumir verði svo moldríkir að þeir viti vart aura sinna tal. Slík orð eru blekking þeirra sem vilja viðhalda forréttindastöðu sinni.

II

Guðspjall dagsins greinir frá ríkum manni sem kom til Jesú og spurði: Hvað á ég að gera til að öðlast eilíft líf?

Hér er stórt spurt, verið horfa til þess sem er mest og æðst alls sem er, tilgang lífs, hvernig hægt sé að lifa í samræmi við vilja hins eilífa Drottins Guðs, eiga líf með honum hér á jörðu og eins þá lífsgöngunni lýkur?

Þessi ríki maður hafði kostað kapps um að fylgja alls konar reglum og hefðum trúar og samfélags – og var að þessu leyti um margt til fyrirmyndar. Var það ekki nóg – allt sem ætlast var til? Hefði hann ekki komist inn í guðsríki á eigin verðleikum?

Jesús horfði á manninn með ástúð og sagði við hann: Eins er þér vant, far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.

Maðurinn varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur, enda átti hann miklar eignir.

Þar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera.

Í bók sinni Breytni eftir Kristi skrifar Tomas A Kempis:

‘Án kærleika kemur ytri verknaður að engu gagni, en allt sem unnið er af kærleika, hve smátt sem það er og lítils metið, ber ríkulegan ávöxt, því að Guð aðgætir frekar með hve miklum kærleika menn gjöra verkið, heldur en hver afköstin eru. Sá gjörir mikið sem elskar mikið. Sá gjörir mikið sem vinnur verk sín vel. Sá vinnur vel sem þjónar fremur hagsmunum heildarinnar en vilja sjálfs sín.’

Þetta var skrifað fyrir meira en 500 árum og lífsspeki sem þessa lærðum við flest ef ekki öll í æsku, lærðum að okkur ber að elska bróður okkar og systur, þjóna fremur hagsmunum heildarinnar en sérhagsmunum fárra.

Þetta eru því ekki ný sannindi heldur gömul, eins og postulinn bendir á í pistli dagsins – gömul sannindi en þó stöðuglega ný því boðskapur þeirra og erindi er ætíð jafn mikilvægur. Sá sem elskar bróður sinn býr í ljósinu, segir postulinn.

Svo bætir postulinn því við að þeir sem hata bróður sinn eru í myrkrinu og lifa í myrkrinu. Þir vita ekki hvert þeir fara því að myrkrið hefur blindað augu þeirra.

Þeir vita ekki hvert þeir fara.

Á ekki þessi lýsing nokkuð vel við það sem gerðist hér á landi og um víða um heim á síðstu árum. Við vissum ekki hvert við vorum að fara. Margir gengu í myrkri, og skeyttu í engu um velferð eða hagsmuni annarra. Hinum gömlu boðorðum var hent, gamlar vörðurá vegferðinni hundsaðar.

Ég las um dagin viðtal við konu sem kom hingað til lands og hélt hér námskeið, og sagði m.a. frá því að fyrir meira en áratug hefði hún komið í virtan viðskiptaháskóla í Bandaríkjunum, og þar hefði komið fram hjá einum prófessornum að þeir væru hættir að kenna viðskiptasiðfræði. Námskeiðið hafði ekki fallið í góðan jarðveg hjá nemendum, þeim fannst það ekki gagnlegt.

Og hvað gerðist svo? – spurði hún. Allt varð að einum graut, menntun ruglaðist saman við græðgi og svo fóru sögur að berast um hrikalega sjálftöku, spillingu og skeytingarleysi gagnvart hagsmunum annarra.

Gömul og góð viðmið voru lögð til hliðar. Við gengum úr ljósinu inn í myrkrið, frá réttlæti og samhjálp inn á braut óhófs og spillingar, næstum án þess að taka eftir því; Það sem eitt sinn var löstur varð smátt og smátt talið sjálfsagt og eðlilegt og jafnvel eftirsóknarvert og prýddi forsíður blaðanna! Og ótal margir hrifust með, enda óspart hvattir til, fylgdu mýrarljósi út í ógöngurnar sem við erum nú að berjast við að komast út úr.

Við þurfum að skoða rækilega hvað gerðist, með heiðarlegri og opinskárri umræðu ásamt með rannsókn, hvar hugtökin játning, sekt, iðrun, fyrirgefning og sátt koma öll fyrir. Um mikilvægi slíks uppgjörs má lesa hjá Tutu erkibiskup í Suður Afríku í bók hans: Guð á sér draum; God has a dream. A Vision of Hope for our time, en um þá bók má lesa á vef Þjóðkirkjunnar tru.is. Þar fjallar þessi mikli leiðtogi blökkumanna um hve raunverulegt uppgjör við fortíðina og ranglætið sem viðgekkst, er mikilvægt til að ryðja braut fyrir hið nýja sem skal koma, til að hægt sé að skapa nýtt samfélag hvar önnur lífsgildi fá rými þau en réðu för. Við ætlum líka um leið að eyða hatri og hefndarhug sem reiði getur vakið ef hún finnur ekki farveg með viðnunandi hætti. Skaðinn sem íslenskt samfélag hefur orðið fyrir er slíkur að það verður að taka ákveðið á málum, eins og væntanleg er verið að gera. Um leið ætlum við að byggja upp og efla jákvæðni og bjartsýni, benda á það góða og uppbyggilega sem er að gerast í okkar samfélagi, benda á þann auð sem við eigum í fóliinu og býr í landinu okkar og auðlegð þess, þessu landi sem Guð blessar okkur ríkulega með.

III

Kæri söfnuður.

Við ætlum að vinna okkur út úr þeim erfiðleikum sem við okkur blasa og skapa hér á ný gott samfélag hvar hagsmunir heildarinnar eru í hávegum hafðir; eins og okkur var kennt og við viljum og kenna okkar börnum.

Gerum því upp fortíðina og mörkum stefnu til framtíðar.

En um leið, og nú þegar verðum við að leysa úr þeim bráða vanda sem einstaklingar og fjölskyldur eiga við að etja og snertir getu þeirra til að sinna ýmsum grunnþörfum sínum, s.s. að eiga fyrir mat og hafa húsaskjól.

Kallað er eftir samstöðu þjóðarinnar til þessa verkefnis. En þjóðin kallar þó fyrst eftir samstöðu á hinu háa Alþingi, að þar sé unnið samhent að því að finna lausnir á brýnum viðfangsefnum þjóðarinnar. Ólík sjónarmið eru eðlileg í eins stórum málum og nú er við að glíma, en sundurlyndi, skætingur og pólitískur skotgrafarhernaður á Alþingi á einfaldlega ekki við nú í miðri rústabjörgun, auk þess sem slíkt hefur vond áhrif á líðan og samstöðu þjóðarinnar á þessum viðkvæmu tímum. Alþingismenn verður að minnast mikillar ábyrgðar sinnar.

Við sem þjóð verðum að þjappa okkur saman sem best við kunnum og komast í gegnum komandi vetur, styðja hvert annað, og vitaskuld hvað helst þau sem vart geta brauðfætt sig og sína, né vita hvort þau hafi þak yfir höfuðið í næsta mánuði. Hér verða stjórnvöld að koma að málum eins og þau eru að gera, m.a. til að lánastofnanir nýti sér ekki bága stöðu varnarlauss fólks. Stjórnvöld verða fyrst og síðast að verja barnafjölskyldur eins og kostur er, styðja félög og stofnanir sem eru með starf fyrir börn og ungt fólk, en þó skólana fyrst og síðast, þar sem velferð barna og ungs fólks er án efa best sinnt. Og svo ætlum við öll að styðja og halda uppi öflugu menningar og mannræktarstarfi um land allt, eins og við kunnum svo vel! Það skiptir miklu varðandi framtíð okkar sem þjóðar.

Hér þurfa söfnuðir kirkjunnar að huga vel að sínu hlutverki í nýjum aðstæðum, hvað þeir geta gert, líta í eigin barm. Við þurfum öll að leggja okkar af mörkum, koma út og líta í kringum okkur hvar krafta okkar er þörf. Við getum stutt hjálparstofnanir með framlögum, eins og við erum sérstaklega minnt á í dag, en getum líka með beinum hætti stutt einhverja í nágrenni okkar sem eiga vart til hnífs og skeiðar þegar líður á mánuðinn, keypt í matinn fyrir þau eða bakað og fært þeim. Möguleikarnir eru margir og þörfin vex.

Við erum kölluð til að gefa af því sem við eigum – gefa af veraldlegum gæðum okkar en líka og ekki síður af tíma okkar og auðlegð hjartans, af kærleika, með brosi og hlýjum höndum, styrkja og styðaj og vekja von – og þetta geta einnig þeir sem ekki eiga peninga til að miðla.

Jesús Kristur kallar okkur til að fylgja sér í þessari góðu þjónustu, kallar okkur til að taka á móti blessun Guðs og bera hana með okkur, kallar okkur til að lifa samkvæmt leiðsögn kærleika hans í krafti anda hans sem var og er og verður hinn sami, trúfastur Guð, um eilífð.