Gildismat

Gildismat

Þriðja bókin um bankahrunið kom út í vikunni. Þar var m.a. fjallað um orsakir þess og því haldið fram að ráðmenn hlytu að hafa vitað um alvarlega stöðu bankanna og þjóðarbúsins löngu áður en það brast á. Stjórnendur bankanna hefðu hugsanlega getað minnkað skaðann með aðgerðum, t.d. sameiningu sumra þeirra en ákvarðanir þeirra stjórnuðust að minnsta kosti á tímabili, að sögn höfundar, af ágirnd sem leiddi til þess að þeir tóku rangar ákvarðanir.

Hann svaraði honum: „Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur?“ Og hann sagði við þá: „Gætið ykkar og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auðugur sé.“

Þá sagði Jesús þeim dæmisögu þessa: „Maður nokkur ríkur átti land er hafði borið mikinn ávöxt. Hann hugsaði með sér: Hvað á ég að gera? Nú get ég hvergi komið fyrir afurðum mínum. 18Og hann sagði: Þetta geri ég: Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri og þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum. Og ég segi við sálu mína: Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð.

En Guð sagði við hann: Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð og hver fær þá það sem þú hefur aflað? Svo fer þeim er safnar sér fé en er ekki ríkur í augum Guðs.“

Þriðja bókin um bankahrunið kom út í vikunni. Þar var m.a. fjallað um orsakir þess og því haldið fram að ráðmenn hlytu að hafa vitað um alvarlega stöðu bankanna og þjóðarbúsins löngu áður en það brast á. Stjórnendur bankanna hefðu hugsanlega getað minnkað skaðann með aðgerðum, t.d. sameiningu sumra þeirra en ákvarðanir þeirra stjórnuðust að minnsta kosti á tímabili, að sögn höfundar, af ágirnd sem leiddi til þess að þeir tóku rangar ákvarðanir.

Það er e.t.v. að bera í bakkafullan lækinn ræða þessi mál eina ferðina enn í prédikun en textarnir sem okkur er ætlað að íhuga í dag fjalla rækilega um mikilvægi þess að hafa rétta afstöðu til auðsins og setja réttar áherslur í lífinu. Jesús gefur tóninn í guðspjallinu er hann segir: „Gætið yðar að varast alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auðugur sé.“

Mismunandi gildismat

Eftir fall Tvíburaturnanna í New York árið 2001 gerðu Bandaríkjamenn sér betur grein fyrir hve dýrmætt lífið er og samvistir við fjölskyldu og vini jukust. - Það dýrmætasta í lífinu er ókeypis.

En þjóðfélagið sem við lifum í mótar okkur og gildismat þess verður ósjálfrátt gildismat okkar.

Í þekktustu bók mannfræðingsins Malinowskis, eins áhrifamesta mannfræðikennara 20 aldar, segir hann frá rannsókn sinni á Trobriand-eyjum í Suðurhöfum og greiningu sinni m.a. á þeirri áherslu fólksins sem þar býr að búa til hálsfestar og armhringi úr skeljum og versla með þær sín á milli skv. ákveðnum reglum. Menn sigldu langar leiðir á bátum sínum í leit að verðmætum skartgripum af þessari gerð. Þeir fengu þær gefins en urðu að gjalda fyrir þá með öðrum skartgripum síðar sem voru enn verðmætari. Heilt samfélagskerfi myndaðist utan um þessi viðskipti sem byggðu á trausti en ekki var leyfilegt að eiga fínar festar og armhringi lengi því þeir urðu að fá að halda áfram í kerfinu svo að aðrir fengju notið þeirra. Dreg þetta fram sem dæmi um framandi verðmætamat. Okkur finnst sumum undarlegt að fólk skuli leggja svona mikið á sig til að eignast skartgripi úr skeljum og mega svo aðeins eiga þá í tiltölulega í stuttan tíma.

Annað dæmi um framandi verðmætamat er frá Kwakiutl-indíánum í Norður Ameríku. Æðstu verðmæti þeirra voru virðingartitlar sem þeir voru reiðubúnir að greiða hátt gjald fyrir. Til að öðlast þá urðu þeir að fara í eins konar heiðurskeppni og sigra aðra menn í heiðri. Það var löng leið á toppinn. Keppnin gekk m.a. út á að eyðileggja miklar eignir mottur, körfur, teppi, kanóa og skeljar. Þegar tveir menn tókust á eyðilagði annar þeirra nokkra hluti. Hinn vaðr þá að svara í sömu mynt og eyðileggja enn meiri verðmæti, síðan hélt eyðileggingin áfram þar til annar var dæmdur sigurvegari. Keppikeflið var að sigra í sæmd og virðingu. Sá sem vann fékk nafn eða titil. Efnislegir hlutir voru notaðir sem tæki til að ná ákveðnu markmiði.

Karlarnir sem ég bjó á meðal í Afríku vildu eignast eins margar kýr og þeir komust yfir. Þjóðfélagsskipulagið endurspeglaði þetta og verðmætamat fólksins. Þetta var þeirra auður. Ég gæti tekið mörg önnur dæmi víðs vegar að úr heiminum um verðmætamat sem er öðru vísi en okkar. Verðmætamat skiptir máli.

Að láta draumana rætast

Fólk vinnur alls staðar að ákveðnum markmiðum og eyðir jafnvel bestu árum ævinnar til að ná þeim. Þau geta verið á sviði menntunar, íþrótta, að byggja upp fyrirtæki, söfnuði eða á sviði fjármála. Aðrir eiga sér hugsjónir sem þeir helga líf sitt og eru jafnvel fúsir til að gjalda fyrir þær með lífi sínu. Við getum nefnt frelsishetjur, kommnúnista sem létu eigin hagsmuni víkja á meðan unnið var að voninni um hið nýja og farsæla ríki sem koma myndi og þannig mætti áfram telja. - Umhverfið mótar verðmætamat okkar og áherslur. - Góðærið breytti okkur.

Það er gott að eiga sér markmið og vinna að því að ná þeim. Það er gott og mikilvægt að eiga sér drauma og gera þá að veruleika. En það sem Jesús varar okkur við hér sem og annars staðar er að leggja rangar áherslur í lífi okkar. Hann segir í Fjallræðunni: „Segið … ekki áhyggjufull: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast? … Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. Hvað vill Jesús segja með þessu? Hann spyr: Hver er þinn æðsti metnaður? Þetta er spurningin um eignarhald yfir lífi okkar. Hver er Drottinn okkar? Hver hefur æðsta valdið þar? Án nærveru hans verður þessi boðskapur illskiljanlegur. Með honum verður hann sannur. Jesús er að segja okkur að æðsti metnaður okkar eigi að vera að stuðla að vexti ríkis Guðs, útbreiðslu þess. Ef það skiptir okkur mestu máli og öll önnur markmið eru undirgefin því og þjóna því þá er í góðu lagi að eiga allan heimsins auð og ná öllum þeim markmiðum sem okkur dreymir um.

Í sögunni um ríka unglinginn spyr ungi maðurinn Jesú hvað hann eigi að gera til að öðlast eilíft líf og gerir grein fyrir hugmyndum sínum að svari. Jesú leist vel á það en í lok sögunnar segir hann honum að fara og selja eigur sínar og gefa fátækum. Jesú var ekkert illa við að hann væri ríkur heldur áttu eignir hans hjarta hans allt og héldu honum frá Guðs ríki sem var því ekki hans æðsta markmið. Líf hans snerist um eignirnar. Viðbrögð unga mannsins við ráðleggingu Jesú voru þau að hann gekk burt hryggur enda var hann mjög auðugur (Lúk. 18,22).

Einstaklingurinn skiptir öllu

Lexían í dag er spurning um rétta guðsdýrkun. Spurt er: Hvað á ég að koma með fram fyrir Drottin? Hvernig get ég orðið Guði þóknanlegur?… Á ég að færa honum brennifórnir? … Á ég að fórna frumburði mínum fyrir synd mína? Svarið er einfalt: Nei. Guð vill ekkert af þessu heldur hjarta mitt og þátttöku í lífi mínu svo að ég breyti rétt, ástundi kærleika og þjóni Guði í hógværð.

Þessi þráður er spunninn áfram í lexíunni hjá Páli postula í fyrra Tímóteusarbréfi þar sem auðmenn eru varaðir við að hrokast upp af auði sínum og setja traust sitt á hann því að hann er fallvaltur. Hann segir Tímóteusi að benda auðmönnunum á að þeir eigi að líta á auðinn sem tæki sem þeim er trúað fyrir, ekki í eigin þágu heldur til að miðla öðrum og vera þannig auðugir af góðum verkum. Þannig, segir hann, safna þeir fjársjóðum á himnum sem þeir fá að njóta um eilífð. Slíkir fjársjóðir eru fjárfesting í fólki vegna þess að í augum Guðs er fólk, hver einstaklingur, óendanlega dýrmætur.

Áhersla Guðs á mikilvægi einstaklingsins endurspeglaðist í þjóðskipulagi Ísraelsmanna. Hvert 50. ár var kallað fagnaðarár. Þá voru allar skuldir gefnar upp, þeir sem hnepptir höfðu verið í þrældóm fengu frelsi og öll óðöl sem seld höfðu verið gengu til baka til upphaflegra eigenda. Þjóðfélagið var núllstillt. Þetta er það sem Jesús talaði um í sinni fyrstu ræðu í samkunduhúsinu í Nasaret er hann hóf þjónustu sína. Hann sagði: „Andi Drottins er yfir mér … Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins.“ Boðskapur hans var þessi: Ég er kominn til að gera þetta að veruleika, alltaf, á hverju ári, núna. Þetta byggist á kærleiksafstöðu Guðs til allra manna, fúsleika hans til að fyrirgefa misgjörðir okkar, núllstilla líf okkar, gefa nýtt tækifæri. Við biðjum um að þetta verði er við segjum í Faðirvorinu: Komi þitt ríki. Þetta ríki er hið innra með okkur. Það er framgangur þess í eigin lífi og á meðal allra manna sem á að vera æðsta markmið okkar, metnaður og inntak lífs okkar. Þá lifum við í blessun Guðs.

Hið rétta gildismat

En það er auðvelt að glepjast af verðmætamati umhverfisins, þeirrar menningar sem við erum hluti af. Fólk á hverju menningarsvæði þarf að glíma við sínar aðstæður. Tróbiand-menn þurfa að glíma við sitt verðmætamat, Kwkiutl-indíánar sitt, Afríkumenn sitt og við við okkar. En alls staðar er sú hætta fyrir hendi að fólk verði svo upptekið af verðmætamati umhverfisins að það tapi áttum.

Þegar Jesús bað fyrir lærisveinum sínum skömmu fyrir krossfestinguna bað hann Guð um að varðveita hjörtu þeirra og verðmætamat í heimi sem mótaðist af öðrum viðmiðum en þeim sem gilda í ríki hans: „Ég bið ekki að þú takir þá úr heiminum,“ sagði hann, „heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa. Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.“ Það er áskorun að þetta verði sannleikur í lífi okkar

Boðskapur Jesú til okkar í dag er m.a. þessi: Látið ekki glepjast af ágirndinni og verðmætamati samtímans. „Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auðugur sé.“ Til að undirstrika þetta sagði hann hina þekktu dæmisögu um ríka bóndanum sem reiddi sig á auð sinn. Þegar hann fékk óvenjumikla uppskeru ákvað hann að rífa hlöður sínar og byggja aðrar stærri svo að hann gæti lifað af eigum sínum um ókomin ár. Við gerum þetta sum okkar með því að reyna að leggja fyrir til að geta farið fyrr á eftirlaun. E.t.v. eru það okkar hlöður eða annað sem við setjum traust okkar á.

Heimskan

En heimskan í sögunni er þessi: Ríki bóndinn gleymdi því að lífið er fallvalt. Því getur lokið hvenær sem er. Við getum orðið veik, verið kippt úr leik orðið fyrir óvæntum áföllum sem kollvarpa áætlunum okkar. Vinur minn stálhraustur lenti til dæmis í því um daginn að hjartað fór að hægja á sér og tók sér jafnvel hlé. Það þurfti að setja gangráð í hann og gera á honum mikla aðgerð. Þetta kom eins og þruma úr heiðskíru lofti.

Guð sagði við ríka bóndann: „Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð og hver fær þá það sem þú hefur aflað? Svo fer þeim er safnar sér fé en er ekki ríkur í augum Guðs.“

Við erum hvött til að vera rík í augum Guðs. Hvernig förum við að því? Þetta er glíma trúargöngunnar. Krafturinn á henni kemur frá bæninni, lestri Biblíunnar og í samfélaginu hvert með öðru er við hjálpumst að við að feta veg Jesú. Vegurinn er grýttur, mjór og hlykkjóttur. Við verðum rík í augum Guðs með því að fjárfesta í fólki bæði tíma, fjármunum og góðum verkum. Guðrækni okkar á að beinast að því.

„Gætið yðar að varast alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auðugur sé.“