Salt og ljós fyrir lífið

Salt og ljós fyrir lífið

Jesús sagði ekki að við ættum að ganga um og safna nammi, heldur væri hlutverk okkar að verða krydd, selta veraldar. Hann sagði ekki að við ættum setja ljósið okkar inn í grasker heldur leyfa því að lýsa öðrum. Við erum ljósasól á fjalli í sambandi við orkubú veraldar.
fullname - andlitsmynd Sigurður Árni Þórðarson
06. nóvember 2011

[audio:http://db.tt/bD5iOnFa] Allra heilagra messa er í dag. Hvað merkir það og til hvers að halda slíkan messudag, en ekki bara 20. sunnudag eftir þrenningarhátíð? Í Íslensku hómilíubókinni, sem er merkilegt safn predikana frá miðöldum, segir svo í ræðu á allra heilagra messu:

"En alls vér höldum í dag hátíð omnium sanctorum, þá er oss nauðsyn að líkjast þeim í siðum, er vér dýrkum í hátíðarhaldinu. Því að lítið stoðar að halda ina ytri hátíð omnium sanctorum á jörðu, ef hjörtu ór fýsast eigi til innar innri hátíðar þeirra á himni. Ef vér erum musteri Guðs, sem Páll postuli mælti, þá skulum vér braut reka frá oss alla djöfullega illsku og syndir, svo að hjörtu ór verði eigi djöflahof, heldur byggð Guðs og allra heilagra."

Þetta er mergjaður texti! Það er til lítils að halda hátíð í hinu ytra ef hugur fylgir ekki með. En til hvers allra heilagra messa? Kaþólikkar hafa í meira en árþúsund haldið allra heilagra messu hátíðlega 1. nóvember og helgað daginn dýrlingum og píslarvottum. Á Vesturlöndum hefur hátíðin verið haldin þann dag frá því um 700. Austurkirkjan, hin grísk- og rússnesk-orþódoxa, heldur hátíðina hins vegar fyrsta sunnudag eftir hvítasunnu. Messudagurinn var nýttur til að minnast þekktra og óþekktra píslarvotta, ræða um líf þeirra og reyna að læra af því. Þeir urðu eins og ofurhetjur ungra barna. Líf hinna helgu urðu fyrirmyndir eða íkonar til eftirbreytni og eflingar andans.

Allra sálna messa Eitt er allra heilagra messa en svo er til allra sálna messa. Á síðari tímum hefur þessum dögum og heitum þeirra verið ruglað saman. Þetta var þó í hefðinni sitt hvor dagurinn og með sitt hvorum tilgangnum. Kaþólikkar á miðöldum notuðu daginn eftir allra heilagra messu sem dag sálnanna. Þá var minnst þeirra sálna sem væru í hreinsunareldinum. Fyrir þeim var beðið og messað. Mótmælendur og þar með lútherska kirkjan hafnaði skilningi kaþólikka á hreinsunareldi og þar með að sálir væru píndar.

Í allt öðrum skilningi og undir áhrifum frá spíritisma var tekin upp sérstakur allra-sálna-messudagur í ýmsum söfnuðum á Íslandi. Skilingurinn, sem var lagður í þann messudag, var að sjálfsögðu allt annar en hinn gamal-kaþólski. Dagurinn var helgaður minningu látinna. Ég mæli með að við notum heitið “allra heilagra messa” því heitið allra sálna messa er hluti af sumpart ónothæfri guðfræði.

Líf á himni - en líka líf í heimi Og þá að inntakinu: Allra heilagra messa beinir ósjálfrátt huga til himins og til þeirra sem látin eru. Það er mikilvægt. Þessi dagur getur orðið einskonar spegilmynd föstudagsins langa í huga okkar. Það er því merkilegt að huga að guðspjallstexta dagsins. Á þessum degi, sem við hugsum til þeirra sem hafa farið yfir þröskuld tímans, er textinn ekki um eilífa lífið heldur um lífið hér og nú. Þar er spennan í lífi okkar og þar er spennan, sem við verðum að halda í. Við lifum en við eigum að lifa og vera í ljósi eilífðar.

Jesús sagði: Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? ... Þér eruð ljós heimsins. Salt og ljós – boðskapur á allra heilagra messu. Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna, að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar, sem er á himnum. Guðspjallið er úr Fjallræðunni í Matteusarguðspjalli, strax á eftir hinum frægu sæluboðum. Hvað gerir maður þegar saltið dofnar? Það er nú reynsla okkar að salt dofnar ekki svo spurningin vaknar: Við hvað er átt? Jú, á Dauðahafssvæðinu var og er mikið af salti. Þar - í ofurhitanum - langt undir sjávarmáli gufar vatn upp og eftir sitja alls konar efni í bland við saltið, m.a. natrón, sem við geymum venjulega í bökunarhyllunni. Natrón blandaðist saltinu og saltið varð heldur bragð- og magnlítið. En Jesús vissi vel, þessi mikli áhugamaður um mat og veislur, að saltdeyfa var vond fyrir baksturinn. Þér eruð salt - er því ræða, sem varðar líf fólks og tilgang þess.

Hver er miðjan? Jesús bætir í kryddsafnið: Þér eruð ljós, og minnir á að ljós á að nota til lýsingar. Borg eða bær uppi á fjalli sést vel, minnir hann líka á og vísar þar með í heimsmál þeirrar tíðar, sem eru áþekk samtíðinni. Hvar er miðja heimsins er stópólitík hverrar tíðar - og var þá einnig: Var það Jerúsalem, Aþena, Róm eða einhver önnur borg? Þjóðernissinnarnir í Gyðingalandi voru algerlega vissir um að fjallið Zíon og þar með Jerúsalem væri það eina sem skipti veröldina máli. Þar væri miðjan, þaðan ætti ljósið að berast. Rómverjarnir vissu um mátt Rómar og Cicero talaði um þá stórborg og heimsmiðju sem ljós þjóðanna. Jesús talar því inní “realpólítík” samtíðarinnar, snýr uppá og talar beint og skýrt. Það eru ekki fjöll eða borgir sem eru í miðjunni - þér eruð ljós, sem á að lýsa. Hyljið ekki, lýsið fyrir allan heim. Til hvers? Til að heimurinn sjái, að lærisveinar Jesú lifa með krafti. Ekki til að fólk geri sér grein fyrir að manngæska þeirra sé mikil, heldur að fólk snúi sér að því að vegsama Guð. Það er Guð, sem er miðjan, en ekki menn.

Þar með er tilgangur ræðunnar ljós. Þetta er stefnan, sem Jesús markar Guðsríkinu. Fyrirtæki, félög og stofnanir semja og samþykkja stefnu fyrir starf sitt á hverri tíð. Jesús markar hér stefnu fyrir lærisveina sína, kirkju sína, þennan söfnuð, fyrir þig og mig. Tilgangur lífs manna er að lifa í samræmi við hlutverk Guðsríkisins, að lifa vel, hafa alls staðar áhrif til að fólk opni líf sitt fyrir hinu góða, tengist Guði, verði borgarar í öðru ríki en rómversku, gyðinglegu, grísku eða einhverju trúarríkinu - verði borgarar Guðsríkisins. Þér eruð....varðar tilheyrendur Jesú, varðar kristna kirkju, alla menn, safnaðarlífið í Nessókn – þig sem ert hér í dag.

Hrekkjavaka Á enskunni var talað um holy eve eða heilagt kvöld, sem síðan breyttist í halloween og vofukvöld og hrekkjavöku í ýmsum enskumælandi löndum. Upprunalega var þetta aðfangakvöld allra sálna messu. Vestur í Ameríku er vísað til, að þetta er dagur þar sem margt er á sveimi, krakkarnir bregða yfir sig skikkjum, ganga um eins og skríkjandi vofur og safna nammi undir slagorðinu trick or treat – happ eða hrylling. Gefðu nammi eða þú hefur verra af. Atferlið hefur spennt börnin, skemmt þeim, kannski stundum hrætt, en svo hafa góðir foreldrar auðvitað frætt þau um sálir, að líf er eftir þetta líf og um samhengi alls er. En getur verið að við séum að sumu leyti í sporum amerískra barna? Tökum við hið trúarlega lítt hátíðlega og göngum um með einhverjum trúðshætti og látum okkur nægja trúarleg sætindi og léttmeti? Jesús sagði ekki að við ættum að ganga um og safna nammi, heldur væri hlutverk okkar að verða krydd veraldar, selta fyrir heiminn. Hann sagði ekki að við ættum setja ljósið okkar inn í grasker heldur leyfa því að lýsa öðrum. Við erum ljósasól á fjalli í sambandi við orkubú veraldar – eða er ekki svo?

Dagur fyrir látna og dagur fyrir líf Allra heilagra messa er því merkilegur dagur, sem við notum til að minnast látinna, bera þau fram fyrir Guð í bæn, minnast alls sem gert hefur verið. En þessi dagur er ekki aðeins um hin látnu heldur um líf hinna lifandi, um hvernig við megum og ættum að lifa vel. Við getum fellt hrekkjavökubúninga okkar eigin andlega lífs og lifað þannig að það það sjáist, heyrist og finnist á bragðinu að Guð er Guð.

Hver er lífsstefna þín? Hvernig er trúarlíf þitt? Hvernig er saltbúskap þínum háttað, nú eða ljósgangi lífs þíns? Er stuðið búið og allt orðið bragðdauft? Er myrkrið að gleypa og kokkarí lífsins í vandræðum?

Guð kallar, gefur ljós, hleypir straumi á, kokkar vel í veisluhúsinu stóra. Og þá aftur til Hómilíubókarinnar. Þar segir: “Því að lítið stoðar að halda ina ytri hátíð omnium sanctorum á jörðu, ef hjörtu ór fýsast eigi til innar innri hátíðar þeirra á himni.”

Amen.

Neskirkja, 6. nóvember, 2011. Allra heilagra messa. B- textaröð

Lexía: 5Mós 33.1-3 Þannig blessaði guðsmaðurinn Móse Ísraelsmenn áður en hann dó: Drottinn kom frá Sínaí, hann lýsti þeim frá Seír, ljómaði frá Paranfjöllum. Hann steig fram úr flokki þúsunda heilagra, á hægri hönd honum brann eldur lögmálsins. Þú sem elskar þjóðirnar, allir þeirra heilögu eru í hendi þinni. Þeir hafa fallið þér til fóta, rísa á fætur er þú skipar.

Pistill: Opb 7.13-17 Einn af öldungunum tók þá til máls og sagði við mig: „Hverjir eru þessir menn sem skrýddir eru hvítum skikkjum og hvaðan eru þeir komnir?“ Og ég sagði við hann: „Herra minn, þú veist það.“ Hann sagði við mig: „Þetta eru þeir sem komnir eru úr þrengingunni miklu og hafa hvítþvegið skikkjur sínar í blóði lambsins. Þess vegna eru þeir frammi fyrir hásæti Guðs og þjóna honum dag og nótt í musteri hans og sá sem í hásætinu situr mun búa hjá þeim. Þá mun hvorki hungra né þyrsta framar og eigi mun heldur sól brenna þá né nokkur breyskja vinna þeim mein. Því að lambið, sem er fyrir miðju hásætinu, mun vera hirðir þeirra og leiða þá til vatnslinda lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra.“

Guðspjall: Matt 5.13-16 Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum. Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.