Kristnin út í buskann?

Kristnin út í buskann?

Líttu þér nær, kæra Guðs barn! Hvernig er kærleikurinn í framkvæmd í þínu lífi? Athugaðu það! Ertu eitt þeirra Guðs barna sem þiggur en gefur ekki áfram? Eða ert þú eitt þeirra Guðs barna sem horfa ástúðlegum augum á neyð náungans? Og hvað ætlarðu að gera með þá tilfinningu þína?

Jesús sagði þeim þessa dæmisögu: „Einu sinni var maður nokkur ríkur er klæddist purpura og dýru líni og lifði hvern dag í dýrlegum fagnaði. En fátækur maður, hlaðinn kaunum, lá fyrir dyrum hans og hét sá Lasarus. Feginn vildi hann seðja sig á því er féll af borði ríka mannsins og jafnvel hundar komu og sleiktu kaun hans. En nú gerðist það að fátæki maðurinn dó og báru hann englar í faðm Abrahams. Ríki maðurinn dó líka og var grafinn. Og í helju, þar sem hann var í kvölum, hóf hann upp augu sín og sá Abraham í fjarska og Lasarus við brjóst hans. Þá kallaði hann: Faðir Abraham, miskunna þú mér og send Lasarus að hann dýfi fingurgómi sínum í vatn og kæli tungu mína því að ég kvelst í þessum loga. Abraham sagði: Minnstu þess, barn, að þú hlaust þín gæði meðan þú lifðir og Lasarus böl á sama hátt. Nú er hann hér huggaður en þú kvelst. Auk alls þessa er mikið djúp staðfest milli vor og yðar svo að þeir er héðan vildu fara yfir til yðar geti það ekki og eigi verði heldur komist þaðan yfir til vor. En hann sagði: Þá bið ég þig, faðir, að þú sendir hann í hús föður míns, en ég á fimm bræður, til þess að vara þá við svo þeir komi ekki líka í þennan kvalastað. En Abraham segir: Þeir hafa Móse og spámennina, hlýði þeir þeim. Hinn svaraði: Nei, faðir Abraham, en ef einhver kæmi til þeirra frá hinum dauðu mundu þeir taka sinnaskiptum. En Abraham sagði við hann: Ef þeir hlýða ekki Móse og spámönnunum láta þeir ekki heldur sannfærast þótt einhver rísi upp frá dauðum.“ Lúk 16.19-31

Biðjum!

Mikli Guð, sem himnarnir rúma ekki, en kemur þó til okkar og ert okkur nálægur í orði þínu, við biðjum þig. Allt í kringum okkur eru orð. Hjálpa þú okkur að heyra þína rödd meðal allra þeirra sem tala til okkar og vilja hafa áhrif á okkur, svo að líf okkar megi tilheyra þér og að það sé borið uppi og mótað af kærleika þínum sem við mætum í Jesú Kristi. Þér sé lof og dýrð að eilífu. Amen.

Í dag er 1. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Gleðidagarnir 40 frá páskum, fram að uppstigningardegi, eru liðnir. Hvítasunna, sem er hátíð heilags Anda, er nú að baki og sömuleiðis dagur heilagrar þrenningar, eða þrenningarhátíð, en hana héldum við hátíðlega í kirkjum landsins, síðast liðinn sunnudag. Samkvæmt kirkjuárinu, erum við því að ganga inn í tímabil sem nefnt hefur verið hátíðarlausa tímabilið, dagarnir eftir þrenningarhátíð og varir það tímabil allt fram undir aðventu. Litur dagsins í dag er grænn og táknar von og vöxt og er litur allra sunnudaga þessa langa tímabils í kirkjuárinu.

En þessi dagur er ekki aðeins fyrsti sunnudagur eftir Þrenningarhátíð, heldur einnig Dagur barnsins. Á vef Stjórnarráðsins má finna bókun frá 9.maí s.l., þar sem segir að þessi dagur skuli tileinkaður börnum. Þar segir orðrétt: ,,Þann 25. maí næstkomandi verður haldinn í fyrsta sinn sérstakur Dagur barnsins. Áformað er að slíkur dagur verði haldinn árlega í framtíðinni. Dagurinn er haldinn samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar Íslands að tillögu Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra. Dorrit Moussaieff forsetafrú varð við ósk ráðherra um að gerast verndari dagsins. Að þessu sinni verður yfirskrift dagsins Gleði og samvera.”

,,Þú, sem elskar æsku mína og yfir hana lætur skína, þitt auglit bjart lát aldrei dvína, þá ást, sem leiðir, annast mig, um ævi minnar stig.”

Þannig orti séra Friðrik Friðriksson með glæsibrag. Það fer enda afar vel á því að þessi tiltekni dagur skuli valinn sem Dagur barnsins, því ekki minni maður en séra Friðrik, barnavinur ,,par exelence” og einn merkasti æskulýðsleiðtogi 20. aldarinnar á 140 ára fæðingarafmæli í dag.

Séra Friðrik sem lagði stund á nám við háskóla í Kaupmannahöfn á yngri árum, kynntist þar félagsstörfum ungmenna og sá að þar myndi vera óplægður akur heima á Fróni. Varð það því að köllun hans og ævistarfi að bæta úr félags- og íþróttastarfi íslenskra ungmenna. Kom hann að stofnun ýmissa félaga, m.a. KFUM og KFUK (Kristilegt félag ungra manna og Kristilegt félag ungra kvenna), skátafélagsins Væringja, íþróttafélaga Vals og Hauka og Karlakórs Fóstbræðra. Séra Friðrik lét sér alla tíð annt um æsku landsins og standa þessi félög öll, enn þann dag í dag, sem vitnisburður um umfangsmikil störf hans. Eftir hann liggur fjöldinn allur af kveðskap og margir sálmar og fallegar sálmaþýðingar í sálmaarfi þjóðarinnar. Ber sálmaval þessarar guðsþjónustu þess nokkuð vitni.

Stórbrotin hátíðardagskrá hefur verið sett saman í tilefni dagsins og hófst hún í morgunn kl. 10:00 við styttu Séra Friðriks í Lækjargötu þar sem lagður var blómsveigur til minningar um hann. Doktor Sigurbjörn Einarsson, biskup, flutti þar bæn og blessun en dagskránni lýkur í kvöld kl. 20:00 með hátíðarsamkomu í húsi KFUM og KFUK við Holtaveg 28. Þar mun biskup Íslands Herra Karl Sigurbjörnsson, predika.

Ég rakst á svo litríka og fallega lýsingu á manninum og ákvað að láta hana fylgja hér með í tilefni dagsins: ,,Séra Friðrik var einstæður persónuleiki. Hann var leiftrandi gáfaður, svo skemmtilegur, að hann gat verið hrókur alls fagnaðar. Frásagnarsnilld hans var óviðjafnanleg. Hann var af dómbærum mönnum talinn vera mesta sálmaskáld okkar á þessari öld og rithöfundur var hann ágætur. Framkoma hans var svo fáguð og fyrirmannleg, að hann gat sómt sér hjá hvaða þjóðhöfðingja sem var, en þó svo auðmjúkur og lítillátur, að enginn smádrengur var honum of smár. Hann var frábær leiðtogi og auðmjúkur þjónn. Hann naut vinsælda og viðurkenningar af háum sem lágum. En mestur var séra Friðrik í trú sinni. Hann varð mikill vegna þess að hann var trúr köllun sinni og var þar sem Guð vildi setja hann.... Bænin var honum eðlileg og töm. Hann talaði við Guð og treysti bænheyrslu hans. Öll hans þjónusta var unnin í trú. Þessa trú átti hann til hinstu stundar. Þegar kraftarnir voru þrotnir, lét hann bera sig upp á samkomur í félaginu til þess að geta tekið þátt í lofsöng og tilbeiðslu með vinum sínum.” Þannig lýsir Ástráður Sigursteinsson, skólastjóri honum í ,,Bókinni um séra Friðrik” úr bókaflokknum ,,Man ég þann mann”.

Það er ljóst að í séra Friðrik höfum við afbragðs góða fyrirmynd. Með ævi sinni predikaði hann okkur hvernig við eigum að koma fram hvert við annað,og þá sérstaklega hvernig við eigum að koma fram við börn, leifa þeim að vera börn, truflunarlaust og hvernig við eigum að hlú að þeim svo þau megi njóta þess að vera börn eins legni og unnt er. En einnig kenndi hann okkur hvernig við eigum að ala önn fyrir náunga okkar og sína honum í verki raunverulegan áhuga og ástúð.

Ritningartextarnir sem við hlýddum á hér áðan fela einmitt í sér þessa hugsun. Lexían úr 5. Mósebók minnir okkur á mikilvægi þess að deila með öðrum, því sem Drottinn hefur gefið okkur. Og að Guð muni blessa okkur fyrir þá gjafmildi og hjálpsemi. En hann talar ekki aðeins um að við eigum að rétta fram hjálparhönd og lána þeim sem eru þurfandi, heldur talar hann einnig um hugarfarið að baki þeirri hjálpsemi og segir: ,,Þú skalt fúslega ljúka upp hendi þinni fyrir þurfamanni í landi þínu.” - Svo fer hann enn lengra með þetta, með því að gera ráð fyrir því að sumir séu svo illa staddir að þeir muni aldrei geta launað greiðann. Sé það svo, þá læturðu skuldina niður falla að það verði gjöf þín til hins líðandi bróður. Þetta er hugarfar sem Drottinn Guð þinn mun ríkulega blessa þig af. Að þú berir hag náunga þíns fyrir brjósti.

Pistillinn horfir síðan á þessa dyggð með augum Jesú Krists og reynir að koma lesandanum í skilning um það hvað í því felist að vera Guðs barn og eiga Jesú Krist að bróður. Hann gerir kærleikanum góð skil og talar um mennina eins og einhvers konar verkfæri eða farveg fyrir kærleikann. Hin ómengaða ást, á að flæða hindrunarlaust frá uppsprettunni, Guði, gegnum okkur, og til náunga okkar. Þar má ekkert standa í veginum. Enn þó látum við það gerast æ ofan í æ, að óttinn og hatrið, reiðin og eigingirnin stífla okkur... hindra flæði kærleikans.

Við verðum að kannast við óttann og þessar óþægilegu kenndir sem minnka okkur, setja okkur skorður. Við verðum að takast á við þær og temja okkur máttugra hugarfar. Hugarfar sem staðsetur okkur á stöðugum grunni og hjálpar okkur að þekkja innviði okkar, fyrir hvað við stöndum í lífinu. Lærum að þekkja gildin sem við lifum eftir!

Við höfum fengið þetta fallega land í vöggugjöf og því fylgir mikil ábyrgð. Ísland er land hinna mörgu og miklu gæða, við getum öll verið sammála um það, jafnvel á tímum þegar harðnar í ári. Tækifærin blasa við okkur víðast hvar. Við erum kraftmikil og dugandi þjóð. En því fylgir um leið mikil afar mikil ábyrgð og undan þeirri ábyrgð skorumst við ekki, heldur uppfyllum kröfu Guðs á hendur okkar, nefnilega að við ástundum kærleika. Elskum landið og ölum önn fyrir því! Elskum náunga okkar, jafnvel þótt hann komi langt að! Þetta getum við ekki gert með því einu að hugsa okkur elskuleg, heldur þurfum við að gera elskuna.

Líttu þér nær, kæra Guðs barn! Hvernig er kærleikurinn í framkvæmd í þínu lífi? Athugaðu það! Ertu eitt þeirra Guðs barna sem þiggur en gefur ekki áfram? Eða ert þú eitt þeirra Guðs barna sem horfa ástúðlegum augum á neyð náungans? Og hvað ætlarðu að gera með þá tilfinningu þína?

Ég las á netfærslu eða bloggi nú á dögunum, setningu sem reyndar var sögð á ensku og hljómaði einhvern veginn svona:

“Evil thrives when good people do nothing” eða ,,Illskan þrífst þegar gott fólk gerir ekkert” og mér finnst hún eiga svo vel við guðspjall dagsins. Ríki maðurinn hafði drýgt þá sáru synd að sjá ekki neyð náungans. Hann var svo upptekinn af eigin vellystingum og neyslu að hann gerði sér ekki grein fyrir neyðinni sem dvaldi daglangt við dyrastafi hans. Og þessi dæmisaga hljómar eitthvað svo óþægilega kunnuglega í eyrum mínum. Það er engu líkara en að textinn varpi þarna ljósi á þær aðstæður sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir í dag. Ég geri mér fulla grein fyrir því að hér á landi er allt of margt fólk sem lifir við eða jafnvel vel undir fátæktarmörkum og að til eru manneskjur sem ekkert heimili eiga. Og jafnvel þótt ekki veiti af að biðja fyrir öllu því fólki og að biðja fyrir ráðamönnum landsins í málefnum fátækra, heimilislausra, öryrkja og allra þurfandi, þá langar mig að brýna fyrir þjóðinni í dag að við biðjum fyrir börnum en fyrst og síðast fyrir landlausum börnum!

Mér standa ofarlega í huga málefni flóttamanna, þeirra sem hafa undanfarna daga verið til umfjöllunar í íslenskum fjölmiðlum. Um er að ræða palestínsk börn og ekkjurnar, mæður þeirra. Fréttin af komu þeirra til landsins hefur heldur betur hrist upp í bloggheimum landans. Menn fara þar á handahlaupum með eða á móti fyrirbærinu ,,flóttamannaaðstoð” og keyra hver annan um koll með orðaskaki og upphrópunum. En það má aldrei gleymast í umræðunni að hún fjallar um fólk, að við erum að tala um börn sem búa við algert vonleysi og mæður sem misst hafa eiginmenn sína og eru landlausar og allslausar. Sum þessara barna hafa engan skilning á því hvað hugtökin öryggi og friður merkja. Hafa einfaldlega aldrei upplifað slíkt ástand. Ég velti fyrir mér orðræðunni sem séra Friðrik hefði haft um þetta mál og þykist vita að hann hefði viljað, líkt og Jesús Kristur sjálfur, að við opnuðum faðminn á móti þessu lánlausa fólki, en þó ekki hugsunarlaust.

Því fylgir mikil ábyrgð að hafa fæðst í þessu landi. Einmitt þess vegna stöndum við nú frammi fyrir spurningunni um það hvort við séum í stakk búin að takast á við okkur sjálf í fjölmenningarlegu samfélagi? Kannski er það að taka á móti stórum hópi innflytjenda eitthvert besta hugsanlega tækifæri sem við fáum upp í hendurnar til að fara af alvöru í sjálfsskoðun og sjálfsstyrkingu sem kristin þjóð. Til að geta hlúð að þessu fólki af einlægni og einhverri alvöru, þá verðum við fyrst að þekkja okkur sjálf.

Hvað merkir það, að vera kristin manneskja og búa í samfélagi sem byggir á kristnu siðgæði og viðmiðum sem Jesús setti? Þetta eru grundvallandi spurningar. Til þess að hver og einn geti svarað því fyrir sjálfan sig, þá hlýtur að vera verkefni okkar númer 1, 2 og 3 að styrkja kristin fræði í landinu, en ekki að henda þeim út í þeim tilgangi einum að rýmka til fyrir samfélagsgreinum og trúabragðafræðum. Því jafnvel þótt samfélagsfræði séu börnum okkar afar mikilvæga, þá koma þau aldrei í staðinn fyrir kristnu fræði sem við þurfum að þekkja til að geta staðsett okkur sem kristnar manneskjur í kristnu samfélagi.

Þegar við höfum rótfest okkur sem slík, þá þurfum við ekki að óttast tilveru í bland við fólk af ólíkum uppruna, menningu og trú. Við stöndum á þröskuldi nýrra tíma, þar sem fjölmenning er okkar nýja tilvera. Við getum kosið að láta það gerast smám saman og hugsunarlaust, jafnvel lokað augum eða spyrnt við fæti. En við getum líka kosið að sitja klárinn af öryggi og halda sterklega um taumana.

,,Lifandi Guð, er lífsins ræður högum. Lít því í náð til mín er sáran biður. Voldugur ertu enn, sem fyrr á dögum. Auma þú blessar, hjálparlausa styður. Veit mér líkn, svo líf mitt glatist eigi. Lifandi Guð á reiði þinnar degi.” Séra Friðrik Friðriksson

Já, lifandi Guð, þú sem blessað hefur þessa litlu þjóð, gefið okkur auðugt land að búa í. Blessa einnig gjafmildi okkar! Tak í burtu frá okkur óttann við hið óþekkta, og gerðu okkur öflug í trúnni á Jesú Krist, nú í dag og um ókomna tíð.