Kaflaskipti

Kaflaskipti

Yfirsýn er nauðsynleg til að halda samfélaginu okkar saman því ef yfirsýnina skortir þá verða einhverjir útundan, týnast eða gleymast í kapphlaupi lífsins. Yfirsýnin í lífi okkar er nauðsynleg því t.d. það að vernda börnin sem okkur er trúað fyrir felst í því að hafa yfirsýn. Það má varla missa sjónar á þeim nokkra stund.

Seinna birtist hann þeim ellefu, þegar þeir sátu til borðs, og ávítaði þá fyrir vantrú þeirra og harðúð hjartans, að þeir hefðu ekki trúað þeim, er sáu hann upp risinn. Hann sagði við þá: Farið út um allan heim, og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni. Sá sem trúir og skírist, mun hólpinn verða, en sá sem trúir ekki, mun fyrirdæmdur verða. En þessi tákn munu fylgja þeim, er trúa: Í mínu nafni munu þeir reka út illa anda, tala nýjum tungum, taka upp höggorma, og þó að þeir drekki eitthvað banvænt, mun þeim ekki verða meint af. Yfir sjúka munu þeir leggja hendur, og þeir verða heilir.

Þegar nú Drottinn Jesús hafði talað við þá, var hann upp numinn til himins og settist til hægri handar Guði. Þeir fóru og prédikuðu hvarvetna, en Drottinn var í verki með þeim og staðfesti boðun þeirra með táknum, sem henni fylgdu. Mark. 16. 14-20

Allt það ótrúlega og undursamlega sem hendir okkur á ævinni, í streði daganna. Sumt af því setur mark á líf okkar en annað flýtur hjá án þess að staldra við í huga okkar.

Já, allt það sem við heyrum ... bæði það sem byggir okkur upp og líka það sem er niðurrífandi. Sumu eigum við gott með að trúa en öðru ekki. Stundum tekst að gera hinn tærasta sannleika að ótrúlegum graut og endaleysan verður að sannleika í hugum fólks. Í dag eins og endranær finnst mörgum erfitt að taka við sannleika trúarinnar og einhverjir segja að þar sé sannleikurinn óljós því að misvitrir menn hafi í gengum aldirnar farið um hann óblíðum höndum og tekið frá okkur sannleikann en sett í stað ólýsanlegar og ótrúlegar kenningar. Upp á síðkastið hefur það þótt í huga margra huggulegast að Jesús t.d. hafi verið fjölskyldumaður. Trúlega er það vegna þess að það gengur upp í okkar samhengi og við getum samsamað okkur fyrirmyndinni. Samsærið sem er þarna í gangi er að sannindunum hafi verið haldið frá okkur og við þannig hugmyndir ráðum við á okkar manneskjulegu forsendum. En trú snýst ekki um fyrirmynd heldur frelsara og von en ekki væntingar. Svo er okkur jú frjálst að velja og hafna, trúa á eða bara taka trúanlega. Eitt er þó algjörlega ljóst að staðfesta trúarinnar vex af persónulegri reynslu okkar af Guði og því trúarlega fyrst og fremst en einnig því sem okkur er sagt í Biblíunni.

Því nemum við staðar enn í dag og biðjum, hlýðum á Guðs orð og lofum Guð. Hér í dag er gott að dvelja í samfélagi þeirra sem hafa reynsluna og lengra líf að baki. Því þó að margt hverfi frá okkur með árunum þá fáum við margt annað í staðinn og það er yfirsýnin yfir lífið.

Sá dagur kirkjuársins sem er í dag felur í sér nýjan flöt á samskiptum Jesú Krists og mannanna. Jesús sem hafði dvalið 40 daga með lærisveinum sínum eftir upprisuna hvarf sjónum þeirra til að vera ekki aðeins nálægur í jarðneskri tilvist heldur himneskri og með því í raun að vera enn nær en áður. Enn ein kaflaskilin í samfylgd Hans við manneskjuna. Jesús er ekki lengur sá sem er í fylgd á jörðu heldur og á himnum. Ekki lengur sá sem birtist lærisveinunum af og til heldur sá sem er alltaf nálægur. Ekki bara einum eða fáeinum heldur okkur öllum. Þar sem hann er nú á hann yfirsýn yfir líf hvers og eins. Í samtíma okkar er oft talað um yfirsýn. Gjarnan er rætt um og ritað að hinn eða þessi hafi yfirsýn og sjái hlutina í samhengi. Það er nauðsynlegt að einhver hafi yfirsýn yfir hlutina því þá gleymast síður málefni eða manneskjur í erli dagsins. Yfirsýn er nauðsynleg til að halda samfélaginu okkar saman því ef yfirsýnina skortir þá verða einhverjir útundan, týnast eða gleymast í kapphlaupi lífsins. Síðan er yfirsýnin í lífi okkar hvers og eins nauðsynleg því t.d. það að vernda börnin sem okkur er trúað fyrir felst í því að hafa yfirsýn. Það má varla missa sjónar á þeim nokkra stund. Að forða unglingnum sínum frá því að falla í gildrur lífsins er að reyna að hafa yfirsýn yfir líf hans og kenna honum eða henni að öðlast yfirsýn svo þau forðist hætturnar, sjái orsök og afleiðingar og læri að greina rétt frá röngu. Á himnum er yfirsýnin þar sem við erum öll í auga Guðs, öll í auga frelsara okkar sem á sæti á himnum við hægri hlið Guðs. Við reynum síðan sjálf að eignast yfirsýn, greina rétt frá röngu og þá er það sannleikurinn sem skiptir okkur megin máli. Trúlega verður sannleikurinn manni oft hugfólginn á tímum eins og nú þegar víða er kappkostað að leggja fyrir mann ýmiss konar sannleika sem enginn veit í raun hver er. Svo förum við heim með allar þessar birgðir af sannleika í formi “nýrra staðreynda um sögu kristninnar eða nýjustu kosningaloforðanna sem spretta af góðum vilja þeirra sem vilja leggja samfélaginu okkar lið og hjálpa okkur að öðlast yfirsýn yfir málefninu sem eiga að færa okkur frekari lífshamingju. Að eignast yfirsýn yfir lífið færir okkur trúlega sannleikann sem segir okkur að það tekur allt lífið að höndla það sem skiptir máli. Það tekur lífið allt að eignast yfirsýn.

Eitt sinn heyrði ég sögð þessi vísu orð af manneskju sem var að lýsa hvernig lífið breyttist þegar árin færðust yfir. Þegar ég horfi út um gluggann og sé að trén hafa fellt laufin þá eykst útsýnið. Þetta er eitthvað sem þið mörg þekkið vel. Þegar haustar að í lífinu rétt eins og í ríki náttúrunnar þá fella trén laufið og útsýnið eykst. Yfirsýnin verður meiri, sannleikurinn skýrari, sannleikur lífsins sem er Jesús Kristur sjálfur.

Sýn okkar yfir lífið stendur síðan örugg í trausti til vonarinnar. Það er vonin sem vekur okkur til hins raunverulega lífs þar sem við erum örugg og fáum lifað lífi okkar til fulls en rétt eins og oft er erfitt að festa hönd á sannleikanum og þá er oft erfitt að sjá vonina.

Það er til rússnesk munnmælasaga af stjörnu dagsins... kannski þeirri sömu og Jónas Guðlaugsson skáld orti um: "Speglast þó dauðans í djúpi, dagstjarnan björt og fögur".

Dagstjarnan á í huga okkar trúlega heiti en þessi saga segir að á himninum skíni alltaf stjörnur en við sjáum þær ekki því birta sólarinnar feli þær. Stjörnur daganna eru bjartari og fallegri en stjörnur næturinnar og sjást aðeins í djúpum kyrrum vatnsfleti brunnsins. Þær sitja hæst á himinfestingunni og eru ósýnilegar augunum en þó greinist skin þeirra aðeins í djúpi jarðarinnar á svörtum spegli vatnsins sem endurkastar skini þeirra. Ef við sjáum þær ekki þegar við rýnum í flöt brunnsins þá er það annað hvort af því að vatnið er ekki nógu dimmt eða yfirborðið þess ekki nógu kyrrt eða kannski af því brunnurinn er ekki nógu djúpur. Kannski sjáum við þær ekki þegar horfum niður á yfirborð brunnsins heldur frá botni brunnsins ... upp á við.

Skilur þú innihald sögunnar ? ... Hjarta okkar er einn daginn tætt í sorg og skyndilega er eins og lífi okkar sé kastað inn í myrkur og eilíf nótt. Geta þá ekki fundist nálægt okkur brunnar sem endurvarpa skini dagstjörnunnar..þessarar fallegustu stjörnu himinsins og hana nefnum við von. Stjarnan sem er ósýnileg venjulegum augum en verður sýnileg þegar líf okkar nær botninum, umlukið myrkri, í djúpinu.

Þá horfum upp til himins og vitum að þar er Kristur, þar er skapari okkar. Þegar við sjáum skin dagstjörnunnar, þegar við eygjum hina kristnu von þá horfum við ekki lengur aðeins upp til himins heldur höldum áfram, vinnum verk Guðs hér á jörðu í þeim styrk sem hann veitir okkur.

Yfirsýnin yfir lífið kennir okkur að það er ekki alltaf á menn að treysta og sannleikurinn er ekki manna heldur í mínu hjarta. Dýpri en orð manna, dýpri en dægurflugur skálda og dægurmála. Útsýni hjartans sem hefur fundið sannleikann, sem er Kristur sjálfur, er til himins eða til dagstjörnunnar sem speglast í dýpt hjartans, vonarinnar.

Það hafa orðið kaflaskipti í sögu Guðs og manns hér á jörðu.. Með atburðum og boðskap uppstigningardags höfum við eignast þá vissu að einhver hefur yfirsýn yfir líf okkar og í þeirri vissu hvílum við. Vissunni sem gefur okkur raunverulegan kjark og sjálfstæði sem við eignumst síðan með yfirsýn yfir okkar eigið lífið. Fjársjóður lífs okkar sem við deilum saman hér í dag og sagt var svo vel frá í samtali við heiðurskonu sem fagnaði 100 ára afmæli sínu nýverið. Í hennar huga var það ofarlega hversu gott það hafði verið á langri ævi að vita af Guði sem vakti yfir henni.

Já, að vita af Jesú Kristi sem hefur yfirsýn yfir líf okkar. Á þessu byggir trúin og í þessu er fólginn sannleikurinn sem segir okkur frá voninni sem speglast í kyrrum, djúpum brunni lífsins.