Þarf langt tilhlaup?

Þarf langt tilhlaup?

Á uppstigningadegi er tilefni til þess að staldra við og horfa á svið sögunnar. Hvort heldur okkur fjær í tíma og eða nær. Af nógu er að taka sem gefur tilefni til þeirra hugsunar og þeirra sýnar að manneskjan í sinni visku hefur oftar en ekki ratað í þær aðstæður til góðs og ílls þar sem hún spyr sig hvar er Guð í öllu þessu?
fullname - andlitsmynd Þór Hauksson
05. maí 2005
Flokkar

Seinna birtist hann þeim ellefu, þegar þeir sátu til borðs, og ávítaði þá fyrir vantrú þeirra og harðúð hjartans, að þeir hefðu ekki trúað þeim, er sáu hann upp risinn. Hann sagði við þá: Farið út um allan heim, og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni. Sá sem trúir og skírist, mun hólpinn verða, en sá sem trúir ekki, mun fyrirdæmdur verða. En þessi tákn munu fylgja þeim, er trúa: Í mínu nafni munu þeir reka út illa anda, tala nýjum tungum, taka upp höggorma, og þó að þeir drekki eitthvað banvænt, mun þeim ekki verða meint af. Yfir sjúka munu þeir leggja hendur, og þeir verða heilir.

Þegar nú Drottinn Jesús hafði talað við þá, var hann upp numinn til himins og settist til hægri handar Guði. Þeir fóru og prédikuðu hvarvetna, en Drottinn var í verki með þeim og staðfesti boðun þeirra með táknum, sem henni fylgdu. Mark. 16. 14-20

Að ná til himins

Mig langar til að byrja þessu hugleiðingu á ágætri sögu sem ég heyrði um daginn sem tengist þessum degi, uppstigningadegi. Sunnudagaskólakennarinn hafði verið að segja börnunum frá atburðum uppstigningadags, þegar Jesús varð uppnuminn og steig upp til himna. Lítill snáði á að giska sjö ára hlustaði andaktugur á. Á leiðinni heim með föður sínum var hann óvenjuhljóður-hann var í þungum þönkum, hann var að velta þessu fyrir sér, sem hann hafði heyrt og allt í einu sagði hann:

“Pabbi, hvað heldurðu að Jesús hafi þurft að taka langt tilhlaup til að hoppa alla leið upp í himininn.”

Það þarf ekki blessuð börnin með sína tæru og einföldu, en á sama tíma svo djúpu sýn á tilveruna til að velta fyrir sér þeim atburði þegar Jesús steig upp til himna fyrir framan þá sem honum þótti vænst um og að sama skapi sem höfðu lagt allt sitt til hans. Hann sagði þeim hvað þeir skyldu gera, fara og prédika fagnaðarerindið og það var það eina sem þeir höfðu – fagnaðarerindið. Uppnuminn hugur þeirra sem á horfðu gaf þeim þann styrk sem þeir þurftu til að fara að boða upprisu og sigur lífsins. Þótt þeir hefðu ekkert annað en óttan lögðu þeir af stað en eftir stóð myndin eilíflega.

Sú mynd eða sú sýn sem blasti við hefur orðið mörgum listamanninum um aldir til dagsins í dag að yrkisefni og tilefni til hugleiðingar og mun svo verða áfram. Við stöndum hjá með þeim sem á undan eru farnir og hugleiðum hvort heldur sem við erum börn eða fullorðinn þá erum við alltaf börn frammi fyrir þessum atburði hvernig hefur þetta gerst?

Það sem skilur okkur frá sem í dag lifum í byrjun 21. aldar og þeirra gegnu kynslóða sem veg aldanna hafa gengið og markað sín spor svo greina má. Það sem greinir að er vitneskjan hvað náttúruvísindinn og önnur lögmál vísindanna hafa dregið fram gerir það að verkum að það kann einhverjum þykja það hjákátlegt að ræða og yfirleitt að halda upp á þennan dag. Uppstigningadag og ætla í fullri alvöru að halda því fram að sá atburður sem hann er nefndur við hafi nokkurn tíman átt sér stað. Á tímum þar sem ekkert kemur lengur á óvart. Á tímum þar sem skilin á milli þess að vera barn sem hefur leyfi til að undrast og fagna í barnslegu sakleysi og þess að vera fullorðinn og undrunin yfir töfrum lífsins og undri heimsins hafa ekki rými og eða leyfi til að ægja um stund í huga því það þykir ekki góð lexía, þykir ekki tilhlýðilegt. Því viska þess fullorðna er hafið yfir allt sem heitir einlægni barnshugans sem leyfir sér að flögra um frjáls eins og fiðrildi stoppar stutt við á hverjum stað á skrykkjótti ferð sinni um lífið.

Tími til að staldra við

Á uppstigningadegi er tilefni til þess að staldra við og horfa á svið sögunnar. Hvort heldur okkur fjær í tíma og eða nær. Af nógu er að taka sem gefur tilefni til þeirra hugsunar og þeirra sýnar að manneskjan í sinni visku hefur oftar en ekki ratað í þær aðstæður til góðs og ílls þar sem hún spyr sig hvar er Guð í öllu þessu? Yfirgaf hann okkur þegar hann steig upp til himna? Hin skráða mannkynssaga felur þessa hugsun í sér og hin óskráða sem ekki fékk sitt rými á harðspjöldum sögunnar og varð því hungraða dýri gleymskunnar að bráð. Nærtækast er að minnast þess að nú um stundir er fagnað 60 árum frá lokum síðari heimstyrjaldar, og 30 árum frá lokum Víetnamststríðsins, þar sem ómældum þjáningum svo margra átti sér - engin takmörk nema það að bæta á hörmungarnar. Enn í dag er bætt á sumt er gleymt og annað fær sitt rými og við spyrjum í dag árið 2005 - hvar er Guð? Hvar er Guð í verkum mannsins. Hvar er Guð í náttúruhamförum heimsins. Lætur hann sig okkur engu skipta eða getur verið að hann sé móðgaður því að við svo mörg sem lifum í dag látum hann okkur engu skipta. Hvar er Guð hefur hann yfirgefið okkur? Því er til að svara að Guð yfirgaf okkur ekki með himnaför sinni. Sagði hann ekki lærisveinum sínum að fara um heiminn og boða orð hans. Hann gerði það í trausti þess að svo yrði gert. En hann talaði aldrei um að hann hafi yfir gefið þá. Ekki frekar að við yfigefum börn okkar í raunum þeirra og gleði. Hvert hugur þeirra liggur hvert sem vegur þeirra leiðir þá er hugur okkar hjá þeim. Þannig er það hjá Guði. Hann steig upp til himna ekki til að vera fjarlægur Guð í fjarlægum himni heldur til þess að geta verið hjá okkur í raunum okkar og gleði. Hann steig upp til himna til að geta verið nálægur okkur hverju og einu.

Uppstigningadagur er þýðingarmikill dagur í kirkjuárinu, hann markar endalok í ákveðinni atburðarás frá fæðingu Jesú til þessa dag er hann hvarf lærisveinahópnum sínum. Hvernig það gerðist í smáatriðum skiptir ekki öllu máli, en það gerðist þó þannig að lærisveinarnir voru eins og agndofa, þeir störðu til himins. Um leið og uppstigningin er endapunktur í ákveðinni atburðarás, þá er þetta jafnframt upphafið að nýjum tíma, nýju lífi, því skulum við aldrei gleyma hvernig sem að aldarháttur er.

Háttur dagsins í dag er hraðinn. Það er eins og ekkert megi vera heldur verður að rífa niður til að rýma fyrir einhverju nýju. Bara vegna þess að það er nýtt. Hugmyndir, hús, væntingar, vonir og hvað eina. Það má ekki vera vegna þess að passar ekki inní heimsmyndina sem við höfum hengt upp á vegg lífs okkar og hún á helst að taka breytingum í gær. Því í dag getur það verið of seint. Í dag gæti ég misst af einhverju sem gæti fyllt líf mitt hamingju. Ég skal fúslega viðurkenna að ég tek þátt í þessu hlaupi. Lafmóður alla daga reyni ég að átta mig á afhverju ég er að taka þátt í þessu tilhlaupi og hvert. Ef við gefum okkur að við vitum ekki að hverju við erum að taka tilhlaup þá hljótum við innst inni vita frá hverju við erum að hlaupa. Eða ég skyldi ætla það. Þær breytingar sem hafa orðið á íslensku þjóðfélagi á fáum árum eru ótrúlegar. Þarf ég ekki hafa mörg orð um það við ykkur kirkjugestir góðir. Sumar slæmar og aðrar til góðs eins og gerist.

Þið sem fædd eru á fyrri hluta síðustu aldar – mér hefur oft verið hugsað til þess – þið sem eruð fædd á fyrri hluta síðustu aldar og lögðu gjörva hönd á að nútímavæða þjóðfélagið hafið væntanlega ekki grunað að í dag erum við með nútímavæddustu þjóðum heims og erum á hraðferð inn í framtíðina sem skilur ekki hvernig við getum haldið í við hana. Því hér áður fyrr var framtíðin alltaf nokkrum skrefum á undan.

Fara fram úr sjálfum sér

Stundum hef ég á tilfinningunni að nútíminn haldi ekki í við sjálfan sig – fer svo hratt - tekið svo langt tilhlaup að hann hafi skilið framtíðina eftir á ráslínunni og hún reynir að halda í við nútímann, öfugt við það sem var. Stundum heyrist líka þegar eitthvað fer afvega í lífi þjóðar á þá er nútímanum kennt um. Nútíminn er ekki eitthvað fyrirbæri sem lifir eigin lífi hann er þrælbundin vilja okkar sem í dag lifum. Hvort heldur sem við erum ung að árum eða gömul. Skil nútímans og framtíðarinnar er óskýrari og óskýrari. Það er eins og viljinn sé fyrir því að hafa það þannig vegna þess að við viljum ekki horfast í augu við okkur sjálf-við sem eigum að teljast til þeirra sem landið erfa-unga fólkið, sem telur sig vita allt betur en kynslóðirnar á undan. Vissulega er menntunarstigið hátt hér á landi – en það kom ekki til af engu. Heldur af eljusemi og kyrrlátum huga sem horfði til framtíðar án þess þó að vita nákvæmlega hvernig sú framtíð liti út í raun. Unnið var hörðum höndum að því að vera tilbúin að taka á móti henni þegar hún léti sjá sig. Það gerði hún í ýmsum myndum. Vegslóðar aldanna á undan urðu að hraðfara vegum, vanstmiklar ófærar ár urðu sem mjálmandi kettlingar og húsin réttu úr sér og horfðu til himins boðleg hverjum sem er. Þetta gerðist ekki á einum eftirmiðdegi eftir langan vinnudag heldur reis upp smátt og smátt og varð að því sem það er í dag. Byggt á væntingum og draumum gengina kynslóða og þeirra sem ævikvöldið hefur heilsað.

Heilsufar þjóðar las ég í grein í ensku tímariti má sjá og mæla hvernig búið er að þeim sem aldraðir teljast, sem hafa lagt sitt að mörkum til samfélagsins í gegnum árin. Ég man að mér þótti þetta merkileg sýn og mælikvarði á heilsufar þjóðfélags. Sannanst sagna hafði ég ekkert lagt hugan að því að þjóðfélag í heild sinni gæti verið veikt eins og einstaklingur. Niðurlag greinarinnar var það að heilsufar breska samfélagsins fékk falleinkunn vegna þess að ekki var nógu vel búið að öldruðum, félagslega og fjárhagslega hvort heldur kæmi á undan og væri afleiðing hvers. Það var ekki það sem skipti máli heldur það að sú kynslóð sem hafði lagt hönd á að verja þjóðina fyrir innrás erlends herafla á sínum tíma heima og að heima láu meira og minna óbætt hjá garði. Fyrirsögn greinarinnar var “Skömm.”

Þegar árin færast yfir eins og galdur eins og Ólafur Haukur Símonarson rithöfundur og skáld orðaði svo ágætlega í einum að sínum textum. Þá gerist það að hugsun og hreyfingar hægja á sér – hraðinn verður ekki sá sem var. Tilfinning sorgar og missis kann að sækja á þegar tilveran hraðskreið fer framúr og tilfinning þess að vera eftir yfirtekur huga og vanmáttur alls sest að eins og boðflenna.

Það sem meira er að þessi meinsemd samfélagsins fer neðar og neðar í árum óþolinmæði tilverunnar eyrir engu eða engum. “Ungur nemur gamall temur” safnar ryki á vegslóða þess sem var – kyrfilega bundið undir malbiki framfara og aukins hraða. Mitt í fingerðu ryki framfara spyr maður í barnslegri einlægni skyldi koma að þvi að hraðinn komist ekki hraðar – hvað þá? Það er horft á þig eins og þú værir ekki af þessum heimi. Maður fær ónotalega tilfinningu um stund að skyldi það vera. Sú vera varir ekki lengi og veltur því ekki fyrir sér lengur heldur tekur þátt í hraðanum. Það sem var í dag er ekki á morgun. Það sem var í gær er ekki í dag.

Skáldið Tómas Guðmundsson vissi hvað hann var að segja er hann orti að “Tilveran væri undarlegt ferðalag...” Nútíma skáldin í dag yrkja um að tilveran er aðeins tálsýn. Kannski vegna þess að þeir hafa aldrei gefið sér tíma til að setjast niður með henni og hlusta á andardrátt hennar – hvað hún hefur að segja.

Er það nema von að litli drengurinn sem sagðist frá hér í upphafi hafi velt fyrir sér hvort að Jesús hafi þurft að taka langt tilhlaup til að komast upp í himininn. Maður skyldi ætla að svo væri ekki , að hann hafi þurft að taka langt tilhlaup.

Þá mætti líka spyrja sig hvort það sama gildir um okkur – þurfum við að taka langt tilhlaup? Og þá mætti halda áfram fyrst við erum á annað borð byrjuð að taka hlaupið. Hvað þurfum við langt tilhlaup? Og þá tilhlaup sem leiðir okkur til hvers!?

Ég held að svarið við þessari spurningum sé það að við þurfum ekki að taka tilhlaup. Við þurfum ekki að taka tilhlaup til þess að öðlast það líf sem við getum sætt okkur við. En það er ekki þar með sagt að það gerist án fyrirhafnar – það gerðist ekki þannig og þannig mun það ekki verða og ég veit að þið vitið. Aðeins það – veit nútíminn af því?