Dag í senn

Dag í senn

Það hafa ýmis áföll dunið yfir okkur húsvíkinga á undanförnum árum. Ég bind vonir við að með samtakamætti okkar og samkennd getum við horft til bjartari tíma, ekki síst í atvinnulegu tilliti í góðri samvinnu við fyrirtækin sem fyrir eru í bænum og eigendur þeirra. Og með því að styrkja og styðja við nýsköpun í atvinnumálum okkar. Það er svo auðvelt fyrir okkur að benda á aðra, að aðrir eigi að skaffa okkur atvinnu. Lítum frekar í eigin barm þar sem grasrótina er að finna. Af samtali fæðist hugmynd og hugmyndin getur orðið að veruleika og skapað atvinnutækifæri.
fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
21. apríl 2014
Flokkar

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. Gleðilega Páska.

Í borg einni á Spáni gerðist það fyrir ekki löngu síðan að morgni dags að maður var að fara til vinnustaðar síns. Kona hans hafði fylgt honum áleiðis en staðnæmst í verslun á heimleiðinni.  Þegar maðurinn var nærri kominn á vinnustaðinn varð honum litið við. Sá hann þá reykjamökk leggja upp frá þeim stað sem hann vissi hús sitt vera. Heima voru tvö ung börn hans. Hann hljóp heim á leið. Jú, húsið hans var að brenna.

Íbúð hans var á þriðju hæð við mjög þrönga götu. Hann sá börn sín við gluggann í brennandi íbúðinni. Til þeirra varð ekki komist fyrir eldinum sem var í algleymingi á annarri hæð hússins. Faðirinn hljóp nú inn í hús það sem var beint á móti og þar upp á þriðju hæð. Þar var gluggi, beint á móti þeim glugga sem börnin hans stóðu við. Hann gekk inn í herbergið, hratt upp glugganum og kallaði til barnanna. Telpan var eldri. Hún opnaði gluggann og þau kölluðu örvæntingarfull til föðurins. Hann stökk þá upp í gluggakistuna og kastaði sér áfram þannig að hann náði í gluggakarminn þar sem börnin voru en hélt með fótunum í gluggakistuna á glugganum á móti.  Þannig myndaði hann brú milli húsanna.  Hann kallaði nú til telpunnar að fara eftir sér yfir í hitt húsið. Hikandi hlýddi hún skipun hans og komst heilu og höldnu. Drengurinn fór sömu leið þó að hann væri tregur til þess.

Börnunum var borgið en kraftar föðurins voru nú þrotnir. Hann féll niður á götuna og lét lífið. Hann hafði frelsað börnin sín með því að fórna lífi sínu. Með líkama sínum hafði hann gert brú milli dauðans og lífsins. Þessi faðir átti til að bera skilyrðislausan kærleika í garð barna sinna. Hann var reiðubúinn að fórna lífi sínu til þess að þau mættu lifa.

Þessi sterka saga minnir okkur á aðra hjálpræðissögu, mun stærri í sniðum, sem náði hámarki á Páskadagsmorgun þegar Jesús reis upp frá dauðum Þessi hjálpræðissaga er eins og rauður þráður í gegnum alla Biblíuna. Jóhannes guðspjallamaður tók hana saman í einu ritningarversi sem kallað er litla Biblían. Það hljóðar svo: ,,Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“  Það getur enginn sýnt meiri kærleika en að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína. Faðirinn í sögunni góðu lagði að sönnu líf sitt í sölurnar fyrir börnin sín en Jesús Kristur fórnaði sér í þágu alls mannkyns fyrr og síðar. Það er ekki til sú gjöf sem tekur henni fram því að sá sem trúir því að frelsarinn hafi dáið fyrir syndir mannanna hefur eilíft líf.

Það þarf að næra þessa trú og rækta sambandið við Jesú Krist upprisinn með bæn og beiðni ásamt þakkargjörð á heimilum okkar og í kirkju. Með þeim hætti eignumst við akkeri trúar, vonar og kærleika sem við getum haldið okkur í þegar reikull efinn kastar okkur sem vindbáru til og frá. Við erum líka stundum berskjölduð, áveðra, fyrir áföllum lífsins af ýmsu tagi. Það er ágætt að muna það að við höfum ekki stýrimannspróf fyrir ferð lífsins. Fyrr en varir getum við steytt á skerjum ef við höfum ekki leiðsögn frá hinum upprisna sem þekkir hættuboðana og hefur sigrast á öllum hindrunum. Þar má t.d. nefna Gullnu regluna og kærleiksboðorðið. Það sem hann sagði fær mölur og ryð ekki eytt og stenst tímans tönn. Margt sem hann sagði er dýrmætara en gull.

Það er gott að sækja styrk  til hins upprisna t.d. með því að fara með æðruleysisbænina sem guðfræðingurinn Reinhold Niebuhr samdi og hljóðar svo: ,, Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég get ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli. Til að lifa dag í senn, njóta andartaksins sem líður, sætta mig við að leiðin til friðar sé vörðuð erfiðleikum, að taka, svo sem Guð gerir, þessum synduga heimi eins og hann er, ekki eins og ég vildi að hann væri, treysta því að Guð láti allt ganga mér í hag ef ég gef mig honum á vald, svo ég megi njóta þeirrar hamingju sem mér gefst í þessu lífi og óumræðilegrar sælu með Guði í því komanda. Amen.”

Við getum ekki komið í veg fyrir náttúruhamfarir, jarðskjálfta, eldgos eða snjóflóð líkt og það sem æddi niður hlíðar Everest fjalls að morgni föstudagsins langa með hræðilegum afleiðingum. Það er erfitt að sætta sig við orðinn hlut þegar náttúran sýnir klærnar en við íslendingar höfum lært að lifa með náttúrunni í aldanna rás með samtakamætti okkar.

Læknavísindin reyna að stemma stigu við margvíslegum sjúkdómum sem herja á mannkynið. Við ýmsu hefur fundist lækning, öðru ekki en við bindum vonir við að það haldi áfram að finnast lækning við ýmsum sjúkdómum, ekki síst krabbameininu sem virðist hafa þjakað mannkynið lengur en fólk hélt ef marka má nýjustu rannsóknir á mörg þúsund ára gamalli beinagrind.  Ég hef stundum undrast þann kjark sem mörgum er gefinn sem glímt hafa við krabbamein.Þá hafa margir reynt að breyta því sem þeir hafa getað til að stemma stigu við framþróun sjúkdómsins hjá sér með heilsusamlegra líferni til dæmis í samvinnu við læknavísindin.

Í þessu efni sem öðrum þegar erfiðleikar steðja að er mikilvægt að taka einn dag í einu, njóta andartaksins, taka þennan heim eins og hann er, treysta því að Guð láti allt ganga okkur í hag þrátt fyrir allt eins og við biðjum um í æðruleysisbæninni. Enda þótt við verðum að sætta okkur við ýmislegt þá getum við líka breytt ýmsu. Við fáum  t.d. um það ráðið hvernig við komum fram við hvert annað í orði og verki. Ég hef t.d. velt því fyrir mér hvort við myndum segja ýmislegt sem við skrifum í bloggfærslum við viðmælanda okkar ef hann eða hún stæði fyrir framan okkur? Það virðist vera svo gott að geta falið sig að baki skjásins og kasta skit í náungann.  Við skulum vera varkár í þessum efnum.

Það hafa ýmis áföll dunið yfir okkur húsvíkinga á undanförnum árum. Ég bind vonir við að með samtakamætti okkar og samkennd getum við horft til bjartari tíma, ekki síst í atvinnulegu tilliti í góðri samvinnu við fyrirtækin sem fyrir eru í bænum og eigendur þeirra. Og með því að styrkja og styðja við nýsköpun í atvinnumálum okkar í anda frelsarans. Það er svo auðvelt fyrir okkur að benda á aðra, að aðrir eigi að skaffa okkur atvinnu. Lítum frekar í eigin barm þar sem grasrótina er að finna. Af samtali fæðist hugmynd og hugmyndin getur orðið að veruleika og skapað atvinnutækifæri.

Þetta er reynsla kynslóðanna sem reynt hafa frelsandi lífsmátt hins upprisna Jesú Krists og gefist á vald þeim veruleika sem hann boðar, trúnni, voninni, kærleikanum. Ef okkur auðnast að vera hvers annars þjónn í orði og verki þá skapast samtakamáttur sem getur lyft grettistaki á heimilum okkar og vinnustöðum. Við þurfum á þessu að halda húsvíkingar. Sameinuð stöndum við, sundruð föllum við.

En við getum ekki horft fram á við og haldið í vonina nema færa einhverjar fórnir líkt og við höfum gert. Kristur færði stærstu fórnina á krossinum. En þar skynjum við líka þann Guð sem er með okkur í erfiðleikum okkar. Hjálpræðið er að finna í Jesú Kristi. Í honum finnum við Guð. Hann er brúin yfir hyldýpið milli okkar og Guðs.  Hann er vegurinn. Í leyndardómi krossins er von og friður syndugs manns sem þarf á fyrirgefningu að halda frá Guði. Kraftur fyrirgefningarinnar þarf líka að vera fyrir hendi í samskiptum okkar við hvert annað því að við erum að þroskast svo lengi sem við lifum.

Í upprisu hins krossfesta Jesú Krists  er hins vegar trúarvissan og lífskrafturinn. Þar er uppspretta trúargleðinnar, kraftur kristinnar trúar. Og þessi kraftur getur skilað okkur langt, sú trúarvissa að Guð er með okkur í hverju góðu verki, ekki síst  í þágu uppbyggingar á þessu svæði til framtíðar litið.

Til þess að auka á Páskagleðina í tilefni af upprisu Jesú Krists frá dauðum þá langar mig til að deila með ykkur þessari skrýtlu að lokum: ,,Manni sagðist svo frá eftir messu:.  „Fyrir framan mig í röðinni þegar við gengum út úr kirkjunni var maður nokkur og þegar hann tók í hönd prestinum til þess að þakka honum fyrir þjónustuna tók presturinn hann rétt sem snöggvast afsíðis og sagði við hann:  ,,Við sem erum söfnuður þessarar kirkju erum þjónar Drottins. Þú þarft að gerast þjónn Drottins, ganga í þjónustu hans með okkur.” Maðurinn svaraði að bragði: ,,Já en ég er þjónn Drottins.” Presturinn sagði þá við hann: ,,Já, en af hverju sé ég þig þá svona sjaldan hér í kirkjunni, það er  varla nema um jól og páska?” Maðurinn svaraði eldsnöggt um leið og hann skaust út: ,,Sko, ég er í leyniþjónustunni!“

Kristur er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn!

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Guðspjall: Mrk 16.1-7 Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust. En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður.“