Köllun kristins manns

Köllun kristins manns

Guðspjall: Jóh. 4. 34 – 42 Lexia: Sálm 91.1-4 Pistill: 1. Þess. 1.2-8

Jesús segir í guðspjalli dagsins: “Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullkomna verk hans”. Fæðan gegnir svo mikilvægu hlutverki í lífi manna að án hennar getur maðurinn ekki lifað. Það er einnig mikils um vert að fæðusamsetningin sé rétt, á því byggist hreysti okkar og starfsgeta. Besta vörnin gegn sjúkdómum er því hollt og gott mataræði.

Það er önnur fæða sem er okkur jafn nauðsynleg og sú sem nú hefur verið minnst á. Það er næringin fyrir anda okkar. Maðurinn er ekki bara hold og blóð, hann er einnig sál og andi. Maðurinn er ein heild, ef við sinnum ekki bæði andlegum og líkamlegum þörfum okkar, þá náum við ekki að njóta lífsins til fulls eins og Guð hefur skapað okkur til að lifa og við verðum vansæl. Sú næring sem hentar anda okkar best fæst í samfélaginu við Guð. Við vitum hvernig við getum iðkað það samfélag best með því að hugleiða vilja Guðs eins og hann birtist í orði hans, rækja samfélagið við Guð í bæninni og í guðsþjónustunni. Og þá getum við tekið undir með Samverjunum sem bæði höfðu séð og reynt hver Jesús var: “Vér trúum því að sjálfir höfum vér heyrt og vitum að þessi maður er í sannleika frelsari heimsins. Mettuð á líkama, sál og anda, getum við best haldið áfram verki Krists hér á jörð, eins og við erum kölluð til.

Köllun kristins manns er þrenns konar: Fyrst sú að vera lærisveinn frelsarans. Því næst að fara og vinna fyrir ríki hans. Að lokum að erfa með honum alla dýrð himinsins.

Sú köllun er undursamleg. Hinn seki fær þar fyrirgefningu. Hinn veiki fær kraft. Hinn fátæki auðlegð. Hið smáa verður stórt og dýrmætt. Þetta er vegna þess að mátturinn og dýrðin er Guðs en ekki mannanna. Hjálpræðið er algerlega hans verk. Allt er undir því komið að við treystum og tökum við því sem hann gefur. Þá eigum við það allt og himininn líka.

Í trúarlífi okkar eiga sér jafnan stað hræringar, breytingar og jafnvel sviptingar. Allt er þetta tákn um að trúin sé lifandi í okkur. Það er margt sem mætir okkur dag hvern og snertir trú okkar. Hvernig skiljum við og skynjum atburði lífsins? Allt er það einstaklingsbundið. Við tengjum t.d. atvik líðandi stundar mismikið við skapara himins og jarðar og ólíkt metum við atvikin með tilliti til vilja Guðs sem þó hefur birt okkur allt sitt ráð í syninum Jesú Kristi og það nægir okkur til sáluhjálpar. Ef við skoðum lífið út frá þessum sjónarhóli þá felst í því ákveðinn lífsskilningur sem byggist á opinberun Guðs í Jesú Kristi.

Þessi lífsskilningur er sá grundvöllur sem okkur er óhætt að byggja líf okkar á. Með hjálp Guðs getum við þroskast svo í trúnni að við getum tekið undir með postulanum Páli þegar hann segir: “Lífið er mér Kristur og dauðinn ávinningur”. Og við fáum að reyna að Kristur býr í okkur. Þessi trú er gjöf Guðs. Til þess að styrkjast í trúnni þarf hún næringu og næringin er samfélagið við Guð í orði hans, bæninni, skírninni og kvöldmáltíðinni. Iðkun trúar styrkir tengslin við Guð og umhyggju okkar fyrir öðrum og um leið er hún haldbesta vörnin og stuðningurinn á margræðum stigum lífsins.

Ég tigna kærleiks kraftinn hljóða, Kristur, sem birtist oss í þér, Þú hefur föður hjartað góða, Himnanna ríki, opnað mér.

Ég tilbið undur elsku þinnar, Upphaf og takmark veru minnar.

Þetta sálmvers þýddi Sigurbjörn Einarsson biskup.

Fermingarbarn las pistilinn í dag sem er úr fyrra Þessalonikubréfi. Þar segir m.a. “Fyrir augsýn Guðs föðurs vors erum vér ávallt minnugir verks yðar í trúnni og erfiðis yðar í kærleikanum og stöðuglyndis yðar í voninni á drottin vorn Jesúm Krist”.

Þetta er stórkostlegur vitnisburður um trú manna sem hvetur okkur kristna menn til umhugsunar um stöðu okkar. Guð hefur kallað okkur í Jesú Kristi til þess að flytja heiminum boðskapinn um hann, halda því verki áfram sem Jesús hóf hér á jörð, að vera heiminum Kristur. Líf okkar, orð og verk á að endurspegla vilja Guðs og vera boðskapur þeim sem við umgöngumst.

Það er hættulegt að ætla aðeins fáeinum einstaklingum að vinna það verk að leiða menn til Krists. Sérhver trúaður, kristinn maður er erindreki Krists.

Ung kona var komin heim eftir langa þjónustu meðal heiðingja. Henni var nauðugur einn kostur að hverfa heim því að heilsan bilaði. Þegar rætt var við hana á kristniboðsheimilinu var hún svo máttfarin að henni reyndist erfitt að komast nokkur hundruð metra leið að bekk þar sem hún settist. Talið barst að kristniboðsakrinum eins og eðlilegt var. Þá verður augnaráð hennar fjarrænt og hún segir angurvær en jafnframt brosandi: “Ég bið þess eins að ég geti farið aftur”.

Heilsteyptir kristniboðar eins og þessi kona eru ekki úr öðrum efniviði en þú og ég. Nú vill Guð ekki að allir vinir hans verði kristniboðar. En hann vill að minnsta kosti að við séum öll kristniboðar þar sem við erum. Þeir sem hlýða honum öðlast kraft Drottins og finna nálægð hans og blessun í lífi sínu.

Tímarnir sem við lifum nú á hafa verið kallaðir “eftir kristni”, vegna þess að kristin áhrif í fari manna og í þjóðlífinu í heild hafa farið minnkandi. Verðmætamatið hefur breyst gífurlega. Viðmiðun manna í lífinu takmarkast nær eingöngu við hið jarðneska og tímanlega. Tímanleg verðmæti eru mikilvæg fyrir okkur hvert og eitt vegna þess að við þurfum að lifa, sjá sjálfum okkur og fjölskyldum okkar farborða. Það er hlutverk okkar í lífinu meðan heilsa og kraftar endast. Jesús varar okkur hins vegar við að gleyma okkur ekki í þessu hlutverki því að við eigum líka þær skyldur við fjölskyldu okkar að flytja þeim arfinn, heilagan arf, tilboð Guðs um frelsið í Kristi og eilíft samfélag við hann.

Kristnir menn leitast við að tjá sannfæringu sína hver með öðrum; í sameiginlegri bæn, með sameiginlegri máltíð, með þeirri sameiginlegu fullvissu að ekki vegna ágætis okkar heldur þrátt fyrir breyskleika okkar erum við tekin inn í ríki Guðs og með þá sameiginlegu hugsjón að bjóða öðrum inngöngu í þetta samfélag. Ekkert bindur okkur saman nema trúin. Ekkert lýsir trúnni nema ritningin. Ekkert færir okkur heim sanninn um eðli Guðs nema Kristur. Allt annað er aukaatriði.

Þess vegna rúmar kristin trú svo margt. Friður og innileg íhugun eiga þar heima rétt eins og galsi og hávær tónlist. Hefðir og fornir siðir eru þar í hávegum höfð á sama hátt og þar má finna framsæknar og byltingarkenndar hugmyndir. Samfélag kristinna manna gerir ekki greinarmun á stétt, aldri, kyni, kynþætti eða kynhneigð: “Hér er enginn gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð allir eitt í Jesú Kristi”, segir Páll í Galatabréfinu.

Í guðspjalli dagsins er þessu samfélagi kristinna manna líkt við starf á akri. Einn sáir og annar uppsker. Sá fyrrnefndi gleðst með hinum þegar kemur að uppskerunni því þeir vinna báðir að sama markinu,- að boða fagnaðarerindið. Eining kristinna manna er ekki eingöngu hafin yfir alla þá þröskulda sem einkenna mannlegt samfélag heldur stendur hún ofar tíma og rúmi. Kristnir menn í gegnum aldirnar um heiminn eru allir eitt. Söfnuður Krists beygir sig ekki einu sinni undir vald tímans eins og fram kemur í guðspjalli dagsins en þar segir: “Aðrir hafa erfiðað en þér eruð gengnir inn í erfiði þeirra”. Kristinn maður gengur inn í það starf sem unnið hefur verið í aldanna rás. Kristín trú byggir á því að boða öðrum þessa hugsjón.

Þessi afstaða kirkjunnar hefur verið mörgum þyrnir í augum. Auðvitað er slíkur eldmóður eins og tvíeggjað sverð. Ef ytri aðstæður eru rangar getur sannfæringin orðið sem eldsmatur niðurrifs og haturs. Kirkjusagan er blóði drifin og hafa ótrúlegustu fólskuverk verið framin í nafni kristinnar trúar. En kirkjan starfar í föllnum heimi þar sem verk breyskra manna ráða oft ríkjum. Þessi virka hvatning til kristinna manna að boða trúna og uppskera það sem sáð hefur verið leiðir til annarrar afstöðu til umhverfisins heldur en hjá þeim sem ekki vill miðla öðrum af sinni sannfæringu. Hún byggir á þeirri góðu trú á manninn að hann geti meðtekið svo fagran boðskap og breytt lífi sínu til betri vegar. Kærleikurinn á sér margar andstæður og er kæruleysið ein þeirra. Það er alltaf auðveldast að taka ekki þátt heldur vera bara sæll með sitt og láta aðra í friði. Þá koma menn ekki af stað þrjátíu ára stríði eða angra saklausa með orðagjálfri. En þá hafa menn heldur engin áhrif. Þá uppskera menn heldur ekkert. Og hversu fögur sem sannfæringin er og hversu djúp sem þekkingin kann að vera þá fær enginn annar að njóta hennar. Kristur sagði: “Það sem þú vilt að aðrir menn gjöri þér, það skalt þú og þeim gjöra”. Kærleikurinn er ætíð virkur. Kristnir menn setja ekki ljós sitt undir borð heldur ofan á það svo að það lýsi öllum í herberginu, þeir grafa ekki talentu sina í jörð heldur leitast við að ávaxta hana, þeir sá og uppskera margfalt.

Það er erfitt að vera sannleiksvitni hér í heimi. Fáir þora. Margir vilja ekki. Fleiri svíkja. Flestir láta sér nægja að snúa hliðinni í sannleikann. Sá sem þorir að tala, aðeins vegna sannleikans er oft í fjötrum í einhverjum skilningi, vak við luktar dyr, svo að hann fái ekki séð það sem gerist og lagt á það sinn dóm. En Kristur sagðist vera sannleikurinn sjálfur, til þess kominn að bera sannleikanum vitni. Það vill hann einnig gera í lífi og starfi kirkju sinnar. En framkvæmd og starf kirkjunnar getur á því oltið hvað þú sjálfur hugsar, gerir og ert. Á þér og þínum líkum hvílir ábyrgð þess, hvernig fer, einnig um sannleikann.

Megi sannleiksorð Krists falla í góðan jarðveg og bera góðan ávöxt í brjóstum þeirra sem meðtaka það og stefna eftir því í tímans straumi. Amen.