Undir áhrifum ástar

Undir áhrifum ástar

Það er ávanabindandi að vera ástfangin. Við ráðum ekki við okkur þegar við erum í vímunni. Við getum ekki hætt að hugsa um persónuna sem við erum ástfangin af. Við fáum ekki nóg af henni. Við þurfum alltaf meir og meir. Það má eiginlega segja að við séum ekki ábyrg gerða okkar þegar við erum í þessu ástandi, þegar dópamínið flæðir. Því eigum við alls ekki að taka stórar ákvarðanir á meðan.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
25. ágúst 2013
Flokkar

love_heat-wide.jpg
Hér er hægt að horfa
Undir áhrifum ástar Mér þykir líklegt að þú hafir einhvern tíma orðið ástfangin(n). Að þú hafir einhvern tíma verið blindaður/blinduð af ást til annarrar manneskju og fundist hún vera algjörlega fullkomin þrátt fyrir að hafa alveg jafnmarga galla og við hin. Og ef þú hefur séð einhverja galla hjá henni hafi þér bara þótt þeir sætir og kostirnir bera af öllum öðrum. Að engin hafi komist í hálfkvisti við hana.

Ég vona að þú hafir einhvern tíma upplifað þetta bilaða tímabil á bleika skýinu þegar ekkert kemst að nema þessi sem þú ert ástfangin(n) af. Þú hefur þá líklega verið hálf utan við þig, ekki getað talað eða hugsað um neitt annað en hana eða hann og alltaf verið segja öðrum frá því hvað hún eða hann er frábær. Og fólkið í kringum þig verið löngu farið að ranghvolfa augunum en þú ekkert tekið eftir því þar sem þú ert svo upptekin af þínum eigin tilfinningum. Mikið hefur þú verið óþolandi.

Og ef þú síðan ert svo heppin(n) að hún/hann svarar tilfinningum þínum hefur þú væntanlega orðið hamingjusamasta manneskjan á jarðríki. Alla vega í einhver tíma.

Ástin er ekki aðeins yrkisefni heldur hefur líffræðin í kringum hana einnig verið rannsökuð. Þegar heilastarfsemi ástfangins fólks hefur verið skoðuð hefur m.a. komið í ljós að ástand þeirra er svipað því sem fók upplifir í kókaínvímu.

Það er ávanabindandi að vera ástfangin. Við ráðum ekki við okkur þegar við erum í vímunni. Við getum ekki hætt að hugsa um persónuna sem við erum ástfangin af. Við fáum ekki nóg af henni. Við þurfum alltaf meir og meir. Það má eiginlega segja að við séum ekki ábyrg gerða okkar þegar við erum í þessu ástandi, þegar dópamínið flæðir. Því eigum við alls ekki að taka stórar ákvarðanir á meðan.

Það sem skiptir síðan máli er hvað gerist þegar versta víman rennur af okkur? Tekur þá við djúp og innileg ást eða verðum við að finna nýja manneskju sem getur kallað fram þessar brjálæðislegu tilfinningar sem við fundum í byrjun? Einhverja sem er til í að dansa með okkur í vímunni á bleika skýinu á meðan hún endist? Dagur kærleiksþjónustunnar Í dag er dagur kærleiksþjónustunnar í kirkjunni (eins og ég kom inn á í upphafi messunnar) og í gær var dagur kærleiksþjónustunnar í Reykjavík, þegar hlaupagarpar ræktuðu sál og líkama og lögðu ýmislegt á sig á meðan þau söfnðu peningum til styrktar góðgerðamála. Á föstudagskvöldið höfðu safnast um 50 milljónir og eitthvað bættist áræðanlega við eftir það. Sá sem safnaði mest var Ólafur Darri leikari en hann sagði í viðtali um þetta mál að það væri ekki nóg að sýna kærleika þennan eina dag heldur ættum við að gera það hina 364 daga ársins líka.

Að elska er sögn Ástin er ekki alltaf dans á rósum og oft er hún alltof erfið. Það er vont að vera hafnað. Það er vont að missa þau sem við elskum. Og svo er alveg ómögulegt að elska þau sem okkur er beinlínis illa við, þau sem við erum hrædd við, þau sem eru okkur vond.

Og svo segir Jesús að það sé einmitt það sem við eigum að gera. Hann segir að það sé ekkert mál að elska þau sem elska okkur til baka, fólkið okkar, en að það erfiða sé að elska hin sem við þolum ekki, sem eru okkur vond, sem við hræðumst. Og hann vill að við elskum þau og biðjum fyrir þeim!

Sögnin að elska Að elska er sögn. Getur verið að þegar Jesús talar um að við eigum að elska óvini okkar þá eigi hann við að við eigum að framkvæma elsku?  Getur verið að hann sé ekki að krefja okkur um tilfinningu heldur um framkomu, gjörð? Við getum ekki elskað allar manneskjur en við getum komið fram við allt fólk af kærleika.

Sögnin að elska er að lifa og leyfa öðrum lifa sínu lífi. Kærleikur og kærleiksþjónusta snýst ekki um meðvirkni. Meðvirkni er að vera stöðugt að bjarga öðrum, að sjá til þess að öðrum líði vel á kostnað okkar sjálfra. Að bjarga öðrum frá afleiðingum gjörða sinna. Meðvirkni er markaleysi sem gengur út á að gefa og gefa og gefa svolítið meira. Að safna að okkur fólki sem þarf á okkur að halda.

Sögnin að elska er að leyfa öðru fólki að bera ábyrgð á sjálfu sér. Að hlusta en standa upp fyrir okkur sjálfum hvað sem öðrum finnst um okkur. Að láta okkar eigin drauma og gildismat stjórna okkar lífi. Að leyfa öðru fólki að vaxa, með því að fá að taka eigin ákvarðanir. Ekki að grípa inn í líf annars fólks og stjórna því. Að vera meðvituð um að sársauki er ekki hættulegur heldur getur leitt til betri sjálfsþekkingar og aukins skilnings á lífinu.

Sögnin að elska er að láta aðra taka afleiðingum gjörða sinna, að kunna að setja mörk og halda sig við þau. Að leyfa öðru fólki að taka ábyrgð á sjálfu sér. Að geta greint okkar eigin tilfinningar frá tilfinningum annarra og láta líðan annars fólks ekki stjórna okkar líðan.

Við getum hlustað á vandamál annarra, óskir, sársauka og erfiðar aðstæður en það er ekki kærleiksþjónusta að ganga inn í aðstæðurnar og taka ábyrgðina af annarri fullorðinni manneskju. Það er í raun óábyrgt.

Jesús var ekki meðvirkur en hann sýndi kærleika. Við getum lært mikið af því hvernig Jesús mætti fólki.

Ef Jesús hefði verið meðvirkur hefði hann hlaupið fram til ekkjunnar í musterinu en hún var bláfátæk og lagði sinn síðasta aur í góðgerðabaukinn. Hann hefði kannski ekki stoppað hana en hann hefði tekið hana að sér og “bjargað henni”. Kannski hefði hann sent vini sína heim til hennar að laga húsið hennar. Hann hefði þá áreiðanlega útvegað henni fjárhaglega aðstoð og komið reglulega til þess að kanna hvort það væri ekki allt í lagi með hana. Hann hefði tekið hana alveg að sér.

En þannig kemur Jesú ekki fram. Þegar hann mætir manneskju gefur hann henni alla sína athygli á þeirri stundu. Hann hlustar, svarar spurningum og ræðir við hana. En hann svarar ekki spurningum sem enginn hefur spurt og hann gefur ekki ráð sem enginn hefur beðið um. Oft hjálpar hann fólki að leysa ákveðin vandamál í lífi sínu, líkamleg, sálræn eða andleg. En hann tekur ekki yfir heldur leyfir fólkinu sjálfu að taka ábyrgð á sínu lífi. Fundirnir eru stuttir. Hann situr ekki í fleiri tíma og spjallar um sjálfan sig heldur fer hann og gefur fólki rými til þess að halda áfram með eigið líf.

Getur verið að þetta sé ein af ástæðunum fyrir því að við upplifum Guð stundum fjarverandi? Að við séum skilin eftir með allan okkar sársauka og alla okkar erfiðleika? Er þetta kannski ástæðan fyrir því að við upplifum stundum að bænum okkar er ekki svarað, að Guð kemur ekki inn með látum og tekur vandamálin frá okkur. Reddar okkur.

Guð leyfir okkur sjálfum að taka ábyrgðina á okkar eigin lífi og afleiðingum gjörða okkar. Þannig getum við vaxið, þroskast og öðlast innsæi í lífið og fundið kærleikann. Undir áhrifum ástar Sögnin að elska er ekki endilega það sama og að vera ástfangin. Fátt er magnaðara en að vera ástfangin af annarri manneskju. Fátt er sterkara en einmitt sú tegund ástar en hún getur þó verið nokkuð eigingjörn og sjálfhverf og því er hún ekki megin drifkrafturinn í kærleiksþjónustunni.

Kærleiksþjónusta snýst um sögnina að elska, athafnir okkar án meðvirkni. Hún snýst um framkomu okkar og þjónustu við náungann hvort sem okkur líkar við hann hann eða ekki. Hvort sem hann er vinur eða óvinur.

Kæru messuþjónar í Grafarvogskirkju! Þjónusta ykkar hér við söfnuðinn er kærleiksþjónusta. Það er kærleiksþjónusta að vera fyrsta manneskjan sem fólk mætir þegar það gengur inn í kirkjuna. Það er kærleiksþjónusta að gefa sér tíma til þess að þjóna Guði og náunganum. Það er kærleiksþjónusta að gefa sér tíma til þess að lesa upp ritningarlestra, bera kross Krists inn í kirkjuna og ljósið sem lýsir okkur öllum. Það er kærleiksþjónusta að bera fram bænir safnaðarins og deila út sakramentinu. Með þjónustu ykkar hér iðkið þið sögnina að elska og sinnið mikilvægri kærleiksþjónustu. Amen.