Jólin eru innreið í sál þína

Jólin eru innreið í sál þína

Nú er aðventan gengin í garð. Hún er áskorun um það að sameina bernsku og fullorðinsár. Hún er á vissan hátt þessi gluggi sem ég horfði út um forðum, heima í Laufási. Glugginn sem hleypti sólinni inn, glugginn sem sameinaði fortíð og nútíð og framtíð.
fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
11. desember 2012

Jólastjarna

Aðventan er gengin í garð, orðið aðventa þýðir „koma Drottins“ enda hefst fyrsti sunnudagur í aðventu á frásögninni af komu Jesú til Jerúsalem. Bæði jólafastan og dymbilvikan sem er vikan fyrir páska, hefjast á þessari sömu frásögn, þegar Jesús ríður á asna inn í borgina Jerúsalem og mannfjöldin fagnar honum með því að leggja pálmagreinar og klæði á rykugan veginn. Það er mjög merkilegt að hugsa til þess að samkvæmt atburðarrás guðspjallanna er þetta hinsta för Jesú til borgarinnar og í raun upphafið að píslargöngu hans og dauða. Dauðastríð Jesú hefst s.s. á þessari innreið hans á asna. En ekki bara dauðastríð hans heldur líka lokakafli meðgöngunnar því síðustu dagarnir fyrir fæðingu frelsarans eru markaðir þessari frásögn. Er það til að segja okkur að sérhver fæðing sé dauði eða að dauðinn sjálfur sé fæðing?

Það má til sanns vegar færa að við fyrsta andardrátt færumst við nær endalokunum, lífið sækir hratt fram, á stundum eins og jökulá í leysingum ef því er að skipta og e.t.v er lífið einmitt svo dýrmætt vegna þessa. Maður sér sjálfan sig eldast í afkomendum, samferðarmönnum og loks gömlum ljósmyndum af sjálfum sér. En um leið og það er svo óendanlega þakkarvert að fá að lifa og eldast þá er það líka dálítið dramatískt, að vera dauðleg vera. Það er ekki bara auðvelt að fæðast inn í þennan heim og komast svo að því að maður er dauðlegur og að allt það góða sem manni hlotnast í lífinu er tímabundið ástand. Hefurðu tekið eftir því að með aldrinum verðurðu meyrari? Sem barn er hrifnæmi manns meira bundið hinu sýnilega, eitthvað sem er glitrandi, glaðlegt, spennandi, litríkt og skemmtilegt vekur kátinu hjá börnum, það djúpa við þá hrifnæmi er að það þarf ekki að vera stórt eða kosta mikla fyrirhöfn eða fjármuni.

Ég var einmitt minnt á þetta um daginn þegar ég loks drattaðist til að fara að renna mér á snjóþotu með fjögurra ára syni mínum og gleði hans gagntók umhverfið svo ég hefði ekki orðið hissa ef snjórinn í brekkunni hefði skyndilega bráðnað. Við sem erum eldri verðum hins vegar meira fyrir áhrifum af því sem er ekki sýnilegt, og oftar en ekki snýst það um eitthvert samhengi við fortíð okkar, eins og þegar ég var orðin fullorðin og fór í fyrsta skipti upp í gamla herbergið mitt á æskuheimili mínu í Laufási en þá voru mörg ár liðin frá því að við fluttum frá staðnum. Skyndilega, já fullkomlega fyrirvaralaust fór ég að háskæla þar sem ég stóð og horfði út um gluggann, sem greitt hafði morgunsólinni veg í bernsku minni.

Ég stóð þennan dag, við þennan glugga og horfði á litla drenginn minn út á flötinni fyrir framan gamla torfbæinn þar sem hann virti fyrir sér hestasteininn þunga af slíkri undrun að munnvatnið frussaðist fram af neðri vörinni eins og fjallafoss að vori. Einu sinni hafði þessi steinn verið mér jafn mikið undrunarefni og honum. Þarna horfði ég á framtíð mæta fortíð og staðan var þessi, ég var orðin fullorðin, drengurinn minn var í fyrirvaraleysi sínu að uppgötva þann heim sem ég hafði þá og þegar lifað, á meðan sá heimur var smátt og smátt að hverfa eldri ástvini í veikindum hans. Allt í einu upplifði ég þennan glugga sem dyragætt milli bernsku og fullorðinsára og kannski var það einmitt þarna sem ég hóf að meta lífið betur en áður.

Við verðum oft meyrari með aldrinum, ég held að það sé vegna þessa að eftir því sem árin líða og við upplifum meira, skynjum í atburðum hverfulleika lífsins, kveðjum ástvini og samferðarfólk um leið við sjáum börn fæðast og vaxa og verða fullorðið fólk, þá rennur það smátt og smátt upp fyrir okkur hvað lífið er ótrúlega djúpt og dýrmætt. Sumir kenna þessa tilfinningu við miðaldurskrísu en ég held að það sé rangnefni nema þá að maður geti verið á miðjum aldri á öllum aldri, aðrir gætu jafnvel greint þetta sem þunglyndi eða depurð. En ég held að þetta sé einfaldlega hluti af því að verða fullorðinn.

Og nú er aðventan gengin í garð. Hún er áskorun um það að sameina bernsku og fullorðinsár. Hún er á vissan hátt þessi gluggi sem ég horfði út um forðum, heima í Laufási. Glugginn sem hleypti sólinni inn, glugginn sem sameinaði fortíð og nútíð og framtíð. Aðventa og jól hafa þessi áhrif, þau draga fram í hugskot okkar minningar bernskunnar góðar eða slæmar en þau staðsetja um leið líðan okkar hér og nú. Þessi tími sem er framundan er mörgum erfiður, ekki bara vegna þess að suma skorti fé eða ytri aðstæður til að halda jól eins erfitt og það annars er, ekki heldur vegna þess að kröfurnar um að þú þurfir að gera svo margt séu síbylja sem skellur á þér hvar og hvenær sem er.

Ég er oft spurð sem prestur hvort að ytra áreiti sé ekki að ganga að fólki dauðu í aðdraganda jóla, hvort að jólastressið sé ekki allt of mikið, allir þessir tónleikar og jólahlaðborð og jólabjór og jóla þetta og hitt, en ég held að þar sé ekki vandann sjálfan að finna, ég held að þar liggi ekki meinvill okkar í myrkrum. Ég held að jólin séu oft erfið vegna þess að þau stilla tilfinningalífi okkar upp við vegg. Þau hrófla við því sem oft er hægt að dylja í dagsins önnum, jólin eru innreið inn í sál okkar. Og þá kemur að stóru spurningunni sem við erum spurð á hverju ári, hvernig tökum við á móti þeim? Eins og fólkið sem lagði pálmagreinar og klæði sín á veginn þegar Jesús nálgaðist borgarhliðið á asnanum eða eins og farísearnir sem stóðu hræddir hjá og báðu fólkið um að þegja? Ætlar þú að þegja eða segja, þessi jól? Hver einustu jól er ný fæðing, hver einustu jól fæðist Jesúbarnið inn í þennan heim, til að segja þér að lífið sé fullt af gluggum þar sem þú færð tækifæri til að meta aðstæður þínar upp á nýtt og ef þú þarft að gráta til að svo megi verða, þá skaltu gráta, því veistu, það gerði Jesúbarnið líka um leið og það kom í heiminn.