Miskunn Guðs og máttarverk

Miskunn Guðs og máttarverk

Að baki hverju einasta nafni í þessum kirkjugarði er saga. Í raun er það saga þessar þjóðar, saga mannsandans, saga lífsbaráttunnar, saga samfylgdar kirkju og þjóðar, saga um sigra og ósigra, ástir og örlög.
fullname - andlitsmynd Kristján Valur Ingólfsson
02. september 2012
Flokkar

Og Jesús sneri sér að lærisveinum sínum og sagði einslega við þá: „Sæl eru þau augu sem sjá það sem þér sjáið. Því að ég segi yður: Margir spámenn og konungar vildu sjá það sem þér sjáið en sáu það ekki og heyra það sem þér heyrið en heyrðu það ekki.“ Lögvitringur nokkur sté fram, vildi freista Jesú og mælti: „Meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“ Jesús sagði við hann: „Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?“ Hann svaraði: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Jesús sagði við hann: „Þú svaraðir rétt. Ger þú þetta og þú munt lifa.“ En lögvitringurinn vildi réttlæta sjálfan sig og sagði við Jesú: „Hver er þá náungi minn?“ Því svaraði Jesús svo: „Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona. Svo vildi til að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn en sveigði fram hjá. Eins kom og Levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá. En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum og er hann sá hann kenndi hann í brjósti um hann, gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann. Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meira til skal ég borga þér þegar ég kem aftur. Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni sem féll í hendur ræningjum?“Hann mælti: „Sá sem miskunnarverkið gerði á honum.“ Jesús sagði þá við hann: „Far þú og ger hið sama.“

Lúk 10.23-37

Náð sé með yður og friður, frá Guði Föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Gleðilega hátíð, gleðilega 80 ára afmælishátíð Fossvogskirkjugarðs. Ég færi ykkur kveðjur og blessunaróskir frá biskupi Íslands, séra Agnesi M Sigurðardóttur sem á þessari sömu stundu er við hátíðarmessu í tilefni af 80 ára afmæli Siglufjarðarkirkju.

Það er mér sannarlega bæði heiður og ánægja að vera með ykkur hér í dag. Kærar þakkir fyrir bjóða mér predikunarstólinn, og kærar þakkir fyrir að mega standa hér á þessum stað í öðru samhengi en gerist og gengur.

Eins og fram hefur komið er í dag, 2. september 2012 nákvæmlega 80 ár síðan fyrst var grafið í Fosvogskirkjugarð. Þann 2. september 1932 var jarðsettur hér Gunnar Hinriksson vefari og er hann því vökumaður garðsins. Það er ánægjulegt að viðhaldið sé þessu heiti um þann sem fyrstur er grafinn í nýjum garði. Reyndar fylgir heitinu vökumaður nokkur forneskja, allavega ef maður les þjóðsögurnar, sem fer ekki saman við þá von kristins manns um upprisu og eilíft líf, sem viðtekin er í kristnum sið. Það segir sína sögu um samspil kristindóms og annarra hugmynda sem búa með þjóðinni og er vel þekkt frá öðrum þjóðum kirkjum.

Með Gunnari var jarðsettur Ólafur Geir Þorkelsson, drengur á sjöunda aldursári sem lést af slysförum. Þannig mættust elli og æska þennan dag eins og svo oft síðan á þessum stað.

Vökumaður garðsins, vefarinn Gunnar Hinriksson, var listamaður á sínu sviði og hafa varðveist frá hans hendi mörg sýnishorn vefnaðar m.a. á Þjóðminjasafninu. Gunnar átti afar óblíða æsku og erfið fullorðinsár, hefði viljað læra en fékk það ekki, missti snemma sína nánustu en ekkert fékk haggað trú hans eða manngæsku. Hann átti síðustu ár sín á Elliheimilinu Grund og lést þar í hárri elli.

Sigurbjörn Ástvaldur Gíslason stofnandi Elliheimilisins Grundar nefnir Gunnar á einum stað, þegar hann er að fjalla um annan mann sem hann segir um: „Hann var besti sættir þeirra, sem ósáttir voru á Grund, og þegar hann vissi, að einhverjum leiddist, eða hafði fengið sorgarfregn, þá fór hann óðar með sálmabókina sína og ritninguna og ýmist las eða skrafaði við sorgarbarnið, því til hugarléttis. – Ljótur munnsöfnuður hvarf, þar sem hann kom inn. Ég held að ég hafi ekki saknað eins mikið neins þeirra mörgu, sem látist hafa á Elliheimilinu öll þessi 18 ár,“ segir Sigurbjörn Ástvaldur, „eins og þessa manns, nema þá Gunnars vefara Hinrikssonar, sem var honum líkur í þessum efnum. Báðir voru þeir heimilisprýði og heimilisblessun, - sannkristnir menn.“ (Heimilispósturinn 43.árg. 2007, bls. 12)

Listamaðurinn Ríkharður Jónsson skrifar í tímaritið Óðinn um Gunnar vefara og segir þar:

„Eitt meðal annara þjóðþrifaverka, sem Gunnar hefur gert, er að setja upp kljásteinavefstólinn, sem er á Þjóðmenjasafninu, setja upp vef í hann og sýna hvernig slíkir vefstólar voru notaðir. Þá kunnáttu segist Gunnar hafa lært hjá gamalli konu í Breiðdal austur. Vafasamt mun vera, að nokkur maður hjer á landi hefði getað komið þessu í lag, ef Gunnars hefði ekki notið við. Trúmaður er Gunnar mikill og ósvikið barn sinnar aldar í þeim efnum, segist hann hafa haft mesta löngun til að verða prestur, eða þó öllu helst trúmálakennari. Af framanskráðu er óþarft að taka það fram, að Gunnar er gáfumaður mikill, og óvenjulegt Ijúfmenni i lund og framkomu allri, og enn er hann fullur hugmynda og umhyggju fyrir framgangi og velgengni þjóðar sinnar í hvívetna.“ (Óðinn. 23. árg. 1927, bls 9-11)

Kæri afmælissöfnuður. Þannig valdist sérstakur maður til að vera vökumaður þessa garðs, maður sem sjálfsagt er að hafa í huga í dag þegar minnst er í kirkjum landsins dags díakoníunnar, þjónustunnar, hinnar fórnandi elsku kærleiks- og líknarþjónustunnar, um leið og hugleitt er guðspjallið um miskunnsama samverjann. Að baki hverju einasta nafni í þessum kirkjugarði er saga. Í raun er það saga þessar þjóðar, saga mannsandans, saga lífsbaráttunnar, saga samfylgdar kirkju og þjóðar, saga um sigra og ósigra, ástir og örlög. Gunnar vefari er auðvitað ekki samnefnari þeirra allra, síður en svo, en hann er gott dæmi um verðugan fulltrúa sinnar þjóðar og sinnar kirkju á þessum degi þegar við í senn höldum afmæli kirkjugarðs og hugleiðum miskunnsama samverjann.

Í samhengi þeirrar dæmisögu er einkum tvennt. Jesús segir (Matt, 25. 35-36): Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín.

Þessi orð Jesú eru grundvöllur kenningar kirkjunnar um miskunnarverkin sjö. Þau eru þessi: Að metta hungraða, að gefa þyrstum að drekka, að hýsa flóttamenn og heimilslausa, að klæða klæðlausa, að vitja sjúkra, að vitja fanga. Hlustandinn hefur sjálfsagt tekið eftir því að þetta eru bara sex miskunnarverk en ekki sjö. Hið sjöunda bættist við allnokkru síðar. Það er að greftra látna.

Eitt það fyrsta sem vakti athygli samfélagsins á hinu kristna fólki í frumkirkjunni var að þau greftruðu hin látnu, og líka þau sem fundust á víðavangi. Það var vegna þess að þau voru óhrædd við að snerta lík. Þau voru ekki hrædd við að verða við það óhrein samkvæmt lögmálinu. Jesús hafði leyst þau frá þeim ótta.

Þessi nýja regla var einnig byggð á tveim versum í fyrsta kafla Tobítsbókar. Þar er ritað (1.16-17): Meðan Salmaneser var á lífi gerði ég ættingjum mínum og löndum margt góðverkið. Ég gaf hungruðum af brauði mínu og nöktum klæði og sæi ég lík landa míns, sem varpað hafði verið út fyrir múra Níníve, greftraði ég það.

Að greftra látna er vegna þessa eitt af miskunnarverkunum sjö. Okkar gamla lögbók Grágás staðfestir þann kristna sið fagurlega eins og lög þau sem við tóku. Greftrun er miskunnarverk. Miskunn er einkenni kirkjunnar. Þegar söfnuðurinn gengur til fundar við Guð í guðsþjónustunni byrjar hann alltaf á að ákalla Drottinn sinn um miskunn. Drottinn kemur sjálfur til þess fundar og hann er sá sem miskunnar. Sú miskunn sem við meðtökum sjálf, er erindi okkar og hlutverk. Við eigum að sýna hana öðrum, öllum öðrum, óháð trú eða lífsskoðun. Það er eðli kristins manns og hlutverk hans.

Dæmisagan um miskunnsama samverjann nýtur ákveðinnar sérstöðu meðal frásagna Biblíunnar. Það er bæði vegna þess hversu auðskilin hún er og vegna þess hversu afdráttarlaust hún kallar til eftirbreytni sem er öllum framkvæmanleg í einhverri mynd.

Kirkjunnar fólk á öllum tímum hefur séð í manninum  sem liggur við veginn, mannkynið allt, þjáð af þúsund sárum. Neyð þess hrópar á hjálp, en það er ekki sjálfsagt að hún sé séð eða heyrð, né heldur er það sjálfsagt að sá eða sú sem sér gjöri nokkuð til hjálpar. Það vekur vissan óhug að Jesús skuli einmitt nefna til sögunnar einstaklinga sem vegna starfa sinna voru í sífelldri nálægð hins heilaga, og lætur þá ganga fram hjá. Samstarfsmenn hins heilaga: Prestur og levíti. Starfsmenn musterisins.

Það eru óteljandi leiðir til þess að horfa framhjá neyð náungans. Þar að baki geta legið margvísleg gildi. Það geta verið guðrækileg, mannleg og félagsleg, pólítísk og heilsufarsleg gildi sem menn bera fyrir sig þegar þeir ganga framhjá. Við erum ekki vön að gera mikinn greinarmun á því að sjá og að horfa á.

Það var aðeins einn sem ,,sá” á þann hátt að hann brást við. Hann ,,sá” í sömu merkingu og þegar Guð sér. Þegar Guð sér þá gerist það sem hann vill. Þegar Guð sér fylgir því blessun.

Það er jú einmitt það sem gerist í lok hverrar messu. Presturinn er sendur eins og Móse af fjallinu með blessun Guðs sem upplyftir augliti sínu og ásjónu yfir börn sín. Hann sér þau. Þannig blessar hann.

Hér á þessum stað í þessari kirkju og kapellu, erum við minnt á takmörk þessa lífs. Við berum við þau sem við elskum hingað inn, fram fyrir auglit Guðs og blessun hans, á leiðinni að hinsta hvílustað þeirra á jörðu. Við gerum það í fullvissu þess að höfundur lífsins gefi þeim eilíft líf með sér vegna þess að Jesús Kristur hafi frelsað þau frá dauðanum.

Sérhver sá sem hér var borinn til moldar gekk um einsemdarstigu dauðans. Sérhver maður er einn í andláti sínu eins og í fæðingunni. Engu breytir þar hversu margir eru nálægir og allt um kring. En Guð sér. Sérhver sá sem fer um dimman dal dauðans eða bjartan stig fæðingarinnar hvílir í ljósmóðurnálægð Guðs elsku. Allur þorri þeirra sem hér hvílir var Guði falin og jarneskri mold. Og Guð sá. Og Guð gaf blessun. Guð sá mig og sá þig í móðurkviði, meðan við vorum enn varla nokkuð nema hugsun, nema von um líf og barn, og þó var allt skráð á því augnabliki sem fyrstu frumuskipti urðu, háralitur, fingralögun, augnalitur, nef og munnur. Frá fyrsta augnabliki sá Guð mig. Og ást hans var yfir mér, eins ást og minna foreldra, og af þeirra ást var ég getinn og fæddur. Ritað er í sálmum Davíðs: (Þú Guð, hefur) ofið mig í móðurlífi. (139.13) Guð er sjálfur hinn mikli vefari himins og jarðar, alls hins sýnilega og ósýnilega. Sá sem lífið óf inn í moldina og gerði bæði reyr, stör og jurtir vænar, fugla himins og dýr merkurinnar, og síðast manninn í sinni mynd. Miskunn hans er yfir öllu og öllum.

Það er nokkuð augljóst hvert er megin inntak ritningartextanna á þessum degi: Miskunnsemi, fyrirgefning, ábyrgð, og starf. Samverjinn sá og framkvæmdi. Djúpar pælingar, guðrækilegar umþenkingar, helgar tilfinningar eða innileg samúð, er ekki nóg, heldur þarf verk að fylgja.

Það er ekki að ástæðulausu sem kirkjan vísar í söguna um Kain og Abel þegar hún les guðspjallið um miskunnsama samverjann. Gagnvart okkur sem viljum vinna í kirkjunni þýðir það að við  eigum  að hafna vegi hefndarinnar. En á vegi hefndarinnar er ekki bara hefndin sjálf, heldur öfundin og illmælgin. Það þarf ekki að berja ferðalanga og ræna þá, það þarf ekki að drepa þann sem skarar fram úr og veldur öfund.  Það  er nóg að rægja hann og gera hann tortryggilegan, gera lítið úr verkum hans og tala fyrst og fremst um það sem er neikvætt í fari hans. Þetta er þjóðaríþrótt, og ekki bara á Íslandi. Þetta er Kains-íþróttin, og ávöxtur hennar og sigurlaun liggja við veginn, - kraminn og barður bróðir okkar Jesús Kristur.

Samverjinn þarf ekki bara að yfirvinna ótta sinn við ræningjana sem kannski liggja enn í leyni , heldur einnig óttann við fordóma og  niðurlægingu, og einhverskonar almannaróm og samfélagsstemmingu. En hann sigrar. Hann bregst við.

Og nú er það okkar að setja þessa dæmisögu í samhengi við okkar eigið líf, bæði í hinu stóra samhengi heimsins sem við heyrum um og lesum um og í hinu litla samhengi daglegs lífs. Af því að í rauninni snýst hún alltaf og einungis um fólk eins og okkur, sem grætur af því að það er búið að missa þann sem það elskar, eða það er búið að eyðileggja það sem því var kært. Neyð heimsins birtist í fólki sem er eins og við, og sumt af því á ekkert hús, enga fjölskyldu, ekkert land, enga þjóð. Jafnvel ekkert nema líf sem því finnst lítils virði.

Það er Kristur sjálfur sem liggur við veginn, og þú ert samverji.

Sagan um Kain sem aðdraganda guðspjallsins skilur eftir sig spurningar. Jesús Kristur svarar þeim. Hann gætir bróðurins. Hann er náungi þeim sem liggur barinn.  Hann sjálfur er hinn barði maður við veginn og hann er samverji. Blóð hins krossfesta Jesú Krists  hrópar til himnins eins og blóð Abels, en ekki um hefnd heldur um miskunn.

Hver var spurning hins lögspaka manns í guðspjallinu: Meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?

Jesús svaraði: ,,Elska skalt þú Drottin, Guð þinn af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum og náunga  þinn, eins og sjálfan þig.”

Dýrð sé Guði, Föður og Syni og  Heilögum Anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.