Lífsleið, leiði og tilgangur

Lífsleið, leiði og tilgangur

“Þegar ég var ungur sat ég og horfði út um framrúðuna. Síðar - um miðjan aldur horfði ég út um hliðarrúðurnar. Þegar ég er orðinn gamall horfi ég út um afturrúðuna og hraðinn er ótrúlega mikill.” Í uppstigningardagsmessu í Neskirkju var hugleitt um lífsstefnu.

Sjá, ég kem fljótt

Einu sinni var ungur og reynslulítill prestur beðinn að prédika í messu. Venjan í þeirri kirkju var að prédika blaðalaust. Svo steig klerkur í stólinn, en var varla byrjaður á ræðunni þegar hann panikeraði og mundi ekki hvað hann ætlaði eða átti að segja næst. Í prestaskólanum hafði hann lært að ef minnið brysti væri gott að endurtaka síðustu setninguna meðan hann væri að rifja upp eða ákveða framhaldið. Hann ákvað því að nota trikkið og sagði með þunga. “Sjá, ég kem fljótt!” En ekki kom ræðuframhaldið. Aftur sagði hann og með enn meiri þunga: “Sjá, ég kem fljótt.” Síðan í þriðja sinn og þá með því að baða út höndum, berja í stólinn og halla sér fram með þunga. Ekki vildi betur til en svo, að stóllinn gaf eftir, hliðin datt niður og prédikarinn steyptist fram af og í fangið á konu, sem sat á fremsta bekk og átti sér einskis ills von. “Fyrirgefðu”, sagði klerkurinn í öngum sínum. “Já auðvitað, sagði konan. “Ég hefði auðvitað átt að vera búin að koma mér í burtu. Þú varst nú búinn segja þrisvar sinnum að þú værir að koma!”

Hver kemur og hver fer? Í dag er uppstigningardagur, hátíð 40 dögum eftir páska og tíu dögum fyrir hvítasunnu. Á þessum hátíðatíma eftir páska er spurt um hvert sé gildi lífsins? Hver er leið lífsins og hvaða leiðir förum við til að lifa? Verðum við svo leið að ekkert verður lengur heilagt í tilrauninni við að brjóta leiðann.

Afagengið

Mér fannst fréttin í fyrrakvöld um afagengið í Þýskalandi áhugaverð. Þrír karlar, tveir á áttræðisarli og einn aðeins yngri voru handteknir fyrir fjölda bankarána og voru leiddir fyrir rétt. Þeir höfðu sér til málsbótar, að þeir hefðu nú alltaf gætt þess, þegar þeir rændu bankana, að fátt fólk væri í þeim, sem sé þeir höfðu ráðist inn við lokunartíma.

Hvar liggja mörkin? Er lífið svona leiðinlegt þegar menn eldast að menn þurfa að leggjast í spennandi og tvíbent bankarán til að útrýma leiðanum. Jú vissulega var hagnaðarvonin ein af ástæðnunum en svo var það líka viljinn til að gera lífið skemmtilegra, meira spennandi. Alla vega var það ein af skýringunum í þýsku pressunni.

Tilgangur lífsins

Gildi lífsins – tilgangur lífsins. Merkilegt þetta orð: Tilgangur - gangur til einhvers? Það felur í sér að stefnt sé eitthvað, gengið í áttina að einhverju, einhverju markmiði. Í hvaða átt stefna menn? Í hvaða átt stefnir þú? Hver er tilgangur þinn?

Þessi dagur, uppstigningardagur, hefur í seinni tíð hefur orðið dagur aldraðra í kirkjunni. Við íhugum það að lifa, lifa áfram, í hverju lífið er fólgið, stillum okkur hið innra og ígrundum fyrir hvað við lifum, til hvers við lifum.

Alla ævi hef ég fagnað hverju árinu sem við bætist. Ég sannfærst um að það að eldast sé eftirsóknarvert. Að verða eldri er í mínum huga að verða lífsreyndari og vitrari. Ég veit að missirinn er fylgifiskur þess að eldast, alltaf fleiri og fleiri sem maður missir og meira og meira sem maður tapar, ef ekki vinum, þá heyrn, snerpu, tilfinningu, getu til þess eða hins. En þannig er breytingin. Við erum öll að breytast, við erum ekki eftir sjö eða átta ár að nokkru leyti efnislega það sem við erum í dag. Fyrir nokkrum árum var ekkert í þér af því efni sem er í dag. Aðeins hið andlega samhengi, minningarnar, varðveita samhengi þitt. Hver ertu og til hvers? Lífið sem bílseta/ökuferð

Haraldur Matthíasson á Laugarvatni líkti lífinu við ökuferð: “Þegar ég var ungur sat ég og horfði út um framrúðuna. Síðar - um miðjan aldur horfði ég út um hliðarrúðurnar. Þegar ég er orðinn gamall horfi ég út um afturrúðuna og hraðinn er ótrúlega mikill.”

Þetta er mikilvæg íhugun. Við skyldum hugsa um í hvaða átt við horfum? Hvert við stefnum stýrir svo mörgu í skynjun, lifun okkar og viðbrögðum.

Þegar þú varst barn beiðstu eftir því að eldast? Var ekki óþreyjan í hjarta og eftirvænting? Alltöf mörg börn flýta sér svo að fullorðnast að þau ná aldrei fullkomnum þroska. Að verða fullorðinn krefst tíma.

Þegar þú eltist varð meira jafnvægi og þú gast horft út um hliðarrúðurnar. Ég er farinn að líta til baka, syrgja margt og gleðjast yfir öðru. En þegar þú eldist þá snýrðu þér við eða hvað.

Afstaða og tími

Horfir þú fram á veginn, ertu farin að líta til hliðar og útum hliðarrúðurnar í lífinu. Eða ertu búin að snúa alveg til baka, og horfir á lífið þeytast hjá, skilur ekkert af hverju allt verður svona hratt en þú hægur eða hæg. Ertu við afturrúðu lífsins.

Heilar þjóðir geta litið aftur, þegar þær harma glæsta fortíð sína. Þannig voru Ísraelsmenn til forna, þannig voru Íslendingar fram á tuttugustu öld. En síðan sneru spámenn til forna ásjónum landa sinna frá þátíð og fram á veginn.

Það er svo mikilvægt að snúa ekki bara aftur, heldur njóta þess er að gerast til hliðar við mann, upplifa hin sem eru á leiðinni og eru samfylgdarfólk. Og við meguma aldrei missa framtíðarvíddina, hversu gömul sem við verðum. Framtíðin er opin. Lúther minnti á að hann myndi sá til eplatrés jafnvel þótt hann vissi að heimsendir yrði á morgun!

Blessunin í lífinu

Lítil bók sem hefur verið ein af söluhæstu bókum á Amazon, Bæn Jabezar. Þar er íhugunarsaga af manni nokkrum sem dó, fór til himna og hitti Pétur postula, sem fór með hann í skoðunarferð um himininn. Þeir komu að risastóru húsi, sem Pétur ætlaði að fara framhjá. “Hvaða hús er þetta? spurði hinn nýkomni. Ptur reyndi að draga athyglina að öðru. Vegna þrábeiðni gaf Pétur að lokum undan og opnaði dyrnar inn í mikla hvelfingu. Inni voru sem næst endalausar raðir af hvítum kössum, sem bundið var um með rauðum böndum. “Hvað er þetta?” spurði maðurinn. “Allir kassarnir eru merktir! Er kannski einn merktur mér?” Svo rauk hann að stað og fann eftir nokkra leit sinn kassa, reif af honum rauða bandið og kveinaði svo þegar hann gerði sér grein fyrir innihaldinu. Í kassanum voru allar gjafirnar og dýrmætin, sem Guð hafði ætlað að gefa honum meðan hann var á jörðinni, en honum hafði aldrei hugkvæmst eða gefið sér tóm til að biðja Guð um.

Hvert horfir þú í lífinu? Um hvað biður þú? Hvert er gildi þitt í lífinu? Má bjóða þér að ræna banka til að öðlast lífsgæði? Eða má bjóða þér að biðja svolítið og öðlast mun meiri gæði en KB banki og Landsbanki samanlagt eiga? Má bjóða þér að öðlast gæði úr bankahvelfingu himinsins? Þau gæði varða bæði fortíð, nútíð og framtíð. Í því ríkidæmi er líka eilfífðin.

Það segir í texta dagsins um uppstigningardag, að Jesús hafi verið að blessa lærisveina sína, þegar hann hvarf þeim sjónum. Mér finnst það fallegt að þegar hann fór hafi hann verið að blessa þá. Blessun Guðs er sem þú þarfnast á vegferð þinni til að lifa, gleðjast, vera og fagna.

Amen

Uppstigningardagur 2005 - Lok vetrarstarfs eldri borgara í Neskirkju. Litli kórinn söng við messuna.