Þjóðkirkjuguðfræði fyrir 21. öldina — Nokkrir kubbar í púsl

Þjóðkirkjuguðfræði fyrir 21. öldina — Nokkrir kubbar í púsl

Liggur þjóðkirkjuguðfræði fyrir 21. öldina ljós fyrir í kirkju okkar? Ef svo er hvar er hana þá að finna? — Sé hún ekki til staðar er brýnt að búa hana til. Hvernig verður það best gert?
fullname - andlitsmynd Hjalti Hugason
28. september 2011

Hjalti HugasonNýlega lét ég að því liggja hér á síðunni að líklega skorti íslensku þjóðkirkjuna forsendar til að geta risið undir því að vera sjálfrátt (autonomt) trúfélag í tengslum eða án tengsla við veraldlegt ríkisvald. (Sjá pistilinn Þorum við, getum við viljum við vera sjálfráð þjóðkirkja?)

Með þessu er átt við að kirkjan búi ekki að mótaðri þjóðkirkjuguðfræði sem hæfi 21. öldinni og sé henni leiðarljós í samfélagi fjölhyggju og fjölmenningar. — Hér verður bent á nokkur viðfangsefni slíkrar guðfræði.

Sjálfstætt trúfélag og þjóðkirkja

Í 1. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 er kirkja okkar skilgreind bæði sem „sjálfstætt trúfélag“ og þjóðkirkja sem ríkisvaldinu ber að „styðja og vernda“ sbr. 62. gr. stjskr. Grundvallarspurning er hvort þetta sé samræmanlegt eða óstættanlegt.

Þjóðkirkja er háð lögum sem Alþingi setur. Núgildandi þjóðkirkjulög eru 7 kaflar og heilar 64 gr. — sem sé smásmuguleg. Hverjir eru aftur á móti gagnráðarnir í stjórnkerfi og starfsháttum sjálfstæðra trúfélaga? Eru þeir sóttir innávið eða útávið — til játninga, hefða, sögu og hlutverks trúfélagsins eða til veraldlegs ljöggjafa? Endurspegla þjóðkirkjulögin sjálfsskilning kirkju okkar eða breyta þau henni í bákn?

Hér þarf vissulega ekki að vera um annað hvort eða að ræða. Við endurskoðun þjóðkirkjulaganna er hins vegar full ástæða til að spyrja gagnrýninna spurninga. Þar á meðal verður að ákveða hver eigi að setja hina innri kirkjuskipan eða skrifa kirkjuréttinn, Alþingi eða Kirkjuþing.

Þetta eru álitamál fyrir þjóðkirkjuguðfræði á 21. öld.

Tengsl trúfélags og ríkisvalds

Ofangreindar spurningar lúta öðrum þræði að afstöðu þjóðkirkjunnar til tengsla sinna við veraldlegt ríkisvald í lýðræðissamfélagi sem er á hraðri leið inn í fjölhyggju 21. aldar. Í því sambandi ber að gæta að því að kirkjuskipan ríkisins er ekki gagnvirk. Hún ákvarðar aðeins stöðu þjóðkirkjunnar út frá ákveðnum bæjardyrum séð. Hún leiðir hins vegar ekki til þess að ríkisvaldið verði í einhverjum skilningi lútherskt.

Spyrja verður hvernig tengsl ríkis og kirkju eigi að vera í framtíðinni. Sterkari tengsl en nú munu vissulega ekki standa til boða. En eiga þau að vera óbreytt, á að teygja enn meira á þjóðkirkjuskipaninni eða hugsanlega slíta tengslin með öllu?

Hlýtur sjálfstætt trúfélag ekki að keppa að sem mestu sjálfræði gagnvart ríkisvaldinu? Hvað þýðir það þá bæði í orði og á borði? Sjálfræði þarf vissulega ekki að merkja að ríki og kirkja segi að öllu leyti skilið hvort við annað. Sjálfræði kirkjunnar hlýtur þó að setja tengslunum skorður og skipta sköpum við framtíðarmótun þeirra.

Spurningum um á borð við þessar verður ekki svarað án þjóðkirkjuguðfræði sem hefur merkingu á 21. öldinni.

Þjóðkirkja — jafnvel eftir aðskilnað?

Vangaveltur um samband ríkis og kirkju vekja óhjákvæmilega þá spurningu hvort þau tengsl skipti í raun sköpum um hvort kirkja sé þjóðkirkja eða ekki. Svarar ríkisvaldið þeirri spurningu með þjóðkirkjulögum? Gerir þjóðin það með atkvæðagreiðslu á grundvelli 62. og 2. mgr. 79. gr. stjskr.? Eða er það hugsanlega fyrst og fremst kirkjan sjálf sem svarar þeirri spurningu út frá köllun sinni og sjálfsskilningi?

Vill kirkja okkar lifa og líða með íslensku samfélagi eftir Hrun? Vill hún standa öllum opin? Vill hún þjóna öllum sem þiggja vilja óháð trúarskoðunum þeirra eða trúarstyrk? Vill hún eiga orðastað við alla? Vill hún berjast fyrir betri heimi í samvinnu við öll þau sem vilja láta gott af sér leiða? Vill hún leggja sitt af mörkum til að koma á nýju félagslegu réttlæti í landi okkar? — Er það ekki þetta sem að biðja, boða og þjóna merkir á hversdagsmáli? Vilji kirkjan starfa með þessum hætti er hún og verður þjóðkirkja hvernig svo sem tengslum hennar við ríkisvaldið er háttað.

Vonandi stendur þjóðkirkjan ekki öllum opin — ef hún gerir það í raun — einungis vegna þess að lög um stöðu, stjórn og starfshætti hennar nr. 78/1997 kveða á um það. Vonandi gerir hún það fyrst og fremst vegna þess að hún finnur sig kallaða til þess af höfundi sínum, Kristi. Vonandi þjóna prestar hennar öllum sem til þeirra leita nú ekki aðeins vegna þess að þeir eru embættismenn veraldlegs ríkis heldur vegna þess að þeir eru þjónar í kirkju Krists. Kirkjan varðveitir samstöðu sína með þjóðinni best á grundvelli þjóðkirkjuguðfræði fyrir 21. öldina.

Hver tekur ákvarðanir?

Í sjálfstæðum trúfélögum verður að taka þúsund ákvarðanir um allt milli himins og jarðar. Í öllum ákvörðunum felst val milli ólíkra kosta. Við það val er tekist á um völd. Því er óhjákvæmilegt að spurt sé hverjir eigi að koma að ákvörðunum, á hvaða hátt og í hvaða mæli. Eiga guðfræðingar að ráða för? Skapar vígsla forskot í óhjákvæmilegu en oft ósýnilegu valdatafli sem stöðugt fer fram í kirkjunni? Á kirkjan að vera „prestakirkja“? Á lýðræði að vega þyngra? Hvað veitir myndugleika í kirkjunni: menntun, vígsla, trú, almennur eða sértækur prestdómur, lýðræðislegar eða „kanonískar“ kosningar?

Spurningum á borð við þessar verður ekki svarað nema út frá mótaðri þjóðkirkjuguðfræði fyrir 21. öldina.

Hlutverk í fjölhyggjusamfélagi

Svo virðist sem þjóðkirkjan velkist í vafa um raunverulegt hlutverk sitt í kviku samtímans. — Vissulega er það sístætt hlutverk kirkjunnar að syngja Guð lof í helgihaldi. Vissulega er kristniboðsskipunin enn í gildi og kallar á boðun og fræðslu. Vissulega er köllun kærleikans alltaf söm við sig og kallar á hlustandi eyra í sálgæslu og líknandi hönd í díakoníu.

Í kviku samtímans verður þjóðkirkjan þó að iðka þessi sístæðu hlutverk á nýjan hátt. Spyrja verður: Hver er köllun kirkjunnar í samfélaginu eftir Hrun? Á hún að „siðvæða“ samfélagið? Ætti hún að leitast við að endurreisa hið kristna einingarsamfélag sem margir virðast sjá í hillingum? Eða felst hlutverk hennar í því að axla krossinn með svikinni þjóð, takast á við afleiðingar ranglætis í fjölmörgum myndum, koma á nýju réttlæti?

Þetta eru spurningar um þjóðkirkjuguðfræði fyrir 21. öldina.

Á leið inn í píslarvætti?

Á síðari árum hefur oft heyrst að „sótt sé að kirkjunni“. Er það rétt? Hverjir sækja að henni? Hvaðan er sótt og til hvers? Erum við e.t.v. að rangtúlka eitthvað? Kann að vera að íslenska þjóðkirkjan eigi aðeins erfitt með að fóta sig í samtímanum, fjölhyggjunni og ekki síst þeirri félagslegu deiglu sem opnaðist eftir Hrun? Þá varð ekkert lengur upphafið, ósnertanlegt eða heilagt. Í þeim aðstæðum sem nú eru uppi er auðvelt fyrir gamlar forréttindastofnanir að leita skjóls í hlutveki píslarvottarins. En hver er sjálfsmynd kirkjunnar í þessum nýju aðstæðum?

Þeirri spurningu verður ekki svarað öðru vísi en út frá þjóðkirkjuguðfræði fyrir 21. öldina.

Eigum við gilda þjóðkirkjuguðfræði?

Hér hefur verið spurt nokkurra — vonandi ágengra — spurninga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkju okkar. Engri þeirra verður svarað af nokkru viti án markaðrar þjóðkirkjuguðfræði sem hefur merkingu við þær aðstæður sem uppi eru við upphaf 21. aldar.

Slík guðfæði felur í sér markvissa skoðun á arfi þjóðkirkjunnar sem evangelísk-lútherskrar greinar á almennri kirkju Krists sem og síbreytilegu sögulegu og samfélagslegu umhverfi kirkjunnar. Kirkja mótast alltaf aðstæðum í tíma og rúmi. Ella er hún ekki endurómur af Orði sem varð hold.

Liggur þjóðkirkjuguðfræði fyrir 21. öldina ljós fyrir í kirkju okkar? Ef svo er hvar er hana þá að finna? — Sé hún ekki til staðar er brýnt að búa hana til. Hvernig verður það best gert?