Á eftir myrkri kemur ljós

Á eftir myrkri kemur ljós

Lúsía bar ljósið inn í myrkrið á höfði sér til að hafa frjálsar hendur í þjónustunni. Verum fagnaðarboðar, hvert á okkar vettvangi, flytjum huggun Guðs til fólksins í kringum okkur, uppörvum og hvetjum því að lífið er ekki allt sem sýnist...

Jesús svaraði þeim: „Farið og kunngjörið Jóhannesi það sem þið heyrið og sjáið: Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp og fátækum er flutt fagnaðarerindi. Og sæll er sá sem ekki hneykslast á mér.“ Þegar þeir voru farnir tók Jesús að tala til mannfjöldans um Jóhannes: „Hvað fóruð þér að sjá í óbyggðum? Reyr af vindi skekinn? Hvað fóruð þér að sjá? Prúðbúinn mann? Nei, prúðbúna menn er að finna í sölum konunga. Til hvers fóruð þér? Að sjá spámann? Já, segi ég yður, og það meira en spámann. Hann er sá sem um er ritað: Ég sendi sendiboða minn á undan þér, hann á að greiða þér veg. Sannlega segi ég yður: Enginn er sá af konu fæddur sem meiri sé en Jóhannes skírari. En hinn minnsti í himnaríki er honum meiri. Matt 11.2-11

Á þriðja sunnudegi í aðventu fjalla ritningartextarnir um Jóhannes skírara, andlegan fyrirrennara frelsarans Jesú Krists. Þeir Jóhannes og Jesús voru frændur, Elísabet móðir Jóhannesar mun hafa verið móðursystir Maríu og í Lúkasarguðspjalli er sagt frá heimsókn ungu frumbyrjunnar til frænku sinnar sem einnig átti von á sínu fyrsta barni, komin nokkuð til ára sinna. Við munum eftir þessari áhrifaríku frásögu, hvernig barnið tók viðbragð af gleði í lífi Elísabetar, hún fylltist heilögum anda og kallaði upp yfir sig að þar færi ,móðir Drottins míns´ eins og segir í fyrsta kafla Lúkasarguðspjalls (v. 43).

Frásögurnar af lífi Jóhannesar, bæði hvernig hann varð til fyrir kraftaverk (Lúk 1.11-17), væntingarnar sem bundnar voru við hann þegar frá fæðingu (Lúk 1.66) og eins hvernig hann varði lífi sínu sem fullorðinn maður, minna mjög á frásögur Gamla testamentisins/hebresku Biblíunnar af ættfeðrum og spámönnum. Jóhannes var sannarlega útvalinn af Guði og honum var ætlað sérstakt hlutverk. Þetta hlutverk var að kalla fólk til iðrunar og greiða þannig guðsríkinu veg, eins og segir í lexíu dagsins, Jes 40.1-8:

Huggið, huggið lýð minn, segir Guð yðar. Hughreystið Jerúsalem og boðið henni að áþján hennar sé á enda, að sekt hennar sé goldin, að hún hafi fengið tvöfalt af hendi Drottins fyrir allar syndir sínar. Heyr, kallað er: „Greiðið Drottni veg um eyðimörkina, ryðjið Guði vorum beina braut í auðninni, sérhver dalur skal hækka, hvert fjall og háls lækka. Hólar verði að jafnsléttu og hamrar að dalagrundum. Þá mun dýrð Drottins birtast og allt hold sjá það samtímis því að Drottinn hefur boðað það.“ Einhver segir: „Kalla þú,“ og ég spyr: „Hvað á ég að kalla?“ „Allt hold er gras og allur yndisleikur þess sem blóm vallarins. Grasið visnar, blómin fölna þegar Drottinn andar á þau. Sannlega eru mennirnir gras. Grasið visnar, blómin fölna en orð Guðs vors varir að eilífu.“

Hlutverk Jóhannesar skírara Í Lúkasarguðspjalli segir frá því þegar engillinn vitjar Sakaría, Lúk 1.14-17:

Og þér mun veitast gleði og fögnuður og margir munu gleðjast vegna fæðingar hans því að hann mun verða mikill fyrir augliti Drottins. Aldrei mun hann drekka vín né áfengan drykk en fyllast heilögum anda þegar frá móðurlífi. Og mörgum Ísraelsmönnum mun hann snúa til Drottins, Guðs þeirra. Og hann mun ganga fyrir honum í anda og krafti Elía, til að snúa hjörtum feðra til barna sinna og gefa óhlýðnum réttlátt hugarfar og búa Drottni altygjaðan lýð.“

Hvernig Jóhannes snéri mörgum Ísraelsmönnum til Drottins, Guðs þeirra má lesa um í t.d. Matteusarguðspjalli, þaðan sem guðspjall dagsins er tekið. Boðskapur skírarans var einfaldur en kröftugur: ,Takið sinnaskiptum, himnaríki er í nánd´ (Matt 3.2). Jóhannes hafðist við í eyðimörkinni. Klæðnaður hans var úr úlfaldahári, leðurbelti hafði hann um lendar sér og nærðist á engisprettum og villihunangi. Allt þetta undirstrikar þrá hans eftir að lifa einföldu lífi og helga sig Guði einum og minnir á eyðimerkurfeður og –mæður sem á eftir komu. Skírnin sem Jóhannes skírði var iðrunarskírn, ekki hin kristna skírn, á mörkum gyðingdóms og kristni.

Jóhannes lét heldra fólkið hafa það óþvegið, faríseana og saddúkeana, kallaði þá nöðrukyn og sagði þeim ekki viðbjargandi án sinnaskipta (Matt 3.7-8). Hann hræddist ekki einu sinni sjálfan fjórðungsstjórann Heródes, sagði honum til syndanna og varaði hann við siðlausum ráðahag. Sú dirfska kostaði spámanninn lífið (Matt 14.1-12).

Andleg barátta En hér í guðspjalli dagsins er Jóhannes í fangelsi konungs og hefur greinilega átt í andlegri baráttu og þurfti að fá staðfestingu þess að hann hafi gert rétt í því að hætta lífi sínu með því að kalla háa og lága til iðrunar og réttrar breytni. ,Ert þú sá sem koma skal eða eigum við að vænta annars?’ Ert þú, Jesús, raunverulega hann sem Guð sendir með nánd himnaríkis til jarðar, ert þú hann sem er mér máttugri, hann sem skírir með heilögum anda og eldi?

Jóhannes varð að fá fullvissu sína. Hann hafði lagt allt í sölurnar fyrir frænda sinn og nú fann hann að endalokin nálguðust. Myndi það allt vera til einskis – eða var líf hans það lóð á vogarskálar guðsríkisins sem greitt gæti frelsaranum veg?

Og svarið var kröftugt, tók af allan vafa: Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp og fátækum er flutt fagnaðarerindi. Spádómleg ræða og iðrunarskírn Jóhannesar höfðu gert fólkið tilbúið að taka á móti kraftaverkum Jesú. Það hafði séð synd sína og þörf fyrir Guð. Þannig greiddi Jóhannes frelsaranum veg.

Illa stödd án Guðs Þarna er lífinu lýst eins og það er. Við erum blind, hölt, líkþrá, dauf, dauð og fátæk. Með einföldum boðskap sínum og líferni bar Jóhannes spegil upp að samlöndum sínum og bauð þeim að sjá sig eins og þau voru í reynd, eins og manneskjurnar eru svona yfirleitt. Okkur skortir sýn, jafnvægi, hreinsun, heyrn, líf og gnægtir. Við erum illa stödd án Guðs.

Og aðeins þegar við horfumst í augu við bága stöðu okkar erum við reiðubúin að taka við ,guðsríkinu´, nánd Guðs inn í líf okkar. Þegar allt leikur í lyndi, heilsan er góð, hamingjan blasir við, fjárhagurinn traustur finnum við sjaldan þörf okkar fyrir Guð. Það er oft ekki fyrr en allt brestur að við sjáum hversu aum við erum og allslaus án Guðs.

Kannski mætti segja að kreppan á yfirstandandi ári sé að einhverju leyti nútímalegur Jóhannes skírari, áminnandi rödd inn í líf okkar. Kreppan knýr okkur til að staldra við, horfast í augu við okkur sjálf og hve skammt okkar áætlanir ná í hinu stóra samhengi. Við sjáum fólkið í fréttunum sem finnur til undan skuldunum sínum og skilur ekki hvernig þetta gat gerst þar sem allt átti að vera svo öruggt í fjármálaheiminum. Við finnum til undan skuldum okkar. Fyrirgef oss vorar skuldir.

Viðurkenning og viðreisn Hér skiptir ekki máli hvers sökin er, þó réttlætið þurfi að sjálfssögðu að ná fram að ganga og hreinsun að fara fram í þjóðfélaginu. Öll erum við að einhverju leyti sek, sem þegnar í samfélagi sem gripið var af peningahyggju, þar sem mikið vildi alls staðar meira. Hvernig sem því er varið er mikilvægast að við getum lært af þessu, horfst í augu við hverfulleika heimsins og að ekkert, ekkert er hægt að reiða sig á nema Guð.

Og út frá þeirri staðreynd getur viðreisnin hafist. Þegar við höfum viðurkennt að við erum blind og völt og blettótt og líflaus og sljó og snauð í sjálfum okkur – þetta kallast synd - getum við tekið á móti lausn Guðs. ,Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinast og daufir heyra, dauðir rísa upp og fátækum er flutt fagnaðarerindi´. Guð opnar okkur sýn, vísar okkur veg, hreinsar líf okkar og heyrn, reisir okkur við og gefur okkur gleði í hjarta. Til þess kom Jesús Kristur til heimsins á hinum fyrstu jólum, til þess kemur hann inn í líf okkar hver jól, já hvern dag sem við drögum andann.

Úr fátækt til velmegunar Ég var um liðna helgi á ráðstefnu í Genf í Sviss ásamt níu öðrum Íslendingum, sem flestir tilheyra bænasamfélaginu sem kemur saman í Friðrikskapellu í hádeginu á miðvikudögum til að biðja fyrir landi og þjóð. Hópur Svisslendinga kom hingað til lands í ágúst síðast liðnum og bauð okkur í kjölfarið að sækja alþjóðlega ráðstefnu sem haldin var í tilefni af því að 500 ár eru nú liðin frá fæðingu siðbótarmannsins Kalvíns. Við heyrðum meðal annars um hvernig Kalvín var kallaður til Genfar til að snúa við afar bágu ástandi borgríkisins um miðbik 16. aldar og tókst að reisa samfélagið við úr mikilli fátækt og stöðugum yfirvofandi árásum nágrannanna til sigurs og velmegunar.

Einkunnarorð spámannsins og siðbótarmannsins í Genf voru: Post tenebras lux. Á eftir myrkri kemur ljós. Mér finnst sá boðskapur geta verið okkur Íslendingum veganesti á erfiðum tímum. Á eftir myrkri kemur ljós. Við þurfum að horfast í augu við myrkrið í okkur sjálfum og í samfélaginu til að geta tekið við ljósinu sem leiðir okkur út til betra þjóðfélags og bjartara mannlífs. Þarna eiga orð postulans í pistli dagsins vel við: Drottinn ,mun leiða það í ljós sem í myrkrinu er hulið og afhjúpa allt sem í hjarta dylst´ (sjá pistilinn, 1Kor 4.1-5).

Dómurinn er Guðs og hver þarf að horfa í eigin barm. Við þurfum að viðurkenna að við erum syndugar manneskjur, breysk og brotin og taka við ljósi Guðs, frelsaranum Jesú Kristi sem vill hugga okkur og hughreysta og vísa okkur veginn að jafnsléttu. Víst erum við gras, fölnandi blóm, það er staðreynd, en huggun Guðs er að orð hans, veruleiki höfundar lífsins, er eilíft.

Með ljós á höfði og frjálsar hendur til þjónustu Þann veruleika fáum við höndlað með Kristi, með því að hneykslast ekki á honum heldur taka á móti honum í trú. Dagurinn í dag, 13. desember, minnir okkur á konu sem gefur okkur fordæmi að heilsteyptri trú, trú sem lét ekki ytri ógnir stöðva sig en var sönn allt til enda. Lúsía hét ung kona sem lifði um 300 eftir Krist á Sikiley. Þá voru hættulegir tímar fyrir kristið fólk á Ítalíu og víðar, en Díókletíanus keisari stóð fyrir miklum ofsóknum á hendur játendum kristinnar trúar. Lúsía sinnti fólkinu sem hafði flúið undan ofsóknunum niður í katakomburnar og til þess að geta útbýtt mat og sinnt annarri þjónustu með báðum höndum bar hún ljósið á höfði sér.

Hún hafði helgað líf sitt Kristi og vildi ekki giftast en einn biðlanna tók höfnun hennar illa og tilkynnti um trú Lúsíu til keisarans. Þegar Lúsía vildi ekki tilbiðja keisarann í stað frelsarans hugðist sá fyrrnefndi refsa henni með ævilangri vist á vændishúsi. En ekki gekk að flytja hina helguðu mær þangað því uxarnir neituðu að draga vagninn. Þá var reynt að brenna Lúsíu á báli og hella yfir hana olíu en hvorugt dugði. Líf sitt lét hún loks er böðullinn rak hana í gegn með sverði.

Vinnum með Guði Lúsía er í hópi þeirra þeirra kvenna og karla sem láta ekki heiminn stjórna hjarta sínu. Þar með lét hún líf sitt – eins og Jóhannes skírari – og ruddi frelsaranum braut að hjörtum fólksins. Slíkt píslarvætti á sér stað þann dag í dag þar sem kristið fólk neitar að gefast upp gagnvart ofurefli kúgaranna, sannfært um að verðmæti himinsins séu heiminum æðri.

Þó við í okkar kirkjudeild dýrkum ekki fólk og höfnum því að taka manneskjur í helgra manna tölu getum við sannarlega margt lært af þeim sem sýna slíka dirfsku í trú sinni. Við erum líka kölluð af Guði til að lifa helguðu lífi, kölluð til að ryðja guðsríkinu veg, vinna með Guði að því að útrýma hinni andlegu blindni, koma á jafnvægi í lífi fólks, hreinsa til og ná í gegn til hinna daufu eyrna, vekja von um líf og flytja fagnaðarboðskap um andlegan auð.

,Takið sinnaskiptum, himnaríki er í nánd´, boðaði Jóhannes í orði og verki og Lúsía bar ljósið inn í myrkrið á höfði sér til að hafa frjálsar hendur í þjónustunni. Verum fagnaðarboðar, hvert á okkar vettvangi, flytjum huggun Guðs til fólksins í kringum okkur, uppörvum og hvetjum því að lífið er ekki allt sem sýnist – Lífið er: Hann sem var og er og kemur (Op Jóh 4.8).