Taktur lífsins

Taktur lífsins

Við getum jafnvel velt því fyrir okkur hvort lög og tónar í allri sinni ótrúlegu fjölbreytni séu ekki hreinlega óður til hjartans, takturinn sem allt lífið byggir á fær þar sína lofgjörð. Og rétt eins og lögin birtast okkur í svo margvíslegri mynd eru taktskipti hjartans eitt af því sem varðar mennskuna svo miklu.

Hjartsláttur er magnað fyrirbæri. Öll þekkjum við línuritið sem sýnir hvernig hjartað slær. Þegar rýnt er í þau gröf má sjá hvernig hver einasti taktur er eins og sjálfstætt ferli. Vöðvinn býr sig undir að þrýsta blóðinu í gegnum hólf og gáttir af slíkum krafti að eftir að línan þeytist nánast lóðrétt upp fellur hún jafnskjótt aftur, þegar krafturinn þverr og hjartað safnar orku fyrir næsta slátt. Þetta ferli á sér stað í líkama hvers og eins okkar á þessari stundu já, á hverju því andartaki sem við lifum. Er við mótuðumst í móðurkviði hófst þetta ferli og því lýkur ekki fyrr en við deyjum.

Taktur lífsins Ekkert líffæri hefur fengið aðra eins lofgjörð og hjartað okkar. Verðskulduð er hún því þessi taktur er lífið sjálft. Og rétt eins og lífið, er takturinn síbreytilegur. Þegar eitthvað hrærir við okkur, finnum við blóðflæðið aukast um líkamann. Þegar ekkert raskar ró okkar verður slátturinn hægari, jafnari. Hið forna töluðu menn um að hjartað væri miðstöð hugsunar og tilfinninga. Skáldin hafa samið ótal ljóð og kvæði um hjartað. Þótt löngu sé ljóst að heilinn gegnir ekki síður veigamiklu hlutverki heldur hjartað stöðu sinni skáldskap og samlíkingum.

Ætli taktur hjartans sem er okkur svo hugleikinn, eigi ekki einhvern heiður í sjálfri tónlistinni? Við getum jafnvel velt því fyrir okkur hvort lög og tónar í allri sinni ótrúlegu fjölbreytni séu ekki hreinlega óður til hjartans, takturinn sem allt lífið byggir á fær þar sína lofgjörð. Og rétt eins og lögin birtast okkur í svo margvíslegri mynd eru taktskipti hjartans eitt af því sem varðar mennskuna svo miklu.

Hjartað slær hraðar þegar við finnum til með annarri manneskju. Sá eiginleiki að geta sett sig í spor annarra er eitt það göfugasta sem maðurinn ástundar. Þegar við finnum hjá okkur þá köllun að bæta úr því böli sem hrjáir systkini okkar hvort heldur þau eru nær eða fjær.

Í lexíu dagsins, áminningarorðum spámannsins Esekíels er talað um tvenns konar hjarta, hjarta úr steini og hjarta af holdi og blóði. Með vísan í þessa orkustöð minnir hann á eina af dýpstu kenndum mannsins, samlíðunina eða samkenndina. Þegar Kristur var inntur eftir því sem mestu máli skipti í lífi hvers manns, á öllum þeim stundum sem líða frá því hjartað tekur að slá og þar til taktur þess deyr út - þá nefndi hann einmitt þetta - að finna til með öðrum. Elska skaltu, Guð þinn og elska skaltu náungann eins og sjálfan þig. Að geta elskað aðra manneskju eins og okkur sjálf er það merkilegasta sem við erum fær um að sinna. Það er í raun ekki lítið kraftaverk og samspil ótal þátta sem gera okkur kleit að finna til með öðrum. Fyrir tilstilli ímyndunaraflsins gerum við kjör náungans að okkar kjörum, þjáningar hans að okkar þrautum og gleði hans verður okkar hamingja. Hjörtun slá í takt og við leggjum okkur öll fram til þess að rétta hlut þeirra sem ekki geta sjálf staðið upprétt.

Guð kristinnar trúar finnur til með manninum og öll samskipti hans tengjast þessu trúnaðartrausti. Samfélag sem byggir á kærleika og lýsingin á því hvernig Guð setur sig í spor mannsins í hvívetna. Guð birtist manninum sem ólgandi tilfinningavera. Ástin til Guðs endurspeglast í afstöðunni til náungans - sérstaklega þeim sem minnstur er. Þetta er sú siðfræði sem kristin trú byggir á og hvort tveggja er grundvallað á djúpum og einlægum tilfinningum sem hvetja okkur til þess að rétta hag náungans og rísa upp gegn óréttlætinu.

Á þessum tengslum byggir kristin trú. Samkennd Guðs með manninum birtist sterkat á krossinum. Þar mætir Guð manninum í allri sinni þjáningu og einsemd og býður honum fram hjálpræði sitt í gegnum aldir og kynslóðir.

Hjálparsamtök

Þetta eru ekki orðin tóm. Samlíðan er ótrúlega öflugt fyrirbæri og hún birtist í margvíslegri mynd. Það er þessi kristindómur sem hvatt hefur frumkvöðla til dáða. Samtökin Amnesty International samtökin eiga rætur að rekja til kristins safnaðarstarfs. Sagan segir að stofnendur þeirra hafi lesið í blaði frásagnir af illri meðferð samviskufanga í fjarlægum löndum. Er þeir ræddu þessi mál á vettvangi kristilegs starfs urðu fleiri til að láta sig hag þeirra varða. Þótt höf og álfur hafi skilið að þetta fólk og þau sem liðu þrautir og þessa hópa, fundu þau til með þeim sem beitt voru óréttlæti. Þau tóku að beita stjórnvöld þrýstingi og benda þeim á það óréttlæti sem þau ástunduðu.

Stofandi Rauða krossinns Henry Dunant vísaði til sinna kristilegu hugsjóna þegar hann rakti uppruna þessara heimssamtaka sinna. Sjálfur varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi að tilheyra hópi sem sinnti slíku kærleiksstarfi. Þegar stoðir atvinnulífsins brustu suður með sjó, vann hópur fólks í Keflavíkurkirkju, þar sem ég þjónaði, kraftaverk í þágu náunga síns. Velferðarsjóður sem stofnaður var veitti fjölda fólks stuðning á tímum þar sem fokið virtist í flest skjól.

Hjartsláttur og stórmerkilegt fyrirbæri og þegar spámaðurinn Esekíel talaði til þess samfélags sem hann vildi bæta talaði hann um tvenns konar hjarta, annað úr steini en hitt var hjarta sem slær. Og hér þar sem við efnum til tónlistarveislu í Neskirkju með þessum stóra hópi kórfélaga fer vel á því að hugleiða hjartsláttinn, þennan lífsins takt. Á línuritinu birtist hann okkur eins og taktstrik á nótnablaði sem ramma inn þá listrænu frásögn sem tónlistin er. Innan þeirra er svo að finna öll þessi tilbrigði, óð til tilfinninga, hugsunar, sorgara og gleði, allt þetta endurspeglar líf okkar á meðan hjartað slær.