„Minnst þú Jesú Krists ...“

„Minnst þú Jesú Krists ...“

Morgunlestur þessa miðvikudags í vikunni eftir páska hefst á orðunum: „Minnst þú Jesú Krists, hans sem risinn er upp frá dauðum ...“ Þetta er kjarngóð áminning hjá Páli og vel viðeigandi í vikunni eftir páska. Þarna útlistar hann verkefni næstu vikna, daganna fram að hvítasunnu: Minnstu Jesú Krists, hans er risinn er upp frá dauðum. Hugleiddu hvað upprisan merkir: Fyrir heiminn, mannfólkið, fyrir þig.
fullname - andlitsmynd Árni Svanur Daníelsson
23. apríl 2003

Morgunlestur dagsins er tekinn úr öðru Tímóteusarbréfi. Páll skrifar:

Minnst þú Jesú Krists, hans sem risinn er upp frá dauðum, af kyni Davíðs, eins og boðað er í fagnaðarerindi mínu. Fyrir það líð ég illt og það jafnvel að vera í fjötrum eins og illvirki. En orð Guðs verður ekki fjötrað. Fyrir því þoli ég allt sakir hinna útvöldu, til þess að þeir einnig hljóti hjálpræðið, í Kristi Jesú með eilífri dýrð. Það orð er satt: Ef vér höfum dáið með honum, þá munum vér og lifa með honum. Ef vér stöndum stöðugir, þá munum vér og með honum ríkja. Ef vér afneitum honum, þá mun hann og afneita oss.. Þótt vér séum ótrúir, þá verður hann samt trúr, því að ekki getur hann afneitað sjálfum sér. 2Tím 2.8-13

Morgunlestur þessa miðvikudags í vikunni eftir páska hefst á orðunum: „Minnst þú Jesú Krists, hans sem risinn er upp frá dauðum ...“ Þetta er kjarngóð áminning hjá Páli og vel viðeigandi í vikunni eftir páska.

Þarna útlistar hann verkefni næstu vikna, daganna fram að hvítasunnu: Minnstu Jesú Krists, hans er risinn er upp frá dauðum. Hugleiddu hvað upprisan merkir: Fyrir heiminn, mannfólkið, fyrir þig.

* * *

Eftir hádegi í gær setti ég litla bók inn á vef Þjóðkirkjunnar. Bókin heitir Lítið kver um kristna trú og er eftir Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands. Í henni er að finna stuttan kafla þar Karl ræðir um merkingu upprisunnar. Hann kemst vel að orði:

„Upprisa Jesú hins krossfesta er öflug andmæli Guðs við ranglæti, þjáningu og dauða í sérhverri mynd. Upprisa Jesú staðfestir að Jesús hafði rétt fyrir sér en ekki þeir sem dæmdu hann. Upprisan er staðfesting þess að líf hans, líf kærleikans, mildi og miskunnsemi, réttlætis og sannleika – er Guði þóknanlegt, en EKKI hrokinn og hrottaskapurinn og ofurefli ofbeldis og valdbeitingar.

Og hann heldur áfram:

[...] Já, segja páskarnir: Kristur er upprisinn. Hann er að verki í heiminum okkar. Boðskapur páskanna er öflug áeggjan og köllun til sérhvers manns að taka háttarskiptum með endurnýjun hugarfarsins og lifa með Kristi í fylgd hans í trú og von sem starfar í kærleika.”

Páll postuli segir: „Minnst þú Jesú Krists, hans sem risinn er upp frá dauðum.“

Og Karl biskup minnir okkur á hvað þetta merkir: Minnstu lífsins og kærleikans, mildinnar og miskunnarseminnar, réttlætisins og sannleikans. Því að allt þetta er Guði þóknanlegt. Kristur er upprisinn!

„Minnst þú Jesú Krists, hans sem er risinn upp frá dauðum.“