Börnin í öndvegi!

Börnin í öndvegi!

Þarfir barnsins ættu ætíð að vera eitt hið mikilvægasta í öllu því sem gert er til að móta samfélag manna, lífshætti og umhverfi. Og ætti að skipta meginmáli í umhugsun okkar um fjölskyldulíf og heimili. Þegar Jesús setti barnið í öndvegi þá gaf hann okkur sem fullorðin erum dýrmætt og mikilvægt fordæmi.
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
25. maí 2008

Þarfir barnsins ættu ætíð að vera eitt hið mikilvægasta í öllu því sem gert er til að móta samfélag manna, lífshætti og umhverfi. Og ætti að skipta meginmáli í umhugsun okkar um fjölskyldulíf og heimili.

Þegar Jesús setti barnið í öndvegi þá gaf hann okkur sem fullorðin erum dýrmætt og mikilvægt fordæmi:

Um þetta leyti komu lærisveinarnir til Jesú og spurðu: „Hver er mestur í himnaríki?“ Jesús kallaði til sín lítið barn, setti það meðal þeirra og sagði: „Sannlega segi ég yður: Þér komist aldrei í himnaríki nema þér snúið við og verðið eins og börn. Hver sem auðmýkir sig og verður eins og barn þetta, sá er mestur í himnaríki. Matt 18.1-4

Þá færðu menn börn til Jesú að hann legði hendur yfir þau og bæði fyrir þeim en lærisveinar hans átöldu þá. En Jesús sagði: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi því að slíkra er himnaríki.“ Og hann lagði hendur yfir þau og fór þaðan. Matt 19.13-15

Svona metur Guð og verðleggur. Barnið er mest og dýrmætast. Viska þess er æðst og dýpst. Það er óvænt sjónarhorn enn í dag. Undursamlegt innsæi barnsins geti kennt þeim fullorðna það sem mestu varðar. Enn þurfum við að minna okkur á það og leyfa börnunum að kenna okkur að meta lífið og hvað skiptir máli. Enn þurfum við að láta barnið minna okkur á það hve mikilvægt er að undrast og gleðjast yfir lífinu og gjöfum þess, varðveita hæfileikann til að undrast og fagna yfir því smáa og látlausa og einfalda í lífinu.

Hlustum á börnin, virðum þau, metum þau. Leitumst við að setja þau þar sem Guð ætlast til og Jesús minnir okkur á: Í öndvegi!