Að trúarbrögðunum gengnum?!

Að trúarbrögðunum gengnum?!

Við erum stödd í flugvél á leiðinni frá Chicago til Minneapolis og fylgjumst með tveimur manneskjum á besta aldri sitja hlið við hlið eiga tal saman. Annað þeirra er vel klæddur karlmaður, sem augljóslega er á ferðalagi vegna viðskipta. Hitt er kirkjusagnfræðingurinn og rithöfundurinn Díana Butler Bass.

Lútherskir

Við erum stödd í flugvél á leiðinni frá Chicago til Minneapolis og fylgjumst með tveimur manneskjum á besta aldri sitja hlið við hlið eiga tal saman. Annað þeirra er vel klæddur karlmaður, sem augljóslega er á ferðalagi vegna viðskipta. Hitt er kirkjusagnfræðingurinn og rithöfundurinn Díana Butler Bass, sem óhætt er að segja, að sé orðin býsna vel þekkt um þessar mundir í trúarlegri umræðu í Bandaríkjunum, en henni ætla ég ætla að einmitt að gefa orðið að nokkru leyti hér í dag.

“Hvaða ferðlag er á þér,” spyr viðskiptamaðurinn og kirkjusagnfræðingurinn okkar og rithöfundurinn, hún Díana segir eins og er, að hún eigi að flytja erindi á ráðstefnu. Hún hikar hins vegar við, að segja manninum, að hún eigi að tala á ráðstefnu um trúmál, sem fari fram á vegum Lútersku kirkjunnar í Minneapolis.

Maðurinn ætlar hins vegar ekki að láta hana sleppa svona auðveldlega frá spurningunni, þannig að hann fylgir henni eftir með því að spyrja: “Hvers konar ráðstefnu?” Og Díana svarar einfaldlega með því segja “Lúterskir.”

Maðurinn horfir um stund spyrjandi á hana, en segir síðan: “Ég var eitt sinn lúterskur – og ætli ég sé ekki lúterskur ennþá – en ég er hins vegar fyrir löngu hættur að sækja kirkju. Ég er samt ekkert reiður út í kirkjuna og ég kann að meta margt það góða sem hún hefur látið af sér leiða. Ég var hins vegar skikkaður af móður minni til að sækja kirkju á hverjum sunnudegi sem barn og það gerði ég svikalaust. Í dag veit ég hins vegar ekki hvaða hlutverki kirkjan ætti mögulega að gegna í mínu lífi því hún passar hvergi inn í það lengur.”

Hann andvarpar en bætir svo við: “Kannski var það bara ég sem óx frá kirkjunni. Kirkjan skiptir mig ekki máli lengur. Ég á í rauninni líf í fullri gnægð án þess að kirkjan eða trú þurfi nokkuð að koma þar við sögu.” Hann hallar sér aftur í sætinu en segir síðan, þannig að vonbrigðin leyna sér ekki í röddinni: “Kirkjan lætur sig heldur ekkert varða þær spurningar sem ég hef fram að færa.” Maðurinn þagnar að þessu sögðu, en með þessum orðum hans er áhugi hennar Díönu okkar hins vegar vakinn, þannig að hún spyr: Hvaða spurningar eru það, sem sækja á þig?” “Æ, þær eru svo margar,” segir maðurinn; “um efasemdir mínar, um lífið og hvernig hægt sé að gera heiminn betri. Kirkjan hefur hins vegar ekki nokkurn áhuga þessum spurningum. Hún hefur bara áhuga á sínum eigin spurningum sem hafa ekkert að gera með raunverulegt líf fólks.”

Svo mörg voru orð þessa samtals, sem átti sér stað í háloftunum yfir því svæði sem kallast mið-vestur ríkin, en þar eru lúterskir hvað fjölmennastir í Bandaríkjunum.

Valfrelsi en ekki skyldur

Í nýtútkominni bók Díönu Butler Bass, sem ber heitið “Christianity after Religion,” sem mætti útleggja á íslensku sem “Kristin trú eftir að trúarbrögðunum gengnum” eða eitthvað í þá veruna, er að finna þetta samtal hennar og “business-mannsins.” Í framhaldi af því koma svo hugleiðingar hennar sem kirkjusagnfræðings og fræðimanns um þær breytingar, sem átt hafa sér stað í trúarlífi Bandaríkjamanna á síðustu fjórum til fimm áratugum en eitt af því sem hún beinir sjónum sínum að, er það hvernig samfélagið í heild sinni hefur líka breyst.

“Við lifum ekki lengur í samfélagi sem byggir á skyldum heldur miðast allt við að eiga val,” segir hún, “því upp úr miðri síðustu öld þá fórum við hér á vesturlöndum að miða allt við valfrelsi og til varð samfélag þar sem allt byggðist á að veita eigin þrám og löngunum forgang. Og afleiðing þessa var að allri skyldurækni, siðum og hefðum var meira og minna ýtt til hliðar.”

Við, sem hér erum dag, vitum flest ef ekki öll að Bandaríkin eru það ríki sem um áratugaskeið hefur verið í fararbroddi þeirra þeirra vestrænu landa sem til þessa hafa lagt mikið upp úr kristinni trú. Kirkjusókn í Bandaríkjunum hefur líka staðið með hvað mestum blóma og þar hafa nýjar kirkjur með nýjar áherslur og lifandi safnaðarstarf sprottið upp nánast eins og gorkúlur og í sumum þeirra má sjá fólk safnast saman í tugþúsundatali á hverjum einasta sunnudegi.

Nú ber hins vegar svo við – og það í fyrsta sinn í sögunni að því er virðist – að kirkjusókn þar vestra fer dalandi. Og Bandaríkin eru svo sem ekki ein um að horfast í augu við minnkandi kirkjusókn. Á meginlandi Evrópu er ástandið miklu verra og þannig hefur það verið í allmörg ár. Fréttir frá Danmörku herma t.d. að Þjóðkirkjan þar í landi hafi áfráðið að selja einar 16 eða 17 kirkjur í miðborg Kaupmannahafnar, vegna þess að kirkjustarf hefur dregist svo saman auk þess sem margar kirkjur standa á eftirsóttum og dýrmætum byggingarreitum. Frá Þýskalandi berast einnig svipaðar fréttir en þar hafa víst um 340 kirkjur þegar verið seldar á undanförnum árum.

Kristinni trú farnaðist sannarlega vel á vesturlöndum á meðan samfélagið var í föstum skorðum og allt byggði á trúarlegri skyldurrækni og góðri siðvenju, en núna, þegar ábyrgðarleysi og lausung vilja svo gjarnan verða fylgifiskar frelsisins, sem við höfum lagt svo mikla áherslu á í okkar vestræna samfélagi, þá farnast þeim trúarbrögðum ekki sérlega vel, sem byggja boðun sína á skýrt afmörkuðum kennisetningum og mæta öllum spurningum með fyrirfram skýrt skilgreindum svörum.

Anne Rice – Í nafni Krists er ég hætt að vera kristin

Í bókinni hennar Díönu segir frá nokkrum konum sem afréðu með áhrifaríkum hætti að gera upp við þá kristnu trúarhefð, sem hafði fóstrað þær. Fyrst segir frá rithöfundinum Anne Rice, sem þann 28. júlí árið 2010 setti eftirfarandi texta inn á Feisbókarsíðu sína:

“Í dag er ég hætt að vera kristin. Ég er farin. Ég mun samt hér eftir sem hingað til verða skuldbundin Kristi, en ég ætla samt ekki framar að kalla mig kristna eða skilgreina mig sem kristinnar trúar. Ég neita nefnilega að vera á móti kven-frelsi, ég neita að vera á móti getnaðarvörnum, ég neita að vera mótfallin Demókrötum. Þá neita ég að vera á móti húmanistum og ég neita að vera á móti vísindunum. Ég neita að vera á móti lífinu!

Í nafni Krists er ég hætt öllum kristindómi og mun ekki kalla mig kristna héðan í frá. Amen!”

Þessi yfirlýsing Anne Rice, sem átti sér rómversk-kaþólskan bakgrunn, er eins og nokkurs konar trúarjátning og húner bæði sláandi og kröftug.

Það sem vekur kannski samt mesta athygli við orð hennar, er að hún segist vera hætt öllum kristindómi í nafni Krists. Hún er með öðrum orðum ekki að snúa baki við Jesú Kristi, heldur er hún fyrst og fremst að snúa baki við þeim trúarbrögðum sem gengið hafa fram í hans nafni.

Hér er því að ýmsu að hyggja og ýmsar spurningar vakna. Er kristindómurinn þegar allt kemur til alls, Kristi ekki velþóknanlegur? Það skyldi þó aldrei vera, því sannarlega hefur kristin kirkja misstigið sig í aldanna rás og það oftar en einu sinni, og það bæði í smáu sem stóru?

Þess má geta, að þessi feisbókarfærsla Anne Rice fékk yfir 4000 “like” á fyrsta sólarhringnum og tugir þúsunda áttu eftir að deila þessari yfirlýsingu hennar eða láta hana tísta á Tweeter-samskiptasíðum sínum.

Ellen – Ég trúi samt á hinn lifandi Guð

Önnur kona, Ellen að nafni, tjáði sig svo á þá leið í athugasemdum við bloggfærslu á netinu um trúmál, að hún hefði verið þakklát fyrir það, þegar hún vaknaði þann sama sunnudag, að þurfa ekki að fara til kirkju. “Ég trúi samt á hinn lifandi Guð og lifi ekki áhyggjufull um að ég eigi eftir að glata sálum minni,” sagði þessi kona, sem engin frekari deili er vitað á önnur en þau, að hún segist vera prestsdóttir og í hjónabandi.

Í skrifum sínum á netinu lýsir hún því síðan hvernig hún sem mótmælandi og eiginmaður hennar, sem var kaþólskur að uppeldi, sammæltust um að ganga í Biskupakirkjuna því hún var sú kirkjudeild sem auðveldast var að skilgreina sem mitt á milli trúarhefða þeirra beggja. Þau yfirgáfu hins vegar þessa Biskupakirkju eftir að hafa horft upp á það hvernig þar var barist gegn prestvígslu kvenna á eins óheiðarlegan hátt og hugsast gat.

Í framhaldinu gengu þau í rómversk-katólska kirkju, þar sem ekki þurfti að búast við neinum ágreiningi um vígslu kvenna, því þar lá það fyrir að þær myndu aldrei hljóta vígslu til eins eða neins hvort sem væri, en hins vegar var þessi kaþólska kirkja þekkt að því hversu vel hún þjónaði heimilislausum og fátækum og það féll vel að áherslum hjónanna. Í þessari rómversk-katólsku kirkju, sagði Ellen að sér hafi liðið einna best. Þó glímdi hún við ýmsar spurningar og efasemdir, og eitt af því sem nagaði hana var spurningin um það hvers vegna altarissakramenti kaþólskra hefði orðið svona útilokandi og “regluvætt.” Hvers vegna þurfti að hefta aðgang fólks að sakramentinu? Af hverju mátti ekki hver sem er þiggja það?

Á endanum fékk hún áhuga á kirkju sem ekki kenndi sig við neina sérstaka kirkjudeild og þar virtist trúin tekin hvað mest alvarlega. Sú kirkja lagði til grundvallar bókstaflegan biblíuskilning, en auðvitað voru það bara sumir partar hennar sem lögð var áhersla á auk þess sem fólki var ógnað og hótað með hjálpræðismissi og glötun, ef það ekki færi eftir því sem boðað væri.

Ellen yfirgaf þessa kirkju full fyrirlitningar í hennar garð eftir að hafa staðið frammi fyrir því, að það að vera ósammála prestinum þar var talið fela í sér ótrúmennsku gagnvart Guði.” Hún sagði hins vegar ekki skilið við trú sína á Krist, en lét þess í stað í ljós þá skoðun sína, að það sem væri að kirkjunum í nútímanum væri að þær væru of uppteknar við að viðhalda sjálfum sér og prédika sjálfar sig í stað þess að lifa lífinu í samræmi við boðskap trúarinnar.

Nýir tímar í trúarlegu tilliti

Eins og sjá má á þeim vitnisburðum sem hér hafa verið tíndir til þá er augljóst að víða um heim þarf kirkjan að ganga í sig og endurskoða nálgun sína, verk og aðferðafræði. Og þó sumt af því sem hér hefur verið sett fram kirkjunni í heiminum til lasts, eigi kannski ekki sérstaklega við um okkar íslensku þjóðkirkju, þá breytir það ekki því, að við hér á Íslandi erum vitaskuld einnig undir það seld að þurfa stöðugt að endurskoða þann veg sem við erum á í nafni Jesú Krists og þurfum sífellt að vera vakandi fyrir nýjum möguleikum og nýjum tímum. Það er líka eitt helsta áhersluatriðið í bók Díönu Butler-Bass, sem hér hefur verið nefnd til sögunnar, að nú séu nýir tímar sannarlega að renna upp í trúarlegu tilliti, og að þeir hafi í rauninni lengi verið í undirbúningi, ef svo má að orðið komast.

En hvað er það, sem hún hefur til marks um þessa nýju trúarlegu tíma?

Það fyrsta sem hún nefnir til sögunnar og markar upphaf þeirra að hennar mati og fleiri fræðimanna er óánægja með og gagnrýni á kenningar og sjálfskilning kirkjunnar.

Annað er það, þegar fólk upplifir sig í hinu trúarlega samhengi sem menningarlega jaðarsett, en áttar sig á, að þar er því ekki persónulega um að kenna, heldur miklu frekar þeim áherslum sem kirkjustofnunin þeirra stendur fyrir. Þessi tvö fyrstu stig fela því í sér allt það sem neikvætt er; niðurbrot og hnignun.

Næstu stig eru hins vegar andsvar við þessu og fela í sér nýja sýn og nýjan skilning, og það bæði á manninum og Guði og hvað það merkir að lifa andlegu lífi og að breyta siðferðilega rétt.

Þarna koma því til sögunnar nýir möguleikar, en það hvernig við vinnum úr þeim byggir á því afli, sem með okkur mönnunum býr og við köllum ímyndunarafl, en það er það afl sem vinnur að framgangi nýrra hugmynda og skapar þeim nýtt rými.

Þegar ný sýn er svo farin að ryðja sér til rúms þá verða jafnan til hópar sem vilja fylgja þessari nýju sýn og vilja breyta heiminum með því að vinna að framgangi hennar.

Með tímanum verða þessi nýju hópar og sú nýja sýn og þær viðmiðanir, sem þeir byggja á, það sterkir, að þeir taka að hafa áhrif á allt í kringum sig. Og þetta er einmitt það sem við erum að sjá gerast um þessar mundir í Bandarísku trúarlífi, segir Díana Butler-Bass, en þar er hún sérstaklega að vísa til þess, að hvernig fólk er í auknum mæli farið að gagnrýna trúarbrögðin sem slík, stofnanir þeirra og aðferðafræði, og er í æ minna mæli farið að skilgreina sig sem trúað (Religios) en frekar sem andlega sinnað (Spiritual). Þarna hefur m.ö.o. orðið breyting, sem í samræmi við tíðarandann, felur í sér áherslu á aukið frelsi og minni stofnanavæðingu, ef svo má segja.

Kristur eftir sem áður lífsins brauð

Í samræmi við þessa þróun í Bandaríkjunum er auðvelt að geta sér þess til, að svipuð þróun eigi eftir að eiga sér stað hér á Íslandi og sé jafnvel þegar byrjuð.

Það er hins vegar eftirtektarvert og ánægjulegt við þessa þróun alla að hún felur ekki í sér afneitun á Jesú Kristi á neinn hátt, eins og skýrt kom fram hjá rithöfundinum Anne Rice, þegar hún hafnaði kristindóminum í nafni Jesú Krists, heldur felur hún fyrst og fremst í sér gangrýni á trúarstofnanirnar og því sem mætti kalla kreddur þeirra.

Kristur og kærleikur hans er eftir sem áður það afl og sá máttur og næring, sem fólk sér sem brauð lífsins og vill meðtaka í lífi sínu til þess að eiga þess kost að vera með sama hugarfari og hann var.

Páll postuli segist á einum stað í Rómverjabréfinu (í texta sem er í miklu uppáhaldi hjá mér) vera þess fullviss: “að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.”

Þarna má hugsa sér að postulinn gleymi að taka með í reikninginn að stundum geta það verið stofnanirnar, sem boða Krist, sem sjálfar standa í veginum fyrir Kristi – eða a.m.k. er auðvelt að gera sér í hugarlund að svo hafi verið þegar horft er til sögunnar.

Ég er samt sammála postulanum og tek undir með honum þegar hann segir að ekkert geti gert okkur viðskila við kærleika Guðs, sem birtist okkur í Kristi Jesú Drottni vorum. Og það er kannski einmitt það sem er að gerast með hinum nýju trúarlegu áherslum, því í rauninni birta þær okkur Jesúm Krist - og þar með kærleika Guðs til okkar mannanna - með nýjum hætti og þannig vinna þær að því að skapa nýtt rými, nýjan kraft og nýjan mátt ásamt fleiri möguleikum okkur mönnunum til handa til þess að meðtaka Jesúm Krist. Það er því eins og sífellt séu að opnast fleiri leiðir og nýjar dýptir á vettvangi hins trúarlega sem gefa okkur að skilja með endurnýjuðum hætti, að Kristur Jesús er sannarlega brauðið, sem niður stígur af himni heiminum til lífs.

Amen!

Vers vikunnar: „Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt.” (Jóh 12.24)

Lexía: 2Mós 16.11-18 Drottinn ávarpaði Móse og sagði: „Ég hef heyrt mögl Ísraelsmanna. Talaðu til þeirra og segðu: Ísraelsmenn, áður en dimmt er orðið munuð þið fá kjöt til matar og á morgun seðjist þið af brauði. Þá munuð þið skilja að ég er Drottinn, Guð ykkar.“ Um kvöldið komu lynghænsn og þöktu búðirnar en morguninn eftir hafði dögg fallið umhverfis búðirnar. Þegar döggin þornaði lá eitthvað fínkornótt yfir eyðimörkinni líkt og héla. Þegar Ísraelsmenn sáu það spurðu þeir hver annan: „Hvað er þetta?“ því að þeir vissu ekki hvað það var. Þá sagði Móse við þá: „Þetta er brauð sem Drottinn hefur gefið ykkur til matar. Fyrirmælin, sem Drottinn hefur gefið, eru þessi: Safnið því sem hver þarf til matar, einum gómer á mann og skal hver um sig safna í samræmi við þann fjölda sem býr í tjaldi hans.“ Þetta gerðu Ísraelsmenn og söfnuðu sumir miklu en aðrir litlu. Þegar þeir mældu það í gómermáli gekk ekkert af hjá þeim sem miklu safnaði og þann sem litlu safnaði skorti ekkert. Sérhver hafði safnað því sem hann þurfti til matar.

Pistill: Fil 2.1-5 Fyrst Kristur veitir kjark, fyrst kærleikur hans uppörvar, fyrst andi hans skapar samfélag, fyrst þar ríkir hlýja og samúð gerið þá gleði mína fullkomna með því að vera einhuga, hafa sama kærleika, einn hug og eina sál. Gerið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillát og metið hvert annað meira en ykkur sjálf. Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra. Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var.

Guðspjall: Jóh 6.47-51 Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir hefur eilíft líf. Ég er brauð lífsins. Feður ykkar átu manna í eyðimörkinni en þeir dóu. Þetta er brauðið sem niður stígur af himni. Sá sem etur af því deyr ekki. Ég er hið lifandi brauð sem steig niður af himni. Hver sem etur af þessu brauði mun lifa að eilífu. Og brauðið er líkami minn sem ég gef heiminum til lífs.