Með guðfræðingum og heimspekingum

Með guðfræðingum og heimspekingum

Þetta eru skilboð Biblíunnar til okkar í dag þegar við, sem guðfræðingar og heimspekingar hvert í sínum heilabrotum hugleiðum þær ráðgátur tilverunnar sem okkur eru huldar.

Nú á dögunum var ég á ferðalagi með guðfræðingum og heimspekingum. Það er ekki leiðinlegur félagskapur þótt seint verði sagt að slíkt fólk geri litlar kröfur. Svona fræðingar spyrja og brjóta heilann um allt milli himins og jarðar og þeir sætta sig seint við ódýr svör eða skjótfarnar leiðir á áfangastað.

Stjörnurnar

Við ræddum heima og geima eins og vera ber í slíkum hópi. Við töluðum um alheiminn, upphaf hans, tímann og ljósið. Horfðum upp í stjörnuhimininn og hugleiddum það undur, að ljósdeplarnir sem þar birtast sýna okkur inn í fornan heim. Já, við horfum inn í fortíðina eins og ekkert sé eðlilegra því ljósið er svo lengi á leiðinni að milljónir eða jafnvel milljarðar ára hafa liðið frá því það lagði af stað frá þessum fyrirbærum og til þess að það lagði leið sýna inn fyrir sjáöldur okkar, erti við heilaberkinum og fékk hann til að hugsa.

Við fundum fyrir smæð okkar og þeirri tilfinningu að ekki er allt eins augljóst og það virðist í fyrstu vera. Það er að minnsta kosti stórmerkilegt að geta horft aftur í tímann eins og við gerum á hverju stjörnubjörtu kvöldi.

Hópurinn ræddi um Guð og þá spurningu hvort stórstígar framfarir mannlegrar þekkingar skildu yfir höfuð eitthvað eftir fyrir það sem maðurinn kallar Guð. Byggir guðstrú okkar í dag á sömu forsendum og hún gerði þegar menn héldu að jörðin væri miðja alls og allt snerist í kringum okkur sjálf? Og erum við ekki búin að fletta ofan af hverju laginu á fætur öðru af þokunni sem hvílir yfir efnisheiminum til þess að nokkurt rými sé fyrir hið ógnarstóra en um leið dularfulla afl sem kynslóðirnar hafa litið til og tilbeðið – já líklega frá því að manneskjan fór að hugsa og brjóta heilann um lífið og tilveruna.

Spekingar framtíðarinnar

Þessir spekingar voru ekki bara skemmtilegir og örvandi fyrir hugsunina eins og slíkum ber að vera. Þeir eru líka efnilegir og er það ótrúlega spennandi tilhugsun að þeir skuli bara eiga eftir að vaxa og eflast á komandi árum og áratugum. Þeir eru jú bara 13 ára gamlir og eiga framtíðina fyrir sér. Fermingarbörnin okkar eru tæknivædd og geta fundið svör við næstum því hverri spurningu sem er. Bara að fletta upp á leitarvélinni og eru því fljót að leiðrétta fræðarann í samtölum enda fræðist hann ekki síður en þau af þessu samtali.

Við ræddum þau takmörk sem eru á þekkingu okkar. Jú, öllu eru takmörk sett og jafnvel leitarvélarnar svara ekki ekki öllum spurningum. Hafið þið heyrt af stráknum sem horfði á foreldra sína leita dauðaleit að húfunni hans áður en þau fóru út á leikskólann. Mamma, af hverju gúglarðu henni ekki bara? spurði hann eins og ekkert væri sjálfsagðara!

Spurningarnar eru fleiri sem ekki fást svör við og þeim fer fjölgandi, svo skrýtið sem það nú er. Sífellt fleiri slíkar spurningar vakna um leið og við lærum meira um okkur sjálf og heiminn. Eitt af því sem hópurinn ræddi og velti fyrir sér var sú staðhæfing að fyrir hvert svar sem vísindin svara vakna tvær nýjar spurningar. Handan við hverjar dyr sem opnast blasa við tvær lokaðar dyr.

Ráðgáta lífsins

Textar dagsins opna okkur heim mikillar ráðgátu sem maðurinn hefur líklega upphafi vega brotið heilann um. Takmörk tímans eru okkur hugleikin. Við erum jú öll með vísana gangandi yfir höfðum okkar. Hvert og eitt hefur afmarkaðan fjölda stunda og handan þeirra bíður hið ókunna okkar. Dauðinn er sú ráðgáta sem maðurinn stendur frammi fyrir, og í þeim heilabrotum mætast bæði heimur og Guð. Er við hugleiðum þá ráðgátum gerumst við öll heimspekingar og guðfræðingar.

Um þetta fjalla textar þessa sunnudags. Þeir leiða hugann okkar að þeim takmörkunum sem líf okkar hugsandi manna eru sett. Dauðinn er þar til umfjöllunar og hinar ókönnuðu lendur tilverunnar.

Postulinn segir: „Mættuð þið því geta skilið það með öllum heilögum hvílík er víddin og lengdin, hæðin og dýptin í kærleika Krists og fá að sannreyna hann, sem gnæfir yfir alla þekkingu, og ná að fyllast allri Guðs fyllingu.“

Já, kærleikur Guðs er bæði djúpur og breiður eins og börnin syngja um í sunnudagaskólanum og hann gnæfir yfir alla þekkingu okkar. Við skynjum ekki hvað býr að baki því sem kemur fyrir okkur í lífinu, svo margt óréttlátt og erfitt en að endingu er það þessi djúpi kærleikur Guðs sem hefur yfirhöndina. Þetta er einmitt sú afstaða sem einkennir sönn vísindi, að mínu mati. Sú hugmynd að við séum á eilífri leit að svörum í djúpi leyndardóma heimsins felur um leið í sér að hlutverk vísindanna er ekki að sanna eða afsanna tilvist Guðs og hinna eilífu sanninda trúarinnar. Og við finnum það vel í textum dagsins að erindi Biblíunnar til okkar er af öðrum toga.

Litið til góðs

Hinn raunamæddi Job talar einnig til okkar. Hann hafði verið sviptur öllu því sem var honum dýrmætt og eftir stóð hann allslaus og niðurbrotinn maður, svo smár og hjálparvana undir himinfestingunni. Saga hans er ein stór hugleiðing um þrautir mannsins og tilgangsleysi þjáningarinnar.

Í þessum texta gerir hann upp raunir sínar og þann dauða sem hefur fylgt honum eins og skugginn og svipt hann öllu því sem honum var kært. Job gerir upp þessa reynslu sína í ræðunni sem hér var lesin og talar um það hvernig hann „horfir til góðs“ á það sem fyrir hann hefur komið.

Það eru sannarlega merkileg orð – að horfa á það til góðs sem hefur bakað þrautir og þjáningar og við fáum engan botn í. Sjálfur lítur hann fram á við þegar „lausnarinn“ kemur – sá sem réttir hlut hins kúgaða og framfylgir réttlætinu.

Þetta eru skilboð Biblíunnar til okkar í dag þegar við, sem guðfræðingar og heimspekingar hvert í sínum heilabrotum hugleiðum þær ráðgátur tilverunnar sem okkur eru huldar. Já, hvers vegna gerast hræðilegir atburðir fyrir vænsta fólk? Hvað bíður handan þessarar jarðvistar? Hvers vegna erum við send inn í þennan heim og í hvaða tilgangi?

Trúað fólk svarar þessum spurningum með þeim hætti sem Job gerir. Það „horfir til góðs“ þegar það lítur í kringum sig. Þegar það horfir á stjörnufestinguna á himninum hugleiðir það, hversu stórfenglegur sá skapari er sem hefur búið allt þetta til. Þegar það lítur á náunga sinn, sér það sjálfan tilgang tilveru okkar – að hlúa að þeim sem þurfa á okkur að halda og miðla kærleikanum áfram. Og hvað sér það, er það lítur í spegilinn? Sú spurning skiptir líklega meira máli en flest annað. Horfir það á veikleika sína, mistökin og allt það sem miður getur farið? Eða lítur það til góðs – sér það tækifærin, hlutverkið og möguleikana sem í hverju okkar búa?

Að fara með hópi guðfræðinga og heimspekinga í ferðalag í Vatnaskóg er afskaplega gefandi lífreynsla. Ungmennin okkar eru kraftmiklir og kröfuharðir einstaklinga. Þau standa á tímamótum bernsku og fullorðinsára. Þau eru uppi á tímum sem virðast ólíkir öllum öðrum tímum, með endalausum tækifærum en líka mörgum hættum. Að fylgja þessu fólki inn á nýtt æviskeið er mikilvægt og þar er sú afstaða Biblíunnar ómetanleg. Að líta til góðs, heiminn, náungann og sjálfan sig er eitt besta veganesti sem nokkur manneskja getur fengið fyrir lífið.