Viðreisn og vöxtur

Viðreisn og vöxtur

Ást Guðs til barna sinna er í miðdepli ritningarlestranna sem tilheyra sunnudegi milli jóla og nýárs; hvernig Guð sjálfur tók börn sín sér í fang og bar þau alla daga hinna fyrri tíða og sendi son sinn í fyllingu tímans til að einnig við yrðum börn Guðs og mættum vaxa og styrkjast og fyllast visku og náð frá Guði.

Börn Guðs þá og nú Í fyrri ritningarlestrinum sem sóttur er í Jesajaritið (Jes 63.7-9 og 15-16) minnist spámaðurinn velgjörða Drottins og syngur Guði lof ,,fyrir allt sem hann gerði fyrir oss”. Og við heyrum um gæsku Drottins, miskunn og kærleika sem fram kemur í því að hann varð börnum sínum frelsari í öllum þrengingum þeirra: ,,Í kærleika sínum og miskunn endurleysti hann þá, hann tók þá upp og bar þá alla daga hinna fyrri tíða”.

Í síðara ritningarlestrinum, úr bréfi Páls postula til safnaðarins í Galatíu (Gal 4.1-7) - í Tyrklandi nútímans - er líka talað um börn Guðs, þau sem sonur Guðs, Jesús Kristur, hefur gefið frelsi undan þrældómi syndarinnar, tilhneigingarinnar til að velja það sem er rangt. Við þekkjum vel versin á undan þeim sem hér voru lesin í dag (Gal 3.26-28):

Með því að trúa á Krist Jesú eruð þið öll Guðs börn. Þið öll, sem eruð skírð til samfélags við Krist, hafið íklæðst Kristi. Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú.

Abba, faðir! Í trúnni á Jesú erum við Guðs börn, íklædd honum og þar með öll jöfn, ekkert okkar öðru fremra. Litla stúlkan sem hér var borin að helgri skírnarlaug á sama stað í hjarta Guðs og við sem teljum okkur komin til vits og ára. Hennar trú er henni ekki meðvituð, ekki frekar en annað í vitundarlífi ungbarnsins, en hún er borin fram ,,af trú til trúar” (Róm 1.17).

Í hennar hjarta sem foreldra hennar og okkar hinna hrópar líka andi sonar Guðs: ,,Abba, faðir!” eins og postulinn segir í Rómverjabréfinu (8.15-16):

Þið hafið fengið þann anda sem gerir mann að barni Guðs. Í þeim anda áköllum við: ,,Abba, faðir”. Sjálfur andinn vitnar með anda okkar að við erum Guðs börn.

Öldungarnir í musterinu Í guðspjallinu (Lúk 2.33-40) greinir frá öldruðu fólki, þeim Símeon og Önnu Fanúelsdóttur. Þau höfðu varið lífi sínu í eftirvæntingu eftir frelsi og lausn Guðs sem spámenn Ísraels höfðu boðað. Í barninu sem fæðst hafði í Betlehem nokkru áður og foreldrarnir báru nú í musterið eins og lög gerðu ráð fyrir sáu þau Símeon og Anna lausnarann sjálfan, frelsarann Jesú Krist. Símeon tók barnið í fangið og lofaði Guð með orðum sem við þekkjum vel en foreldrarnir undruðust:

Nú lætur þú, Drottinn, þjón þinn í friði fara eins og þú hefur heitið mér því að augu mín hafa séð hjálpræði þitt...

Kærleiksríkt handtak Guðs Þegar Símeon stóð þarna í musterinu með litla saklausa barnið í fangi sér - barnið sem heilagur andi hafði birt honum að væri Kristur Drottins - sá hann ekki bara tóma hamingju. Viska Guðs hafði kennt þessum aldna trúmanni að fólk á öllum tímum bregst mismunandi við útréttri sáttahönd Guðs sem holdgerist í Jesú Kristi. Sumum er hún ,,til falls”, þeim sem afneita hjálpræðinu. Öðrum, þeim sem þiggja, er kærleikstilboð Guðs ,,til viðreisnar”.

Þetta eru mjög myndræn orð; auðvelt að sjá fyrir sér manneskju sem er komin í keng, við það að detta og það er mjög óþægileg staða, eins og við vitum mörg núna í hálkutíðinni. Hitt má líka hæglega sjá fyrir sér, hvernig manneskja sem er buguð af bæði einu og öðru réttir úr sér, er reist við af kærleiksríku handtaki Guðs sem býður okkur ást sína í Jesú Kristi.

Andinn opinberar Símeon sá og skynjaði andlegan veruleika af því að heilagur andi var yfir honum (Lúk 2.25-27). Sama gilti um Önnu Fanúelsdóttur og því er hún kölluð spákona í líkingu við spámenn Gamla testamentisins sem töluðu orð frá Guði inn í mannlegar aðstæður. Þau Anna og Símeon byggðu á sönnun og krafti Guðs anda, leyndri speki Guðs sem var hulin en opinberast fyrir anda Guðs sem ,,rannsakar allt, jafnvel djúpin í Guði” eins og postulinn orðar það (sjá 1Kor 2. kafla).

Trúuðu öldungarnir höfðu dvalið í nálægð Guðs alla sína tíð í réttlæti og guðrækni, með föstum og bænahaldi. Þannig höfðu þau gert eins og hvatt er til í Jakobsbréfinu (4.8): ,,Nálægið ykkur Guði og þá mun hann nálgast ykkur”. Nú er náð Guðs ekki háð hegðun okkar og breytni eins og barnaskírnin ber skýrast vitni. Guð kemur til okkar að fyrra bragði, gefur okkur sjálfan sig, færir okkur réttlæti sitt sem máir burt ranglæti okkar.

Gjöf sem þarf að opna En það merkir ekki að við eigum að yppta öxlum og láta þar við sitja. Guð á til handa okkur mikið andlegt ríkdæmi sem við þurfum að aga okkur til að þiggja, við þurfum að læra opna gjöfina og nýta okkur innihaldið, eins og við prestar segjum stundum við foreldra skírnarbarna. Skírnarkjóllinn síði hefur líka gefið tilefni til útskýringar af svipuðu tagi, að skírnarbarnið þurfi að fá tækifæri til að vaxa, ekki bara að líkamsvexti heldur einnig andlega.

Þannig viljum við brýna fyrir foreldrum sem bera ómálga börn sín til skírnar að fylgja náðargjöf Guðs eftir með ábyrgðarfullu trúaruppeldi. Trúaruppeldi felur einkum í sér þrennt: · Í fyrsta lagi að biðja með barninu, eiga samtal við Guð þar sem við biðjum fólkinu okkar blessunar og leggjum fram það sem barnið er að glíma við og líka hitt sem er gleðilegt; · í öðru lagi að leyfa barninu að verða hluti af trúarsamfélaginu í kirkjunni, til dæmis með því að sækja sunnudagaskólann; · og í þriðja lagi með því sjálf að sýna gott fordæmi, gleðja og hjálpa öðrum á þann hátt sem okkur er unnt.

Þannig munu börnin, eins og sveinninn Jesús forðum, vaxa og styrkjast og fyllast visku fyrir náð Guðs.

Andlegur vöxtur En það eru ekki bara börnin sem þurfa að vaxa andlega. Við hin þurfum að hafa Önnu Fanúelsdóttur og Símeon sem okkar daglegu fyrirmyndir, rækja samfélagið við Guð í bæninni og annað trúað fólk með þátttöku í kirkjustarfinu og sinna náunganum af kærleika. Við erum sannarlega Guðs börn, en það þýðir ekki að við eigum að vera ómálga börn í Kristi heldur andlegar manneskjur (1Kor 3.1-2). Í hjörtum okkar býr heilagur andi eins og í Móse (Jes 63.11), andi Krists, andi sonar Guðs sem hrópar: ,,Abba, faðir!”

Í þeirri vissu er gott að hvíla (Jes 63.14), að fá að fela sig Guðs föðurnáð - eins og segir í sálmi sr. Valdimars Briem – og biðja með spámanninum:

Vertu mér ekki fjarri Því að þú ert faðir vor. Þú, Drottinn, ert faðir vor. Frelsari vor frá alda öðli er nafn þitt.