Klæðumst kærleikanum, vörumerki Guðs

Klæðumst kærleikanum, vörumerki Guðs

Já kærleikurinn er það sem þarf til að vera í veislu Guðs og þangað erum við öll boðin. Það er hins vegar okkar að velja hvort við tökum boðinu og mætum í veisluna eða hvort við gefum okkur ekki tíma til að virða boð gestgjafans. Það er líka okkar val ef við ákveðum að taka þátt í veislunni hvort við veljum veraldlegu fötin okkar, vörumerki samtímans eða þann klæðnað sem Guði þóknast.
Flokkar

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í dag er okkur boðið í brúðkaupsveislu. Við vitum að þetta er vegleg veisla og að ekkert er til sparað. Eigum við að fara í veisluna? Og ef við mætum í hvaða fötum eigum við að vera? Veisla og föt eru umfjöllunarefni þessa sunnudag.

Í dag minnumst við líka siðbótardagsins sem er á þriðjudaginn, 31. Október en þann dag árið 1517 hóf Marteinn Lúther opinberlega að andmæla Kaþólsku kirkjunni. Lúther vildi bæta siði kirkjunnar því hann var ósáttur við svo margt sem átti sér stað innan hennar. Honum fannst þjónar kirkjunnar hafa gleymt fagnaðarerindi Jesú Krists. Guðspjallatexti dagsins sem lesinn var frá altarinu áðan er einmitt valin vegna þess að hann sýnir Jesúm í sömu aðstæðum. Jesú fannst samtímamenn sínir innan gyðingdómsins fastir í hefðum og siðum trúarinnar en hafa gleymt Guði sjálfum.

Og það er til þeirra , fræðimanna og farísea sem Jesús er að tala þegar hann segir þeim söguna af brúðkaupi konungssonarins. En þetta brúðkaup er ekki eins gleðilegt og önnur brúkaup því margt virðist fara á annan veg en ætlað er. Gestirnir neita að koma, fólki er misþyrmt, það er drepið og borg þess er brennd og sögunni lýkur á að gestgjafinn vísar einum gestanna úr veislunni. Sagan er vægast sagt hálf ógnvænleg, næstum því pirrandi sérílagi ef við hugsum til þess að í Matteusar guðspjalli er orðið konungur yfirleitt notað sem líking um Guð. Guð er Konungurinn. Það er ekki laust við að við veltum fyrir okkur hvers konar mynd það er sem hér birtist af Guði, Guð sem lætur drepa, misþyrma, eyðileggja og rekur fólk frá sér. Vonandi er það mynd sem fæst okkar hafa af Guði. Það er því varla skrítið að Lúther sjálfum hafi einfaldlega fundist textinn hræðilegur og að hann hafi helst ekki viljað prédika út frá honum.

Já sagan virðist ýkt og fjarstæðukennd, en það er ef til vill vegna þess að hún hefur breyst frá upprunalegu mynd sinni. Við vitum nú að höfundar Guðspjallsins hafa breytt henni og bætt inní hana til að gera hana áhrifameiri. Þannig er versið um hin reiða konung sem drepur fólk og brennir borgir í raun bókmenntalegt minni, nokkurs konar stef sem hljómar á fleiri stöðum í Biblíunni, sér í lagi í Gamla testamentinu og því hefur verið skeytt við til að gera söguna ógnvænlegri. Síðasta versið um að konungurinn láti varpa þeim sem ekki var rétt klæddur út í ystumyrkur er ekki heldur hluti af upprunalegu sögunni því þeirri setningu hefur verið bætt við til að gera siðaboðskap hennar áhrifameiri. Þessar staðreyndir gera söguna ef til vill eilítið minna ógnvekjandi, en lítið skiljanlegri.

En sem betur fer gæti einhver sagt, er sagan dæmisaga sem Jesú notar til að flytja þeim sem á hann hlusta trúarlegan boðskap. Yfirleitt hefur hún verið túlkuð á þann hátt að konungurinn sé Guð, sonurinn sé Jesú og sendiboðar konungsins séu spámenn Guðs og Jesú sem voru drepnir af samtímamönnum sínum þegar þeir fluttu boðskap frá Guði. Þriðja og síðasta boð konungsins til veislunnar sem nær til allra manna er hins vegar tákn um trúboð hinnar kristnu kirkju sem nær um allan heim. Það sem er án efa erfiðasti hluti þessarar dæmisögu er sú staðreynd að Guð sem sjálfur hefur boðið til veislunnar gengur um og rekur fólk úr henni. Það sem Jesú er með dæmisögunni að benda samtímamönnum sínum og okkur á er að það skiptir máli hvernig við hegðum okkur gagnvart Guði og sköpun hans og hann einn veit hvaða afstöðu við tökum. Samtímamenn Lúthers og Jesú höfðu vanvirt Guð, en Jesú bendir þeim og okkur öllum á að Guði er ekki sama hvernig við komum fram við hann og sköpun hans. Fötin í sögunni tákna því afstöðu gagnvart Guði og lífinu. En hvað föt eru réttu fötin fyrir veisluna?

Veislan sem Jesú talar um í Matteusarguðspjalli er sama veislan og við erum boðin til í dag. Veisla sem táknar ríki Guðs á jörðu þangað sem öllum manneskjum er boðið. En fyrir þessa veislu dugar skammt að róta í fataskápnum og reyna að finna sér viðeigandi föt, engin flík sem við eigum þar hentar þessari miklu veislu. Til að finna rétta klæðnaðinn þurfum við að leita í bókaskáp, en ekki fataskáp, við þurfum að snúa okkur til Biblíunnar. Í bréfi sínu til Kólossumanna (3.12) bendir Páll Postuli okkur á hvað það er sem hæfir slíkri veislu er hann segir ,,,Íklæðist því eins og Guðs útvaldir, heilagir og elskaðir, hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi” Allt eru þetta eiginleikar sem Páll hefur á öðrum stað eignað kærleikanum. Einu fötin sem hæfa himnaríki, ríki Guðs eru föt kærleikans. Afstaða okkar til Guðs og lífsins ætti að einkennast af kærleikanum .

Í gærkvöldi var ég sjálf í veislu. Ég hafði kviðið pínulítið fyrir þessari veislu og ég var óörugg því ég vissi að ég myndi engan þekkja nema gestgjafann. En þegar ég labbaði heim úr veislunni var hjarta mitt hins vegar fullt af nánast ólýsanlegri gleði. Fólkið hafði allt verið yndislegt, það hafði borið ómælda virðingu hvort fyrir öðru og kærleikurinn var þar alsráðandi. Og þar sem ég var á gangi í kvöldkyrrðinni stóð ég sjálfa mig að því að þakka Guði fyrir allt þetta yndislega ókunnuga fólk sem hafði gefið svo mikið af sjálfu sér. Ég held að ef við tileinkum okkur þá hugsun að allar manneskjur séu sköpun Guð og komum fram við alla jafnt, vaxi kærleikur Guðs fram í sinni tærustu mynd. Og ef við náum að láta kærleikann vaxa í hjörtum okkar munu öll okkar verk litast af honum, við munum leita þess góða í öðru fólki sem við mætum og við munum leita þess góða í aðstæðunum sem mæta okkur.

Eitt skýrast dæmið um slíkan kærleika er að finna í sígildri barnabók sem kom út rétt eftir aldamótin 1900 og notið hefur mikilla vinsælda. Aðalpersónu bókarinnar ættu flestir að þekkja en hún heitir Pollyanna. Kjarninn í lífssýn Pollyönnu var að hún gat séð það góða í öllu sem henti hana og bent öðrum á það góða í þeirra aðstæðum og hún lifði í anda fyrirgefningarinnar gagnvart öllum sem hún umgengst. Það er því hálf sorglegt að nafnið hennar skuli í mörgum tungumálum oftast vera notað í niðrandi merkingu um fólk sem talið er einfalt og væntir í einfeldni sinni alltaf þess góða af öðrum. Pollyönnu hugsunarháttur er einfaldlega oftast talin barnalegur. En það skyldi þó aldrei vera að slíkur hugsunarháttur tengist Guðs ríki á einhvern hátt? Það skyldi þó aldrei vera að það hafi verið slíkur hugsunarháttur sem Jesús var að tala um þegar hann sagði við lærisveina sína ,,Sannlega segi ég yður: Nema þér snúið við og verðið eins og börn, komist þér aldrei í himnaríki.(Mt. 18.3)

Já kærleikurinn er það sem þarf til að vera í veislu Guðs og þangað erum við öll boðin. Það er hins vegar okkar að velja hvort við tökum boðinu og mætum í veisluna eða hvort við gefum okkur ekki tíma til að virða boð gestgjafans. Það er líka okkar val ef við ákveðum að taka þátt í veislunni hvort við veljum veraldlegu fötin okkar, vörumerki samtímans eða þann klæðnað sem Guði þóknast. En Jesú er með dæmisögu sinni ekki að segja Varið ykkur Guð mun dæma , heldur segir hann, Vandið ykkur, lítið í eigin barm og spyrjið ykkur sjálf í einlægni hvaða afstöðu þið hafið gagnvart Guði og lífinu og hvort þið viljið leitast við að fylgja boðum hans. Aðeins þannig mun okkur öllum líða vel í veislunni.

Já veislan er hér og nú. Hér á eftir göngum við að veisluborði Guðs og tökum við brauði og víni, táknum um líkama og blóð Jesú Krists, táknum um kærleika Guðs sem fórnaði syni sínum vegna synda okkar mannanna. Kærleikur Guðs er lifandi og öflugt afl, leyfum honum að vaxa innra með okkur og tökum þannig þátt í að breiða hann út. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi , er og verður um aldir alda. Amen.

Matteusarguðspjalli 22.1 – 14.

Þá tók Jesús enn að tala við þá í dæmisögum og mælti: Líkt er um himnaríki og konung einn, sem gjörði brúðkaup sonar síns. Hann sendi þjóna sína að kalla til brúðkaupsins þá, sem boðnir voru, en þeir vildu ekki koma. Aftur sendi hann aðra þjóna og mælti: Segið þeim, sem boðnir voru: Veislu mína hef ég búið, uxum mínum og alifé er slátrað, og allt er tilbúið, komið í brúðkaupið. En þeir skeyttu því ekki. Einn fór á akur sinn, annar til kaupskapar síns, en hinir tóku þjóna hans, misþyrmdu þeim og drápu. Konungur reiddist, sendi út her sinn og lét tortíma morðingjum þessum og brenna borg þeirra. Síðan segir hann við þjóna sína: Brúðkaupsveislan er tilbúin, en hinir boðnu voru ekki verðugir. Farið því út á vegamót, og bjóðið í brúðkaupið hverjum þeim sem þér finnið. Þjónarnir fóru út á vegina og söfnuðu öllum, sem þeir fundu, vondum og góðum, svo að brúðkaupssalurinn varð alskipaður gestum. Konungur gekk þá inn að sjá gestina og leit þar mann, sem var ekki búinn brúðkaupsklæðum. Hann segir við hann: Vinur, hvernig ert þú hér kominn og ert ekki í brúðkaupsklæðum? Maðurinn gat engu svarað. Konungur sagði þá við þjóna sína: Bindið hann á höndum og fótum og varpið honum í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna. Því að margir eru kallaðir, en fáir útvaldir.