Með sínu lagi

Með sínu lagi

Söfnuðir heimsbygðarinnar ganga þar til móts við boðskap aðventunnar hver með sínu lagi; meðtaka hann á sínu eigin tungumáli og með þeim háttum og siðum sem við eiga og þeim eru í blóð bornir; siðvenjum sem aðrir skilja ekki til fulls og engar aðrar geta komið í staðinn fyrir.
fullname - andlitsmynd Jón Aðalsteinn Baldvinsson
13. desember 2009

Jólaskraut

Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að vera kallaður til þjónustu við söfnuði Íslendinga í Englandi nú á aðventunni. Þeir hafa nýverið misst prest sinn heim til Íslands og vegna fjárhagsörðugleika treystir Þjóðkirkjan sér ekki til að manna stöðu sendiráðsprests í London fyrst um sinn. Það þykja að sjálfsögðu vond tíðindi þar úti.

Í tuttugu og sex ár hefur kirkjustarfið verið límið sem haldið hefur Íslendingunum saman á þessum slóðum. Þess vegna fannst þeim ekki annað koma til greina en að fá prest til að kalla þá enn á ný saman til aðventufagnaða.

Í Hull fylltist danska kirkjan af Íslendingum á öllum aldri, þó mest bæri á ungu barnafólki. Flest þetta fólk býr á Humbersvæðinu, þ.e. í Grimsby, Hull og byggðunum þar í kring. Íslenski kórinn í London kom til liðs við mig og styrkti heimafólkið í fagnaðarsöng, sem snart viðstadda og gerði þeim stundina dýrmæta. Á eftir buðu Freyjurnar, íslenska kvenfélagið við Humberfljót, til stórveislu í safnaðarsalnum. Stiginn var dans í kringum jólatré og jólasveinninn kom í heimsókn. Allt var þetta eins og vera ber á aðventu og það glitruðu tár á hvörmum gömlu kvennanna um leið og þær lýstu því hvað það væri þeim mikils virði að fá að fagna komu jóla með þessum hætti.

Í London endurtók sagan sig. Þar fyllti söfnuðurinn aðalkirkju Svía í borginni. Eitthvað á þriðja hundrað manns fagnaði komu jóla með íslenskum hætti og naut veitinga og skemmtunar við jólatréð.

Gleði fólksins var fölskvalaus og þakklætið sem það sýndi varð mér enn á ný áminning um það hve vitnisburður trúarinnar, ekki síst í táknmáli aðventu og jóla á sterk ítök í hugum fólks, - líka margra þeirra sem að öllu jöfnu telja sig lítið hafa með trú að gera.

Það er ekkert leyndarmál að í útlandinu er samfélagsvitund landans sterkari en heimafyrir. Þess vegna kemur þar til “kirkjunnar sinnar” fjöldi fólks, sem telur sig ekki eiga þangað erindi heima á Íslandi. Margt af því fólki uppgötvar þá veruleika sem það hafði tapað af eða ekki þekkt áður og reynist því síðan dýrmætt veganesti á lífsleiðinni. Landarnir eiga það sammerkt að finna sig ekki eiga fullkomna samleið með öðrum þjóðum í helgihaldi, ekki einu sinni nágrönnunum frá Norðurlöndunum. Spurðu því hver kæmi til að messa hjá þeim á jólum.

Þessi reynsla er alþjóðleg. Þess vegna eiga flestar kristnar þjóðir sínar eigin kirkjur í heimsborginni London. Og nú, mitt í öllu veraldarvafstrinu, standa þær sínum föstu, öruggu fótum í bakgrunni ljósadýrðar kaupahéðnanna, iða af lífi og óma af lofgjörð ótölulegs fjölda fólks. Söfnuðir heimsbygðarinnar ganga þar til móts við boðskap aðventunnar hver með sínu lagi; meðtaka hann á sínu eigin tungumáli og með þeim háttum og siðum sem við eiga og þeim eru í blóð bornir; siðvenjum sem aðrir skilja ekki til fulls og engar aðrar geta komið í staðinn fyrir.

Allt ber þó að sama brunni: Hjálpræðið er nær – jólin eru að koma.