Gleðilegt sumar!

Gleðilegt sumar!

Það er því Guð sem vinnur vorverkin í lífi okkar. Eins víst og að sumar fylgir vetri liggur sú staðreynd trúarinnar fyrir að Guð er með okkur. Guð er með okkur til að þýða kalið hjarta og kveikja hjá okkur löngun og döngun til að bera öðrum birtu og yl.

Biðjum með orðum sumarkomubænar frá 1697: Ó Jesú, vertu oss öllum ein blessuð sumargjöf, og leið oss um síðir í það himneska fagurblómgaða sumar eilífrar dýrðar. Amen.

Gleðilegt sumar, kæru vinir, gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn. Að fagna sumarkomu þriðju vikuna í apríl, við upphaf hörpu samkvæmt norræna tímatalinu, er eitt af þessum séríslensku fyrirbærum (þó samnorrænt sé að uppruna) sem gaman er að varðveita. Reyndar var það svo að árstíðaskiptin voru mikilvægari en áramót lengi vel og sumargjafir mun eldri en jólagjafir hérlendis. Enda má segja að á Íslandi séu í raun aðeins tvær árstíðir, sumar sem innifelur vorið (apríl og maí samkvæmt Veðurstofunni) sem undirbúningstíma, og vetur sem hefst með aðdraganda haustsins (október og nóvember að mati Veðurstofunnar).

Svo nátengt var norræna tímatalið kirkjuárinu lengi vel að allt fram á síðari hluta tuttugustu aldar hafði margt kirkjufólk fyrsta sunnudag í vetri og fyrsta sunnudag í sumri í sérstökum hávegum og kann að vera að svo sé enn á einhverjum stöðum, einkum til sveita þar sem árstíðirnar hafa dýpri merkingu fyrir tilvist fólks en að komast á skíði eða í sólbað. Hér í Áskirkju fögnum við árstíðaskiptunum með sumarsálmum og með því að minna okkur á að hver tíð og tími er Guðs gjöf og sumarið fyrirheit um himnadýrð handan þessa lífs.

Vetur og sumar Í raun má segja að táknmál vetrar og sumars sé óvíða jafn nærtækt fyrir tilvist manneskjunnar eins og hér á Íslandi. Við tölum um að „þreyja þorrann og góuna.“ Samkvæmt Vísindavefnum merkir það orðatiltæki að „þola tímabundna erfiðleika.“ Á þorra og góu, frá síðustu viku janúar og fram að hörpubyrjun, þriðju vikuna í apríl, er tíðin oft köld og dagar dimmir þó heldur sé nú farið að birta eftir jafndægur á vori, um 20. mars. Verst var hungrið hér áður fyrr þegar hey var á þrotum og matarlítið á bæjunum. Þannig gat veturinn, einkum síðari hluti hans, þýtt skort á ýmsum sviðum og vonin um betri tíð með blóm í haga, eins og Nóbelskáldið orðaði það, því mikilvægari. Annað skáld, Sigurbjörn Einarsson orti:

Stundum verður vetur veröld hjartans í. Láttu fræ þín lifa, ljóssins Guð, í því. Gef oss þitt sumar sólu þinni frá. Kristur, kom og sigra, kom þú og ver oss hjá.
Sumarkoman er því, líkt og páskarnir, sönnun þess að lífið heldur áfram, að þrátt fyrir veturinn sem stundum tekur völdin í hjartanu, geta fræ vonar lifað af frost og kulda og sigursól Krists risið upp í lífi manneskjunnar, þrátt fyrir allt myrkur.

Sumarlegur pistill Í síðari ritningarlestri dagsins, pistlinum úr Jakobsbréfi (1.17-21) eru sumarleg stef. Þar er talað um góða gjöf og fullkomna gáfu sem komi „ofan að, frá föður ljósanna.“ Þar er ekkert flökt að finna, enga umhleypinga eða norðangarra því hjá föður ljósanna er engin umbreyting. Og eins og vorið, undanfari sumarsins, vekur upp fræin sem hvílst hafa í moldinni, vekur Guð okkur til nýs lífs, eins og frumgróða sköpunarinnar, fyrstu vorblómin sem gefa fyrirheit um margbreytileik sumargróðurs. Og enn heldur líkingin áfram þegar við erum hvött til að leggja af „hvers konar saurugleik og alla vonsku,“ það sem tilheyrir myrkri og frostköldu hjarta, og taka „með hógværð á móti hinu gróðursetta orði er frelsað getur sálir“ okkar. Í lexíunni, fyrri ritningarlestrinum úr Esekíel 36.26-28, er líka talað um nýja sköpun, nýtt upphaf, sem þar er táknað með tilvísun í líkamann:

Ég mun gefa ykkur nýtt hjarta og leggja ykkur nýjan anda í brjóst. Ég mun taka steinhjartað úr líkama ykkar og gefa ykkur hjarta af holdi. Ég mun leggja ykkur anda minn í brjóst svo að þið farið að boðum mínum og haldið reglur mínar og framfylgið þeim.
Biturð eða birta? Nýtt hjarta, hjarta af holdi gefið í stað steinhjarta. Nýr andi, andi Guðs lagður okkur í brjóst svo að við getum lifað eftir boðum og reglum kærleika Guðs. Eina slíka gefur Jakobsbréfið okkur: „Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði. Því að reiði manns ávinnur ekki það sem rétt er í augum Guðs.“ Við höfum tvö eyru og einn munn til að geta hlustað helmingi meira en við tölum, er stundum sagt.

Og reiðin, þó stundum sé hún aflvaki breytinga gagnvart ranglæti og yfirgangi, er ekki rétta leiðin til að ganga fram til nýrra tíma. Reiðin lítur til baka, lætur hjartað harðna af frosthörku vetrarins, breytast í stein, meinar okkur að horfa fram á veg, finna hjartað slá í eftirvæntingu vorþýðunnar. Í stað þess að staðna í birturð og beiskju skulum við bera okkur eftir birtunni sem Guð gefur með anda sínum, sannri brjóstbirtu sem bræðir og mýkir og gefur nýja sýn.

Stuðningsfulltrúinn okkar Til þess að það megi takast, til að hjartað endurnýist og andinn innblásist, sendir Jesús okkur hjálparann, heilagan anda, eins og lýst er í Jóhannesarguðspjalli (16.5-15). Gríska orðið sem þarna er að baki, parakletos, merkir persónu sem veitir stuðning þeim sem komist hafa í kast við lögin, einhvers konar lögfræðingur, ráðgjafi eða talsmaður. Við gætum jafnvel notað hugtakið stuðningsfulltrúi. Heilagur andi er okkar stuðningsfulltrúi. Og það er Jesús líka. Í fyrsta Jóhannesarbréfi er sama gríska hugtak notað yfir Jesú. Það var þýtt sem „árnaðarmaður“ í gömlu þýðingunni en núna sem „málsvari.“ Jesús er málsvari okkar fyrir heilagan anda, málsvari gagnvart vetrinum, höfðingja þessa heims; stuðningsfulltrúi okkar gagnvart okkur sjálfum, vanmætti okkar sem svo oft brýst fram í reiði og steingerir hjartað.

Það er því Guð sem vinnur vorverkin í lífi okkar. Eins víst og að sumar fylgir vetri liggur sú staðreynd trúarinnar fyrir að Guð er með okkur. Guð er með okkur til að þýða kalið hjarta og kveikja hjá okkur löngun og döngun til að bera öðrum birtu og yl. Þegar við finnum kulda vetrar næða um okkur, finnum til undan frosnum tilfinningum, brostnum draumum, finnum þörf fyrir umbreytingu, endurnýjun, nýtt hjarta og nýjan anda þá skulum við snúa okkur til hjálparans, stuðningsfulltrúans sem er með okkur á andlegu ferðalagi vorleysinga. Horfumst í augu við eigin vanmátt, frostið í hjartanu, byrði ískaldra tilfinninga. Látum laust, þiggjum góðar og fullkomnar gjafir Guðs, leggjum af vonsku, hörku og hroka, tökum með hógværð á móti nýju lífi, hugarfarsbreytingu úr hendi Guðs. Þá mun líf okkar flæða fram eins og því var ætlað, sem vorleysing heilags anda inn í hjarta okkar, leysing sem flytur með sér grámósku og grjót til hafs, regnskúr sem hreinsar huga og líf.

Því vetur, kuldi, dauði, mun víkja fyrir vori, hlýju, lífi. Svo gefi Guð.