Hvers vegna er hún vond?

Hvers vegna er hún vond?

Sársaukinn olli því að hún sóttist eftir ytri gæðum, gulli, fjármunum, valdi, hlýðni og öðru því sem kvalin manneskja lætur koma í staðinn fyrir hamingju og eðlilega gleði. Auðsókn er oft aðferð hins kvalda til að sefa sársauka hið innra.

Á þessum sunnudegi er fjallað um ágirnd og hættur ríkisdæmisins. Það er ekkert skemmtiefni og kannski erum við orðin þreytt á klifinu um græðgi, fjársókn og spillingu? Á þessum sunnudegi er á hverju ári fjallað um fjármuni og hvaða hlutverki fólk leyfir þeim að hafa í lífinu. Textinn kemur reglulega vegna þess að vandinn er sístæður. Mönnum hættir hrasa til Mammons. Boðskapurinn er skýr, ágirnd leiðir alltaf til falls, undantekningalaust, ef ekki fyrr - þá síðar. Ég ætla ekki að leggja beint út af texta dagsins heldur njóta tilefnis hans og tengja kvikmynd, sem vakti með mér íhugun og ýmsa þanka.

Teiknimyndir og uppeldisefni Teiknimyndir fyrir börnin eru heillandi og líka mikilvægar í uppeldi og mótun. Margar þeirra erlendu hafa verið íslenskaðar og bestu leikarar þjóðarinnar hafa lánað persónum raddir sínar. Það er þakkarefni hve oft hefur verið vandað til verka. Disneymyndirnar amerísku eru klassík, sem börn hafa notið og lært af. Þessa dagana er verið að minnast afmælis Andrésar Andar. En það eru ekki bara amerískar myndir sem draga mig og mína að skjánum. Í vikunni sá ég með fjölskyldu minni franska teiknimynd, sem byggir á þjóðsögu frá Vestur Afríku.

Kirikou Við upphaf myndarinnar sést þunguð kona. Allt í einu er bankað á kvið konunnar – ekki utan á heldur innan frá og fóstrið Kirikou talaði og bað um að fá að fæðast. Mamman varð hissa – en hún var snjöll og svaraði að sá sem geti talað innan úr bubunni hljóti líka að vera einfær um að koma út. Og drengurinn kom sjálfur út. Kirikou var ekki neitt venjulegt barn. Hann byrjaði strax að tala og hreyfa sig og hlaupa um. Hann var sjálfstæður, röggsamur og skynugur – eins konar táknmynd um mennsku, gildi og lífsvilja.

Vonskan og birtingarmynd hennar Þegar Kirikou uppgötvaði að ekkert vatn var til í þorpinu hans spurði hann af hverju. Mamman sagði honum að vond seiðkona, Karaba, hafi þurrkað uppsprettuna og étið alla karlana, alla nema einn. Sá væri hermaður sem væri á leið til að berjast við Karöbu og allir vissu að hann yrði drepinn og étinn. Kirikou mannsbarn ákvað að slást í för með frænda sínum. Með klókindum tókst Kirikou að bjarga honum. Svo bjargaði hann öllum börnunum úr þorpinu frá seiðkonunni. Um stund var fagnað en svo gleymdist fljótt viska og innsæi hetjunnar.

Af hverju? Kirikou spurði. Hann spurði móður sína reglulega spurningarinnar af hverju? Af hverju er nornin vond? Af hverju vill hún fá alla karlana í þorpinu? Af hverju reynir hún að ná öllum börnunum? Af hverju vill hún allt gullið okkar? Af hverju sendir hún þrælana sína, hálfgerð vélmenni, til að stela, refsa, leita að gulli? Af hverju eyðilagði hún uppsprettuna?

Kirikou sætti sig aldrei við loðin svör og vond. Hann sætti sig ekki við að ástandið væri bara svona, yrði svona og engu væri hægt að breyta. Hann sætti sig ekki við, að menn yrðu bara að sætta sig við kúgun annars yrði vont ástand verra. Hann rannsakaði lindina til að uppgötva af hverju hún hafði þornað. Og hann komst að því að það var ekkert yfirnátturulegt við stíflunina og tókst að opna fyrir vatnsrennslið þó hann væri næstum búin að missa lífið við verkið. Svo fór Kirikou í háskaför til að leita að skýringum á af hverju seiðkonan hegðaði sér svo andstyggilga. Og á þeirri för fékk hann svar við öllum spurningum. Hin spyrjandi afstaða leiðir til góðs og að hægt er að skilja mál og þar með breyta vondum aðstæðum. Kirkikou uppgötvaði að það væri  rangt að seiðkonan hefði stundað mannát. Fólk bara héldi það, hið rétta væri að hún hefði breytt þeim með álögum og hún væri svo illvíg því hún kveldist ógurlega. Einhvern tíma fyrir löngu hefðu vondir menn stungið eitruðum þyrni í bak hennar. Hún gæti ekki sjálf losað hann og óttaðist kvalirnar meira en nokkuð annað. Sársaukinn ylli því að seiðkonan sæktist eftir ytri gæðum, eftir gulli, eftir fjármunum, eftir valdi, eftir hlýðni og öðru því sem kvalinn manneskja lætur koma í staðinn fyrir hamingju og eðlilega gleði. Auðsókn er oft aðferð hins kvalda til að sefa sársauka hið innra.

Hægt að breyta og leysa Og Kirikou hætti ekki fyrr en hann náði þyrninum úr baki seiðkonunnar og náði að lina sársaukann og þar með stöðva vonskuna. Þá breyttist allt. Dauð náttúran í kringum gullskreytta seiðkonuna fékk lit og blómin gátu vaxið að nýju, hatrið hvarf og lífisþorstinn hófst að nýju. En þegar Kirikou vildi kynna seiðkonuna fyrir þorpsbúum lenti hann í mikilli raun. Sveitungar hans ætluðu að drepa hana í stað þess að hlusta á hennar sögu.

Sagan um Kirkikou er áhugaverð. Það er merkileg speki að vonska eigi sér rót í þjáningu. Í þessu tilviki hafði konunni verið misþyrmt hrottalega, sem olli síðan ofbeldi hennar í garð annarra. Til okkar er miðlað því innsæi að ofbeldi elur ofbeldi. Vonska veldur vonsku. Kirikou spyr alltaf og lætur sér fordóma samfélagsins engu skipta. Hann trúir ekki á að það sem er vont megi ekki breyta. Það sem ekki þjónar lífinu er eitthvað óeðlilegt og verður að breyta. “Af hverju?” “Hvers vegna?” eru frumspurningar Kirkikou. Við megum gjarnan temja okkur slíka nálgun gagnvart öllum málum og afstöðu í samfélaginu, þegar verið er að halda að okkur að mál séu svona og verði að vera svona. Oft er um að ræða fordóma, sleggjudóma, helypidóma, vondar skýringar, hugmyndatúlkun einhæfninnnar og lífsflóttans.

Ágirndarflekkun Vitringar veraldar leita skýringa á vanda manna og benda til lausna. Og flestir eru þeir sammála um að einræði fjármuna og forræði ágirndar veldur aðeins óhamingju og skelfingu. Afrískar sögur benda til þessa. Austrænar sögur og trúarhefðir geyma slíkan vísdóm. Í norrænum goðsögum er líka að finna þessa speki. Völuspá lýsir vanda og falli veraldar vegna græðgi guðanna sem létu blekkjast af gullinu og Gullveigu. Græðgin, ágirndin úthýsti sakleysi og sektarauka. Flekkunin óx og þar með minnkuðu varnir gegn eyðingaröflum. Þetta er meðal annars hluti drama Völuspár.

Það er á þessum nótum sem Jesús talar líka til vina sinna. Hann vill benda þeim og okkur á að öllu skiptir hvað eða hvert er innræti okkar, hvað er stýrikerfi lífs okkar. Í hverri manneskju er miðja, sem fyllist af því sem við leyfum að verði þar. Það sem er í miðjunni hefur síðan áhrif á allt annað og hvað menn hugsa, hver eru hugaðarefni, hvað þeir gera og hvernig þeir hegða sér, hvað verður siðferði og atferli. Það sem er okkur mikilvægast fær sess i persónu- eða sálarmiðju okkar. Þar sem fjársjóður þinn er þar mun og hjarta þitt vera. Jesús hvatti til að menn leyfðu þeirri miðju að vera miðja guðlegra gæða. Í þeirri miðju á elskan að búa, tengslin við Guð, ástvini, veröldina, gildi og lífsþjónustu. Þá fyllist manneskjan af gæsku og afleiðing þess er hamingja og færni til að bregaðst við vandkvæðum lífsins. En ef menn fara aðra leið og fylla innræti sitt af öðru þá taka önnur gildi völdin og það getur verið græðgi, sjálfselska og annað það sem kallað eru lestir. Vitringar veraldar hafa löngum bent á að þegar lestir taka völd innan í fólki og í samfélagi manna fer illa. Græðgin er ekki betri en annar falsguð og fer ekki betur með einstaklinginn en önnur dauðasýki. Þegar menn veikjast hið innra, meina hinu góða aðgang þá kemur slæmskan óhjákvæmilega, þetta sem postulinn kallaði andaverur vonskunnar.

Seiðkonan var hamslaus af sársauka og gat ekki losnað undan álögum fjárplógs og illverka fyrr en sársaukin hvarf. Kirkikou náði þyrninum. Jesús losaði mein veraldar og gefur innræti til elsku.

Hvað innræti viltu? Hvaða stýrikerfi þarftu? Ekki vonsku, mein og þjáningar, heldur elsku, gleði og hamingju.

“Gætið yðar, og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum, þótt auðugur sé... ... Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð, og hver fær þá það, sem þú hefur aflað? Svo fer þeim er safnar sér fé, en er ekki ríkur hjá Guði.”
Amen.

Prédikun í Neskirkju 14. júní 2009.

Textar 1. sd. e þrenningarhátíð B.

Lexían; Míka 6.6-8 Með hvað á ég að koma fram fyrir Drottin, beygja mig fyrir Guði á hæðum? Á ég að koma fram fyrir hann með brennifórnir, með ársgamla kálfa? Hefir Drottinn þóknun á þúsundum hrúta, á tíþúsundum olífuolíulækja? Á ég að fórna frumgetnum syni mínum fyrir misgjörð mína, ávexti kviðar míns sem syndafórn sálar minnar?

Hann hefir sagt þér, maður, hvað gott sé! Og hvað heimtar Drottinn annað af þér en að gjöra rétt, ástunda kærleika og fram ganga í lítillæti fyrir Guði þínum?

Pistillinn: 1. Tím. 6. 17-19 Bjóð ríkismönnum þessarar aldar að hreykja sér ekki né treysta fallvöltum auði, heldur Guði, sem lætur oss allt ríkulega í té til nautnar. Bjóð þeim að gjöra gott, vera ríkir af góðum verkum, örlátir, fúsir að miðla öðrum, með því safna þeir handa sjálfum sér fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna, og munu geta höndlað hið sanna líf.

Guðspjallið: Lúk. 12. 13-21 Einn úr mannfjöldanum sagði við hann: Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum.

Hann svaraði honum: Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur? Og hann sagði við þá: Gætið yðar, og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum, þótt auðugur sé.

Þá sagði hann þeim dæmisögu þessa: Maður nokkur ríkur átti land, er hafði borið mikinn ávöxt. Hann hugsaði með sér: Hvað á ég að gjöra? Nú get ég hvergi komið fyrir afurðum mínum. Og hann sagði: Þetta gjöri ég: Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri, og þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum. Og ég segi við sálu mína: Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð.

En Guð sagði við hann: Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð, og hver fær þá það, sem þú hefur aflað? Svo fer þeim er safnar sér fé, en er ekki ríkur hjá Guði.