Kristur er fyrirmynd okkar og frelsari

Kristur er fyrirmynd okkar og frelsari

Kirkjuklukkur kalla okkur til samfundar við Guð í húsi hans og þær senda okkur út til þjónustu við náungann og lífið.

Jes. 58:6-12; 1. Kor. 13:1-7; Matt. 5:43-48. Við skulum biðja: Guð, sem elskar, þú sem sérð eymd og neyð okkar mannanna og sendir son þinn til þess að þjóna okkur í kærleika. Hjálpa þú okkur að líkjast honum. Gefðu okkur góðvild og miskunnsemi svo að við göngum ekki framhjá þeim sem þarfnast hjálpar okkar. Heyr þá bæn fyrir Jesú Krist. Amen.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Ég þakka fyrir boðið hingað á Stöðvarfjörð í dag og að fá að vera með ykkur í þessari hátíðarmessu. Ég þakka sóknarpresti, sóknarnefnd, organista og kirkjukór sem og öðrum þeim er standa fyrir helgihaldi hér, fyrir þjónustu ykkar og undirbúning þessarar messu sem og allt kirkjulegt starf í sókninni. Það býr mikill mannauður í kirkjunni okkar, sem hefur starfsstöðvar og starfsfólk hringinn í kringum landið. Inn til dala og út við strendur. Kirkjan er með skipulagða þjónustu þannig að hver íbúi þessa lands getur notið nærþjónustu hennar. Það má þó ekki gleyma því sem mestur skiptir að við erum Kirkjan. Hver einstaklingur sem tilheyrir Kirkjunni er Kirkjan og þjónar sem slíkur í daglegu lífu sínu.

Kirkjuklukkur kalla okkur til samfundar við Guð í húsi hans og þær senda okkur út til þjónustu við náungann og lífið. Eins og fram kemur í messuskrá er þessi hátíðarmessa í tilefni af nýreistum klukknaturni við kirkjuna. Framkvæmdin var möguleg þar sem bræðurnir Sigurður og Þórir Bjarnasynir gáfu fjármuni til byggingar turnsins í minningu foreldra sinna og systkina. Þegar fram líða stundir munu klukkur koma í turninn sem kalla fólk saman til að lofa Guð og ákalla og til að heyra lesið í Orði Guðs og hvernig það talar inn í líf okkar og samtíð. Kirkjuklukkum er ekki bara hringt fyrir messu, við upphaf hennar og lok, heldur hringja þær inn hátíðir, áramót og einstök tilefni. Þær hafa verið í kirkjum nær alla tíð kristninnar og verið kallari Guðs meðal okkar mannanna.

Við höfum verið kölluð saman til fundar við Guð hér í dag. Orð dagsins fjalla um þjónustuna við Guð, sem er þjónusta við náungann í daglegu lífi okkar. Orðið minnir á kærleikann og birtingarmyndir hans í daglegu lífi okkar.

Í dag er 13. sunnudagur eftir þrenningarhátíð en sá sunnudagur er dagur kærleiksþjónustunnar í kirkjunni. . „Dagur kærleiksþjónustunnar minnir okkur á þá köllun kirkjunnar að sinna fólki í ýmsum aðstæðum lífsins. Kærleiksþjónustan sýnir okkur trú sem birtist í verkum sem eru unnin í þágu náungans,“ segir Ragnheiður Sverrisdóttir, djákni, í samtali við kirkjan.is.

Trú og verk þurfa að haldast í hendur og það vill kirkjan hafa að leiðarljósi í störfum sínum í söfnuðunum og stofnunum sínum. Í hverjum söfnuði birtist trúin í verki og tvær stofnanir Þjóðkirkjunnar, Fjölskylduþjónusta kirkjunnar og Hjálparstarf kirkjunnar hafa það hlutverk að sinna náunganum í margvíslegum vanda. En hver kristinn einstaklingur ber einnig ábyrgð á að styðja samferðafólk sitt í daglegu líf.

Þarfnast þú handa minna, Drottinn, til að geta hjálpað sjúkum, fátækum og nauðstöddum? Drottinn í dag vil ég gefa þér hendur mínar. Þarfnast þú fóta minna, Drottinn, til að geta vitjað þeirra, sem einmana eru og án vonar? Drottinn, í dag vil ég gefa þér fætur mína. Þarfnast þú vara minna, Drottinn, til að geta talað til allra þeirra, sem þrá kærleiksríkt orð og viðmót? Drottinn, í dag vil ég gefa þér varir mínar. Þarfnast þú hjarta míns, Drottinn, til að geta elskað skilyrðislaust sérhvern mann? Drottinn, í dag vil ég gefa þér hjarta mitt. Það er vart hægt að orða eða lýsa kærleiksþjónustunni betur en móðir Teresa gerir í þessari bæn.

Kristur er fyrirmynd okkar og frelsari. Hann sagði: „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér“. Þannig geymir sérhvert kærleiksverk í sér þjónustu við Krist sjálfan. Í lífinu þiggjum við þjónustu og við veitum þjónustu. Við erum stundum í þeim aðstæðum að þurfa hjálp, þiggjum hjálp. Stundum erum við í hlutverki þess er veitir hjálp og eigum ekki að líta fram hjá þeim er hjálpar er þurfi. Og þá gildir einu hvort viðkomandi er kristinn eða ekki, því kærleiksþjónustan er ekki skilyrt. Hún nær til allra. Við spyrjum ekki um trúarafstöðu eða þjóðerni, kyn eða litarhátt heldur eigum að sýna þjónustuvilja og fórnarlund.

Líf okkar flestra gengur út á það að berjast gegn því sem eyðir og deyðir. Því sem gerir okkur lífið leitt, því sem heldur sælunni frá okkur. Það veitir okkur í senn atvinnu og ólaunuð verkefni. Hvert einasta viðvik sem bætir líf okkar sem einstaklinga og samfélags er þjónusta við Krist. „Þú kemur enn til þjáðra' í heimi hér með huggun kærleiks þíns og æðsta von“ orti Jakob Jóhannesson Smári og í öðru erindi þess sama sálms segir hann: „Þín heilög návist helgar mannlegt allt - í hverju barni sé ég þína mynd“.

Biblíutextar dagsins fjalla um þetta, um kærleiksþjónustuna, um trú í verki. Guðspjallið minnir okkur á að við eigum ekki að gera mannamun, fara í manngreinarálit þegar kærleiksþjónustan er annars vegar.

Jesús notaði gjarnan kunn atvik máli sínu til stuðnings. Sennilega hefur hann heyrt kvitt um það að einverjir álitu menn vini sína eða óvini, því hvergi í Biblíunni stendur að maður eigi að hata andstæðing sinn. Jesús leggur áherslu á það að við reynum stöðugt að gera það sem öðrum er fyrir bestu. Þannig líkjum við eftir kærleika Guðs, sem er velvild og velgjörðir öllum til góða, líka þótt um sé að ræða illmenni eða óréttláta. Nú er að koma haust og skólar að byrja. Það var átakanleg saga sem móðursystir skrifaði og birt var um einelti gagnvart 8 ára frænda sínum. Eineltið felst í líkamlegum og andlegum meiðingum og útilokun jafnaldra. Það kom við móðurhjartað að lesa þessa frásögn og það hlýtur að koma okkur öllum við að heyra af slíku máli. Við erum ekki öll eins og margt getur valdið því að fólk lendir í einelti, því einelti er ekki bara bundið við börn. Einelti er svartur blettur á samfélagi okkar og ekki í þeim anda Krists að líta fram hjá því. Í ráðaleysi okkar gagnvert þessu ofbeldi sem einelti er getum við spurt hvað hefði Jesús gert? Hann er fyrirmynd okkar í mannlegum samskiptum. Hvernig hefði hann tekið á eineltinu?

Í guðspjallinu segir Jeús að við eigum að elska og biðja. Við eigum að aðhafast það er að elska og við eigum að biðja Guð og treysta því að bænin beri árangur. Við getum beðið um hugarfar kærleikans. Við getum beðið þess að nærsamfélagið og þau öll sem tilheyra því finni leiðir til lausnar, því það bætir ekki aðeins líf þess er þolir, heldur einnig líf allra. „Verið því fullkomin eins og faðir yðar himneskur er fullkominn“ segir Jesús í guðspjallinu. Það á að vera takmark okkar og markmið, að vera fullkomin eins og Guð. Fyrir því þurfum við að biðja. Við þurfum að læra hvernig Jesús, sem birti okkur Guð, kom fram í orði og verki. Við þurfum að æfa okkur í því að líkjast honum. Það er lífsverkefni okkar. Í nafni Krists erum við saman komin hér í dag. Þannig hefur það verið í söfnuðum landsins kynslóð eftir kynslóð, mann fram af manni. Þannig varðveitist trúin og vitundin um það sem hún felur í sér. Þannig læra börnin það sem fyrir þeim er haft. Þess vegna er mikilvægt að halda áfram veginn, mæna á Krist, sem gefur kraftinn, leita til hans á stundum gleði og sorgar, jafnt á hversdögum sem hátíðisdögum. Það hafa Íslendingar gert í 1000 ár. Megi svo áfram verða.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Takið blessun Drottins: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda, sé með yður öllum. Amen.