Kristur, konan og kossarnir

Kristur, konan og kossarnir

Voru Jesús og María Magdalena elskendur? Höfundur Da Vinci lykilsins, Dan Brown, heldur þessu fram í skáldsögu sinni. Einnig er í bókinni lýsing á helgiathöfn þar sem karlmaður hefur mök við konu og er ýjað að því að þetta séu trúarbrögð komin frá fylgjendum Jesú. En hvað skyldi nú vera satt og rétt í þessu?
fullname - andlitsmynd Magnús Erlingsson
22. maí 2006

Voru Jesús og María Magdalena elskendur? Höfundur Da Vinci lykilsins, Dan Brown, heldur þessu fram í skáldsögu sinni. Einnig er í bókinni lýsing á helgiathöfn þar sem karlmaður hefur mök við konu og er ýjað að því að þetta séu trúarbrögð komin frá fylgjendum Jesú. En hvað skyldi nú vera satt og rétt í þessu?

Fléttan í hinni vinsælu glæpasögu Browns eru sú að ástarsamband Maríu Magdalenu og Jesú sé best varðveitta leyndarmál kirkjunnar. Brown virðist hér byggja á umræðum fræðimanna og áhugafólks um 1700 ára gamalt guðspjall, sem kennt er við Filippus. Í guðspjallinu er greint er frá því að Jesús hafi elskað Maríu Magdalenu meira en aðra lærisveina og hann hafi kysst hana oft á … Því miður er gat á handritinu á þessum stað svo að við vitum ekki hvort þarna stóð að hann hafi kysst hana oft á munninn eða ennið! Þetta finnst án efa einhverjum spennandi að lesa og sjá en tilfellið er að Dan Brown hefur tekið sér mikið skáldaleyfi í útleggingu sinni á þessu gamla guðspjalli.

[poll=6]

Brúðarherbergið

Filippusarguðspjall fannst árið 1945 við Nag Hammadí í Egyptalandi ásamt fleiri fornum handritum. Handritið er á koptísku en ber með sér að vera þýðing úr grísku. Guðspjallið sjálft mun vera skrifað kringum árið 300 af kristnum gnóstíkerum, sem upphófu andann á kostnað efnisins. Tvíhyggja þeirra er undir platónskum áhrifum því að þeir segja að Guð hafi skapað himneskan mann, sem sé fyrirmynd eða frummynd að okkur mönnunum. Syndafall mannsins sé fólgið í því að hann steig niður frá himni, klæddist holdi og greindist í tvennt, karl og konu. Að mati höfundar Filippusarguðspjalls kom Kristur til að upphefja þessa aðgreiningu. Og telur höfundurinn að sundrungin verði yfirunnin með sérstökum helgiathöfnum. Þessar helgiathafnir eru skírn, smurning, heilög kvöldmáltíð, endurlausn og sakramenti brúðarherbergisins. Síðastnefnda athöfnin er sú allra helgasta að mati höfundarins því þar sameinast maðurinn sinni himnesku fyrirmynd eða engilsímynd sinni. Hér virðist hafa verið á ferðinni einhvers konar mystískt brúðkaup þar sem maðurinn tengdist eilífðinni og himneskum uppruna sínum. Jafnt karlar sem konur tóku þátt í athöfninni og urðu að brúðum englanna.

Ekkert í Filippusarguðspjalli gefur til kynna að kynlíf hafi verið stundað við þessar athafnir. Einhvern veginn virðist það ekki líklegt að trúarhópur, sem álítur að holdið og allt hið jarðneska sé illt í sjálfu sér en andinn einn sé eilífur og góður, sé líklegur til að stunda hópkynlíf. Filippusarguðspjall er skrifað af gnóstíkerum, sem kenndir eru við Valentinus, en um þá segir Ireneus kirkjufaðir að þeir reyni sumir hverjir að lifa í hjónabandi án þess að eiga holdlegt samræði við maka sinn. Orð kirkjuföðursins virðast því benda til að þess að hinir kristnu gnóstíkerar hafi fremur verið meinlætamenn en saulífisseggir.

Trúarlegt samræði var vissulega þekkt í fornöld því að í sumum heiðnum trúarbrögðum leituðust menn við að hafa áhrif á frjósemi jarðarinnar með því að iðka kynmök í tengslum við helgihald musteranna. Gyðingar og kristnir menn álitu slíkt framferði vera viðurstyggilegt.

Lífsförunautur Krists Versin 59.6-11 í Filippusarguðspjalli hljóða svo:

"Þrjár konur gengu ávallt við hlið Drottins: María, móðir hans, systir hennar og sú frá Magdölum, er nefnd var félagi hans. Því María er systir hans, móðir hans og félagi hans."
Lítum nánar á þessi vers. Í fyrstu setningu er sagt að þrjár konur hafi verið sérstaklega handgengnar Jesú og fylgt honum eftir í starfi hans. Hugsanlegt er að höfundur sé hér að vísa til kvennanna, sem stóðu við kross Jesú og sagt er frá í Jóhannesarguðspjalli 19.25. Það sem vekur svo sérstaka athygli er að María Magdalena er sögð vera félagi Jesú. Filippusarguðspjall er eina rit fornkirkjunnar, sem gefur Maríu Magdalenu þá stöðu að vera félagi Jesú. Enginn annar af lærisveinum frelsarans er sagður vera félagi hans. Hvað merkir þetta?

Orðið, sem ég þýði hér sem félagi, er nánast eins á koptísku og grísku. Vandinn er sá að gríska orðið koinónos hefur mjög vítt merkingarsvið. Í Biblíunni, í Malakí 2.14 er það til dæmis þýtt sem eiginkona, í Fílemonsbréfinu 17 er það trúbróðir og í 2. Korintubréfi 8.23 er það samverkamaður. Getur það hugsast að höfundur Filippusarguðspjalls sé hér að upplýsa okkur um að Magía Madalena hafi verið eiginkona Krists líkt og fléttan í Da Vinci lyklinum gengur út? Svarið við þessari spurningu er nei. Sé orðanotkun höfundar Filippusarguðspjalls könnuð kemur í ljós að þetta orð er einungis notað um Maríu Magdalenu og anda spekinnar en á öðrum stöðum þar sem höfundurinn fjallar um eiginkonur notar hann önnur orð eða heiti. Af þessu má ljóst vera að María Magdalena er fyrst og fremst andlegur félagi og vinur Jesú.

Lítum þá á seinustu setninguna í versinu hér að ofan: "Því María er systir hans, móðir hans og félagi hans." (Sumir fræðimenn vilja reyndar þýða þessi setningu svo: "Því systir hans, móðir hans og félagi hans heita allar María." Sú þýðing er hins vegar ekki eins eðlileg miðað við setningaskipan frumtextans, þar sem María er frumlagið.) Hér er því í raun haldið fram að María leiki þrjú hlutverk í lífi frelsarans; hún sé bæði systir hans, móðir hans og félagi. Augljóslega getur hér ekk verið átt við neina sögulega persónu heldur miklu fremur andlegan veruleika, sem birtist og tók sér bólstað í þessum þremur konum, sem hver á sinn hátt tengdust hinum jarðneska Jesú. Þetta kallast á við hugmyndir Valentinusarsinna um að heilagur andi hafi verið kvenkyns vera og hugmyndir þeirra um þrjú Kristspör; Krist og heilagan anda, Krist og spekina og loks Krist og hinn andlega söfnuð, kirkjuna.

Kristur kyssti hana margsinnis Versin 63.34-64.9 í Filippusarguðspjalli hljóða svo:

"María Magdalena er félagi frelsarans og Kristur elskaði hana meira en alla lærisveinana og var vanur að kyssa hana oft á … Hinir lærisveinarnir sögðu: "Hví elskar þú hana meira en okkur?" Frelsarinn svaraði þeim og sagði: "Hví elska ég ykkur ekki eins og hana? Þegar blindur maður og sjáandi eru í myrkri þá er enginn munur á þeim. En þegar ljósið kemur þá mun hinn sjáandi sjá ljósið en hinn blindi vera áfram í dimmunni."
Þegar þetta er lesið í fyrsta skipti þá læðist auðvitað að manni þessi fallega og mjög svo manneskjulega hugmynd að Jesús hafi vafið Maríu Magdalenu örmum og kysst hana af því hann elskaði hana. Þess vegna hljóti María Magdalena líka að hafa staðið við kross Jesú ásamt móður hans og móðursystur og svo farið út að gröfinni og verið þar ein eftir þar til Kristur birtist henni fyrst allra á páskudasmorgun. Væri til fallegri fyrirmynd að altaristöflu en faðmlag Maríu Magdalenu og Jesú á páskadagsmorgni með yfirskriftinni: Í upprisunni verða elskendur saman á ný!

Sannarlega er þetta hugljúf mynd og það má vel vera að eitthvert ástarþel hafi verið til staðar milli þeirra Maríu og Jesú en um það veit enginn maður. Og það sem meira er; Filippusarguðspjall heldur því ekki fram að þau María og Jesú hafi verið elskendur. Það sést í fyrsta lagi á spurningu lærisveinanna um hví honum þyki vænna um hana en þá. Önnur rök eru þau að annars staðar í Filippusarguðspjalli og í öðrum samtíma trúarritum eru mörg dæmi þess að koss sé til marks um vináttu, frændsemi eða miðlun andlegra verðmæta. Þannig segir Páll postuli okkur í Róm 16.16 að heilsa hvert öðru með heilögum kossi. Og sjálfsagt þekkjum við það flest hvernig við heilsum vinum okkar, ættingjum eða börnum með því að kyssa þau og engum dettur í hug að það sé neitt erótískt við það. Í 2. Opinberun Jakobs versunum 56.14-16 stendur að þegar hinn upprisni Drottinn hafi viljað opinbera Jakobi hina helgustu leyndardóma þá hafi hann kysst Jakob og kallað hann sinn heittelskaða og faðmað hann. Í Pistis Sophia 125.4-5 er greint frá því að þeir Jesús og Jóhannes skírari hafi kysst hvor annan. Það er því greinilegt að kossar Jesú eru fyrst og fremst táknræn sannindamerki þess að María Magdalena standi framar öðrum lærisveinum í trúarlærdómum og innsæi. Hún hefur í textanum stöðu lærisveinsins elskaða, sem í Jóhannesarguðspjalli er sagt að hafi hallað sér að brjósti frelsarans.

Lausgirta kynslóðin Sérhver kynslóð gerir sér sína mynd af Kristi. Fyrir þúsund árum síðan var Kristur kynntur sem hinn sigursæli herkonungur, hinn hvíti Kristur. Og þegar sósíalimsinn var uppi á sitt besta í Evrópu á seinustu öld þá spurðu menn sig að því hvort Jesús hefði ekki bara verið sósialisti eins og þeir. Þannig reynir hver kynslóð að sjá sjálfa sig í Kristi, persónu hans og lífi. Slíkar Kristsmyndir segja því oft meira um tíðarandann og menninguna heldur en hinn raunverulega Krist Biblíunnar. Mynd Dan Browns af Jesú segir ýmislegt um nútímamanninn. Hjá Brown er það elskhuginn Kristur vegna þess að við lifum á tímum, sem einkennast af botnlausum áhuga á ást og erótík. Takið bara eftir þessu þegar þið standið í röðinni við kassana í Bónus og dundið ykkur við að lesa fyrirsagnirnar á tímaritunum, sem allar fjalla um það hver séu núna ástfangin eða ekki ástfangin. Eða allar erótísku tilvísanirnar í auglýsingum og tónlistarmyndböndum!

Þegar ég var að drekka morgunkaffið mitt í dag opnaði ég blaðið og skoðaði þar mynd af henni Sylvíu Nótt í afar sexí búningi. Þá benti dóttir mín fjögurra ára á myndina, skellihló og sagði: "Sjáðu, pabbi, hún er á brókinni eins og keisarinn í ævintýrinu!" Lausgirta kynslóðin, það erum við.