Verkamenn í víngarði Drottins

Verkamenn í víngarði Drottins

Himnaríki er ástand. “til komi þitt ríki” segjum við í Faðir vor-inu. Í því felst ósk um að vilji Guðs megi ríkja í einu og öllu í tilveru okkar hér á jörðu. Þessi litla setning verður okkur keppikefli og hvatning. Hvað felst í orðnu “himnaríki” er viðfang Jesú í dæmisögu dagsins.

1. Líkt er um himnaríki og húsbónda einn, sem gekk út árla morguns að ráða verkamenn í víngarð sinn. 2. Hann samdi við verkamennina um denar í daglaun og sendi þá í víngarð sinn. 3. Síðan gekk hann út um dagmál og sá aðra menn standa á torginu iðjulausa. 4. Hann sagði við þá: “Farið þér einnig í víngarðinn og ég mun greiða yður sanngjörn laun.” 5. Þeir fóru. Aftur gekk hann út um hádegi og nón og gjörði sem fyrr. 6. Og síðdegis fór hann enn út og sá menn standa þar. Hann spyr þá: “Hví hímið þér hér iðjulausir allan daginn?” 7. Þeir svara: “Enginn hefur ráðið oss.” Hann segir við þá: “Farið þér einnig í víngarðinn.” 8. Þegar kvöld var komið, sagði eigandi víngarðins við verkstjóra sinn: “Kall þú á verkamennina og greið þeim kaupið. Þú skalt byrja á þeim síðustu og enda á þeim fyrstu.” 9. Nú komu þeir, sem ráðnir voru síðdegis, og fengu hver sinn denar. 10. Þegar þeir fyrstu komu, bjuggust þeir við að fá meira, en fengu sinn denarinn hver. 11. Þeir tóku við honum og fóru að mögla gegn húsbónda sínum. 12. Þeir sögðu: “Þessir síðustu hafa unnið aðeins eina stund, og þú gjörir þá jafna oss, er höfum borið hita og þunga dagsins.” 13. Hann sagði þá við einn þeirra: “Vinur, ekki gjöri ég þér rangt til, sömdum við ekki um einn dnar? 14. Taktu þitt og farðu leiðar þinnar. Ég vil gjalda þessum síðasta eins og þér. 15. Er ég ekki sjálfur fjár mín ráðandi? Eða sérðu ofsjónum yfir því, að ég er góðgjarn?” 16. “Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir.” Matt 20,1-16

Himnaríki er ástand. “til komi þitt ríki” segjum við í Faðir vor-inu. Í því felst ósk um að vilji Guðs megi ríkja í einu og öllu í tilveru okkar hér á jörðu. Þessi litla setning verður okkur keppikefli og hvatning. Hvað felst í orðnu “himnaríki” er viðfang Jesú í dæmisögu dagsins. Í upphafi hennar er himnaríki líkt við víngarðseiganda. Víngarðseigandinn hefur eitthvað af himnaríki í sér. Í upphafi sögunnar semur hann við verkamenn sína um föst daglaun og sendir þá í víngarð sinn. Hann er síðan allan daginn að skima eftir fleiri verkamönnum til að vinna í garðinum og finnur þá. Jafnvel síðdegis finnur hann nokkra, sem að híma iðjulausir. Enginn hefur ráðið þá. Hann sendir þá einnig í víngarð sinn. Hann semur við þá fyrstu um einn denar í daglaun, en segir við þá sem hann ræður síðar, að hann muni greiða þeim sanngjörn laun.

Um kvöldið, þegar tími er kominn til þess að greiða mönnunum laun fyrir vinnu sína, segir hann verkstjóra sínum að byrja á því að greiða þeim sem komu síðastir fyrst launin sín. Þeir fá einn denar og sömuleiðis þeir sem komu fyrstir. Farið er eftir því sem að um var samið.

Þeir sem höfðu komið fyrstir höfðu eðlilega búist við að fá meir, en þeir sem komu seinna, en svo reyndist ekki vera raunin. Allir fengu jafnt, það sama. Föstu daglaunin voru einn denar og það skipti ekki máli hvenær viðkomandi byrjaði vinnuna. Það var í raun undir vinnuveitandanum komið.

Hér má segja, að sagan bjóði upp á spennu. Óánægjan vellur fram. Það er kurr í mannskapnum. Þeir sem komu fyrstir fara að mögla. Þeir segja, að sumir hafi aðeins unnið eina stund, en þeir sjálfir allan daginn. Það sé ósanngjarnt, að þeir sitji uppi með sömu laun, fái sama kaup að starfsdegi loknum. Þeir hafi ekki skilað sama verki yfir daginn.

Víngarðseigandinn ávarpar þá með innilegri kveðju: “Vinur.” Hann leit á verkamenn sína sem vini sína, sem hann væri að gera gott. Hann ætlar ekki að gera þeim neitt rangt til. Hann bendir þeim á, að hann hafi komið heiðarlega fram við þá. Hann fylgdi samningum við þá í einu og öllu. Það voru föst daglaun sem hann bauð þeim sem hann réði fyrst, einn denar. Hvergi hafði verið minnst á það, að víngarðseigandinn mætti ekki ráða til sín verkamenn fram eftir degi á sömu kjörum og geiða þeim öllum sömu daglaun að vinnudegi loknum.

Víngarðseigandinn spyr verkamenn sína, hvort að hann sé ekki sjálfur fjár síns ráðandi og hvort að þeir sjái ofsjónum yfir því, hversu góðgjarn hann er. Við getum ímyndað okkur, að verkamennirnir hafi verið alveg orðlausir yfir þessum rökum. Hvar var góðgirni að sjá?

“Hvaða vinnusiðfræði væri þetta?” hljóta þeir að hafa spurt. Gæti það talist rétt, af vinnuveitanda, að borga sömu laun fyrir vinnu, sama á hvaða tíma menn byrjuðu að vinna? Jú! Vissulega væri hvergi getið um, að vinnan yfir daginn væri akkorðsvinna, en samt!! Þekkjum við ekki svipað í smáaletri Tryggingarfélaganna í dag? En ekki vildi víngarðseigandinn níðast á verkamönnum sínum og skaprauna þeim. Það hefur tæpast verið ætlan hans.

Nú verðum við að minna okkur á, að dæmissagan er að segja okkur eitthvað um Himnaríki og Guð, og hugsanlega eitthvað um okkur sjálf, til að læra af. Hvar er góðgirnina að finna, sem að víngarðseigandinn minnist á, að hafi verið grunnur athafna sinna?

* * * Þegar betur er hugað að, er eitthvað stef í þessari dæmisögu, sem vísar á aðra dæmisögu, sem sé sögunnar um týnda soninn. Þar er að finna soninn, sem var eftir heima og vann af skyldurrækni sín verk heima, á meðan bróðir hans fór með arf sinn og sólundaði honum.

Líkindin eru með verkamönnunum sem unnu allan daginn og syninum sem vann heima. Svo má hins vegar sjá líkindi með verkamönnunum sem koma inn á öllum tímum og syninum sem fór og sólundaði arfi sínum. Sá sem kemur síðastur, er jafn dýrðmætur og sá sem var hjá okkur allan tímann.

Já! Þá finnum við tóninn. Það eru allir mikilvægir, einnig sá sem kemur á síðustu stundu heim, sá sem býður fram starfskrafta sína á síðustu stundu. Það er þakklætið fyrir að hafa endurheimt hann, sem er það sem skiptir öllu máli. Ekki peningarnir.

Jesús lofar okkur í dæmissögunni að fá útrás fyrir alla þætti skapgerðar okkar. Við hneykslumst yfir óréttlætinu, finnum fyrir innra með okkur reiðina, öfundina. Það var illa farið með verkamennina!

En, vorum við of fljót að dæma? Guð sér afstöðu sína byggða á góðgirni einni saman. Góðgirnin byggist fyrst og fremst á því, að kalla menn saman til góðra verka. Vekja menn frá iðjuleysi til þess að verða virkir í víngarði hans. Launin eru í raun aukaþáttur, þó að þau skipti verkamennina öllu. Fyrir verkamennina eiga þó launin að vera í réttu hlutfalli við vinnuframlagið. Spurningin er því enn lifandi, hvort að Guð hafi hér skotið yfir strikið?

Þetta sjónarhorn um samkennd, bræðra- og systra-lag, óháð endurgjaldi í peningum eða öðrum veraldlegum verðmætum, er okkur ef til vill nokkuð framandi í dag, á tímum hámarksgóða fyrir hverja vinnustund og laun í samræmi við það.

Hér er grundvallar mismunur á sjónarhorni okkar og þá verkamannanna og svo hinsvegar víngarðseigandans eða Guðs. Annarsvegar gleðin yfir að starfa, þar sem að launin eru ekki aðalatriði og svo hinsvegar þar sem að laun eiga að vera í hlutfalli við vinnuframlag. Guð veitir okkur af náð sinni. Við þiggjum gjafir hans óverðskuldað. Við erum öll jöfn fyrir Guði. Laun okkar eru ekki okkur gefin til að hreykja okkur yfir meðbróður okkar. Við tökum í hendi hans sem jafningja. Guð er ekki með okkur á árangurs-tengdu tímakaupi. Ef okkur væri raðað upp eftir því, hve miklu við hefðum áorkað á starfsdeginum, þá færu metingur og öfund að læðast inn. Guði er það ljóst og það verðum við daglega að glíma við í okkar tilveru.

Peningar eru nauðsynleg gildi. Eins nauðsynleg og fjármálahugsun er í okkar þjóðfélagi, er einnig nauðsynlegt að huga að öðrum þáttum samtímis.

Peningahyggjan getur ekki skapað andleg verðmæti.

Hún þrengir að, því að það sem selst ekki, á ekki sinn tilverurétt. Metsölubækur á jólamarkaði kæfa allan annan gróður. Útkoman verður ekki spurning um gæði, heldur það sem hægt er að selja og græða á.

Svolítið hefur manni virst nú á síðustu tímum, eins og allt sé orðið metið í peningum. Það gerist ekkert án þess að menn sjái glitta í helst mikinn gróða og skjótfenginn fyrir viðvikið. Án þess að hafa það fyrir augum, er ekki farið af stað. Ef að gróðahyggjan hefði ráðið, hefðu verkamennirnir í dæmissögunni aldrei verið ráðnir og hefðu snúið tómhentir heim til fjölskyldna sinna að kvöldi, með ekkert í vasanum.

Að morgni leggur Guð upp daginn fyrir okkur, til að starfa í. Guð er með okkur allan daginn. Við getum talað við hann og fengið ráð hjá honum. Að kvöldi dags fáum við full laun. Spurningin er, hvort að við, að starfsdegi loknum skiljum þá elsku Guðs, sem að hann segir að liggi í denarnum okkar. Skiljum við þau viðmið sem Guð hefur um endurgjald fyrir vinnu og trúsemi við sig?

Förum við burt frá stefnumóti okkar við þessa dæmissögu eins og verkamennirnir í víngarðinum að kvöldi dags, möglandi yfir, að við hefðum átt meira og betra skilið, en bara þennan eina denar.

* * *

Peningar eru nauðsynlegir og það gerist ekkert án þeirra, eins og áður var sagt. Miklu máli skiptir að efnahagsleg velsæld sé til staðar. En ef allir elta Mammon í viðskiptafræði, lögfræði og stærðfræði, hvar endum við þá uppi með t.d. tungu okkar og menningu yfirhöfuð. Það sem ekki verður hægt að setja upp sem skyndigróðafyrirtæki með yfirþyrmandi gróða, sem kemur strax, má deyja Drottni sínum. Allt verður múlbundið niður á klafa hámarks peningagróðans.

Jú vissulega förum við möglandi frá víngarði Drottins. Við skiljum verkamennina að hluta. Afstaða þeirra er mannleg. En orð Guðs um týnda soninn og að þeir síðustu munu verða fyrstir, gerir okkur hugsanlega meira meðvitandi um, að það er annað, sem skiptir okkur meira máli en peningarnir í mannlegum samskiptum, en það er kærleikurinn til meðbróður okkar.

Við getum velt fyrir okkur, hvað hefði gerst, ef að víngarðeigandinn hefði borgað hverjum og einum verkamanni í samræmi við vinnu hans yfir daginn. Þá hefðu peningarnir skipað öndvegi. Einn hefði hreykt sér yfir annan og dáðst af því, hvað hann hefði skilað mikilli og góðri vinnu yfir daginn. Sá sem hefði verið kallaður á síðustu stundu, áður en að vinnudag lauk, hefði ekki fundist taka því, að fara til vinnu.

Jesús bendir í dæmissögunni á það gildismat, sem að getur fært okkur himnaríki í sálinni. Í því himnaríki ríkir ekki sú afstaða til meðbróðurins að við séum í samkeppni við hann, heldur að við tökum í hönd hans, sýnum honum kærleika okkar. Það eru okkar laun. Sagan um nirfilinn Schrooge á jólum, eftir Charles Dickens raungerir þetta fyrir okkur. Það veitir meiri gleði í hjarta að sjá bros á barni, sem þiggur gjöf, en að sitja sjálfur ofan á peningahrúgunni. Brosið er endurgjaldið. Það er réttlæti kærleikans. Þá ríkir himnaríki hér á jörð. Það er okkar verkefni að koma því í framkvæmd hér og nú.

Kærleiksþjónusta spyr ekki um peninga í endurgjald, heldur nægir henni hjartahlýja þakkláts andlits. Þá ríkir kærleikurinn. Þá er himnaríki að verða að staðreynd hér á jörðu. Þá er samfélag okkar að verða svolítið manneskjulegra.