Aðventa sem kairos

Aðventa sem kairos

Það er ekki langt að fljúga til Grænlands en samt er eins og það sé harla fjarri. Golfstraumurinn leikur ekki um það til að ylja því líkt og Íslandi heldur kaldari hafstraumar, og það er ekki í Evrópu en tilheyrir Vesturheimsálfu.
fullname - andlitsmynd Gunnþór Þorfinnur Ingason
03. desember 2005

Það er ekki langt að fljúga til Grænlands en samt er eins og það sé harla fjarri. Golfstraumurinn leikur ekki um það til að ylja því líkt og Íslandi heldur kaldari hafstraumar, og það er ekki í Evrópu en tilheyrir Vesturheimsálfu.

Það hefur tekið Gunnbjörn Úlfsson tímann sinn forðum daga að sigla knerri héðan frá landi að þeim skerjum í vestri, sem hann kenndi við sig, en för hans þangað leiddi til þess, að Eiríkur rauði nam stuttu síðar land á því víðlenda landsvæði, sem hann nefndi Grænland þótt mjög væri jöklum hulið. Það eru ekki norrænir menn heldur Inúítar sem byggt hafa Grænland á síðari öldum.

Þeir eru ólíkir okkur Íslendingum í yfirbragði, tungumáli, háttum og menningu, en sitthvað fleira en sjór og haf tengir samt eyjarnar í norðri. Og samskiptin sem verið hafa á milli þjóða þeirra hafa verið gefandi og dýrmæt, en þau gætu verið mun meiri, tíðari og margþættari en nú, báðum til hagsbóta og heilla.

Sú skákkennsla og þau skákmót sem Skákfélagið Hrókurinn hefur staðið fyrir bæði á austur og vesturströnd Grænlands stuðla mjög að því að brúa sund milli landa og þjóða. Þegar enn er lagt af stað héðan til Grænlands og nú í byrjun aðventu, fylgja skákfrömuðum og Grænlandsförum góðar og hlýjar óskir um velfarnað og árangur, sem sýni sig ekki aðeins í eflingu skákáhuga og tafliðkunar á austurströnd Grænlands heldur færi ljós vonar, trúar og elsku inn í skammdegismyrkur mannlífs og lýsi það upp.

* * *

Aðventan felur í sér fyrirheit um blessun og lífsfyllingu fyrir þá sem taka við boðskap hennar um að greiða ljósinu veg. Hún er kairos sem þýðir náðartími á grísku, kairos sem gerir þó kröfu um iðrun og endurmat, löngun og þrá til að vera farvegur ljóss og skapandi lífs í kærleiksríkri þjónustu. Hún er náðartími, kairos, sem gefur byr og opnar nýjar leiðir. En kronos er hins vegar á grísku tíminn, sem líður í fyrirséðu spori og á vanalegri ferð án umskapandi breytinga.

Aðventan hefur verið skákfélaginu Hróknum kairos náðartími, þar sem nýjar gáttir hafa opnast fyrir framgang þess og hugsjónir um vaxandi skáklíf á Íslandi og víðar þangað sem það hefur teygt umfaðmandi arma sína. Styrkum stoðum er nú rennt undir starfsemi þess í framtíð, sem miðar ekki hvað síst að því að vera öðrum skákfélögum fjörefni og aflgjafi og sameina krafta þeirra til að auka áhrif og viðgang skáklistarinnar. Megin stefnumið Hróksins er þó augljóslega ekki einvörðungu framsækni skáklista nú og í framtíð heldur efling andríkis og atgerfis barna og æskufólks. Það samræmist einkar vel kristnum viðmiðunum um þýðingu vitræns þroska og vaxandi skilnings, heiðarleika og drengskapar fyrir gefandi og gróskumikið mannlíf.

Vaskir sporgöngumennn Hróksins eru nýkomnir fra Namibíu þar sem þeir létu að sér kveða við fagnaðarboðun manntaflsins. Og enn og aftur leggur dugandi sveit Hróksins leið sína til Grænlands til að hlúa þar sem fyrr að skákiðkun og leggja viðkvæmu mannlífi lið. Hún fylgir forystu Stefáns Herbertssonar, formanns Kalak, Vinafélags Íslands og Grænlands, og eldhugans Hrafns Jökulssonar. Með hugsjónakrafti sínum hefur Hrafn verið aðal driffjöður Hróksins, en hann hyggst nú brátt draga sig í hlé sem oddamaður eftir að hafa fært kyndilinn í annarra hendur. Skákmaraþonið í Kringlunni fyrir skömmu sýndi þann drifkraft, en ég var einn þeirra sem fann vel fyrir honum, því að Hrafn lagði mig í aðeins tólf leikjum, þótt vakað hefði þá og teflt í hálfan annan sólarhring enda var ég það greiðvikinn við hann að gefa honum drottninguna. Afrakstrur maraþonsins sýnir sig m.a. í þessari ferð til Grænlands sem farin er með færandi hendi.

,Hér leggur skip að landi, sem langt af öllum ber, en mest ber frá um farminn, sem fluttur með því er,
segir í nýlegum aðventusálmi.

Þar kemur sæll af sævi Guðs son með dýran auð: Síns föður náð og frelsi, hans frið og lífsins brauð.

Verði ykkar för nú til Grænlands farin í byr og blessun hans og reynist Kairos, náðartími. Verndi hann og blessi Skákfélagið Hrókinn og alla skákhreyfingu landsins og útrás skáklistarinnar mannlífi til heilla, gagns og gleði.

Gens una sumus.