Fermingarfacebook

Fermingarfacebook

Þegar fermingarstörfin hófust í lok sumars langaði mig að prófa að færa samskiptin við fermingarbörn og foreldra, sem eiga sér stað á milli þess er við hittumst í kirkjunni, frá tölvupóstum yfir á facebook.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
27. september 2011

lofatolva.jpeg Þegar fermingarstörfin hófust í lok sumars langaði mig að prófa að færa samskiptin við fermingarbörn og foreldra, sem eiga sér stað á milli þess er við hittumst í kirkjunni, frá tölvupóstum yfir á facebook.

Ég byrjaði á að kanna hversu mörg fermingarbörn notuðu facebook og í ljós kom að það gerðu þau öll. Því næst stofnaði ég hóp fyrir þá fimm fermingarhópa ég ber sérstaka ábyrgð á og hvatti fermingarbörnin til þess að finna hópinn um leið og þau óskuðu eftir vinskap við kirkjuna sína á facebook.

Á fyrsta foreldrafundi vetrarins hvatti ég foreldrana til þess að gera slíkt hið sama og nú, er fræðslan hefur staðið yfir í um fjórar vikur, telst mér til að öll fermingarbörnin og um helmingur foreldra þeirra eða forráðafólks séu meðlimir hópsins okkar.

Reynslan eftir þennan stutta tíma er í stuttu máli sú að samskiptin milli mín og fermingarbarnanna eru mun meiri en áður. Hópurinn hefur verið nýttur til þess að skipuleggja þjónustu fermingarbarnanna í guðsþjónustum, til þess að koma áleiðis skilaboðum varðandi næstu fermingartíma og ferðalög, setja inn myndbönd eða slóðir á heimasíður sem eru áhugaverðar fyrir fermingarbörn og foreldra og næsta verkefni er að nota hópinn til þess að halda samtalinu áfram sem á sér stað í tímunum.

Facebook hópurinn er einnig töluvert notaður til þess að senda stuttar kveðjur, hvatningarorð eða bara að þakka fyrir síðast.

Tölvupóstar eru enn notaðir en þó eingöngu til þess að senda mikilvæg fjöldaskilaboð þ.e. til allra fermingarbarna og forráðafólks.

Þótt facebook sé skemmtileg viðbót við fermingartímana, guðsþjónusturnar og fermingarferðalögin þá mun samskiptasíðan aldrei koma í stað alls þessa. Hún er skemmtileg viðbót og sjálfsögð þar sem fermingarbörn og stór hluti foreldra fara þarna inn í það minnsta einu sinni á dag og netsamskipti eru flestum þeirra töm.

Við erum alltaf að læra af hvert öðru og það er reynslunni ríkara að fylgjast með því hvernig fermingarbörnin nýta sér þennan samskiptamiðil. Það er því upplagt að nota þennan vetur sem kirkjan fær að fylgja næstum heilum árgangi íslenskra unglinga til þess að hjálpa þeim við umgengni og virðingu í netheimum og til þess að læra af þeim.